Jákvæðni gagnvart gengi Íslands í Eurovision-keppni þessa árs var mest hjá yngri aldurshópum, en þetta kemur fram í nýrri könnun MMR sem gerð var dagana 30. apríl til 3. Maí. Þar segir að um 24% svarenda telji líklegt að Hatari verði í einu af fimm efstu sætunum.
Til samanburðar voru um 4% sem spáðu Ara Ólafssyni sambærilegt gengi í fyrra. Þá voru hátt í 34% svarenda sem spáðu framlagi Íslands í fyrra slöku gengi, en nú er 13% svarenda sem telur líklegt að Hatari lendi í 36. til 41. sæti.
MMR birtir reglulega niðurstöður úr könnunum sem unnar hafa verið meðal almennings um málefni líðandi stundar. Í Eurovision-könnuninni spáðu 64% svarenda á aldrinum 18-29 ára og 58% þeirra 30-49 ára íslenska laginu einu af tíu efstu sætum keppninnar en 32% svarenda undir 50 ára aldri spáði laginu einu af fimm efstu sætunum. Hins vegar spáðu rétt 35% svarenda á aldrinum 50-67 ára og 25% þeirra 68 ára og eldri að Hatari næði að hreppa sæti á meðal þeirra tíu efstu.
Þá reyndust svarendur búsettir á höfuðborgarsvæðinu örlítið bjartsýnni á gengi íslensku strákana heldur en landsbyggðarbúar en 51% svarenda af höfuðborgarsvæðinu sögðust telja að íslenska framlagið myndi lenda í einu af tíu efstu sætum keppninnar, samanborið við 45% þeirra af landsbyggðinni.
Landsbyggðarbúar reyndust hins vegar líklegri til að spá Hatara einu af sex neðstu sætum keppninnar (17%) heldur en þau af höfuðborgarsvæðinu (10%). Lítill munur reyndist á afstöðu eftir kyni.
Stuðningsfólk Pírata (58%), Viðreisnar (56%) og Samfylkingar (56%) reyndust líklegri en stuðningsfólk annarra flokka til að spá því að íslenska framlagið muni lenda í einu af tíu efstu sætum söngvakeppninnar. Stuðningsfólk Miðflokks (35%) og Framsóknar (18%) reyndust hins vegar líklegast af stuðningsfólki allra flokka til að spá því að Hatari lendi í 36.-41. sæti keppninnar í ár.