fbpx
Þriðjudagur 05.nóvember 2024
Fókus

„Kirkjan verður að leggja sitt af mörkum fyrir flóttamenn“

Kristinn H. Guðnason
Þriðjudaginn 26. mars 2019 20:00

Séra Toshiki Toma Hefur búið á Íslandi í 27 ár.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Málefni útlendinga hafa verið mikið til umræðu í þjóðfélaginu undanfarin misseri. Í þeirri umræðu hefur séra Toshiki Toma, prestur innflytjenda, tekið virkan þátt og lagt sín lóð á vogarskálarnar. DV ræddi við Toshiki um uppvöxtinn í Japan, komuna til Íslands og hvernig málefni útlendinga hafa þróast síðan hann kom hingað fyrir 27 árum.

Varð undir í samkeppni

Séra Toshiki Toma fæddist árið 1958 í Tókýó í Japan og bjó þar í rúmlega þrjátíu ár. Faðir hans starfaði sem geðlæknir og móðir hans sem húsmóðir. Toshiki á einn eldri bróður sem enn býr í Japan. Faðir Toshikis lést fyrir fimm árum og Toshiki segir það mikla gæfu að hann hafi náð svo háum aldri. Árið 1945 var hann kvaddur í herinn en seinni heimsstyrjöldinni lauk tveimur vikum áður en hann átti að fara á vígvöllinn.

„Hann var aðeins nítján ára gamall. Ef hann hefði farið í bardaga hefði hann dáið. Á þessum tíma var stríðið orðið örvæntingarfullt og ungir hermenn sendir í sjálfsmorðsárásir,“ segir Toshiki.

Hvernig var Japan þegar þú varst að alast upp?

„Ég þekkti ekki fátækt eftirstríðsáranna. Það var mikill uppgangur í landinu þegar ég var að alast upp. Á meðal barna og unglinga var mjög hörð samkeppni um að komast í bestu mennta- og háskólana. Ég komst í góðan menntaskóla og stefndi á feril í stjórnmálafræði en þá hófust mín vandræði. Flestir aðrir nemendur voru duglegri en ég. Þó að ég lærði og lærði voru einkunnirnar mínar ekki háar og ég varð undir í samkeppninni. Þá fór ég að hugsa um hver væri tilgangur minn.“

Toshiki komst inn í sæmilegan háskóla. Hann hafði mikinn áhuga á sósíalisma og tók þátt í stúdentapólitíkinni. Á háskólaárunum opnuðust augu hans einnig fyrir kristinni trú og þar fann hann sinn tilgang. Toshiki er sá eini í sinni fjölskyldu sem er kristinn. Hann segir að þetta hafi komið móður hans nokkuð á óvart en hún sé ekki mjög trúuð. Faðir hans var shinto-trúar en studdi son sinn eindregið á þessari vegferð.

Stefnan var hins vegar enn sett á stjórnmálin. Í þrjú ár eftir háskólann starfaði Toshiki í verkamannahreyfingunni. Hann segir það hafa verið góðan tíma en kirkjan hafi togað í hann.

„Ég held að ég hafi verið of einlægur maður til að lifa af í pólitíkinni,“ segir Toshiki og glottir út í annað. „Í japönskum stjórnmálum þarf maður að ljúga og misnota fólk. Því ákvað ég að fara í prestaskóla.“

 

Menningarmunur Þurfti að læra að segja nei.

Áfram á Íslandi eftir skilnað

Skömmu fyrir útskriftina í prestaskólanum fékk Toshiki tækifæri til að heimsækja landið helga. Sænska kirkjan hélt tveggja mánaða námskeið og bauð guðfræðinemum víðs vegar að úr heiminum að koma til Jerúsalem. Þar kynntist hann séra Helgu Soffíu Konráðsdóttur, eftir hálft ár giftust þau og fluttu til Japan.

Toshiki fékk prestsstöðu í borginni Nagoya og þar bjuggu þau í tvö ár. Hann segir að þetta hafi ekki hentað þeim vel og engin tækifæri fyrir Helgu að þjóna sem prestur. Þau gerðu frekar ráð fyrir að hafa jöfn tækifæri á Íslandi og því fluttu þau árið 1992.

Voru það viðbrigði að flytja til Íslands?

