fbpx
Þriðjudagur 21.janúar 2025
Fókus

Magnús Ver segir frá ótrúlegum ferli í aflraunum: „Fólk kom úr öllum áttum og þurfti að ganga á milli okkar“

Kristinn H. Guðnason
Laugardaginn 6. apríl 2019 15:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Magnús Ver Magnússon, einn sigursælasti aflraunamaður sögunnar, hefur verið viðloðandi kraftasport síðan hann var unglingur á Seyðisfirði, en aflið fékk hann við bústörf í Jökulsárhlíðinni sem polli. Blaðamaður DV settist niður með Magnúsi og ræddi við hann um æskuna, einstakan feril, samferðamennina, hleranir, núverandi störf og heilsu.

Þetta er brot úr stóru viðtali í helgarblaði DV.

Verðlaunaskápur Magnúsar í Jakabóli er bólginn.

Ekki heppni

Magnús segir sína gæfu hafa verið fólgna í því að taka mjög vel við þjálfun.

„Ég var að gera nákvæmlega sömu æfingar og margir aðrir en ég bætti mig meira. Margir undruðust á því hversu vel líkaminn aðlagaðist þjálfuninni. Ég setti unglingamet og Íslandsmet. Síðan fór ég út og varð Evrópumeistari og vann stigakeppnina, sem var mjög óvenjulegt fyrir mann í þyngri flokk, 125 kílógramma. Yfirleitt voru það 60 kílóa mennirnir sem unnu það.“

Hann fór einnig að fikta við aflraunir á þessum tíma. Fyrsta stóra mótið var á Húsavík og hljóp Magnús þá í skarðið fyrir Jón Pál sem var meiddur. Einnig keppti hann á aflraunamótum í Skotlandi og í Kanada. Gekk Magnúsi svo vel að hann fékk boð um að vera varamaður í keppninni Sterkasti maður heims árið 1991 á Tenerife. Sá hann þá einnig um að prófa greinarnar fyrir sjónvarpsmyndavélarnar. Fimm vikum fyrir keppnina fékk Magnús símhringingu þar sem honum var sagt að Jón Páll hefði rifið upphandlegginn og þeir vildu að hann hlypi í skarðið.

Þetta voru stórir skór til að stíga í?

„Já, Jón Páll var ríkjandi meistari og hafði unnið fjórum sinnum. Mér fannst mikill heiður að fá að keppa fyrir Íslands hönd. Auðvitað var þetta samt pressa. Við Jón Páll vorum búnir að vera mjög jafnir á aflraunamótunum um sumarið. Ég var í mjög góðu formi og tilbúinn í allt. En þegar ég hitti hina keppendurna á flugvellinum í London fannst mér ég vera pínulítill.“

Þarna voru meðal annarra mættir hinn 213 sentimetra hái Hollendingur Ted Van Der Parre og Austurríkismaðurinn Manfred Höberl með sína tröllvöxnu upphandleggi. Þrátt fyrir þetta vann Magnús keppnina með töluverðum yfirburðum. Hann var svo langt á undan að í síðustu greininni þurfti hann ekkert að leggja á sig.

„Eftir keppnina var byrjað að skvaldra um að þetta hefði verið heppni. Minnt var á að hvorki Jón Páll né Jamie Reeves, tveir síðustu meistarar, hefði verið þarna. Til þess að sanna að þetta hefði ekki verið heppni hélt ég áfram,“ segir Magnús.

Sterkasti maður heims
Magnús heldur hér tveimur bifreiðum.

Annar sigurinn sætastur

Árið eftir var keppnin haldin á Íslandi. Magnús var þar grátlega nálægt sigri en hafnaði í öðru sæti á eftir Van Der Parre með aðeins eins stigs mun.

„Ég gerði afdrifarík mistök með Húsavatnshelluna í síðustu grein. Ég lyfti henni allt of hátt því mér fannst hún svo létt en sá ekki hvert ég var að ganga. Auk þess lagðist hún á brjóstkassann og hefti öndunina. Þegar ég reyndi að láta hana síga missti ég hana. Þetta kostaði mig titilinn.“

Var þetta mesta eftirsjáin á ferlinum?

„Já, ég átti að vinna þetta. Ég var með sigurinn í höndunum. Auk þess var ég á heimavelli.“

Aftur hafnaði Magnús í öðru sæti árið 1993 í Frakklandi. En sú keppni var háð skömmu eftir sviplegt fráfall Jóns Páls. Hafði það mikið að segja fyrir Magnús.

