fbpx
Fimmtudagur 14.nóvember 2024
Eyjan

Atli Þór Fanndal – Í stríði gegn spillingu – „Þegar ég heyrði fyrst af þessu hristi ég bara höfuðið“

Erla Hlynsdóttir
Laugardaginn 8. maí 2021 07:00

Atli Þór Fanndal, framkvæmdastjóri Íslandsdeildar Transparency International. Mynd/Stefán Karlsson

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Atli Þór Fanndal flutti í fyrsta skipti til útlanda skömmu fyrir Hrun því honum líkað ekki ríkjandi gildi hér á landi. Hann segir eðlilegt og réttmætt að almenningur sé orðinn langþreyttur á kúltúrsleysi stjórnmálanna. Atli er nýráðinn framkvæmdastjóri Íslandsdeildar Transparency International sem vinnur að því að minnka spillingu í samfélaginu. Lykilatriði sé að tryggja vernd uppljóstrara og koma upp sérstökum tryggingarsjóði fyrir þá.

 Atli er í helgarviðtali DV. Þeir sem vilja lesa viðtalið umbrotið á PDF-formi geta smellt hér.

„Ég tók þetta starf ekki að mér til að fara að dauðhreinsa allt sem eftir mér er haft niður í tilgangslaust blaður sem engu skiptir og ekkert gagn er af. Þetta er eitt af þeim störfum sem hægt er að taka að sér og vera virkilega í liði með almenningi,“ segir Atli Þór Fanndal, ráðgjafi og fyrrverandi blaðamaður, sem nýverið var ráðinn framkvæmdastjóri Íslandsdeildar Transparency International. Hann er þekktur fyrir nokkuð harkalega samfélagsrýni og segist þar hvergi nærri hættur.

Transparency International eru frjáls félagasamtök fólks sem vill berjast gegn spillingu í grunnstoðum samfélagsins. Íslandsdeildin hefur stöðu landsdeildar í mótun (e. chapter in formation) og er ráðning Atla hluti af því uppbyggingarferli sem stendur yfir hjá félaginu. Transparency er opið öllum sem hafa áhuga á að efla gagnsæi í íslensku þjóðfélagi og að vinna að því að minnka spillingu einkum á sviði stjórnmála og viðskipta.

„Hugtakinu hlutleysi er oft kastað fram og ég tek fram að Transparency Ísland er að sjálfsögðu ekki hlutlaust gagnvart spillingu, við erum bókstaflega á móti henni og munum þess vegna stundum blanda okkur í mál sem eru óvinsæl á einhverjum pólitískum armi. Samtökin eru þó ekki flokkspólitísk, þau eru pólitískir andstæðingar spillingar. Samtök sem þessi eru algjörlega gagnslaus ef starfsfólk þeirra ætlar að reyna að upplifa þægilega stemningu með því að gefa valdafólki frían passa. Það er ekki hlutleysi falið í því að ef þú gagnrýnir einn stjórnmálaflokk þá verðir þú líka að gagnrýna annan fyrir eitthvað algjörlega ótengt til að skapa ásýnd hlutleysis. Við erum hluti af stærstu samtökum heims sem berjast gegn spillingu og alvarlegasta spillingin er í höndum þeirra sem fara með völd, peninga og áhrif. Við komum til með að veita valdhöfum aðhald.“

Samtökin Transparency International voru stofnuð árið 1992 og eru höfuðstöðvar þeirra í Þýskalandi. Peter Eigen sem áður hafði starfað hjá Alþjóðabankanum/World Bank stofnaði þá Transparency International, ásamt níu félögum sínum, eftir að hafa orðið vitni að áhrifum spillingar í Austur Afríku en á þessum tíma var hugtakið spilling mikið tabú. Samtökin hafa um langa hríð verið ein stærstu alþjóðlegu samtökin sem vinna að auknum heilindum í stjórnsýslu og viðskiptalífi og berjast fyrir lagalegum úrræðum og vitundarvakningu til að draga úr spillingu.