„Það var ekki auðvelt. Samskipti á milli Íslands og Japan voru ekki jafn auðveld og í dag á tímum netsins. Foreldrar mínir sendu mér dagblöðin í pósti en það tók um mánuð að fá þau í hendur. Á þessum tíma var Helga ekki með fasta vinnu og ég var að læra tungumálið. Sonur okkar var eins árs, eftir tvö ár, annað barn á leiðinni.“

Fjölskyldan bjó í Keflavík til að byrja með, síðan á Snæfellsnesi og loks fluttu þau til Reykjavíkur þar sem Helga fékk fasta vinnu í Háteigskirkju. Tækifærin buðust Toshiki þegar hann hafði fengið íslenskt prestaleyfi árið 1997. Þá tók hann við stöðu prests innflytjenda, sem var tilraunaverkefni á vegum kirkjunnar.

Hvað tók það þig langan tíma að aðlagast landinu?

„Það gerðist smátt og smátt og ekki hægt að segja nákvæmlega til um það. Ég get þó nefnt eitt dæmi um hvenær mér fannst ég vera orðinn Íslendingur. Í Japan segir fólk ekki nei í venjulegum samskiptum, það þykir dónaskapur. Japanir segja alltaf já en viðmælandinn verður að átta sig á merkingunni eftir því hvernig það er sagt. Já þýðir já og nei þýðir nei á Íslandi. Ég þurfti að aðlagast þessu og læra að segja nei. Þegar ég fór í sumarfrí til Japan fannst fólki ég vera orðinn hvass og þá sá ég að ég var orðinn meiri Íslendingur en áður.“

Toshiki hefur nú búið hér í 27 ár og talar góða íslensku. Hann talar hins vegar ennþá japönsku við börnin sín tvö. Árið 1999 skildu Toshiki og Helga en Toshiki ákvað þó að vera um kyrrt á Íslandi.

Kom það til greina að flytja aftur til Japan?

„Það hefði verið vandkvæðum bundið fyrir mig. Japanska kirkjan velur vel þá nema sem komast inn í prestaskólann og ætlast til þess að þeir starfi lengi í kirkjunni. Ég hafði aðeins þjónað í tvö ár og svo flutt til Íslands. Þetta voru vonbrigði fyrir marga í japönsku kirkjunni og þeir létu mig vita af því. Ég hefði þurft að sýna fram á eitthvað mjög jákvætt, en ekki snúa til baka eftir hjónaskilnað. Í Japan hefði fólk tekið því á þann veg að ég hefði snúið til baka með skottið á milli lappanna. Ég var líka búinn að eyða miklu púðri í að læra íslensku og á samfélagið hérna. Auk þess hafði ég mikla trú á þessu nýja starfi. Ég vildi ekki glata þessu öllu.“

Erfiðast að sjá á bak brottviknu fólki

Starf Toshikis sem prestur innflytjenda hefur tekið breytingum líkt og þjóðfélagið. Hans störf hafa sjaldnast verið lík störfum flestra annarra presta. Mun stærri hluti hefur falist í sáluhjálp og ráðgjöf varðandi praktísk málefni.

„Fyrstu verkefnin voru að aðstoða konur frá Asíu sem höfðu gifst íslenskum mönnum. Þetta voru mjög erfið mál. Það voru nokkur dæmi þess að þær hefðu verið keyptar til landsins og þær einangruðust. Það ríktu einnig miklir fordómar í garð þeirra því þær töluðu ekki íslensku. Mín störf fólust í því að hitta fólk og reyna að finna lausn á vanda þess, óháð trúarbrögðum, líkt og félagsráðgjafi. Á þessum tíma var lítið fjallað um málefni innflytjenda, en kirkjan tók það skref að koma á þessari þjónustu, á undan samfélaginu.“

Til að byrja með hafði hann aðsetur á Biskupsstofu en síðan hefur hann flakkað á milli kirkna. Hann var lengst tíu ár í Neskirkju en hefur nú aðstöðu í Breiðholtskirkju. Innflytjendum hefur yfirleitt farið fjölgandi á Íslandi síðan hann tók við. Árið 2004 var Evrópusambandið stækkað til austurs og þá jókst fjöldi Pólverja og annarra Austur-Evrópumanna til Íslands. Í hruninu dróst allt saman en þegar birti til aftur fóru flóttamenn að koma hingað í auknum mæli. Síðan 2015 hefur hann nær eingöngu starfað á þeim vettvangi.

„Mér finnst það nokkuð merkilegt að eftir að ég fór að sinna flóttafólkinu hafa störf mín þróast meira í áttina að hefðbundnum prestsstörfum með þeim athöfnum sem fylgja. En það besta við starfið er hversu mikið frelsi ég hef í verkefnum mínum. Það eru engin fordæmi, en ég fæ að skapa þau fyrir framtíðina.“

En hvað er erfiðast?

