fbpx
Fimmtudagur 23.janúar 2025

Aron Leví var rangfeðraður í átján ár

Kristinn H. Guðnason
Þriðjudaginn 19. febrúar 2019 23:14

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þegar varaborgarfulltrúinn Aron Leví Beck var átján ára breyttist heimsmynd hans. Hann fór í faðernispróf og komst að því að maðurinn sem hann taldi vera föður sinn var það ekki. Á einu bretti eignaðist hann nýjan föður og sex hálfsystkini sem hann kynntist í jarðarför ömmu sinnar sem hann aldrei þekkti. DV ræddi við Aron um æskuna með ADHD, hið flókna fjölskyldumynstur, ástina og pólitíkina.

 

ADHD-krakki

Aron hefur alla tíð búið í Reykjavík en var alltaf með annan fótinn á Reyðarfirði þar sem hann á ömmu og afa. Fram að unglingsaldri bjó hann í Grafarvoginum og mjög snemma var hann greindur með ADHD. Móðir hans var leikskólakennari og sá snemma einkennin. Í áttunda eða níunda bekk flutti hann í Langholtið.

„Það var mjög gott fyrir mig sem krakki með ADHD að skipta um umhverfi því ég var fastur í ákveðnum ramma. Ég var ekki óþekkur en ákaflega ör og átti mjög erfitt með að halda athyglinni. Ef ég hafði ekki áhuga á einhverju fór ég að trufla aðra. Eftir að ég kom í unglingadeildina gekk mér vel í skóla og móðir mín á stóran þátt í því. Við gerðum samning um að ef ég næði þremur áttum í prófunum fengi ég bragðaref,“ segir Aron og brosir. „Það tókst alltaf.“

Á æskuárunum var Aron iðinn í íþróttum, æfði íshokkí og var markvörður í landsliðinu. Hann segir að það hafi einnig hjálpað honum. Hann fékk bæði útrás við að vera hluti af heild en einnig að vera mikið einsamall á svellinu.

„Ég fékk að vera einn míns liðs en í liði. Ég þurfti ekki að vera að gefa á aðra og átti erfiðara með að skilja leikkerfi þegar ég var lítill. Hausinn var úti um allt. Markverðir eru svolítið heilagir, það er eiginlega bannað að skamma þá en þeir geta orðið hetjur á vissum stundum.“

Hvernig voru unglingsárin?

„Ég var ekki vandræðaunglingur, en heldur ekki fyrirmyndardrengur. Ég var uppátækjasamur og það kom einu sinni fyrir að ég og félagar mínir vorum teknir á bíl áður en við höfðum aldur til. Löggan sá að ég var að keyra grunsamlega hægt. Eftir þetta var haldinn fjölskyldufundur.“

Aron fékk einnig snemma áhuga á tónlist. Hann spilaði á gítar, bassa og harmoniku. Seinna gekk hann til liðs við karlakórinn Fóstbræður.

Hvað langaði þig til að verða?

„Þegar ég var lítill vildi ég verða sjóræningi og var alltaf klæddur sem slíkur á öskudaginn. Þegar ég áttaði mig á því að það væri kannski ekki besti starfsvettvangurinn fór ég að fá áhuga á húsum og byggingariðnaðinum. Strax í unglingadeild byrjaði ég að handlanga í múrverki með pabba mínum. Síðan lærði ég húsamálun og eftir það byggingafræði í Háskólanum í Reykjavík.“

 

Átján ára í faðernispróf

Aron ólst ekki upp hjá föður sínum. Foreldrar hans höfðu verið kærustupar þangað til Aron var um eins árs gamall. Eftir það tók hún saman við stjúpföður Arons en Aron var í góðu, en stundum rysjóttu, sambandi við föður sinn og tvo yngri hálfbræður. Sambandið jókst á unglingsárunum þegar Aron starfaði með föður sínum. En einn dag í matartímanum gjörbreyttist allt þegar faðir Arons bað hann að fara í faðernispróf.

