fbpx
Sunnudagur 19.janúar 2025
Fókus

Sveitapiltur og spennufíkill

Kristinn H. Guðnason
Sunnudaginn 31. mars 2019 22:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Gísli Einarsson er fyrir löngu orðinn landsmönnum að góðu kunnur. Hann hefur starfað við fréttamennsku og dagskrárgerð hjá RÚV í hartnær tvo áratugi og haldið uppi fjöri á árshátíðum og þorrablótum jafn lengi. Blaðamaður DV keyrði í Borgarnes einn blíðviðrisdag til að ræða við Gísla, en þar býr hann og hefur starfsaðstöðu.

 

Gat ekki orðið bóndi

Gísli er Borgfirðingur í húð og hár, alinn upp á bænum Lundi í Lundarreykjadal. Foreldrar hans stunduðu búskap framan af og fjölskyldan stór. Gísli er elstur fimm alsystkina og auk þess bjuggu fleiri úr stórfjölskyldunni á býlinu. Sjálfur lýsir hann sér sem ódælum á barnsárum.

„Ég var ábyggilega óþolandi. Var frekur og með mikla athyglisþörf. Ég held að það hafi ekkert breyst,“ segir Gísli og glottir. „Óþekkur var ég og þoldi oft ekki við í heila kennslustund. Ég hefði ekki viljað umgangast mig sem barn.“

Það er alltaf stutt í brosið og hláturinn hjá Gísla. Meira að segja þegar rætt er um brostnar vonir.

„Eins og aðrir strákar í sveitinni langaði mig að verða bóndi en það kom ekki til greina. Ég var haldinn svo miklu frjókornaofnæmi að sumrin fóru illa með mig. Öfugt við krakka sem sendir voru í sveit á sumrin þá var ég sendur úr sveit, til ömmu og afa í Reykjavík. En þegar ég var orðinn nógu gamall til að gera gagn þá beit ég á jaxlinn og harkaði sumrin af mér, með hor niður að hné og hita.“

Voru engin meðöl við þessu?

„Jú, jú, það voru til lyf og þetta átti einnig að eldast af mér. En þetta var svo mikið að búskapur kom ekki til greina sem framtíðarstarf. Jafnvel þó að mér þætti fátt skemmtilegra en að veltast um í heyi heima á bæ.“

 

Samvinnuskólinn og kaupfélagið

Á unglingsárunum lá leiðin í Samvinnuskólann á Bifröst til að taka stúdentspróf. Skólinn var verslunarskóli byggður upp í kringum samvinnuhreyfinguna. Gísli segir hins vegar að þar hafi hann lært svo margt meira sem hafi nýst honum síðar meir enda skólinn óhefðbundinn að mörgu leyti.

„Menn fóru þangað til þess að læra að verða Framsóknarmenn,“ segir Gísli og hlær. „Það sem vakti mestan áhuga hjá mér var félagslífið, sem var á þeim tíma eiginlegur hluti af náminu. Þú þurftir til dæmis að vera í ákveðnum klúbbum, umgangast fólk, stýra fundum, koma fram og halda ræður. Ég man enn þá hvað mér fannst hræðilega erfitt að stíga í púltið í fyrsta skipti, en ég hef ekki þagað síðan. Þetta er sá hluti af náminu sem hefur fleytt mér lengst.“

Hann segir að markmið skólans hafi að stórum hluta verið að ala nemendur upp í að verða félagsmálafrömuði.

Hafðir þú áhuga á að taka þátt í stjórnmálum?

„Einhvern tímann fékk ég þá flugu í hausinn. En þegar ég fór að hugsa betur út í þetta komst ég að því að ég yrði frábær frambjóðandi en ömurlegur þingmaður. Ég get kjaftað endalaust og ég held að framboðið sjálft sé skemmtilegi hlutinn af pólitíkinni. En að sama skapi grunar mig að þessi fjögur ár sem líða á milli séu drepleiðinleg. Ekkert nema langir og leiðinlegir fundir.“

Stefnan var þess í stað tekin á annan máttarstólpa Framsóknarflokksins, kaupfélögin. Þegar Gísli útskrifaðist árið 1988 starfaði hann stuttlega hjá Kaupfélagi Borgfirðinga og tók síðan við sem verslunarstjóri Kaupfélags Skagfirðinga á Hofsósi. Í kaupfélaginu kynntist hann eiginkonu sinni, Guðrúnu Huldu Pálmadóttur. Eiga þau þrjú börn og tvö barnabörn í dag. Gísli segir bæði staðinn sjálfan og samfélagið á Hofsósi einstakt og þar eigi fjölskyldan enn marga góða vini. En þau fluttu aftur í Borgarfjörðinn nokkrum árum síðar og þá tók allt annar kafli við.