Í tilkynningu um ráðninguna kom fram að Atli hefur víðtæka reynslu af fréttamennsku, verkefnastjórnun og ráðgjöf er varðar stefnumótun og stjórnmál. Atli hefur undanfarið leitt uppbyggingu Geimvísinda- og tækniskrifstofunnar, Space Iceland meðfram pólitískum ráðgjafastörfum erlendis.

Hann starfaði áður sem blaðamaður meðal annars á DV, Reykjavík vikublaði og Kvennablaðinu auk BBC, The Telegraph, CBC og Der Freitag svo dæmi séu nefnd. Atli starfaði um tíma á skrifstofu Annette Brooke, þingkonu Mið-Dorset og Norður Poole í Bretlandi og síðar við pólitíska ráðgjöf hjá Pírötum vegna sveitastjórnarkosninga 2018.

Starf Atla hjá Transparency er hlutastarf og mun hann meðfram því áfram starfa hjá Space Iceland.

Atli Þór Fanndal Atli Þór Fanndal, framkvæmdastjóri Íslandsdeildar Transparency International. Mynd/Stefán Karlsson

Röng túlkun

Hann segir Transparency International berjast fyrir spillingavörnum og einbeiti sér bæði gegn  misbeitingu opinbers valds sem og spillingu í atvinnulífinu.

„Samtökin eru þjónusta við atvinnulífið og þau eru þjónusta við almenning. Spilling hefur áhrif á okkur öll.“ Hann segir þríþætta ástæðu fyrir því að samtökin hafi ekki verið áberandi áður hér á landi.

„Í fyrsta lagi er eitthvað í menningunni okkar og við erum alin upp við að dónalegt sé að tala um spillingu. Þetta sé eiginlega bara bannorð sem kurteist fólk noti ekki. Það á helst ekki að ræða spillingu enda sé hún bara eitthvað erlent og finnist vart hér. Það urðu mikil kaflaskil í kring um efnahagshrunið 2008. Það er kúltúr hér á landi að vera sinnulaus gagnvart spillingu. Hér er ég ekki að tala um almenning og hef verið ósáttur við hversu oft er farið neðst í ábyrgðarkeðjuna og fólkinu á gólfinu kennt um allt. Þegar fólk kvartar undan fjölmiðlum þá er sökin sett á blaðabörnin svokölluðu, unga krakka sem eru nýbyrjaðir í blaðamennsku. Af hverju eiga þeir að bera ábyrgð? Af hverju ekki stjórnendur eða eigendur? Við sjáum þetta alls staðar í samfélaginu, að ábyrgðin er sett á þá sem eru neðst í keðjunni og hafa minnst völd.“

Aðra ástæðu segir hann að það sé töluvert ferli að opna nýja landsdeild Transparency International. „Það þarf að tryggja ákveðin gæði, að hér sé til staðar ákveðin hæfni og geta til að sinna þeim verkefnum sem landsdeild sinnir. Þetta er ákveðið vottunarferli og Íslandsdeildin hefur lokið því og er núna í uppbyggingu.“

Þriðja ástæðan sé síðan sú að margir hafi litið á vísitölu um ásjónu spillingar (e. corruption perceptions index) sem vísitölu um raunverulega spillingu. „Þessi vísitala var ranglega túlkuð sem mælikvarði á spillingu og að alþjóðasamtökin hefðu vottað Ísland sem spillingarlaust. Mælingin á ásjónu spillingar var notuð af hagsmunaaðilum til að berja á þeim sem töldu spillingu vandamál hér á landi. Það þýðir ekkert fyrir okkur hjá Transparency að hanga á að það sé ósanngjarnt. Við sýnum það bara í verki að við erum ein af þeim sem berjast fyrir heilindum. Spilling er í eðli sínu falin og ekki hægt að mæla hana. Þeir sem stunda spillingu móta oft líka kerfið þannig að það sé bitlaust. Það sem samtökin hafa gert er að mæla traust og hvort almenningur og stjórnendur í viðskiptalífinu telja að hér sé spilling. Hér á landi hafa engin múturmál verið sótt fyrir dómstólum lengi. Eitt af því sem gerist í ríkjum eins og okkar þar sem spillingarvarnir eru litlar að fólk fer að líta á spillingu sem eitthvað sem gerist aðallega í útlöndum. Lönd í þessari stöðu geta hins vegar orðið útflutningslönd spillingar því varnirnar vantar. Það er stóra verkefni okkar samfélags að koma í veg fyrir að sinnuleysið gagnvart spillingu flytji hana ekki út til annarra ríkja.“

