fbpx
Laugardagur 14.desember 2024
Fókus

Brostinn búskapardraumur Gísla: „Öfugt við krakka sem sendir voru í sveit á sumrin þá var ég sendur úr sveit“

Kristinn H. Guðnason
Laugardaginn 30. mars 2019 09:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Gísli Einarsson er fyrir löngu orðinn landsmönnum að góðu kunnur. Hann hefur starfað við fréttamennsku og dagskrárgerð hjá RÚV í hartnær tvo áratugi og haldið uppi fjöri á árshátíðum og þorrablótum jafn lengi. Blaðamaður DV keyrði í Borgarnes einn blíðviðrisdag til að ræða við Gísla, en þar býr hann og hefur starfsaðstöðu.

Þetta er brot úr stóru viðtali í helgarblaði DV.

Gat ekki orðið bóndi

Gísli er Borgfirðingur í húð og hár, alinn upp á bænum Lundi í Lundarreykjadal. Foreldrar hans stunduðu búskap framan af og fjölskyldan stór. Gísli er elstur fimm alsystkina og auk þess bjuggu fleiri úr stórfjölskyldunni á býlinu. Sjálfur lýsir hann sér sem ódælum á barnsárum.

„Ég var ábyggilega óþolandi. Var frekur og með mikla athyglisþörf. Ég held að það hafi ekkert breyst,“ segir Gísli og glottir. „Óþekkur var ég og þoldi oft ekki við í heila kennslustund. Ég hefði ekki viljað umgangast mig sem barn.“

Það er alltaf stutt í brosið og hláturinn hjá Gísla. Meira að segja þegar rætt er um brostnar vonir.

„Eins og aðrir strákar í sveitinni langaði mig að verða bóndi en það kom ekki til greina. Ég var haldinn svo miklu frjókornaofnæmi að sumrin fóru illa með mig. Öfugt við krakka sem sendir voru í sveit á sumrin þá var ég sendur úr sveit, til ömmu og afa í Reykjavík. En þegar ég var orðinn nógu gamall til að gera gagn þá beit ég á jaxlinn og harkaði sumrin af mér, með hor niður að hné og hita.“

Voru engin meðöl við þessu?

„Jú, jú, það voru til lyf og þetta átti einnig að eldast af mér. En þetta var svo mikið að búskapur kom ekki til greina sem framtíðarstarf. Jafnvel þó að mér þætti fátt skemmtilegra en að veltast um í heyi heima á bæ.“

 

Samvinnuskólinn og kaupfélagið

Á unglingsárunum lá leiðin í Samvinnuskólann á Bifröst til að taka stúdentspróf. Skólinn var verslunarskóli byggður upp í kringum samvinnuhreyfinguna. Gísli segir hins vegar að þar hafi hann lært svo margt meira sem hafi nýst honum síðar meir enda skólinn óhefðbundinn að mörgu leyti.

„Menn fóru þangað til þess að læra að verða Framsóknarmenn,“ segir Gísli og hlær. „Það sem vakti mestan áhuga hjá mér var félagslífið, sem var á þeim tíma eiginlegur hluti af náminu. Þú þurftir til dæmis að vera í ákveðnum klúbbum, umgangast fólk, stýra fundum, koma fram og halda ræður. Ég man enn þá hvað mér fannst hræðilega erfitt að stíga í púltið í fyrsta skipti, en ég hef ekki þagað síðan. Þetta er sá hluti af náminu sem hefur fleytt mér lengst.“

Hann segir að markmið skólans hafi að stórum hluta verið að ala nemendur upp í að verða félagsmálafrömuði.

Hafðir þú áhuga á að taka þátt í stjórnmálum?

„Einhvern tímann fékk ég þá flugu í hausinn. En þegar ég fór að hugsa betur út í þetta komst ég að því að ég yrði frábær frambjóðandi en ömurlegur þingmaður. Ég get kjaftað endalaust og ég held að framboðið sjálft sé skemmtilegi hlutinn af pólitíkinni. En að sama skapi grunar mig að þessi fjögur ár sem líða á milli séu drepleiðinleg. Ekkert nema langir og leiðinlegir fundir.“

Stefnan var þess í stað tekin á annan máttarstólpa Framsóknarflokksins, kaupfélögin. Þegar Gísli útskrifaðist árið 1988 starfaði hann stuttlega hjá Kaupfélagi Borgfirðinga og tók síðan við sem verslunarstjóri Kaupfélags Skagfirðinga á Hofsósi. Í kaupfélaginu kynntist hann eiginkonu sinni, Guðrúnu Huldu Pálmadóttur. Eiga þau þrjú börn og tvö barnabörn í dag. Gísli segir bæði staðinn sjálfan og samfélagið á Hofsósi einstakt og þar eigi fjölskyldan enn marga góða vini. En þau fluttu aftur í Borgarfjörðinn nokkrum árum síðar og þá tók allt annar kafli við.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Fór að gráta eftir að hafa stundað kynlíf með 100 karlmönnum

Fór að gráta eftir að hafa stundað kynlíf með 100 karlmönnum
Fókus
Fyrir 2 dögum

Vandræði í paradís? – Hafdís og Kleini hafa eytt öllum myndum af hvort öðru á Instagram

Vandræði í paradís? – Hafdís og Kleini hafa eytt öllum myndum af hvort öðru á Instagram