„Þegar fólk er sent úr landi. Þegar hælisleitandi kemur til mín hugsa ég: Hvort kemur hvítt blóm eða svart blóm? Fær hann að vera eða verður hann rekinn úr landi? Það er erfiðara fyrir okkur presta að takast á við mál sem þessi því við tökum þeim persónulega. Annað á við lækna og lögfræðinga sem geta dregið skýra línu milli sjálfs sín og skjólstæðinga sinna. Við köllum fólk ekki skjólstæðinga heldur bræður eða systur okkar. Annars gætum við ekki þjónað þeim sem prestar,“ segir Toshiki og játar að hafa grátið í sumum tilvikunum.

Eftir að fólki hefur verið vikið úr landi tekur oft mikil óvissa við. Toshiki hefur reynt að halda sambandi við fólkið, en það hefur ekki alltaf tekist.

„Þetta fær mjög á mig. Fólkið er hrópandi á hjálp, en ég er hér á Íslandi og það sem ég get gert er mjög takmarkað.“

Hann nefnir sem dæmi hjónin Nasr Rahim og Sobo Anwar Hasan, frá Íran og Írak, og lítil börn þeirra, Leo og Leona. Þau komu til Íslands í mars árið 2017 en var vísað úr landi fyrir jólin það ár.

„Þau voru send til Þýskalands og var vísað þaðan líka síðastliðið haust. Þá flúðu þau til Frakklands og höfðust við í skógi og voru á vonarveli. Ég var þá í fríi í Japan en gat vakið athygli á vandræðum þeirra, ásamt nokkrum vinum á Íslandi, með áskorun á netinu. Þá söfnuðust peningar sem komu þeim vel. Mál þeirra er nú komið í vinnslu í Frakklandi og ég vona innilega að þau fái jákvæð svör þar.“

 

Laugarneskirkja
Lögreglan rauf kirkjugrið og handtók flóttamenn.

Létu reyna á kirkjugrið

Toshiki hefur ekki verið hræddur við að taka slaginn fyrir flóttamenn. Árið 2016 stóðu hann og séra Kristín Þórunn Tómasdóttir fyrir atburði í Laugarneskirkju þar sem reynt var á kirkjugrið. Stóð þá til að vísa tveimur írökskum mönnum, Ali Nasir og Majed, úr landi en þeir biðu þá ásamt prestunum og fleirum í kirkjunni. Toshiki segir:

„Á þessum tíma voru margir frá Írak reknir úr landi. Ég og Kristín ræddum saman og ákváðum að við þyrftum að sýna hvar kirkjan stæði í þessum málefnum. Við vorum þá þegar með reglulegar bænastundir fyrir hælisleitendur, sem við köllum Seekers. En það vantaði meira beinar aðgerðir svo létum við reyna á þetta gamla hugtak, kirkjugrið, til að sýna fram á að við værum á móti brottvísun flóttafólks. Þetta voru samt friðsamleg mótmæli, við reyndum ekki að stöðva lögregluna með valdi.“

Áttuð þið von á því að þetta myndi takast?

„Já,“ segir Toshiki án þess að hika. „Ég vonaðist til þess að lögreglumennirnir myndu ræða við sína yfirmenn og fresta þessu í það minnsta.“

Það gekk hins vegar ekki eftir. Ali og Majed voru handteknir með mikilli hörku, leiddir út úr kirkjunni og þeir síðan fluttir til Noregs. Eftir það tók við óvissan, en Norðmenn hafa sent Íraka aftur til síns heimalands.

„Þetta var erfitt fyrir alla, líka lögreglumennina. Að þurfa að ganga inn í kirkju til að handtaka menn og leiða þá í burtu. En það var algerlega nauðsynlegt fyrir okkur að sýna fram á hvað væri að gerast í málefnum flóttamanna. Fram að þessu voru brottvísanir á næstum hverjum degi en enginn tók eftir þeim.“

Fékk hótunarbréf

Almennt séð er Toshiki ánægður með hvernig Íslendingar taka yfirhöfuð á móti innflytjendum. Það hafi einnig farið batnandi með hverju árinu. Þó sé alltaf ákveðin hópur sem streitist á móti, sérstaklega þegar um múslima er að ræða.