Samkvæmt nýjustu mælingunni, sem er frá því fyrra, er Ísland með 75 stig þegar kemur að vísitölu ásjónu spillingar sem er á kvarðanum 0-100 og fullt hús stiga merkir að fólk upplifir enga spillingu í landinu. Ísland hefur farið niður um 7 stig frá árinu 2012 og er nú í 17. sæti á lista Transparency International þar sem Danmörk og Nýja Sjáland tróna á toppnum með minnsta ásjónu spillingar en Sómalía og Suður Súdan eru á botninum.

Berjast gegn úrkynjunarpólitík

Atli segir marga kosti fylgja því að hér séu starfandi samtök sem eru hluti af stærra alþjóðlegu neti samtaka sem styðja hvert annað. „Þegar verið er að berjast fyrir breytingum og bættu samfélagi getur þú ekki staðið einn, það þarf að safna liði. Að vera landsdeild veitir okkur aðgang að margvíslegri þekkingu og stuðningi. Spilling stoppar ekki við landamæri og því er mikilvægt að vera hluti af heild. Í íslensku samfélagi er ágætt að hafa í huga að það eru yfirleitt þau spillingarmál sem er þrýst á að utan sem leysast því hér er lagaumgjörðin svo veik og lítil menning fyrir því að takast á við spillingu.“

Hann tekur dæmi af því að hér sé sífellt verið að reyna að veikja hvers kyns eftirlitsstofnanir. „Það er pólitískt stríð gegn eftirlitsstofnunum. Það hefur verið í gangi áratugum saman og það er í gangi núna. Núna er nýbúið að leggja niður embætti skattrannsóknarstjóra. Þau sem að því standa segja að það sé einfaldlega verið að sameina verkefnin og setja inn í aðra stofnun. Tæknilega er það rétt en efnisleg er verið að leggja niður embætti skattrannsóknarstjóra.

Meirihluti verkefna skattrannsóknarstjóra eiga að fara til embættis héraðssaksóknara sem hefur margoft lýst því yfir að hann hafi áhyggjur af því að geta ekki sinnt öllum þeim málum sem þangað berast og hann á að sinna. Þetta er dæmi um birtingarmynd stríðsins gegn eftirliti. Þetta hefur gerst þegar kemur að þjóðhagsstofnun, háskólunum og fjölmiðlum. Í staðinn fyrir að ýta undir góða stjórnsýslu og að hér séu settir varnaglar þá er skýr tilhneiging til að ganga mjög harkalega fram gegn innviðum sem geta veitt aðhald. Þær eru systur, spilling og fúsk. Þessi atriði eru ekki aðskilin.“

Atli rifjar upp Hrunið og segir skort á eftirliti hafa þar átt stóran hlut að máli. „Hér kom upp sú hugmynd að Ísland ætti að vera bankanýlenda en það mátti aldrei gera neitt til að við værum góð bankanýlenda. Það var aldrei neitt gert til að tryggja eftirlit eða tryggja hæfni. Það var beinlínis andstaða við það öllum stigum stjórnsýslu og viðskiptalífs og þess vegna gat þetta ekki endað öðruvísi en að springa allt í loft upp. Reglufesta var lítil, lögum ekki framfylgt, lögum ábótavant, eftirlitsstofnanir geldar og meira að segja tilraunir til að vara við þessu urðu til útilokunar og árásum á heilindi einstaklinga. Lærdómurinn er augljós en menn leggja mikið á sig til að halda öðru á lofti og endurskrifa söguna sem þó var sögð af nefnd sem sjálft Alþingi setti á laggirnar og allir voru ásáttir með. Hagsmunirnir eru svo miklir.“