„Þetta kom eins og þruma úr heiðskíru lofti,“ segir Aron. „Ég hafði ekki einu sinni heyrt þetta orð. Þegar ég kom heim hafði mamma heyrt af þessu og var svolítið stressuð. Ég spurði hana hvort hann væri örugglega pabbi minn og hún sagðist vera 99,9 prósent viss. Við ákváðum þá að fara í prófið.“

Niðurstaðan var sú að Aron og faðir hans, eða sá sem hann hélt að væri faðir hans, voru ekki mikið skyldir.

„Ég spurði mömmu þá hvort hún vissi hver væri hinn rétti og hún sagðist hafa einn í huga.“

Veistu af hverju þetta kom upp á þessum tíma?

„Ég held að það hafi verið af því að ég var orðinn átján ára. Mögulega hafði pabba alltaf grunað þetta, en viljað klára sitt og ekki hlaupa frá. Það fannst mér svolítið sárt að hugsa um, að baklandið segði manni ekki allt.“

Kom þá í ljós að faðir Arons var Rúnar Þór Pétursson tónlistarmaður og líkindi þeirra leyndu sér ekki. Aron vissi þá ekki hver hann var en þekkti sum lögin þegar hann fór að kynna sér nýja pabbann.

„Þetta sagði mér á einhvern hátt að mamma hefði alltaf vitað þetta og það voru auðvitað blendnar tilfinningar í spilinu. Auðvitað voru þetta mikil viðbrigði. Ég eignaðist þarna sex ný systkini á einu bretti. En það var mjög gaman að hitta og kynnast öllu þessu fólki.“

 

Rúnar Þór
Tónlistarmaður um áratuga skeið.

Kynntist fjölskyldunni í jarðarför ömmu

Þegar Aron hringdi í Rúnar fékk hann að vita að amma hans væri nýlátin og jarðarförin yrði haldin brátt. Niðurstöðurnar úr þeirra faðernisprófi voru hins vegar ekki komnar.

„Hann sagði að ég þyrfti ekki að mæta. Kannski kæmi neikvætt út úr prófinu og ég yrði þarna staddur í jarðarför ókunnugra á mjög skrýtnum forsendum,“ segir Aron kíminn. „En ég sagði honum að ég myndi mæta. Ef prófið yrði jákvætt myndi ég ekki vilja missa af jarðarför ömmu minnar. Ég sé svo sannarlega ekki eftir því að hafa mætt.“

Hvernig leið þér í jarðarförinni?

„Þetta var svolítið skrýtið. Ég var þarna að hitta pabba, systkini mín og alla þessa ætt í fyrsta skipti. Ég hafði reyndar áður talað við eina systur mína sem er jafn gömul og ég og var því mestmegnis með henni í athöfninni. Allir vissu að ég myndi mæta og í erfidrykkjunni talaði ég við fólkið.“

Finnst þér leitt að hafa ekki kynnst henni?

„Já, en mér finnst verra að hafa ekki vitað af systkinum mínum, sem eru mörg nálægt mér í aldri. Að sama skapi ef ég hefði alltaf vitað þetta hefði ég aldrei kynnst hinum hálfbræðrum mínum. Það eru flóknar tilfinningar í spilinu og snýst ekki einungis um mig. Þegar ég var lítill fannst mér pabbi alltaf sterkastur og bestur og litlu bræður mínir litu upp til mín.“

Hefur samband ykkar breyst?

„Já. Þegar þetta kom upp hétum við pabbi því að þetta myndi ekki hafa áhrif á okkar samband. En þetta hefur áhrif, bæði á mig og hálfbræður mína. Ég finn samt ekkert nema ást og hlýju gagnvart þeim.“

Aron á einnig systkini sammæðra og önnur uppeldissystkini. Hann stóð því uppi með þrjá feður og systkinafjölda sem hann hefur varla tölu á. „Þau eru eitthvað um tíu,“ segir hann og brosir.

Gengur alltaf vel að útskýra þetta?

