fbpx
Mánudagur 23.desember 2024

Björgvin: „Eins og svo margir alkóhólistar hélt ég að ég hefði náði tökum á þessu“

Kristinn H. Guðnason
Fimmtudaginn 14. mars 2019 22:00

Björgvin Franz Sneri aftur í leikhúsið með hvelli.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Við hittum Björgvin Franz Gíslason fyrir í Borgarleikhúsinu. Stutt er í frumsýningu á söngleiknum Matthildi sem margir bíða með eftirvæntingu. Björgvin verður þar í stóru hlutverki, samhliða því að leika í Elly sem er nú komin yfir 200 sýningar.

Munt þú eitthvað hitta fjölskylduna á næstunni?

„Ég tek kannski á móti börnunum þegar þau koma úr skólanum en fyrir utan það verð ég í vinnunni,“ segir Björgvin kíminn. Það er létt yfir honum en jafnframt augljós spenna fyrir að fara að sýna annað stórt verk. Við settumst niður og ræddum saman um leiklistina, æskuna með ADHD, áfengisvandamálið á yngri árum og skammvinnt samstarf með Clint Eastwood.

Flókin æska

Björgvin Franz hefur aldrei formlega verið greindur með ADHD. En fagfólk sem þekkir til hefur sagt honum að enginn vafi leiki á að hann sé haldinn því, líkt og faðir hans og dóttir. Þetta kom fram hjá Björgvini strax á leikskólaaldri en þá var hugtakið ekki þekkt hér á landi.

„Leikskólakennararnir, ættingjar og vinir voru allir að reyna að komast að því hvað væri að mér,“ segir Björgvin og skellir upp úr. „Lífið gat verið flókið en ég fékk mikinn stuðning frá foreldrum mínum. Stór hluti af þessu er þráhyggja. Ég fékk til dæmis þráhyggju fyrir Rocky Horror um tíma. Á meðan aðrir strákar voru úti í fótbolta var ég að klæða mig í kjóla og korselett. Ég var alltaf að fara í eitthvert gervi. Leikskólakennararnir mínir mæltu eitt sinn með því að ég yrði sendur til sálfræðings. Þá var ég alltaf úti í horni, setti á mig húfu, sagði einhverja setningu og hnerraði svo húfunni af mér. Aftur og aftur og aftur. Kennararnir héldu að það væri eitthvað meiriháttar að, en þá var ég með þráhyggju fyrir að leika atriði með mömmu úr áramótaskaupinu frá 1981. Þar sem hún hnerraði af sér hárkollu. Sálfræðingurinn vissi heldur ekki hvað var að og greindi mig með óbilandi áhuga á leiklist,“ segir Björgvin og skellihlær. „Ég var líka með Tourette, eins og pabbi, endalausa kippi og búkhljóð. En ég óx upp úr því.“

Varstu erfiður krakki?

„Ég held það þó að mamma vilji ekki heyra á það minnst. Ég hitt eitt sinn konu á djamminu sem hafði unnið í sumarbúðum í Vatnaskógi þar sem ég var. Hún sagði: „Björgvin, þú varst svo leiðinlegt barn!“ Því ég hékk utan í starfsfólkinu og gat ekkert leikið mér með hinum börnunum fyrir allri minni þráhyggju. Frændfólk mitt hefur einnig sagt mér að ég hafi verið algjörlega óalandi og óferjandi, uppi um allt og úti um allt.“

Björgvin segist vera einn af þeim heppnu. Hann hafi aldrei þurft að fara á lyf við ADHD og hafi náð meiri ró með hjálp jóga og íhugunar. Hann sé hins vegar ennþá að kljást við þetta og fari oft fram úr sér. En að sama skapi sé þetta drífandi afl.

„Ég fæ einhverja hugmynd og framkvæmi hana samstundis, ég get ekki beðið. Hvort sem það er í leikhúsinu eða á heimilinu. Ég verð alltaf að laga allt strax. Oft kemur það fyrir að konan mín stoppar mig og segi mér að ég þurfi að hlusta,“ segir Björgvin og brosir. „Ég er líka ferlega þrjóskur og hika aldrei við áskoranir, sérstaklega ef þær eru á leiksviðinu. Þá er ég til í að gera hvað sem er.“

Hvernig eruð þið pabbi þinn saman, báðir með ADHD?

