Kristján Berg Ásgeirsson, sem rekur Fiskikónginn, steig nýverið fram og ræddi reynslu sína af fíkniefnum og dóm sem hann hlaut árið 1996. DV ræddi við Kristján um þetta mál og einnig æskuna, frægðina og slysið sem breytti lífsviðhorfinu.
Þetta er brot úr stóru viðtali í helgarblaði DV.
Nú er langt um liðið, hvað fær þig til þess að koma fram núna?
„Ástæðan er einföld,“ segir Kristján. „Mér hefur liðið illa út af þessu máli. Þetta hefur setið á minni sál í rúmlega tvo áratugi og ekki liðið sá dagur að mér verði ekki hugsað til þessa. Þetta hefur verið þung byrði að bera og það hefur verið erfitt fyrir mig að fyrirgefa sjálfum mér að hafa leiðst út í þetta. Einnig vill ég koma fram og kenna börnum mínum að það getur verið í lagi að gera mistök, ef maður lærir af þeim, og ef mistökin verða stór, eins og í mínu tilfelli, þá er alltaf hægt að snúa blaðinu við og byrja upp á nýtt.
Að ræða hlutina opinskátt er viss þáttur í því að viðurkenna mistök sín og reyna að bæta sjálfan sig. Einnig er ég mjög þakklátur DV, ásamt öðrum fjölmiðlum, fyrir að sýna mér tillitsemi, en það hefði verið hægt að taka mig af lífi í fjölmiðlum fyrir löngu með neikvæðum fréttaflutningi. Ég hef alltaf svarað því til að ég eigi eftir að veita viðtal, en ég verði að velja minn tímapunkt sjálfur, og mér fannst það bara henta vel núna. Ég óska þess bara að fólk geti jafnvel lært af mínum mistökum.“
„Árið 1995 var ég í félagsskap þáverandi „vina minna“. Við vorum ungir, fullir af ævintýraþrá og vildum prófa okkur áfram í lífinu. Alsæla var á þessum tíma alveg nýtt, það var spennandi og margir krakkar á mínum aldri á þeim tíma vildu prófa. Ég var því miður einn af þeim. Ég prófaði, en þá var bara ekki aftur snúið. Fíknin tók völdin og ég gerði hluti sem ég sé enn þá eftir í dag,“ segir Kristján alvörugefinn.
„Við félagarnir fórum saman í helgarferð til London. Og það var djammað út í eitt. Okkur bauðst að kaupa e-pillur, sem við þáðum. Við keyptum 500 töflur og ætluðum að flytja til landsins, fyrir okkur félagana. Enda vorum við orðnir háðir þessari pillu og fannst skemmtilegt að djamma og dansa, allar helgar á Tunglinu, heitasta staðnum á þessum tíma. Það var ekki planlagt að gera þetta, frekar skyndiákvörðun og má nefna að við fórum ekki einu sinni með gjaldeyri út til London. Ég var nýlega kominn með VISA-kort og það var því bara farið í hraðbankann og tekinn út peningur fyrir þessu.
Ég hef aldrei reykt á ævinni. Aldrei tekið smók og hef aldrei verið í vandræðum með áfengi. Ég hef alltaf verið á móti eiturlyfjum og er þetta eina eiturlyfið sem ég hef tekið inn. Í rauninni finnst mér, og fannst, þetta ekki vera „að dópa“. Þetta lítur út eins og ein saklaus pilla sem maður setur upp í sig og kyngir. „Að dópa“ fannst mér vera þegar fólk er að sprauta sig eða sjúga eitthvað upp í nefið. Þetta virkar saklaust, en er eiturlyf. En það er gott að vera vitur eftir á. Allir þessir fyrrverandi vinir mínir eiga í dag, fjölskyldur og eru í vinnu. Þannig að ég var í rauninni ekki í slæmum félagsskap að mínu mati og tel ég þetta ekki vera þeim að kenna, heldur vorum við ungir strákar í ævintýraleit.“
„Ég var handtekinn um tveimur mánuðum eftir að við komum til landsins. Ég hlaut 2,5 ára fangelsisdóm, fyrir innflutning á 250 alsælutöflum. Reyndar komum við með 500 töflur, en við vorum plataðir uppúr skónum í London og gaurinn seldi okkur eitthvað drasl, sem var löglegt á Íslandi. Þannig að þekking okkar var mjög léleg á þessum efnum. Í dag segi ég bara sem betur fer vorum við plataðir,“ segir Kristján.