 

Lenti í sjónvarpi

„Mig hafði lengi dreymt um að skrifa eitthvað en hafði svosum engan áhuga á fjölmiðlum nema blöðum,“ segir Gísli. „Ég hafði gaman af því að skrifa smásögur og ritgerðir. Ég skrifaði aðeins í héraðsblaðið Feyki í Skagafirðinum og fljótlega eftir að ég flutti aftur í Borgarfjörðinn fór ég að skrifa pistla fyrir Borgfirðing. Á þessum tíma jókst áhuginn og ég var orðinn mjög heitur fyrir því að komast í blaðamennsku.“

Gísli fann sig vel á héraðsfréttablöðunum. Þar gat hann skrifað allt frá léttmeti upp í alvarlegar fréttir en hafði jafnframt mikið frelsi í störfum sínum. Árið 1996 tók hann við ritstjórn Vesturlandspóstsins en það gekk brösuglega og varð skammlíft ævintýri. Gísli var hins vegar ekki af baki dottinn. Hann settist niður með Magnúsi Magnússyni atvinnuráðgjafa og þeir komu öðru blaði á legg árið 1998. Var það Skessuhorn sem þykir nú eitt burðugasta héraðsfréttablað landsins. Gísli var ritstjóri fyrstu árin en Magnús stýrir því í dag.

Þeim félögum fannst vanta að RÚV sinnti svæðinu sem skyldi. Af byggðasjónarmiðum buðu þeir því fram krafta sína sem verktakar árið 1999. Það kom í hlut Gísla að vera fréttaritari og boltinn fór svo að rúlla. Árið 2003 gerði hann þættina Út og suður og árið 2005 var hann kominn alveg yfir á RÚV.

Var þetta stórt skref fyrir sveitapilt?

„Já, það var það. En samt gerðist þetta eiginlega án þess að ég hefði stjórn á. Ég lenti í þessu, eins og sagt er. Fram að þessu hafði ég aldrei hugsað út í að verða sjónvarpsmaður, hélt að ég gæti það ekki og að það höfðaði ekki til mín. Um leið og ég prófaði þetta, þá fann ég hvað ég hafði gaman af þessu og athyglisþörfin nærðist eins og púkinn á fjósbitanum.“

 

Mýtan um furðulega landsbyggðarfólkið

Gísli hefur þrætt landið þvert og endilangt og dregið fram það áhugaverðasta úr hverju byggðarlagi fram á skjái landsmanna í þáttum sínum, fyrst Út og suður og síðar Landanum. Hann segir að markmiðið sé ekki að sýna fólki „kynlega kvisti úti á landi.“ Það sé mýta sem hugsanlega hafi skapast þegar Árni Johnsen og Ómar Ragnarsson kynntu Gísla á Uppsölum fyrir þjóðinni.

„Markmiðið er beinlínis að eyða þessari mýtu. Að sýna fram á að það sé venjulegt fólk úti á landi eins og í Reykjavík. Furðulegasta fólk sem ég hef hitt býr ekki á landsbyggðinni,“ segir Gísli og brosir breitt. „Það er auðvitað matsatriði hvaða fólk telst skrýtið, en ég hef haft þá reglu að taka ekki viðtal við neinn sem er skrýtnari en ég sjálfur. Það sem við höfum tekið fyrir er venjulegt fólk sem er að gera óvenjulega hluti og skemmtilega.“

Gísli segir að það hafi einnig verið markmið í upphafi, með Út og suður, að taka dagskrárgerðina út á land. En á þeim tíma hafi verið sár skortur þar á, meðal annars vegna fjárskorts. En þættir þeirra voru ódýrir, aðeins tveir menn með eina vél.

