Háskólastúdentar sem stefna á útskrift í sumar keppast við það í maí að skila inn lokaritgerðum, og er ávallt við hæfi að fagna þegar þeim stóra áfanga er náð.
Tónlistarmaðurinn Stefán Hilmarsson, sem lengst hefur verið kenndur við hljómsveitina Sálina hans Jóns míns, hefur skilað inn BA-ritgerð sinni í stjórnmálafræði. Ritgerðin ber heitið „Listin að styrkja: Hugleiðingar um listamannalaun.“
Í viðtali við Vísi í ágúst í fyrra sagði Stefán: „Mig langaði bara að gaumgæfa þennan málaflokk með hliðsjón af pólitískum sjónarmiðum sem og í sögulegu ljósi, verandi listamaður og áhugamaður um pólitík og sögu.“ Í ritgerðinni eru birtar niðurstöður skoðanakönnunar sem Stefán stóð fyrir og endurspegla þessar hugleiðingar hans og afhjúpa hug almennings til listamannalauna.