fbpx
Þriðjudagur 24.desember 2024
Fókus

Engill Bjartur leggur allt í sölurnar: „Það má segja að ég sé athafnaskáld“

Kristinn H. Guðnason
Sunnudaginn 28. apríl 2019 21:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Engill Bjartur er eitt yngsta starfandi ljóðskáld landsins. Í desember í fyrra sendi hann frá sér fyrstu ljóðabókina, Vígslu, sem hefur að geyma 40 frumsamin ljóð sem hann orti á aldrinum 17 til 20 ára. Engill yrkir um allt milli himins og jarðar, ástina, náttúruna, og einnig hversdagsleg fyrirbæri á borð við svefn og kaffi. DV ræddi við Engil Bjart.

Vopnaður móðurmálinu og greiðsluposa

Engill er bjartsýnn og vígreifur þegar hann ræðir um viðtökurnar við bókinni.

„Enginn trúði því að Vígsla myndi seljast,“ segir hann. „Mér var ráðlagt að takmarka upplagið við 50 eintök. „Enginn græðir á ljóðabókum, ljóðabækur seljast ekki, ljóðlistin er útdautt listform,“ sögðu raddir efahyggjufólksins. En mér hefur tekist að áorka því ógerlega: Gefa út ljóðabók tvítugur sem rokselst. Frá því laust fyrir jól, hef ég haft það sem helgarvinnu að ganga í hús og selja Vígslu – vopnaður móðurmálinu, ljúfri lyndiseinkunn og 3G-greiðsluposa. Nú eru 260 eintök seld af fyrsta upplagi og er önnur prentun komin í hús, aukin og endurbætt. Fyrst hélt ég að árangurinn væri tengdur jólunum og meðfylgjandi kaupgleði landans. En það afsannaðist í mars, sem var söluhæsti mánuður minn til þessa.“

Söluævintýrin

Engill segist þakklátur fyrir þá blessun að geta stundað þá vinnu sem hann elskar og haft lifbrauð, eða lifibrauðskorpur eins og hann segir, af því.

„Fyrir ungskáld eins og mig sem meinað er um listamannalaun er það huggun harmi gegn. Það eru engir tveir vinnudagar eins. En tvennt breytist aldrei. Allir eru kurteisir, jafnvel þeir sem afþakka. Og í söluferðunum kemur alltaf eitthvað á óvart.“

Þú hefur lent í ýmsum söluævintýrum. En hver eru þau helstu?

„Eitt sinn lauk upp fyrir mér indæliskona sem sagðist glöð vilja kaupa. Maðurinn hennar væri nefnilega líka rithöfundur. Sá maður reyndist vera Jón Kalman Stefánsson. Hann var að vísu ekki heima en það vildi þannig til að hann átti afmæli daginn eftir. Ég áritaði bókina auðvitað handa honum í afmælisgjöf.“

Engill heldur áfram.

„Á sólríkum sunnudegi, í upphafi mánaðar, gekk ég milli fólks í miðbænum. Þegar ég var búinn að selja fiðluleikara, Þjóðverja og einum lögfræðingi, mætti ég geðþekkum manni nokkrum í svörtum leðurjakka. Það var enginn annar en rithöfundurinn Einar Kárason sem var á gangi eftir Flókagötunni.

Þá er ónefnd „englakonan“ og rithöfundurinn Ingibjörg Kr. Ferdinandsdóttir sem tók ástfóstri við engla þegar bróðir hennar bjargaðist frá voða í æsku á undraverðan hátt. Hún var mjög heilluð af nafninu mínu og vildi ekki aðeins taka mynd til að birta á Facebook, heldur einnig gefa mér eintak af nýjustu barnabók sinni, Krumma Króm. Þetta er ekki eina gjöfin sem ég hef fengið frá viðskiptavinum. Mér hefur einnig verið gefin bænabók, ljóðasafn, ævisaga og geisladiskur eftir saxófónleikarann Hans Jensson.“

Seldi á Tenerife

Margir eru nú byrjaðir að þekkja Engil Bjart af afspurn, ljóðskáldið sem gengur í hús, les og selur. Viðskiptavinirnir eru á öllum aldri, frá 4 til 84 ára. Fátt veitir Engli meiri ánægju en að árita fyrir börnin sem fylgjast spennt með í dyragættinni.