Hvernig var að fá slíkan dóm?
„Í dag held ég að fyrir sama magn fengi viðkomandi kannski einn til þrjá mánuði í fangelsi. Dómurinn var fordæmisgefandi. Þetta var fyrsti eða annar dómurinn sem gekk í svona máli á þeim tíma og hann átti að vera harður og fordæmisgefandi, fælandi fyrir þá sem hugsuðu út í þetta. Varðandi að fá dóminn, þá var það að sjálfsögðu risastórt kjaftshögg fyrir mig. En ég undirbjó mig vel undir þetta, leitaði strax hjálpar og gekk til sálfræðings,“ segir Kristján.
„Ég man vel eftir mínum fyrsta fundi hjá sálfræðingi. Þá rakti ég sögu mína og gat varla talað vegna þess að ég grenjaði svo mikið. Mér fannst þetta rosalega erfitt. Þegar ég var búinn að koma þessu frá mér, þá spurði sálfræðingurinn minn: „Kristján er þetta allt? Er þetta allt sem þú hefur að segja og ert að kveinka þér yfir?“ Ég játti því. Þá sagði hann mér að hann ætti fatlað barn sem þyrfti umönnun allan sólarhringinn. Alla daga, allt árið um kring.“
Sálfræðingurinn sagði:
„Ég vildi óska þess að ég gæti skipti við þig. Setið inni í tvö og hálf ár, losnað út og ekki þurft að hafa fleiri áhyggjur. Líf þitt er fullkomið. Þú gerir mistök. Átt eftir að fara í fangelsi. Það er tvennt sem þú getur gert. Annað hvort að halda áfram á sömu braut, leiðast út í frekari afbrot og koma út skemmdur. EÐA! Takast á við vandamálið, læra af reynslunni, snúa við blaðinu, nota þetta sem lærdóm og byggja þig upp. Hvora leiðina viltu fara? Þú hefur valið.“
„Sálfræðingurinn minn á stóran þátt í hvar ég er staddur í dag og er ég honum ævinlega þakklátur fyrir. Ég sat inni á Litla Hrauni í sextán mánuði og síðan í framhaldi í þrjá mánuði inni á Vernd.“
Varstu smeykur við að fara í fangelsi?
„Já ég var dauðhræddur,“ segir Kristján. „Að sitja inni með morðingjum, barnaníðingum, ofbeldismönnum og mönnum sem hafa misstigið sig í lífinu. Margir þeirra voru ágætis menn, en maður sá að þeir höfðu margir hverjir verið í áralangri neyslu, margir lent í misnotkun og síðan voru sumir sem ekki var hægt að bjarga. Voru og eru bara fæddir sem afbrotamenn.“
Hvernig nýttir þú tímann?
„Ég nýtti tíma minn vel. Það er skóli inni á Litla Hrauni og kláraði ég verslunarprófið mitt þar og kom mér í alla þá vinnu sem bauðst. Ég skúraði allt fangelsið, íþróttahúsið, skólann. Ég vingaðist fljótt við alla fangaverðina og finnst mér rosalega gaman að sjá mína fyrrverandi fangaverði koma í dag og versla af mér fisk. Minnisstæðast er þegar ég var beðinn um að þrífa upp eftir tilraun til sjálfsvígs þar sem viðkomandi hafði skorið sig. Hann hafði brotið klósettið og komist þannig yfir glerbrot, til þess að skera sig. Allir veggir og loft voru útataðir í blóði. Hann hafði skrifað á veggina með blóði úr sér og var ég beðinn um að þrífa klefann,“ segir Kristján.
„En mér fannst betra að vera að vinna við svona heldur en að hanga inni á klefa. Tíminn leið hratt og ég hafði ágætistekjur, þannig séð. Allan peninginn sem ég fékk sendi ég konunni minni til þess að greiða af láninu á íbúðinni sem við áttum saman. Ég vingaðist við strákanna sem voru þarna inni og hlustaði á sögur þeirra. Það var áhrifaríkt og þetta var mjög lærdómsríkur tími.“
Hvað var erfiðast við að sitja inni?
