Brakandi ferskt DV kemur út í fyrramálið. Forsíðuna prýðir fjölmiðlamaðurinn Eiríkur Jónsson. Tobba Marinósdóttir ritstjóri DV, ræddi við fyrrum yfirmann sinn um umdeildan feril hans, eftirsjá, barnalán og ástina.
Viðtalið er óhefðbundið eins og viðmælandinn sjálfur en Eiríkur á sér enga hliðstæðu. Tobba Marinós lýsir því í inngangi viðtalsins hvernig þau Eiríkur kynntust.
„Fyrsta starf mitt sem blaðamaður fékk ég árið 2009. Ég var ráðin sumarstarfsmaður á hinn geðþekka miðil Séð og heyrt en á þeim tíma stundaði ég nám í fjölmiðlafræði í Bretlandi. Eiríkur var þá annar aðstoðarritstjóri blaðsins en Mikael Torfason ritstjóri. Það fyrsta sem Eiríkur sagði við mig var: „Ég þoli ekki fjölmiðlafræðinga.“
Eiríkur er nefnilega þannig. Segir það sem hann hugsar. Eir, eins og hann er kallaður, þekkir flesta, heilsar öllum og kann ótrúlegar sögur. Þegar ég spurði hann hvort hann vildi ekki koma í forsíðuviðtal hjá DV svaraði hann: „Oftar en einu sinni reyndi ég að fá Jónas Kristjánsson, læriföður minn, í viðtal, bæði í sjónvarp og útvarp, eftir að hann út- skrifaði mig af DV. Svarið var alltaf eins: „Ég er með eigin fjölmiðil og liggi mér eitthvað á hjarta segi ég það þar.“
„Þú færð að lesa yfir viðtalið og við gerum þetta vel,“ sagði ég.
„Ég les aldrei yfir viðtöl. Ef það er lélegt heilsa ég fólki ekki aftur.“
Þegar hann loks gaf sig sagðist hann ekki þola segulbandsviðtöl og samþykkti viðtalsbeiðnina með hinum ýmsu skilmálum. Svo sem að það yrði að sjást í mig á forsíðumyndinni og viðtalið væri sett upp sem samtal okkar. Ég svaraði að þetta mætti alveg vera dálítið „klikkað“.
„Ókei, höfum þetta klikkað.“
Í viðtalinu segir Eiríkur frá því hvernig hann dulbjó sig sem lækni til að freista þess að hitta Guðlaug Friðþórsson sundkappa sem lá á spítala, afhverju hann varð ekki sjálfur læknir eins og pabbi hans, hverju hann hefði betur sleppt og ástina í lífi hans, sem tók hann 50 ár að finna.
Anna Aurora Waage Óskarsdóttir komst í fréttirnar fyrr í mánuðinum eftir að hún var handtekin í Bolungarvík grunuð um að hafa villt á sér heimildir til að starfa réttindalaus sem sjúkraliði í bakvarðasveit Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða. Þetta er ekki fyrsta tilfellið þar sem Anna Aurora er sökuð um að hafa villt á sér heimildir. DV rekur ótrúlegan feril Önnu seinustu ár.
Er líf eftir Alþingi? DV tók púlsinn á nokkrum fyrrverandi þingmönnum þjóðarinnar og kannaði hvað þau væru að gera í dag.
Sigrún Edda Kristjánsdóttir rannsakaði tengsl kvenna í fæðingarorlofi við vinnustað sinn. Rannsóknin leiddi meðal annars í ljós að margar þeirra upplifðu hrein sambandsslit við vinnustaðinn og þurftu sjálfar að falast eftir endurkomu.
Guðmundur Franklín Jónsson, hótelstjóri og fyrrverandi formaður Hægri grænna hyggst bjóða sig fram til forseta. „Landið er stjórnlaust finnst mér eiginlega. Það verður að vera einhver öryggisventill þarna í þessu embætti, til þess einmitt að geta hlustað á þjóðina svo öll mál renni ekki bara í gegn, þvert á þjóðar vilja. Forsetinn á ekki að vera stimpilpúði Alþingis.“
DV ræðir einnig við eina skemmtilegustu ömmu landsins, Eygló Lind Egilsdóttur en hún greip til sinna ráða þegar barnabörnin hennar þurftu að fara í sóttkví í tvær vikur.
Nýlegir fastir liðir blaðsins eru einnig á sínum stað, Á þingpöllunum, Fjölskylduhornið og fjölbreyttar uppskriftir. Sem og gamir liðir, tímavélin og sakamál.
Þetta og margt fleira í nýjasta helgarblaði DV.