fbpx
Fimmtudagur 12.desember 2024
Fókus

5 áhugaverð söfn

Ritstjórn DV
Sunnudaginn 16. júní 2019 17:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Sumarið í ár virðist ætla að slá flest hitamet og sumarbústaðirnir verða því væntanlega þétt umsetnir. Höfuðborgarbúar þurfa þó ekki að örvænta því að fjölmörg söfn eru í boði til að heimsækja, fræðast og skemmta sér í. Hér eru 5 áhugaverð söfn í Reykjavík.

Kjarvalsstaðir

Kjarvalsstaðir hafa hýst sýningar íslenskra og erlendra listamanna síðan þeir voru opnaðir árið 1973. En verk Jóhannesar S. Kjarvals hafa ávallt skipað þar sérstakan sess.

Í maí síðastliðnum var sýning á verkum Kjarvals sem nefnist „Gat ekki teiknað bláklukku“ opnuð og mun standa yfir til ársloka. Á sama tíma var opnuð sýning á verkum Sölva Helgasonar sem nefndist „Blómsturheimar“.

Upplagt er að koma við á Kjarvalsstöðum, nóta listarinnar og útsýnisins en einnig er kaffihúsið þar víðfrægt.

Árbæjarsafn

Árbæjarsafnið gamla er eitt hentugasta safnið fyrir barnafólk. Margar sýningar eru í gangi, þar á meðal leikfangasýningin „Komdu að leika!“ sem er gríðarvinsæl hjá yngstu kynslóðinni. Þá er nóg af leiktækjum á lóðinni, húsdýr og ýmislegt annað um að vera. Sérstaklega vinsælt er þegar starfsfólkið bakar lummur með rúsínum fyrir krakkana.

Önnur vinsæl sýning á Árbæjarsafni er „Neyzlan – Reykjavík á 20. öld“ þar sem skyggnst er inn í neysluvenjur Íslendinga í gegnum tíðina.

Listasafn Einars Jónssonar

Hnitbjörg, heimili Einars Jónssonar, hefur staðið eins og kastali í Þingholtunum lengur en flest önnur hús þar um kring. Nú hýsir það mörg af verkum myndhöggvarans kunna.

Eins og flestir vita þá prýða styttur Einars borgina á mörgum stöðum. Má þar nefna styttuna af Ingólfi Arnarsyni við Arnarhól, Jóni Sigurðssyni á Austurvelli og Jónasi Hallgrímssyni í Hljómskálagarðinum.

Hans fegurstu og jafn framt magnþrungnustu verk standa þó flest í garði Listasafnsins. Má þar til dæmis nefna Vernd sem stendur í garðinum miðjum.

Grasagarðurinn

Grasagarðurinn í Laugardalnum er nokkurs konar blanda af lystigarði og lifandi safni undir berum himni. Garðurinn er rekinn af Reykjavíkurborg og á sér meira en hálfrar aldar sögu.

Meginhlutverk garðsins er fræðsla um umhverfið, garðyrkju, garðamenningu og fleira. Um 5000 plöntur eru varðveittar í garðinum í átta safndeildum og tekið er á móti skólahópum allt árið um kring.

Á sólríkum sumardögum er einnig tilvalið að setjast niður í kaffihúsinu Flóru og fá sér hressingu.

Myntsafn Seðlabankans

Myntsafn Seðlabanka Íslands er falinn gimsteinn í safnaflóru Reykjavíkur. Safnið er í höfuðstöðvum bankans við Kalkofnsveg 1. Safnið er ekki stórt en aðgangur er ókeypis og vel þess virði að líta inn.

Í myntsafninu má sjá alla prentaða peninga og slegnar myntir á Íslandi síðan á átjándu öld. Auk þess eru margar orður og verðlaunapeningar þar til sýnis, þar á meðal íslenska fálkaorðan.

Safnið er ekki aðeins fyrir fullorðna því þar má einnig sjá veglegt safn af sparibaukum síðustu áratuga. Til dæmis Trölla, Bjössa, Samma og Paddington.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 10 klukkutímum
Selena Gomez trúlofuð
Fókus
Í gær

Emmsjé Gauti auglýsir eftir ófrískum konum

Emmsjé Gauti auglýsir eftir ófrískum konum
Fókus
Fyrir 2 dögum

Hulin ráðgáta hvenær Jay-Z og Beyoncé byrjuðu saman – Var upphafið óviðeigandi?

Hulin ráðgáta hvenær Jay-Z og Beyoncé byrjuðu saman – Var upphafið óviðeigandi?