„Það er mjög skrautlegt mix og geta orðið árekstrar, sérstaklega þegar ég var yngri. Við áttum mjög góðar stundir og hann hefur alltaf stutt mig þegar ég hef farið í gervi og verið í karakter. Hann er eins og ég og meira að segja aðeins ýktari. Því lenti okkur stundum saman. En við erum mjög góðir vinir í dag.“

 

Edrú í 20 ár
Hætti að drekka eftir tvær áfengismeðferðir.

Tvisvar í meðferð

Þegar kom fram á unglingsárin breyttist Björgvin úr litlum taugaveikluðum strák í töffara. Hann gekk í Austurbæjarskóla, átti fjölda vina, skartaði síðu hári, sólgleraugum, rauðum kasmírjakka, Levi’s-gallabuxum og Harley Davidson-stígvélum. Snemma byrjaði hann að reykja og drekka.

„Ég sat stundum á skólalóðinni og reykti. Eitt sinn kom kennari út og skammaði mig fyrir að reykja ekki á réttum stað. Þá var sem sagt sérstakt horn þar sem börn máttu reykja!“

Varstu vandræðaunglingur?

„Nei, en ég fylgdi þeim eftir,“ segir Björgvin og skellihlær. „Ef þeir sprengdu upp klósett þá var ég rétt fyrir aftan og fyrstur til að hlaupa í burtu.“

Á yngri árum háði Björgvin sína baráttu við Bakkus. Áfengi varð snemma að vandamáli hjá honum en hann hætti að drekka aðeins 22 ára gamall, eftir tvær áfengismeðferðir.

„Ég heyrði einhvern Ameríkana segja: „First it was fun, then fun with problems, then problems.“ Þannig var þetta hjá mér. Tvisvar sinnum gerði ég tilraun til að hætta að drekka. Í fyrra skiptið áður en ég fór í leiklistarskólann árið 1996 en byrjaði aftur eftir þrjá mánuði. Eins og svo margir alkóhólistar hélt ég að ég hefði náði tökum á þessu. Þetta hefði einungis verið unglingavandamál sem eftir á að hyggja er svolítið fyndin ranghugmynd. Ég byrjaði á að drekka aðeins léttvín en ekki leið á löngu þar til að ég var kominn aftur í sterkt. Árið 1999 fór ég aftur í meðferð og varð edrú 14. apríl það ár. Ef ég held áfram því sem ég á að vera að gera fagna ég tuttugu ára edrúafmæli í vor.“

Björgvin segist hafa fengið mikinn stuðning frá foreldrum sínum á þessum tíma. Gísli hafði sjálfur gengið í gegnum þetta og Edda verið aðstandandi.

„Mamma fræddi mig mikið um þetta, sem hjálpaði mér mikið. Því ég skildi ekki af hverju ég gerði alla þessa hluti sem ég gerði. Mér fannst ég ekki vera ég og þetta var ekki það sem ég vildi standa fyrir. Hún sagði mér að þetta væri svolítið eins og að vera Dr. Jekyll og Mr. Hyde, en ég yrði samt að taka ábyrgð á gjörðum mínum og ég yrði að hreinsa upp skítinn.“

 

Náttúrulegt að leika konu

Það styttist í frumsýningu á söngleiknum Matthildi, sem byggður er á frægri barnabók Roalds Dahl. Söngleikurinn var frumfluttur í Bretlandi árið 2010 og hefur slegið í gegn á West End og Broadway. Gísli Rúnar þýddi verkið og Björgvin fékk hlutverk Karítasar Mínherfu, hinnar illu skólastýru.

Er erfitt að leika konu?