„Frelsissviptingin og fjarveran frá fjölskyldunni var erfiðust. Fangavistin var ekki svo erfið, enda var ég mjög vel undirbúinn. Mörgum sem ég sat inni með fannst gott að komast í fangelsið. Það var rútína á öllu; morgunmatur, heitur matur í hádeginu, rúmfötin þvegin vikulega ásamt þvotti. Síðan töluðu þeir um að félagsskapurinn væri góður. En sumir voru í sömu stöðu og ég, höfðu misstigið sig í lífinu og vildu koma út sem betri samfélagsþegnar. En þeir voru þvi miður ekki margir.“
„Þegar ég losnaði út af Litla Hrauni fór ég á Vernd. Ég fékk að stunda mína vinnu en þurfti alltaf að vera kominn inn fyrir klukkan 18 á kvöldin og mátti fara út klukkan 7 á morgnanna. Á Vernd var ég skyldugur til þess að sækja fundi hjá SÁÁ. Mér fannst það gott. Ég fékk styrk á þessum fundum. Lærði að tjá mig og lærði að hlusta á aðra. Það er mikilvægt í lífinu,“ segir Kristján.
„Þegar upp er staðið, þá finnst mér erfiðast að fyrirgefa sjálfum mér fyrir að hafa brotið af mér. En að mörgu leyti er ég þakklátur fyrir allt saman. Ég hef lært mikið, en þetta var mjög harður skóli og hefur verið erfið lífsreynsla. Hluti af þessu fyrir mig, til þess að finna sálarró er að koma fram, ræða þessa hluti og miðla af minni reynslu. Þetta er líka hluti af því sem mig langar til þess að kenna börnum mínum.“
Hver er lærdómurinn?
„Mér finnst gott að krakkar sjái það og læri af foreldrum sínum að öllum getur orðið á í lífinu. Það er hluti af lífinu að mistakast og það verður að kenna krökkum hvernig á að tækla það. Ég tel mig reyndar ekki hafa gert það nógu vel og má þar nefna að ég sagði elstu drengjum mínum fyrst frá þessu í fyrra. Sem er allt of seint. Mín afsökun var alltaf að þeir væru ekki tilbúnir að hlusta og skilja mig. En ég hafði rangt fyrir mér. Þessi stund með mínum drengjum var sú erfiðasta sem ég hef upplifað, en rosalega mikill léttir á sál minni. Ég þurfti mikinn kjark til þess. Ég sagði svo mínum yngstu frá þessu, í síðustu viku, ræddi við þá um þetta, en þeir eru 8 og 9 ára gamlir. Þeir skildu mig og fannst gott og gaman að pabbi þeirra ræddi svona hluti við þá. Ég fann fyrir því frá þeim að þeir líta upp til mín og það var góð tilfinning.“
Síðan málið kom upp og Kristján hlaut sinn dóm, hafa loðað við hann sögur. Sögusagnir hafa reynst honum þungur baggi.
„Maður vill geta varið sjálfan sig. En svona Gróusögur fara á kreik og eignast sjálfstætt líf. Oft eru menn að ýkja og reyna að vera fyndnir og alltaf er bætt í. Sumar sögurnar festast og þær særa mig alltaf.“
Ein af þessum sögum tengjast þekktum auglýsingum Fiskikóngsins. Sá kvittur komst á kreik að þær væru einhvers konar dulmál fyrir eiturlyfjasölu. Kristján segir þetta ekki eiga við rök að styðjast.
„Sumar sögur eru bara nokkuð fyndnar og hvernig fólk hefur hugmyndaflug í þetta. En í markaðsfræðinni er talað um að illt umtal sé betra en ekkert. Ég get ekki annað en þakkað þessu ágæta fólki fyrir að auglýsa fyrir mig, þó ég sé alls ekki stoltur af þessu leiðinlega umtali. En allar sögur særa mig og þá sérstaklega sögur sem eru ekki sannar. Þó svo ég hafði myndað brynju fyrir alls kyns sögum, þá særa þær alltaf og hafa þau áhrif að mér líður illa,“ segir Kristján.