„Þetta hjálpaði okkur líka að nálgast viðmælendur. Við vorum að ræða við fólk sem aldrei hafði verið í sjónvarpsviðtali áður og okkar aðferð var ekki eins yfirþyrmandi og almennt viðgekkst. Þegar ég sjálfur var fyrst tekinn í sjónvarpsviðtal, þá mætti mér tíu manna teymi með stóra ljóskastara og ég sökk ofan í stólinn af hræðslu. Fólki fannst þægilegra að tala við tvo lúða með litla myndavél.“

Hver er eftirminnilegasti viðmælandinn?

„Það var Steinólfur Lárusson heitinn, frá Fagradal á Skarðsströnd, vísindamaður og lífskúnstner með meiru. Hann var einstaklega vel máli farinn og gerði í því að stuða fólk með glannalegum sögum. Síðan hitti ég svo margt merkilegt fólk, í hverri viku eiginlega. Annar mjög eftirminnilegur þáttur var þegar ég fékk að fara með konu inn í hús í Vestmannaeyjum, hús sem hafði grafist undir í gosinu og staðið óhreyft í fjörutíu ár. Þarna fundum við meðal annars gömul leikföng.“

 

Návígi við náttúrulegar og mannlegar hamfarir

Gísli hefur starfað í beinni fréttamennsku hjá RÚV þó svo að hann hafi mestmegnis verið í dagskrárgerð undanfarið. Hann er mikil göngugarpur og náttúrubarn. Því eru þær fréttir sem tengjast náttúrunni, svo sem af eldgosum og miklum óveðrum, það sem hann saknar hvað mest. Á sínum tíma var honum gjarnan teflt fram í návígi við náttúruöflin. Gísli viðurkennir fúslega að hann sé spennufíkill.

„Að koma að gosinu í Fimmvörðuhálsi var ógleymanleg stund. Þótt það væri mun minna en til dæmis Holuhraunsgosið, þá myndaðist þarna tilkomumikill hraunfoss með glæringum og látum,“ segir hann með glampa í augum.

Gísli þekkir einnig návígi við annars konar hamfarir. Árið 2016 fylgdu hann og Karl Sigtryggsson, úr Landanum, varðskipinu Tý suður til Miðjarðarhafsins þar sem verið var að bjarga flóttafólki á leið til Evrópu. Úr varð verðlaunuð heimildamynd í tveimur hlutum.

„Upphaflega var hugmyndin að gera þætti um íslensku hetjurnar á Tý. En fljótlega áttuðum við okkur á því að áherslan yrði að vera á þennan mannlega harmleik. Sagan var samt sögð að miklu leyti í gegnum áhöfnina. Það var ógleymanleg reynsla að standa þarna og horfa í augun á fólki sem var að stíga upp úr bráðum lífsháska og búið að upplifa mikla þolraun þar á undan.“

Gísli segir að ástandið og neyðin þarna hafi verið mun verri en hann átti von á.

„Við sáum bát sem var hálfgert vaskafat og áætluðum að hann gæti haldið um hundrað manns. Síðan reyndust vera um 320 í honum.“

Hvað kenndi þetta þér?

„Að fara varlega í að kvarta yfir eigin vandamálum,“ segir Gísli og brosir.

 

Dansar á bjargbrúninni

Á upphafsárum Skessuhorns vakti Gísli athygli fyrir leiðara sína í Skessuhorni og opnuðust þá óvænt tækifæri.

„Mér hefur alltaf fundist leiðarar leiðinlegir og reyndi því að skrifa mína með hæfilegu magni af skætingi og húmor. Það var vegna þeirra sem farið var að leita til mín varðandi veislu- og samkomustjórn. Þetta byrjaði á þorrablótum í héraðinu en vatt síðan fljótt upp á sig. Strax á fyrsta árinu var ég farinn að blaðra á árshátíðum í Reykjavík.“

Er það rétt að þú getir verið djarfari í talsmáta á skemmtunum en í sjónvarpinu?