„Nei, þetta er mér mjög náttúrulegt. Ég byrjaði ferilinn sem transkona í leikritinu um hina þýsku Hedwig, fljótlega eftir útskrift. Hárkollan sem ég nota núna er meira að segja nákvæmlega eins greidd og sú sem ég var með í Hedwig. Þessi nýja er hins vegar grá en ekki hvít þannig að ég verð eins og kynskiptingurinn orðinn eldri,“ segir Björgvin og hlær dátt. „Það skiptir mig ekki máli hvort ég leik konur eða menn, en ég elska að fá að leika svona villtar persónur.“

Matthildur fjallar um stúlku sem þróar með sér ofurkrafta í baráttu sinni gegn ranglætinu í heiminum. Foreldrar hennar eru sinnulausir og því þarf hún að kenna sér sjálf lesa. Karítas Mínherfa er persóna sem þolir ekki hæfileika annarra og reynir að koma í veg fyrir að þeir fái að njóta þeirra. Beitir hún því allan bekkinn ofbeldi og einelti en Matthildur berst á móti með sanngirninni og réttlætinu.

Hefur þú leikið svona fól áður?

„Aldrei svona illmenni, nei. En mér finnst gaman að takast á við þetta. Margir leikarar segja að það sé langskemmtilegast að leika illmennin. Þau eru svo litríkar persónur.“

Þú hefur verið mikið í barnaefni og barnasýningum. Finnst þér það skemmtilegra en að sýna fyrir fullorðna?

„Ég verð nú að segja „bæði betra“ eins og í auglýsingunni. Það er mjög krefjandi að leika fyrir börn því að ef þeim leiðist fara þau að tala og gera eitthvað annað. Þú verður að halda athygli þeirra allan tímann. Fullorðið fólk er krefjandi líka en það felur betur það sem því líkar ekki. Mér finnst gott að blanda þessu saman.“

 

Spennandi hlutverk
Leikur vonda skólastýru í Matthildi.

Draumurinn að rætast núna

Það er ekki hægt að segja annað en að Björgvin Franz hafi snúið aftur í leikhúsið með hvelli eftir langt hlé. Í fjögur ár bjó fjölskyldan í Minnesota, var við nám og Björgvin sá ekki fyrir sér framtíð í leikhúsi. Til dæmis stofnaði hann kvikmyndaframleiðslufyrirtæki með félaga sínum, Óla Birni Finnssyni. Hafa þeir framleitt stuttar myndir fyrir Hafnarfjarðarbæ og ferðaþjónustufyrirtæki. Endurkoma hans í leikhúsið kom honum sjálfum hvað mest á óvart.

„Árið 2011 hafði ég starfað samfleytt í skemmtanabransanum í tíu ár. Í leikhúsinu, Stundinni okkar, veislustjórn, uppistandi og töfrum. Að kúpla sig út úr þessu um tíma var mjög hollt, bæði fyrir mig og fjölskylduna. Þegar ég svo steig aftur á sviðið í Elly hafði ég ekki verið í leikhúsi í tíu ár. Ég var búinn að gefa þann draum upp á bátinn, en ekkert í neinu fússi eða leiðindum. Síðan hringdi Gísli Örn í mig fyrirvaralaust og bauð mér að leika Ragga Bjarna og Villa Vill og ég ákvað að grípa gæsina.“

Björgvin ólst upp í nálægð við leikhúsið og hefur í gegnum tíðina unnið flest störf innan þess. Þegar hann gerðist loks leikari þurfti hann að vinna með þær væntingar og tilfinningar sem hann hafði gagnvart faginu. Í fyrstu stóðust þessar væntingar ekki að fullu og því tók hann sér ótímabundið hlé frá leikhúsinu.

„Núna finnst mér sem draumurinn sem ég hafði um leikhús sé að rætast. Allt sem mig langaði í er ég að fá núna. Eftir að ég var búinn að sleppa tökunum og hélt að ég væri ekkert að koma inn aftur. Ég fæ að takast á við æðisleg hlutverk, með æðislegu fólki og í æðislegu húsi og setja minn stimpil á. Ég fæ núna að vera leikari á mínum eigin forsendum.“

Björgvin segist passa sig á því að plana ekki ferilinn langt fram í tímann heldur vera opinn fyrir öllum tækifærum sem gefast. Hann hafi þó sýn og takmörk sem hann vilji enn ná, til dæmis í kvikmyndum.

 

Flags of Our Fathers
Björgvin lék stjaksettan hermann.

