fbpx
Mánudagur 04.nóvember 2024
Fókus

Fyrsta minning Eiríks Jónssonar er mjög óvenjuleg

Tobba Marinósdóttir
Miðvikudaginn 29. apríl 2020 22:00

Eiríkur er skemmtilegur maður og kann ófáar sögur, þær bestu eru þó af honum sjálfum enda dregur hann ekkert undan.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Eiríkur Jónsson fjölmiðlamaður hefur marga fjöruna sopið og hefur eitthvað um allt að segja. Hann þekkir flesta og heilsar öllum. Eiríkur er skemmtilegur maður og kann ófáar sögur, þær bestu eru þó af honum sjálfum enda dregur hann ekkert undan.

Eiríkur Jónsson er læknissonur sem átti heima fyrstu árin í Danmörku þar sem hann fæddist og flutti svo til Svíþjóðar þar sem pabbi hans stundaði nám. „Fyrsta æskuminningin mín er þegar við vorum í Gullfossi á leiðinni heim frá Svíþjóð og það kom brotsjór á skipið sem skellti því á hliðina og braut rúður. Svo réttir skipið sig af. Við vorum í óskaplega fínni káetu. Þetta var eins og hótelherbergi með baðkari og öllu. Ég hendist þarna út í horn en mér fannst svo skrítið að mamma sat ennþá í baðkarinu en það var ekkert vatn eftir í því. Það var allt á gólfinu. Þetta er það fyrsta sem ég man í lífinu. Svo byrjaði lífið,“ segir Eiríkur og hlær að minningunni. Aðspurður hvernig fátækir námsmenn með tvö börn höfðu efni á slíkri ferð segir hann pabba sinn hafa verið af aðalsættum að austan, „það voru til einhverjir peningar einhvers staðar“.

Talaði ekki í marga mánuði

Eiríkur á eina eldri systur og þrjár yngri. Hann var mikill mömmustrákur og varð svolítið utanveltu eftir að fjölskyldan flutti aftur til Íslands þegar hann var fimm ára. „Ég var feiminn og sat helst alltaf í fanginu á mömmu, alveg þar til ég varð átta ára. Ég vildi ekki fara í skóla. Ég vildi bara vera hjá mömmu. Ég talaði hálfbjagað eftir að hafa búið í Svíþjóð og ákvað því að segja sem minnst. Mér leið ekki vel í skólanum en gekk vel að læra. Ég talaði einkennilega, skildi íslensku en talaði sænsku svo að ég þagnaði bara, er mér sagt. Ég sagði lítið sem ekkert í skólanum í marga mánuði en þegar ég svo loks byrjaði að tala, talaði ég óaðfinnanlega íslensku og hef haft íslenskuna að starfi síðan. En ég tala ekki stakt orð í sænsku.“ Þegar fjölskyldan flutti heim var fyrsta heimili hennar á Rauðalæk. Síðan fluttu þau í Hvassaleiti þar sem Eiríkur tók átta ára gamall strætó klukkan sjö á morgnana í skólann. „Það var alltaf kolniðamyrkur. Ég sæi fólk í dag senda átta ára gamalt barn í strætó í myrkri. Ég fór svo ekki alltaf í skólann heldur í sjoppuna með pening sem ég stal frá mömmu. Þar keypti ég pepsí, lakkrísrör og kókosbollu. Rörið notaði ég til að drekka pepsí og svo freyddi þetta allt þegar maður át kókos bolluna með.“ Eiríkur viðurkennir að hafa verið óstýrilátur og mamma hans eftirlátssöm við hann. „Pabbi reyndi að skamma mig en það gekk ekki vel. Eitt það síðasta sem hann, gamall maðurinn, sagði við systur mínar áður en hann dó, þegar þær voru að skammast út í að ég ætti að gera eitthvað, var:  „Stelpur mínar, ég er búinn að læra það fyrir löngu að það segir enginn Eiríki fyrir verkum. Ekki reyna það.“

Lét sig síga ofan í pottinn

„Nítján ára flutti ég að heiman og fékk afa til að lána mér íbúð sem hann átti niðri í bæ og bjó þar með konu sem átti barn. Alltaf í uppreisn. Mamma og pabbi voru ekki sátt en vildu ekki æsa sig við afa sem hafði lánað mér íbúðina. Þetta var þægilegt. Lág leiga. Afi vildi að ég borgaði 5000 kall á mánuði og ég vann sem aðstoðarhúsvörður í Norræna húsinu. Ég skipti um perur, sýndi bíó og flaggaði. Það var erfiðast þegar það þurfti að flagga í hálfa stöng um páska því þá þurfti að ná öllum flöggunum í beina línu.“ Þegar sambandið lognaðist út af og flöggin urðu skökk lét Eiríkur tilleiðast og skráði sig í Háskólann. Eiríkur er frægur fyrir að fara eigin leiðir svo læknisnám kom aldrei til greina. Hann skráði sig í heimspekinám og vermdi þar bekkinn með ýmsum litskrúðugum persónum eins og til dæmis Hannesi Hólmsteini.

Heimspeki hefur gjarnan verið kölluð fagið sem fólk lærir ef það veit ekki hvað það vill læra. „Já. Þess vegna fór ég í heimspeki. Það voru þarna sex eða sjö strákar með mér í námi sem í dag eru allir prófessorar. Svo voru þarna einhverjar konur. Það var mikil bylting hjá þeim. Konur voru að skilja við mennina sína og skrá sig í nám. Uppreisn í eldhúsunum. Ekki fyrir löngu fór ég í sund og sá þar gamla konu með göngugrind klöngrast ofan í pottinn. Hún heilsar mér en ég kannast ekkert við hana. Þá kom í ljós að þetta var gömul kærasta úr heimspekinni. Hvað, ertu eitthvað lasin? spyr ég. Nei, ég er bara svo gömul, svaraði hún. Ég mundi að hún hafði verið eitthvað eldri en ég, en ekki svona gömul. Ég bara lét hausinn á mér sökkva dálítið ofan í pottinn.“

Eiríkur Jónsson prýðir forsíðu DV. Smelltu hér til að sjá blaðið.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Bjarki Steinn: „Ég átti allt sem ég gat hugsað mér veraldlega en innra líf mitt var í molum“

Bjarki Steinn: „Ég átti allt sem ég gat hugsað mér veraldlega en innra líf mitt var í molum“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Þetta er erfiðasti aldurinn til að vera á að mati Tom Hanks

Þetta er erfiðasti aldurinn til að vera á að mati Tom Hanks
Fókus
Fyrir 3 dögum

Glæný stikla: IceGuys dæmdir til samfélagsþjónustu

Glæný stikla: IceGuys dæmdir til samfélagsþjónustu
Fókus
Fyrir 3 dögum

Bjarki Steinn varð fyrir kynferðisbroti á skólalóðinni af hendi ókunnugs karlmanns – „Upplifunin var að ég rétt náði að lifa þetta af“

Bjarki Steinn varð fyrir kynferðisbroti á skólalóðinni af hendi ókunnugs karlmanns – „Upplifunin var að ég rétt náði að lifa þetta af“