„Ekki alltaf. Það tekur alltaf tíma og fer eftir því hversu móttækilegur viðmælandinn er.“

Hvað varðar nýju fjölskylduna þá segir Aron að honum hafi verið tekið opnum örmum.

 

Barn á leiðinni
Ómar Elí, Aron og Karitas fagna.

Ástin og nýtt hlutverk

Aron er í sambúð með söngkonunni Karitas Hörpu Davíðsdóttur. Hún skaust upp á stjörnuhimininn þegar hún sigraði í keppninni The Voice á Stöð 2, hefur síðan tekið þátt í Söngvakeppni Sjónvarpsins með Fókus-hópnum og stýrir nú Popplandi á Rás 2. Þau eiga nú von á barni saman en fyrir á hún son.

„Við kynntumst á Tinder fyrir nokkrum árum en þá bjó hún á Selfossi. Ég var einnig að stíga mín fyrstu skref í pólitík á þeim tíma, dagskráin var þétt og ég ekki með hugann við þetta. Síðan þá höfum við alltaf vitað af hvort öðru og verið vinir. Síðar meir fórum við að hittast meir og meir og þá small þetta.“

Þannig að ástin þróaðist frekar en að þetta væri ást við fyrstu sýn?

„Eiginlega, en ég var samt mjög skotinn í henni,“ segir Aron og brosir. „Við höfum bæði áhuga á tónlist og viljum skapa. Við erum bæði með okkar tímafreku hobbí, ef svo má segja, sem er tónlistin hjá henni og pólitíkin hjá mér. Við erum bæði auk þess í dagvinnu en styðjum hvort annað í því sem við viljum gera.“

Hvernig gekk að ganga inn í stjúpföðurhlutverkið?

„Þetta var örlítið erfitt til að byrja með fyrir okkur þrjú og við þurftum tíma til að aðlagast. Þetta var í fyrsta skiptið sem ég tek að mér þetta hlutverk og fyrir hann var skrýtið að sjá allt í einu einhvern karl kominn inn á heimilið. En þetta hefur gengið mjög vel, við erum góðir vinir og mér þykir rosalega vænt um hann. Hann á mjög góðan pabba sem hann er í góðum samskiptum við.“

Fyrir áramót var greint frá því að nýtt barn væri á leiðinni í vor hjá Aroni og Karitas. Karlaveldið mun þá vaxa enn frekar hjá fjölskyldunni.

„Við hlökkum auðvitað til en erum að sama skapi róleg yfir þessu. Karitas hefur gert þetta áður og allt gengið vel. Það getur verið að maður fari allur í keng og panikk þegar á hólminn er komið.“

 

Framtíð í stjórnmálum

Aron er formaður Ungra jafnaðarmanna í Reykjavík og var kjörinn varaborgarfulltrúi í sveitarstjórnarkosningunum í fyrravor. Hann segir að áhuginn á stjórnmálum hafi kviknað á háskólaárunum og út frá bygginga- og skipulagsfræðunum.

„Ég hef alltaf borið jafnaðarmennskuna fyrir brjósti en varð ekki yfirlýstur jafnaðarmaður fyrr en seint. Ég trúi því að saman byggjum við gott samfélag og að allir eigi að fá sömu tækifærin. Umburðarlyndi gagnvart öllum skiptir mig miklu máli.“

Aron er í fullu starfi sem byggingafræðingur hjá arkitektastofu en auk þess starfar hann í ráðum og nefndum hjá borginni. Innan borgarkerfisins hefur hann aðallega fengist við skipulagsmál og menningarmál. Einnig aðgengismál fatlaðra.

Stefnir þú á að gera stjórnmálin að langtímastarfi?

„Ekki spurning,“ segir Aron án þess að hika. „Að sama skapi hef ég ástríðu fyrir því sem ég er að gera í vinnunni líka og er því ekkert að drífa mig. Það er draumurinn að gera stjórnmálin að fullu starfi en ég hef ástríðu fyrir minni faggrein svo ég nýt þess að geta tvinnað þetta saman núna.“

Skipulagsmálin brenna hvað heitast á Aroni en einnig almenningssamgöngur.