„Framtíð íslenskrar tungu er í höndum æskunnar. Langflestir kaupendur hafa yndi af ljóðlist. En þó er það ekki algilt. Ég gleymi til dæmis aldrei orðum eins mannsins sem keypti af mér í miðju jólaharkinu: „Æ, ætli ég kaupi þá ekki ljóðabók svona einu sinni á ævinni!“

Engill hefur einnig lagst í víking og selt utan landsteinanna. En það var reyndar fyrir tilviljun.

„Í febrúar brá ég undir mig betri fætinum og fór í „skáldaleyfi“ til Tenerife. Vitanlega gerði ég ekki ráð fyrir því að selja neitt þar. En einn daginn sat ég úti á veitingastað og var að glugga í Skáldatíma eftir Halldór Laxness, einu bókina sem ég hafði í fórum mínum. Og áður en langt um leið greip maður í öxlina á mér og sagði á íslensku: „Ég sé að þú ert bókmenntamaður.“ Þetta var hann Steinar Harðarson, formaður VG í Reykjavík, en hann hafði setið við næsta borð ásamt eiginkonu sinni, Dagnýju, og rekið augun í hina alkunnu röndóttu Laxnesskápu. Ég átti yndislegt bókaspjall við þau hjón úti í sólinni og þegar heim var komið, keyptu þau glöð eintak af Vígslu. Ljóðlistin spyr ekki um landamæri.“

Hvað er næst á döfinni hjá þér?

„Það má segja að ég sé athafnaskáld. Ég legg að minnsta kosti allt í sölurnar til að selja Vígslu – bókstaflega. Nú bíða 300 ný eintök þess í ofvæni að komast í hillur ljóðelskra landsmanna þegar veður leyfir. Ljóðabókasala er eitt óreglulegasta starf sem hugsast getur en það er einnig með þeim skemmtilegri. Vígsla markar mitt fyrsta skref fram á ritvöllinn. Og skrefateljarar munu missa tölu á komandi skrefum. Þegar páskahretið hrekur mig úr hverfum borgarinnar, er fátt betra en að setjast inn og vinna í komandi bókum. Ég er núna að skrifa skáldsögu í fullri lengd sem er væntanleg haustið 2020,“ segir Engill.

LEYNDARDÓMUR

Aldrei hef ég lifað nokkuð þessu líkt;

lífið af fögrum leyndardómi er ríkt.

Eitt atvik kann raunum einhæfni að rifta

og rauðum tjöldum leiksviðs að lyfta.

Það er svo margt sem mér er enn leynt

og minnst fæ ég vitað er mest hef ég reynt.

En er ég þönkunum nokkuð næ niður

þá nálgast mig lífsins leikritasmiður.

Hann mark sitt á litlausa tilveru leggur

og leikandi á fábreytnifjötrana heggur.

Og skeleggur leik ég – því það hef ég lært

– í leikþætti er forlögin mér hafa fært.

– Ég frið á í hjarta sem ekkert fær bært.

Engill Bjartur 2017

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 3 dögum

Dennis Rodman með yfirlýsingu eftir að dóttir hans varpaði sprengju

Dennis Rodman með yfirlýsingu eftir að dóttir hans varpaði sprengju
Fókus
Fyrir 3 dögum

Jólakort ársins frá Vilhjálmi og Katrínu

Jólakort ársins frá Vilhjálmi og Katrínu
Fókus
Fyrir 4 dögum

Myndir af leikkonunni settu allt á hliðina og nú svarar hún tröllunum fullum hálsi – Málið vekur upp spurningar um kröfur karla til kvenna

Myndir af leikkonunni settu allt á hliðina og nú svarar hún tröllunum fullum hálsi – Málið vekur upp spurningar um kröfur karla til kvenna
Fókus
Fyrir 4 dögum

Dennis Rodman fær það óþvegið frá dóttur sinni

Dennis Rodman fær það óþvegið frá dóttur sinni
Fókus
Fyrir 4 dögum

Kynlífsathöfnin sem Christina Aguilera fær ekki nóg af

Kynlífsathöfnin sem Christina Aguilera fær ekki nóg af
Fókus
Fyrir 4 dögum

Fyrsta stefnumótið var fyrir tíu árum á Litla-Hrauni: „Ég fór þarna út með hjartað í brókinni og stjörnur í augunum“

Fyrsta stefnumótið var fyrir tíu árum á Litla-Hrauni: „Ég fór þarna út með hjartað í brókinni og stjörnur í augunum“