Stéttaskipting statistanna

Á sínum yngri árum fékk Björgvin þráhyggju fyrir Hollywood og þangað ætlaði hann til þess að verða stjarna. Það var ekki fyrr en hann fór út í nám sem hann hætti að hugsa um það. Björgvin hefur ekki leikið í mörgum kvikmyndum en hann á þó eina Hollywood-mynd á ferilskránni. Það er stríðsmyndin Flags of Our Fathers eftir Clint Eastwood sem var að hluta kvikmynduð á Íslandi. Björgvin var í statistahlutverki sem stjaksettur hermaður.

„Ég sést þarna í mýflugumynd en þetta tók tvo sólarhringa í tökum,“ segir Björgvin þegar hann rifjar upp þetta ævintýri. „Ég fékk sem sagt næstum því að upplifa það að vera Hollywood-stjarna. Ég fékk til að mynda  ekki aðstöðu í hjólhýsi með nafninu mínu á heldur lítið herbergi inni í hjólhýsi og á hurðinni var svona rifinn miði sem á stóð „impaled marine“ sem var sem sagt allur glamúrinn,“ segir Björgvin og hlær. En það var auðvitað alveg súrrealískt að taka þátt í þessu. Sviðsmyndin var risastór og kastarar úti um allt. Heilu gámarnir af gervivopnum og búningum. Ég átti eina setningu í myndinni: „Mama, he’s killing me!“ og það fór heill dagur í að læra ameríska hreiminn á henni.“

Það voru ekki aðeins Íslendingar sem voru fengnir í statistahlutverkin. Könum var flogið til Íslands til þess eins að deyja. „Þetta voru áhættuleikarar sem voru sérfræðingar í að deyja á flottan hátt og margir hverjir með langan feril að baki. Ég tók líka eftir skýrri stéttaskiptingu á meðal statistanna. Þar sem ég var með línu í myndinni fékk ég hlýja úlpu á milli taka á meðan þeir tallausu máttu þola kuldann,“ segir Björgvin og brosir.

Hápunkturinn var að sjálfsögðu að fá að hitta leikstjórann sjálfan, sem tökuliðið kallaði aldrei neitt annað en „the boss.“ Eastwood er mikill fullkomnunarsinni, vildi skoða allt og hitta alla. Þar á meðal hinn stjaksetta hermann.

„Ég gleymi þessu aldrei,“ segir Björgvin. „Hann sneri baki í mig og það var sterkur kastari yfir honum. Hann var hár og grannur með húfu á höfðinu. Þegar hann sneri sér svo við til að heilsa mér sá ég hor hangandi niður úr nösinni á honum. Mér var mjög létt og hugsaði: „Já! Dirty Harry er mannlegur.“ Hann var mjög almennilegur en hann var með sama svarið við öllu: „Nice.“ Ég sagði honum að kalla mig Franz þar sem Björgvin væri of flókið. Þegar kom að senunni minni kallaði hann mig svo Hans. En maður leiðréttir ekki Dirty Harry.“

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 11 klukkutímum

Sigríður segir Helga ekki geta verið vararíkissaksóknari þrátt fyrir úrskurð ráðherra – „Ber meiri keim af einelti en lögfræði“

Sigríður segir Helga ekki geta verið vararíkissaksóknari þrátt fyrir úrskurð ráðherra – „Ber meiri keim af einelti en lögfræði“
433Sport
Fyrir 11 klukkutímum

Fólk má ekki sofa á Mbappe – ,,Hef alltaf sagt það“

Fólk má ekki sofa á Mbappe – ,,Hef alltaf sagt það“
Eyjan
Fyrir 13 klukkutímum

Nýir ráðherrar hafa tekið við embættum – Myndir frá ríkisráðsfundi

Nýir ráðherrar hafa tekið við embættum – Myndir frá ríkisráðsfundi
433Sport
Fyrir 14 klukkutímum

Átti í engum erfiðleikum með að hafna Liverpool í sumar

Átti í engum erfiðleikum með að hafna Liverpool í sumar
Eyjan
Fyrir 16 klukkutímum

Segir stjórnarsáttmálann rýran og Flokkur fólksins hafi gefið mikið eftir

Segir stjórnarsáttmálann rýran og Flokkur fólksins hafi gefið mikið eftir
433Sport
Fyrir 16 klukkutímum

Arsenal fyrsta enska liðið til að afreka þetta

Arsenal fyrsta enska liðið til að afreka þetta