Þetta eru mjög mikil hitamál þessa dagana og meirihlutinn verið gagnrýndur harkalega. Til dæmis vegna braggamálsins og útilistaverksins Pálmatré.

„Þetta getur tekið á. En að sama skapi hef ég mikla trú á þeim málum sem ég stend fyrir. Maður er aldrei sammála öllum ákvörðunum sem teknar eru, en stóra myndin er mjög skýr. Það er mikil samstaða í meirihlutanum og almennt lítið af stórum ágreiningsmálum.“

Hefur almannafé verið notað á skynsamlegan hátt?

„Já, en mál eru oft blásin upp. Til dæmis hvað varðar braggann, því fer fjarri að hann sé fyrsta verkefnið sem fer fram úr áætlun á Íslandi. Mér finnst oft að minnihlutinn, sem hefur hvað hæst, hafi engan áhuga á borgarmálunum sjálfum. Þau hugsi aðeins um að sprengja meirihlutann upp og komast sjálf að. Í stað þess að koma málefnalega fram og ræða saman. Þetta getur verið lýjandi og tafið verkefni.“

Reykjavík hefur verið að byggjast mjög hratt upp eins og við sjáum hér í miðborginni. Er þetta að gerast of hratt?

„Nei, ég tel ekki svo vera. Breytingin núna er að við erum að byggja inn á við en ekki alltaf ný og ný úthverfi. Þetta gerir það að verkum að þjónustan verður betri og hagkvæmari. Í dreifðri byggð er til dæmis ómögulegt að halda uppi almennilegu samgöngukerfi þar sem þéttleikinn er svo lítill. Strætisvagnar þurfa að keyra langt og það þarf að malbika allar göturnar. Við þéttingu byggðar er auðveldara að halda öllum innviðum í lagi. Það er ennþá margt eftir óunnið og það þarf að þétta byggðina enn frekar í úthverfunum. Til dæmis í Grafarvogi sem hefur ekki verið að endurnýja sig. Þar þurfti til dæmis að loka unglingadeildinni í Hamraskóla og færa krakkana yfir í Foldaskóla af því að þeir voru svo fáir.“

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Fyrir 8 klukkutímum

Sofia var aðeins 24 klukkustunda gömul þegar henni var rænt af fæðingardeildinni

Sofia var aðeins 24 klukkustunda gömul þegar henni var rænt af fæðingardeildinni
433Sport
Fyrir 8 klukkutímum

Zaha búinn að skrifa undir

Zaha búinn að skrifa undir
433Sport
Fyrir 10 klukkutímum

Hvað þýða nýjustu tíðindin fyrir Garnacho?

Hvað þýða nýjustu tíðindin fyrir Garnacho?
Fréttir
Fyrir 10 klukkutímum

Costco í hart við Olíudreifingu – Krefjast tugmilljóna króna

Costco í hart við Olíudreifingu – Krefjast tugmilljóna króna
433Sport
Fyrir 12 klukkutímum

Lánaður til nýliðanna

Lánaður til nýliðanna
433Sport
Fyrir 12 klukkutímum

Diljá Mist leggur til að þetta verði bannað hér á landi – „Hvetja börnin sín áfram milli þess sem liðið gúffar í sig sérlega óhollum veitingum“

Diljá Mist leggur til að þetta verði bannað hér á landi – „Hvetja börnin sín áfram milli þess sem liðið gúffar í sig sérlega óhollum veitingum“
Fréttir
Fyrir 14 klukkutímum

Morðið í Breiðholti – Stakk móður sína að minnsta kosti 22 sinnum með hnífi

Morðið í Breiðholti – Stakk móður sína að minnsta kosti 22 sinnum með hnífi
433Sport
Fyrir 14 klukkutímum

Solskjær spurður út í tvo leikmenn United – Gaf skýr svör

Solskjær spurður út í tvo leikmenn United – Gaf skýr svör