Hann bendir á að þegar eftirlitsstofnanir séu veikar verði hlutverk samtaka á borð við Transparency, öflugra fjölmiðla og heilsteyptra stjórnmálamanna enn mikilvægara. „Við komum samt ekki í staðinn fyrir slíkar stofnanir en við getum barist gegn svona úrkynjunarpólitík og fyrir endurreisn eftirlits. Praktíska ástæðan til að takast á við spillingu er að á einhverjum tímapunkti ertu kominn á þann stað að traustið er horfið. Markmiðið með því að berjast gegn spillingu er að auka traust og tiltrú fólks á samfélagssáttmálanum og innviðum samfélagsins með því að láta kerfið vinna sér inn það traust. Traust er nefnilega lífsgæði en traust er ekki nokkurs virði ef það byggir á blekkingum og ímynd. Aðgerðir skipta máli, ekki umbúðir án innihalds.“

Fúskið toppað

Hverjar eru afleiðingar spillingar fyrir samfélagið?

„Þær eru alltaf mestar fyrir þá sem standa veikast. Afleiðingar spillingar á lífsgæði launafólks eru alltaf meiri en áhrif spillingar á lífsgæði þeirra sem eru ríkir. Fjölmörg tækifæri tapast, til dæmis vegna tilhneigingar valdsins til að reka samfélagið eins og fjölskyldufyrirtæki.

Atli segir síðan að hann hafi ekki komið í þetta viðtal eða farið að vinna hjá Transparency til að hætta að tala beint um spillingu. „Mér finnst leiðinlegt að lesa viðtöl þar sem fólk bara kemur og leggur sig og talar eins og það að vera faglegur og það að vera leiðinlegur og andlaus sé einn og sami hluturinn. Fátt pirrar mig meira en spjallþættir þar sem tískuhugtök og tilgangsleysi er bergmálað. Til þess að gagn sé að okkar starfi þurfa samtökin að þora að tala hreint út og sýna þeim sem berjast gegn spillingu að við erum með þeim í liði. Eitt dæmi um slíkt mál er hvernig fjármálaráðherra braut sóttvarnir, gróf undan þeim með ábyrgðarlausum svörum og þvældi málið sem og hvernig dómsmálaráðherra ákvað að lærdómur málsins væri að nú þyrfti að skamma lögregluna fyrir upplýsingagjöfina. Ég get sagt alveg hreint út að það er dæmi um skort á heilindum sem er undanfari spillingar að fara strax á þann stað. Um jólin kemur tilkynning frá lögreglu þar sem segir að fulltrúi framkvæmdavaldsins hafi gerst brotlegur við sóttvarnarreglur. Síðan kemur í ljós að þetta er fjármálaráðherra, Bjarni Benediktsson.

Það segir okkur mikið um stöðuna hér að viðbrögðin okkar voru í raun að rannsaka lögregluna og skamma, sem er algjörlega galið, og bullið um að  þarna hafi persónulegar upplýsingar komið fram vegna þess að tilgreint var að fulltrúi framkvæmdavaldsins var á staðnum. Í þessu máli hefur kerfisbundið verið grafið undan eftirliti og hugmyndum um að við séum saman í því að reka þetta samfélag. Auðvitað er það spilling að setja persónulegan metnað hans ofar samstöðu með sóttvörnum. Það segir sig alveg sjálft að slíkt gera sterkir og heiðarlegir stjórnmálamenn ekki. Ég get alveg sagt það sem einstaklingur og sem starfsmaður Íslandsdeildar.“

Hann vill síðan nefna annað dæmi sem sýni skort á heilindum á alvarlegu stigi. „Kona leitar réttar síns og er í framhaldinu lögsótt af ráðherra,“ segir Atli og vísar þar til lögsóknar Lilju Daggar Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra, gegn konu sem sótti um stöðu ráðuneytisstjóra í ráðuneyti hennar og taldi að ráðherra hefði brotið jafnréttislög þegar karl var ráðinn í hennar stað.

