Sumarið í ár virðist ætla að slá flest hitamet og sumarbústaðirnir verða því væntanlega þétt umsetnir. Höfuðborgarbúar þurfa þó ekki að örvænta því að fjölmörg söfn eru í boði til að heimsækja, fræðast og skemmta sér í. Hér eru 5 áhugaverð söfn í Reykjavík.
Kjarvalsstaðir hafa hýst sýningar íslenskra og erlendra listamanna síðan þeir voru opnaðir árið 1973. En verk Jóhannesar S. Kjarvals hafa ávallt skipað þar sérstakan sess.
Í maí síðastliðnum var sýning á verkum Kjarvals sem nefnist „Gat ekki teiknað bláklukku“ opnuð og mun standa yfir til ársloka. Á sama tíma var opnuð sýning á verkum Sölva Helgasonar sem nefndist „Blómsturheimar“.
Upplagt er að koma við á Kjarvalsstöðum, nóta listarinnar og útsýnisins en einnig er kaffihúsið þar víðfrægt.
Árbæjarsafnið gamla er eitt hentugasta safnið fyrir barnafólk. Margar sýningar eru í gangi, þar á meðal leikfangasýningin „Komdu að leika!“ sem er gríðarvinsæl hjá yngstu kynslóðinni. Þá er nóg af leiktækjum á lóðinni, húsdýr og ýmislegt annað um að vera. Sérstaklega vinsælt er þegar starfsfólkið bakar lummur með rúsínum fyrir krakkana.
Önnur vinsæl sýning á Árbæjarsafni er „Neyzlan – Reykjavík á 20. öld“ þar sem skyggnst er inn í neysluvenjur Íslendinga í gegnum tíðina.
Hnitbjörg, heimili Einars Jónssonar, hefur staðið eins og kastali í Þingholtunum lengur en flest önnur hús þar um kring. Nú hýsir það mörg af verkum myndhöggvarans kunna.
Eins og flestir vita þá prýða styttur Einars borgina á mörgum stöðum. Má þar nefna styttuna af Ingólfi Arnarsyni við Arnarhól, Jóni Sigurðssyni á Austurvelli og Jónasi Hallgrímssyni í Hljómskálagarðinum.
Hans fegurstu og jafn framt magnþrungnustu verk standa þó flest í garði Listasafnsins. Má þar til dæmis nefna Vernd sem stendur í garðinum miðjum.
Grasagarðurinn í Laugardalnum er nokkurs konar blanda af lystigarði og lifandi safni undir berum himni. Garðurinn er rekinn af Reykjavíkurborg og á sér meira en hálfrar aldar sögu.
Meginhlutverk garðsins er fræðsla um umhverfið, garðyrkju, garðamenningu og fleira. Um 5000 plöntur eru varðveittar í garðinum í átta safndeildum og tekið er á móti skólahópum allt árið um kring.
Á sólríkum sumardögum er einnig tilvalið að setjast niður í kaffihúsinu Flóru og fá sér hressingu.
Myntsafn Seðlabanka Íslands er falinn gimsteinn í safnaflóru Reykjavíkur. Safnið er í höfuðstöðvum bankans við Kalkofnsveg 1. Safnið er ekki stórt en aðgangur er ókeypis og vel þess virði að líta inn.
Í myntsafninu má sjá alla prentaða peninga og slegnar myntir á Íslandi síðan á átjándu öld. Auk þess eru margar orður og verðlaunapeningar þar til sýnis, þar á meðal íslenska fálkaorðan.
Safnið er ekki aðeins fyrir fullorðna því þar má einnig sjá veglegt safn af sparibaukum síðustu áratuga. Til dæmis Trölla, Bjössa, Samma og Paddington.