„Ég hef svo sem enga töfraformúlu fyrir dúxa, en ég lærði vel fyrir prófin. Ég tek tarnir fyrir próf, fremur en að liggja alltaf yfir bókunum og hef alltaf verið með góðar einkunnir,“ sagði Katrín Jakobsdóttir í maí árið 1996. Katrín dúxaði í Menntaskólanum við Sund, með 9,70 í aðaleinkunn sem var met hjá skólanum.
Sagði Katrín að franska væri eitt af uppáhaldsfögunum og hún stefndi á að læra hana og rússnesku. Lélegasta einkunnin var í leikfimi, slétt 8. „Ég hef nú ekki alveg ákveðið hvað ég ætla að fást við í framtíðinni,“ sagði Katrín sem átti eftir að verða formaður Vinstri grænna, þingmaður og forsætisráðherra Íslands.
„Annars dúxaði ég eiginlega óvart! Ég er nefnilega þeirrar náttúru að vera aðeins of skipulögð, svo jaðrar við maníu! Að auki er ég líka eðalnörd og hafa vinir mínir strítt mér svolítið á þessu,“ sagði Edda Sif Pálsdóttir í samtali við Blaðið vorið 2007. Edda sló öll met Fjölbrautaskóla Garðabæjar og dúxaði með einkunnina 9,63.
Edda sagðist hafa sérstaklega gaman af fjölmiðlafræði og íslensku. Eins og flestir vita þá sigldi hún á þau mið og varð vinsæl íþróttafréttakona. Edda er dóttir Páls Magnússonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins. Í viðtalinu við Blaðið sagðist hún einmitt hafa kosið þann flokk í fyrsta skiptið sem hún fékk að kjósa.
„Enginn nær góðum árangri nema að hafa mjög góða kennara og vil ég ekki síst þakka þeim þennan árangur,“ sagði Ólafur Jóhann Ólafsson, dúx Menntaskólans í Reykjavík vorið 1982. „Ég stefndi ekki sérstaklega að því að slá neitt met enda varð mér ekki ljóst fyrr en allra síðustu daga hvert stefndi.“ Ólafur náði hæstu einkunn síðan tugakerfið var tekið upp, samanlagt 9,67, og sló 25 ára met Jónatans Þórmundssonar lagaprófessors.
Eftir MR lá leiðin til Boston í eðlisfræði- og stærðfræðinám. Síðan hóf hann störf fyrir risafyrirtækin Sony og Time Warner. Leiddi hann Sony á þeim tíma þegar PlayStation-leikjatölvan vinsæla var tekin í notkun. Í hjáverkum hefur Ólafur reglulega gefið út skáldsögur og leikrit.
Tvíburarnir Ármann og Sverrir Jakobssynir voru mestu rokkstjörnur menntaskólasögunnar. Þeir voru báðir nemendur í Menntaskólanum við Sund. Árið 1989 sigruðu þeir Hamrahlíðarmenn í úrslitum MORFÍS og árið eftir rassskelltu þeir Verzlinga í úrslitum Gettu betur.
Þetta ár, 1990, útskrifuðust þeir og spurningin var hvor þeirra yrði dúx. Fór svo að Ármann hafði betur með 9,64 í aðaleinkunn en Sverrir varð næstur með 9,40. Ármann og Sverrir eru bræður Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra og hafa þeir báðir starfað innan Vinstri grænna. Þeirra ær og kýr eru hins vegar fræðastörf og skriftir.
„Læri ég of lítið veit ég af því sjálfur og fæ samviskubit, þannig að ég veiti sjálfum mér aðhald,“ sagði Ragnar Jónasson vorið 1996. Þá varð hann dúx í Verzlunarskóla Íslands. Sjö sinnum fékk hann 10, átta sinnum 9,5, einu sinni 9 en aðeins 7,5 í leikfimi. Samanlagt gerði þetta 9,62.
Þrátt fyrir einkunnina í leikfiminni sagði Ragnar eðlisfræði og stærðfræði vera erfiðustu fögin. Ragnar stefndi á lögfræði en viðurkenndi að íslenskan togaði í hann. Í frístundum og á sumrin þýddi hann glæpasögur eftir Agöthu Christie fyrir útgáfuna Skjaldborg. Auk þess starfaði hann hjá Rás 2. Ragnar starfar sem yfirlögfræðingur GAMMA en hann er vitaskuld langþekktastur fyrir glæpasögur sínar.