„Hausinn á mér var ekki á réttum stað. Eftir þá keppni áttaði ég mig samt á því að ef ég hefði unnið mína heimavinnu hefði ég sigrað. Þetta hvatti mig til að æfa stífar og undirbúa mig betur. Keppnin árið 1994  í Suður-Afríku var mjög hörð og Manfred Höberl hafði verið hálfósigrandi þá um sumarið. Þetta endaði í einvígi með steinana á milli mín og hans og ég hafði betur. Þetta var mín stærsta stund á ferlinum og jafnframt erfiðasta mótið. Ég var svo úrvinda að ég neitaði að taka flugið heim daginn eftir. Ég kláraði mig alveg og ætlaði ekki að halda áfram. Svo gleymdi ég því auðvitað,“ segir Magnús og hlær.

Tvö næstu mót, á Bahamaeyjum og Máritíus, vann Magnús nokkuð örugglega. Aðeins hann og Bill Kazmaier hafa unnið keppnina þrisvar sinnum í röð.

 

Pure Strength 1989
O.D. liggur óvígur eftir tunnuna.

 

Gaf Kazmaier olnbogaskot eftir svindl

Hverjir voru þínir helstu styrkleikar?

„Ég var sagður hraður, úthaldsgóður og gripsterkur. En mér gekk alveg jafn vel í greinum sem gengu út á hrátt afl. Minn styrkur var að vera jafn góður í öllu. Það er hægt að vinna svona mót án þess að vinna eina einustu grein, það er ef þú ert annar í þeim öllum. Ég vildi aldrei vera of þungur, yfirleitt létti ég mig fyrir keppni til að verða hreyfanlegri og hafa betra úthald. Flestir aðrir þyngdu sig fyrir mótin.“

Magnús keppti á fjölmörgum öðrum aflraunamótum, þar á meðal í liðakeppni með Hjalta Úrsus Árnasyni á Pure Strength. Árið 1989 lentu þeir í óvæntri uppákomu gegn ameríska liðinu sem samanstóð af Bill Kazmaier og O.D. Wilson heitnum.

„Við vorum að hlaupa með tunnur eftir ákveðinni leið. Við þurftum að hlaupa í gegnum göng og það var ekki mikið pláss inni í þeim. Kazmaier var það sem kallast mætti „dirty player“,“ segir Magnús og hlær. „Sérstakur karl og virtist þrífast á því ef hann gat komist upp með eitthvert svindl. Hann var búinn að vera að ýta á mig inni í göngunum en ég lét það ekki á mig fá. Síðan gerðist það að Wilson réð ekki við sína tunnu og missti hana yfir vegg ofan af brú. Hann þurfti síðan að sækja hana undir brúna. Kazmaier sá hvað kom fyrir félaga sinn og vildi tefja mig á meðan Wilson sótti tunnuna. Þá ýtti hann við mér svo að ég missti mína tunnu yfir vegginn en hún lenti ofan á Wilson.“

Wilson náði að sjá tunnuna í tæka tíð og slasaðist aðeins minniháttar á hönd og í baki.

„Hann var hálf vankaður þarna í svolitla stund. Ef þetta hefði verið einhver annar en þetta tröll þá hefði þetta getað farið verr.“

Hvernig brugðust þið við þessum óheiðarleika Kazmaier?

„Það var ekki sýnt í útsendingunni, en það fauk vel í mig. Fólk kom úr öllum áttum og þurfti að ganga á milli okkar. Ég gaf karlinum gott olnbogaskot á kjálkann,“ segir Magnús og skellihlær.

O.D. Wilson, sem lést árið 1991, var mikið naut að burðum. Magnús segist aldrei hafa litist á Wilson þegar hann var reiður og beitti því ákveðinni aðferð gegn honum.

„Ég sagði honum oft brandara fyrir greinar til að létta lundina hjá honum. Þar með varð hann viðráðanlegri.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Hljóp 5 kílómetra á hverjum degi í heilan mánuð – Var fljótur að sjá magnaða breytingu á sér

Hljóp 5 kílómetra á hverjum degi í heilan mánuð – Var fljótur að sjá magnaða breytingu á sér
Fókus
Í gær

Benedikt lenti í miklum vanda á karlakvöldi – „Aðrir við borðið voru farnir að stara á okkur“

Benedikt lenti í miklum vanda á karlakvöldi – „Aðrir við borðið voru farnir að stara á okkur“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Framkvæmdastjórinn í Paradís flytur sig um set

Framkvæmdastjórinn í Paradís flytur sig um set
Fókus
Fyrir 2 dögum

Stjörnurnar og mótleikarinn sem þeim líkaði alls ekki við að kyssa

Stjörnurnar og mótleikarinn sem þeim líkaði alls ekki við að kyssa