„Þegar ég heyrði fyrst af þessu hristi ég bara höfuðið. Þetta er svo ruglað. Þarna var um að ræða konu sem fór rétta leið við að leita réttar síns og fær yfir sig þunga íslenskra yfirvalda, þunga stjórnsýslunnar og allt í krafti opinbers fjármagns. Það þarf að normalísera þá hugmynd að auðvitað þurfi að takast á við spillingu hér sem annars staðar. Það er eðlilegt og réttmætt að almenningur sé orðinn langþreyttur á kúltúrsleysi stjórnmálanna. Hversu fyrirsjáanlegt er það að í öllum þessum málum sé fókusinn á hvað almenningur sé óalandi og óferjandi? Mögulega eru viðbrögð almennings hluti af þeim raunveruleika að alveg sama hvað gerist þá er aldrei brugðist við með almennilegum aðgerðum, kröfu um gott fordæmi, aga og heilindum. Auðvitað er ráðherra sem beitir afli ríkisvaldsins svona gagnvart borgara ekki starfi sínu vaxin. “

Atli rifjar síðan upp nýlegt dæmi þegar Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra, setti reglugerð um að skikka fólk í sóttkví á hóteli við komuna til landsins án þess að lagastoð væri fyrir því.

„Þetta er dæmi um skort á bæði heilindum og faglegum vinnubrögðum, og því að skilja hversu stór aðgerð það er að svipta hundruð manns frelsi sínu án lagastoðar. Almenningur studdi þessa sóttvörn enda eðlileg. Þarna virðist stjórnarmeirihlutinn ekki hafa haft þingmeirihluta fyrir þessum aðgerðunum á sínum tíma og því bara látið vaða með reglugerð. Til að toppa svo fúskið fer í gang einhver narratífa um að krafan um að lagastoð sé fyrir aðgerðum stjórnvalda sé nánast það sama og að afneita COVID.  Að yfirvöld hafi lagastoð fyrir aðgerðum sínum er grundvöllur réttaríkisins.“

Atli Þór Fanndal, framkvæmdastjóri Íslandsdeildar Transparency International. Mynd/Stefán Karlsson

Eymdarlegt líf uppljóstrara

Í umræðu um spillingu segir Atli ómögulegt annað en að fjalla líka um Samherjamálið.

„Transparency International á uppruna sinn í hugmyndum um gagnsemi og verndun uppljóstrara og baráttunni gegn rányrkju á náttúruauðlindum fátækari ríkja. Samherjamálið er því bara skólabókadæmi um eina alvarlegustu spillingu sem menn taka þátt í. Verknaðurinn, afleiðingarnar, vörnin, einangrun uppljóstrara, árásir á þá sem berjast gegn spillingunni, tilraunir til að gera starfsfólk á gólfi og nærsamfélagið ábyrgð sem og áróðurinn er allt eftir bókinni. Samherjamenn eru því ekki bara langt út fyrir öll siðferðismörk heldur bara ósköp ófrumlegir. Það er lífsnauðsynlegt samfélagssáttmálanum og því beinlínis eftirsóknarvert að fólk finni til ábyrgðar sinnar og ljóstri upp um spillingu. Hér á landi er hins vegar sú krafa að uppljóstrarar séu líka kórdrengir, þrátt fyrir að eðli uppljóstrara sé að hafa verið í aðstöðu til að komast að gögnum sem sýna eitthvað misjafnt. Sú krafa að þetta fólk hafi aldrei gert neitt af sér er aðferð til að kæfa gagnsemi upplýsinganna sem það hefur birt.“

Jóhannes Stefánsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Samherja í Namibíu, lék lykilhlutverk í því að ljóstra upp um meintar mútugreiðslur, peningaþvætti og sniðgöngu skattgreiðslna Samherja í umfjöllun Kveiks, Stundarinnar og Al Jazeera árið 2019. Jóhannes er ennfremur einn af þeim sem er með réttarstöðu sakbornings í rannsókn á málinu auk þess að hafa sætt ýmsum árásum.

„Jóhannes er að upplifa hversu eymdarlegt það er að vera uppljóstrari. Vonandi upplifir hann það líka að við séum honum þakklát. Hann hefur fært miklar persónulegar fórnir fyrir það sem hann telur rétt. Eitt af því sem Transparency berst fyrir er að það séu varnir í lögum fyrir uppljóstrara. Hér vantar líka tryggingasjóð fyrir uppljóstrara því það fylgir því óhjákvæmilega fyrir þá að missa vinnuna, sem og að árásir eru gerðar á æru viðkomandi.

