fbpx
Sunnudagur 19.janúar 2025
Fókus

Yfirheyrslan – Illugi Jökulsson: „Það hljómar líklega einkennilega hrokafullt“

Kristinn H. Guðnason
Sunnudaginn 7. apríl 2019 17:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Illugi Jökulsson hefur frá unga aldri fengist við ritstörf, blaðamennsku, þýðingar, dagskrárgerð og fleira. Hann er beittur samfélagsrýnir og sat í stjórnlagaráði árið 2011.

DV tók Illuga í yfirheyrslu.

 

Hjúskaparstaða og börn?

Ég er kvæntur Guðrúnu S. Gísladóttur leikara. Hún átti fyrir soninn Gísla Galdur sem hefur nú fært oss tvö barnabörn. Við eigum svo saman börnin Veru sem vinnur hjá Ríkisútvarpinu og Ísleif Eld sem er nýorðinn stúdent.

 

Leiðinlegasta húsverkið?

Ég veit ekki hvort það flokkast undir húsverk, en það allra leiðinlegasta sem ég geri er að raka mig. Mér finnst það svo brjálæðislega leiðinlegt að ég get látið það vaxa mér í augum dögum saman að þurfa að grípa í sköfuna. Sem betur fer hef ég fjarska litla skeggrót svo ég þarf ekki að vinna þetta leiðindaverk mjög oft.

 

Fyrsti bíllinn?

Þegar ég tók bílpróf átti konan mín Fiat Pöndu, sem var sem sagt fyrsti bíllinn sem ég ók. Svo keyptum við nokkru seinna gamlan Peugeot 504 sem var unaðslegur bíll.

 

Trúir þú á líf eftir dauðann?

Mér finnst það mjög fyndin hugmynd, en nei, það er ekkert til í henni.

 

Ertu A eða B maður?

A er sá sem vaknar snemma og B sá sem sofnar seint, er það ekki? Ef það er rétt, þá var ég eiginlega AB-maður þegar ég var ungur og knár en er núna svona A,5 líklega.

 

Besta bók sem þú hefur lesið?

Í mörg ár nefndi ég alltaf Hundrað ára einsemd eftir Márquez þegar ég var spurður að þessu. Ég las hana á hverju ári í 15 ár og fannst hún alltaf jafn frábær. Svo lagði ég hana á hilluna í aldarfjórðung, þangað til nú í fyrra. Þá las ég hana aftur og komst að því að hún er miklu, miklu betri en mig minnti.

 

Uppáhaldsíþróttalið á Íslandi?

Ekkert sérstakt. Meðan sonur minn æfði fótbolta með Val hélt ég náttúrlega með Val í hans flokki, en það var ástríðulítið.

 

Mannkostir þínir?

Æ, ég veit ekki. Svona spurning snýst í rauninni ekki um mína meintu mannkosti, heldur um einlægni og sjálfsmynd og ég held ég segi bara pass.

 

En lestir?

Þeir eru nú ýmsir. Það hefur oft komið sér illa að ég hef tilhneigingu til að láta hlutina danka.

 

Fyrsta minningin þín?

Ég lá á teppi fyrir utan glugga á heimili afa og ömmu á Reynimel 23 og horfði á kött sem virti fyrir sér þvottahússglugga sem vírnet var fyrir. Það gerðist ekkert. Ég hef sterkan grun um að ég hafi verið mjög lítill, nánast nýfæddur.

 

Ert þú góður söngvari?

Maður hefur gengið undir manns hönd við að sannfæra mig um að reyna ekki að syngja. Ég vildi gjarnan að hér væri um að ræða samsæri öfundarmanna en hef því miður grun um að viðkomandi hafi eitthvað fyrir sér.

 

Leikhús eða bíó?

Erfitt að segja. En þegar leikhús er virkilega, virkilega gott, þá er það náttúrlega galdur sem flöktandi myndir á skjá eða tjaldi geta hvergi nálgast.

 

Fallegasti staður á landinu?

Kolgrafarvík? Hornvík? Skálin í Hafursfell? Eitthvert gil sem ég man ekki hvað heitir á leiðinni inn í Þórsmörk? Steindautt grjótið við Þórisvatn? Ég bara veit það ekki.

 

Heldur þú með Tomma eða Jenna?

Ég verð nú að viðurkenna að ég hef litlar tilfinningar til þeirra. Ætli ég myndi ekki nefna Tomma, hinn er svoddan hrokagikkur, er það ekki?

 

Hefur þú æft íþróttir?

Nei. Þegar ég var í 8 ára bekk fórum við í handbolta í leikfimi úti á Seltjarnarnesi og ég fékk boltann. Því miður vissi ég ekki hverjir voru með mér í liði og stóð alveg frosinn þegar allir öskruðu á mig að henda til sín. Að lokum dæmdi leikfimikennarinn á mig „tíma“ sem er regla sem ég hef aldrei heyrt um annars. En eftir þetta þorði ég ekki út á íþróttavöll.

 

Fyrsta utanlandsferðin?

Þegar ég var 6 ára fór fjölskyldan til Grikklands og bjó þar einn vetur. Það var stórfengleg reynsla. Pabbi lýsti ferðalaginu í bókinni Dagbók frá Díafani, sem ég mæli eindregið með.

 

Besta ráð sem þú hefur fengið?

Það hljómar líklega einkennilega hrokafullt en ég man ekki eftir neinu sem hér gæti átt við.

 

Eitthvað að lokum?

Nei, þakka þér fyrir, ómögulega.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Vissi að hjónabandið væri dauðadæmt þegar eiginmaðurinn sagði þessi tvö orð í brúðkaupinu

Vissi að hjónabandið væri dauðadæmt þegar eiginmaðurinn sagði þessi tvö orð í brúðkaupinu
Fókus
Fyrir 2 dögum

Taylor Swift sogast inn í stóra Hollywood-dramað – „Ég er Khaleesi og eins og hún þá vill svo til að ég á nokkra dreka“

Taylor Swift sogast inn í stóra Hollywood-dramað – „Ég er Khaleesi og eins og hún þá vill svo til að ég á nokkra dreka“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Getur verið að úrslitum í handbolta sé viljandi hagrætt?

Getur verið að úrslitum í handbolta sé viljandi hagrætt?
Fókus
Fyrir 3 dögum

Nökkvi Fjalar er kominn til baka – „Gerum það ómögulega mögulegt saman“

Nökkvi Fjalar er kominn til baka – „Gerum það ómögulega mögulegt saman“