„Þegar ég flutti hingað voru Íslendingar mjög kröfuharðir á að útlendingar töluðu strax íslensku. Þegar ég var nýfluttur hingað og talaði ennþá aðeins ensku við fólk, sagði ónefndur starfsmaður Rauða krossins við mig að ef ég ætlaði að lifa á Íslandi yrði ég að tala íslensku. Hjá Ríkisútvarpinu var einnig við lýði hreintungustefna og enginn sem talaði bjagaða íslensku mátti koma í þætti. Ævar Kjartansson útvarpsmaður breytti þessu vísvitandi og bauð útlendingum í þætti til sín, til þess að fólk vendist því að heyra íslensku með hreim.“

Toshiki segir að svo margt hafi breyst varðandi tungumálið. Nú hafi hann meiri áhyggjur af íslenskunni. Unglingar eru farnir að tala ensku sín á milli og allt starfsfólk í búðum. „Við erum farin aðeins of langt fyrir minn smekk,“ segir hann og brosir glettnislega.

Hvað varðar útlendingahatara þá segist Toshiki ekki vera í miklum samskiptum við þá yfirhöfuð. Hann hafi þó fengið hótanir í bréfum í nokkur skipti, þar á meðal líflátshótun. Þó nokkuð sé síðan hann fékk bréf síðast.

„Ég verð mikið var við það að þetta fólk segir að flóttamenn taki peninga af fátækum Íslendingum og öryrkjum. Það er nokkuð stór hópur sem trúir þessu, en þetta á ekki við nokkur rök að styðjast. Fátækt þekktist hér á Íslandi löngu áður en flóttafólk fór að koma hingað og það er vel hægt að aðstoða alla þá sem eru í neyð. Það er enginn í neyð hér á landi vegna flóttafólks.“

Prestur innflytjenda
Séra Toshiki fagnar auknum stuðningi kirkjunnar við málaflokkinn.

Stuðningur kirkjunnar á Austurvelli

Hvað sitt starf varðar og afstöðu kirkjunnar er Toshiki hins vegar mjög bjartsýnn á framtíðina. Hann segir að eftir að Agnes Sigurðardóttir tók við sem biskup hafi hann notið meiri stuðnings en áður og sé auk þess í betri tengslum við aðra íslenska presta.

,,Á mánudaginn fyrir tveimur vikum, var áskorunarsamkoma haldin á Austurvelli, sem löggan tróð yfir flóttafólk á eftir. Þarna mættu nokkrir prestar í prestsskyrtum þar á meðal Agnes biskup til að sýna samstöðu kirkjunnar með fólkinu. Einnig var Dómkirkjan opin svo að þátttakendur í samkomunni kæmust í kirkju til að nota klósett, fá kaffi og hvílast aðeins. Þetta var hægt vegna þess sóknarpresturinn séra Sveinn Valgeirsson hafði góðan skilning á málinu. Ég held að þjóðkirkjan geti lagt sitt af mörkum í málefnum flóttamanna og verður að gera það. En kirkjan er komin einu eða tveimur skrefum framar en fyrir nokkrum árum,“ segir Toshiki.

„Ég er nýorðinn sextugur og fór að hugsa líf mitt upp á nýtt og forgangsraða. Ég á aðeins tíu ár eftir í mesta lagi. Þess vegna reyni ég að ná til yngri presta sem hafa áhuga á þessum málum. Best væri að vitund um málefni útlendinga væri svo útbreidd að það væri engin þörf á þessu embætti.“

Hvað gerir þú þegar þú ert ekki að vinna?

„Góð spurning. Áður fyrr samdi ég ljóð. En nú á ég ekkert tómstundagaman og er vinnualki,“ segir Toshiki og hlær er við kveðjum hann.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Frægt fólk í framboði – Skrautfjaðrir eða þarfir þegnar?

Frægt fólk í framboði – Skrautfjaðrir eða þarfir þegnar?
Fókus
Í gær

Bjarki Steinn: „Ég átti allt sem ég gat hugsað mér veraldlega en innra líf mitt var í molum“

Bjarki Steinn: „Ég átti allt sem ég gat hugsað mér veraldlega en innra líf mitt var í molum“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Drottning hrekkjavökunnar afhjúpar svakalegasta búninginn til þessa

Drottning hrekkjavökunnar afhjúpar svakalegasta búninginn til þessa
Fókus
Fyrir 4 dögum

Sonur Eyrúnar lést aðeins 18 ára af krabbameini – Hún tileinkar honum grein um netvináttu unglinga

Sonur Eyrúnar lést aðeins 18 ára af krabbameini – Hún tileinkar honum grein um netvináttu unglinga
Fókus
Fyrir 4 dögum

Jón Gnarr bregður sér í nýtt hlutverk í dag

Jón Gnarr bregður sér í nýtt hlutverk í dag
Fókus
Fyrir 5 dögum

„Af hverju er svona mikil leynd yfir þessu. Hvað er verið að fela?“

„Af hverju er svona mikil leynd yfir þessu. Hvað er verið að fela?“