Það skiptir engu máli hversu mörgum milljónum Samherjamenn eyða í áróður. Framganga þeirra er fyrir neðan allar hellur. Samherji á ekkert tilkall til þess að almenningi þyki vænt um þetta fyrirtæki. Við skulum ekkert láta sussa á okkur þegar við segjum upphátt að svona hegðun stórfyrirtækja sé ekki það þakklæti sem við viljum sjá fyrir þau forréttindi að hafa nýtingarétt af auðlindum almennings.

Arður af einkanotum á náttúruauðlind Íslands hefur verið nýttur í herferð gegn frjálsum fjölmiðlum og gegn eftirlitsstofnunum. Það er búið að dæla milljónum í að grafa, ekki bara undan staðreyndum heldur tilvist staðreynda. Við höfum bent á hið pólitíska umhverfi sem skapaði auð fyrirtækisins og þá staðreynd að stjórnvöld eiga að vernda almenning. Eigendur sem fara svona með arðinn af auðlindum þjóðarinnar verðlauna greinilega ekki ofeldið og þá er eðlilegt að stjórnvöld styrki varnirnar ef slíkt er hægt eða finni aðra aðila sem betur fara með auðlindina og arðinn en að nota hann gegn samfélaginu sem veitir þeim nýtingaréttinn og flytja beinlínis út ósómann.

Oft er tungumálinu markvisst beitt gegn almenningi og í Samherjamálinu er hugtakinu hlutleysi beitt mjög rangt. Það er enginn gagnlegur fjölmiðill hlutlaus gagnvart spillingu. Hér hefur siðareglum síðan verið efnislega misbeitt og gerð krafa um að Helgi Seljan hætti umfjöllun sinni, hann sem hefur áralanga reynslu af því að fjalla um spillingu í sjávarútvegi. Ég hvet bara almenning og stjórnmálamenn til að benda Samherjamönnum á að þeir hafa aldrei birt skýrslu Wikborg Rein þrátt fyrir loforð um slíkt. Hún átti að leiðrétta allan þennan misskilning. Það gæti verið fyrsta skref Samherja í að endurheimta traust. Sú strategía er þá þveröfug við þá sem fyrirtækið virðist nota í dag, í stað þess að lækka kröfurnar þá reyni þeir að lyfta fyrirtækinu upp í trausti.“

Gríðarleg græðgisvæðing

En af hverju brennur þú fyrir þessari baráttu þar sem mótvindurinn virðist ansi sterkur og óvíst um uppskeruna?

„Ég brenn fyrir þessu því mér þykir vænt um íslenskt samfélag. Ég hef átt í sérstöku sambandi við þetta land. Mér finnst erfitt að búa hér, meðal annars því mér finnst þetta land vera auðugra en fólk áttar sig á og því er það einstaklega sárt hvað tækifærum og gæðum er misjafnt skipt eftir blóði og flokksskírteini. Ég man líka þegar ég starfaði á íslenskum fjölmiðlum og hvað það er erfiður bransi fjárhagslega. Íslenskir fjölmiðlar þurfa oft að reiða sig á auðmenn til að geta starfað. Ég held að almenningur átti sig oft ekki á því hversu hamlandi það er fyrir rannsóknarblaðamennsku að fá kannski ekki 20 þúsund krónur frá ritstjórn til að kaupa gögn sem gætu skipt miklu máli. Peningaleysi íslenskra fjölmiðla er nefnilega stærsta ógnin. Önnur lönd bregðast við með stuðningi og hvötum. Hér draga stjórnmálin lappirnar og plástra. Setja upp tímabundna styrki sem virka svona eins og styrkir fyrir sláturhús. Ýta undir magn og fjöldaframleiðslu en ekki samfélagsgæði.

Það er frústrerandi að á landi eins og Íslandi sem hefur til að bera bæði auð og menntun sé ekki gengið í það verk að tryggja gott samfélag fyrir alla. Auðvitað er það líka vegna spillingar og skorts á heilindum. Við erum með minna en 1 prómíl af mannfjölda heimsins en við eigum 2-3% af fiskistofnum heimsins. Það á ekki að vera fræðilega mögulegt að Ísland sé fátækt ef horft er til heildar auðs. Skiptingin er annað mál og þar hefur tekist ansi vel til við að útdeila meira til sumra en annarra. Það er pólitík, ekki náttúrulögmál.