„Ég las sæmilega fyrir próf,“ sagði Gylfi Zoega, dúx Menntaskólans í Reykjavík vorið 1983. Hann hafði þá náð einkunninni 9,68 og þar með slegið met Ólafs Jóhanns Ólafssonar frá vorinu áður. Gylfi sagðist ekki hafa stefnt sérstaklega að þessu en lagði á sig til þess að sleppa við eftirsjá eftir prófin.
Gylfi sagðist stefna á að læra þýsku eftir menntaskólann. Hann hefur síðan gert garðinn frægan sem einn af helstu hagfræðingum landsins og starfar sem prófessor við Háskóla Íslands. Var hann sérstaklega áberandi í þjóðfélagsumræðunni á árunum eftir bankahrunið. Gylfi er ekki eini dúxinn í fjölskyldunni. Bróðir hans, Gunnar Már, dúxaði tíu árum á eftir Gylfa og afi þeirra, Geir G. Zoega, dúxaði árið 1903.
„Þetta kom mér algjörlega í opna skjöldu,“ sagði Freyja Haraldsdóttir í desember árið 2005. Þá dúxaði hún í Fjölbrautaskólanum í Garðabæ með 8,4 í meðaleinkunn og kláraði skólann á þremur og hálfu ári. Freyja er með sjaldgæfa fötlun sem kallast osteogenesis imperfecta og hefur verið ein dyggasta talskona fyrir réttindum fatlaðra á undanförnum árum.
„Ef það hefur eitthvað þurft að bæta þá hefur það verið gert,“ sagði hún aðspurð um aðgengi fatlaðra í skólanum. Sagði hún það til algjörrar fyrirmyndar og að aðstoð stuðningsfulltrúa hafi skipt miklu máli fyrir hana.
Eftir skólann hóf hún störf við sérkennslu á leikskóla. Síðar nam hún þroskaþjálfarafræði, hagnýta jafnréttisfræði og kynjafræði í háskóla.
Auður Ava Ólafsdóttir varð dúx Menntaskólans við Sund vorið 1978. Hlaut hún 9,0 í aðaleinkunn. Árið 2012 sagðist hún hafa haft ofboðslega gaman í skóla. „Þannig nemendur verða oft kennarar.“
Eftir þetta lá leiðin til Bologna til að læra ítalskar bókmenntir og síðan sagnfræði og bókmenntafræði við Háskóla Íslands. Síðan út til Parísar að læra listasögu. Auður hefur síðan verið áberandi í listfræði en þekktust er hún fyrir verðlaunaskáldsögur sínar.
„Ég hef reynt að hafa sem víðastan sjóndeildarhring og takmarka mig ekki við eitt áhugamál. Ég kem því aldrei til með að eignast neitt verðmætt frímerkjasafn eða annað þess háttar, sem tekur hug manns allan,“ sagði Eiríkur Tómasson, dúx Menntaskólans við Hamrahlíð vorið 1970. Þá útskrifaðist hann með 8,85 í aðaleinkunn.
Almennt séð sagðist hann vera ánægður með kennsluna en kvartaði þó undan minni sveigjanleika námsins í MH miðað við aðra skóla. Uppáhaldsfögin og þau sem hann náði bestum árangri í voru félagsfræði, saga og íslenska. Eftir skólann hélt hann út til Svíþjóðar til starfa í verksmiðjum Volvo. Eftir það varð hann lögfræðingur og hæstaréttardómari. Eiríkur var sá sem kom Davíð Oddssyni og Halldóri Ásgrímssyni saman árið 1995 til að mynda ríkisstjórn sem sat að lokum í tólf ár.
Ragnhildur Geirsdóttir dúxaði í Menntaskólanum í Hamrahlíð í desember árið 1990. Var árangur hennar talinn sérlega glæsilegur og einn sá besti frá skólanum. Eftir það lærði hún vélaverkfræði við Háskóla Íslands og í framhaldsnám í Bandaríkjunum.
Ragnhildur hefur verið mjög áberandi í íslensku viðskiptalífi á undanförnum árum. Hefur hún meðal annars verið forstjóri Flugleiða, FL Group, plastvöruframleiðandans Promens, framkvæmdastjóri hjá Landsbankanum og aðstoðarforstjóri hjá WOW Air.