„Já, stundum. Einn maður sagði að ég kynni að dansa á bjargbrúninni án þess að detta fram af. Það getur verið að ég hafi móðgað einhverja í gegnum tíðina, en vonandi sem fæsta, því það er aldrei ætlunin. Þetta er eins og í fótboltanum, þú skorar ekki nema að skjóta á markið og helst fast. Það er ekki hægt að vera fyndinn án þess að gera grín að neinu.“

Gísli segir að strax í upphafi hafi hann haft ákveðin viðmið. Til dæmis að gera ekki gys að fólki sem er í neyð, ástarsorg eða hefur lent í hörmungum.

„Ég geri hins vegar hiklaust grín að minnihlutahópum,“ segir hann ákveðinn og hlær. „Mér finnst það vera mannréttindi að fá að vera tekinn fyrir í gríni, hvort sem maður á við einhverja fötlun að stríða, tilheyrir ákveðinni kynhneigð eða hvað svo sem það nú er. Annað væri útskúfun. En það er auðvitað ekki sama hvernig grínið er gert. Ég hef ábyggilega stundum farið yfir strikið en reyni að halda mig réttum megin við það.“

Er fólk að öskra fram í?

„Já, það kemur fyrir. En ég er alltaf með tæklingar á lager fyrir þannig uppákomur. Grófar tæklingar,“ segir Gísli og glottir við tönn.

Fyrir tuttugu árum var Gísli með hvert orð skrifað niður í handrit fyrir skemmtanir en með aukinni reynslu noti hann nú aðeins punkta. Eins og uppistandarar endurnýjar hann efnið reglulega og aðlagar það að stað og tilefni.

„Það háir mér samt að ég kemst ekki almennilega í gírinn fyrr en rétt áður en ég mæti á staðinn. Ég fresta því sífellt að undirbúa mig en þegar stressið kemur þá kviknar á mér og hugmyndirnar fæðast.“

Hefur þú lent í því að klúðra skemmtun?

„Ég hef aldrei fengið margar kvartanir eftir skemmtanir, en ég hef hins vegar upplifað að líða ekki vel á eftir skemmtun. Það er þegar mér hefur fundist mér ekki takast vel upp. Samkomur eru misjafnar og sumar móttækilegri en aðrar. Eitt erfiðasta kvöldið sem ég man eftir var á þorrablóti í Garðabæ. Ég vissi að það væru tvö þúsund manns á blótinu en ljósin voru svo sterk að ég sá ekkert og hljóðið svo hátt að ég heyrði ekkert nema í sjálfum mér. Í annað skipti var ég að skemmta á Ingólfstorgi þann 1. maí. Skemmtunin sjálf gekk glimrandi vel en henni var útvarpað. Ég prófaði að hlusta á upptökuna og þá heyrðist enginn hlátur því að hljóðneminn var á sviðinu. Félagar mínir á Ríkisútvarpinu hefðu mátt gera mér þann greiða að setja dósahlátur á upptökuna,“ segir Gísli og við kveðjum hann með virktum.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Birti mynd af nánast nöktum líkama eiginkonunnar – Netverjar í áfalli og segja ekki öruggt að skoða hana í vinnunni

Birti mynd af nánast nöktum líkama eiginkonunnar – Netverjar í áfalli og segja ekki öruggt að skoða hana í vinnunni
Fókus
Fyrir 2 dögum

Grátt, svart og hvítt áberandi í endurnýjaðri eign í Reykjavík

Grátt, svart og hvítt áberandi í endurnýjaðri eign í Reykjavík
Fókus
Fyrir 3 dögum

Aron var handtekinn af fjórum lögreglumönnum, sprautaður niður og fluttur á Landspítalann – Greindur með sjaldgæfan sjúkdóm í kjölfarið

Aron var handtekinn af fjórum lögreglumönnum, sprautaður niður og fluttur á Landspítalann – Greindur með sjaldgæfan sjúkdóm í kjölfarið
Fókus
Fyrir 3 dögum

Segir að ótrúlegir hlutir hafi gerst þegar hún hætti að borða ávexti, grænmeti og kolvetni

Segir að ótrúlegir hlutir hafi gerst þegar hún hætti að borða ávexti, grænmeti og kolvetni