Það er óréttlæti falið í því að það skipti máli úr hvaða fjölskyldu þú kemur fyrir hvort þú getir náð góðum frama. Áhrifin af þessu eru tvöföld. Það eru færri tækifæri fyrir sannarlega hæft fólk og svo er vanhæfni hreinlega smitsjúkdómur. Við erum fámennt ríki þar sem hæft fólk þarf sífellt að vera að keppa við það að vera frændi einhvers.

Ég er auðvitað líka í öðru starfi og áður en COVID kom til var ég að vinna mikið erlendis. Ég hef verið það heppinn að geta fundið mér lífsviðurværi erlendis og get því kannski komist upp með að segja nokkurn veginn það sem mér sýnist og þarf ekki að undirgangast að fá hvergi vinnu hérlendis. Það er afskaplega gott en það er líka afskaplega sárt að þurfa að sækja sér lífsviðurværi annað. Það er svo önnur og stærri saga hvernig valdið felur það ekki einu sinni að fólk fórni tækifærum og frama ef það vogar sér að velja rangan flokk, gagnrýna eða fæðast ekki í réttar fjölskyldur.

Ég er af hrunkynslóðinni. Þegar ég var að alast upp var okkur lofað ákveðinni samfélagsgerð þar sem við myndum reka samfélagið saman og væru stolt af þessari samvinnu. Við myndum reka Þjóðleikhús, öflugt menningarlíf, heilbrigðiskerfi fyrir alla, styrkja bókaútgáfu, fjárfesta í atvinnusköpun og húsnæði fyrir komandi kynslóðir svo að hægt sé að tryggja velferð eldra fólks. Bara ýta undir ákveðin lífsgæði.

Samfélagið var mótað af vinnusiðferði mótmælendatrúarinnar, okkur var kennt að vinna mikið og vera heiðarlegur. Á ótrúlega stuttum tíma var þetta síðan allt rifið niður og við tók gríðarleg græðgisvæðing. Ég flutti í fyrsta skipti út skömmu fyrir hrun því mér líkað ekki gildin, og þá er ég ekki að tala um gildi almennings heldur gildin sem komu ofan frá. Við tók góðæri sem var samt bara góðæri fyrir ákveðinn hóp, sem er líka sárt. Hrunið afhjúpaði alla þessa vitleysu og það hafði mikil áhrif á mig. Mér þykir vænt um samfélagið og mér finnst það vera mín skylda að leggja mitt á vogarskálarnar til að reyna að auka hér líkurnar á að það verði til samfélag sem er gott fyrir alla. Ekki bara suma.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 2 dögum

Orðið á götunni: Dýr myndi Jón Gunnarsson allur – kvalræði Sjálfstæðisflokksins ætlar engan enda að taka

Orðið á götunni: Dýr myndi Jón Gunnarsson allur – kvalræði Sjálfstæðisflokksins ætlar engan enda að taka
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Aumkunarvert að reyna að draga frambjóðendur með sér í skítinn – „Súrrealismi í boði Sjálfstæðisflokksins“

Aumkunarvert að reyna að draga frambjóðendur með sér í skítinn – „Súrrealismi í boði Sjálfstæðisflokksins“
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 dögum

Svarthöfði skrifar: Allir vondir við aumingja Jón

Svarthöfði skrifar: Allir vondir við aumingja Jón
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Þessi sóttu um embætti skrifstofustjóra fjármála hjá heilbrigðisráðuneytinu

Þessi sóttu um embætti skrifstofustjóra fjármála hjá heilbrigðisráðuneytinu
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Sjálfstæðisflokkurinn nær nýjum lægðum í nýrri könnun

Sjálfstæðisflokkurinn nær nýjum lægðum í nýrri könnun
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Ævisaga Geirs Haarde: Davíð Oddsson var fíllinn í stofunni og stóð með Steingrími J. Sigfússyni

Ævisaga Geirs Haarde: Davíð Oddsson var fíllinn í stofunni og stóð með Steingrími J. Sigfússyni