fbpx
Mánudagur 06.janúar 2025
Fókus

Þrándur hefur varla undan að mála

Kristinn H. Guðnason
Þriðjudaginn 8. janúar 2019 21:00

Þrándur Þórarinsson Hið gamla og nýja takast á.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þrándur Þórarinsson hefur haslað sér völl sem umtalaðasti listmálari þjóðarinnar. Hann rær gegn straumnum og málar verk í anda gömlu meistaranna, en er óhræddur við að skeyta nútímanum inn í. Útkoman getur verið allt í senn falleg, undarleg, stuðandi og bráðfyndin. DV ræddi við Þránd um æskuna, einmanaleikann, frægðina, hina árlegu höfnun um listamannalaun og fleira.

Á vinnustofu Þrándar við Nýlendugötu er nýtt verk í fæðingu. Stórt og ógnvænlegt verk af frelsisstyttunni sem tengist stöðu Íslands í Atlantshafsbandalaginu. Meistarinn segist eiga eftir að laga það til og setja meiri húmor í það.

Eru einhver verk sem þú byrjar á en verða aldrei fullvaxta?

„Já, það kemur fyrir að ég missi trúna á verkum. Verk sem ég er kannski búinn að vera að hamast á í einhvern tíma en svo verða þau ekki eins og ég vildi.“

Þrándur sækir tvær gulleitar myndir af Reykjavíkurtjörn. Önnur þeirra fæddist aldrei en hin yngri er stærri og gerð á betri striga. Þrándur deilir húsnæði með öðrum listamönnum, í húsnæði þar sem Royalbúðingarnir voru áður framleiddir. Tækin eru þarna enn innan um listmuni af ýmsum toga.

 

Hefur varla undan
Nýjasta verkið í mótun.

Teiknaði með Hugleiki frænda

Þú ert að norðan, er það ekki?

„Jú, í aðra röndina. Norðmaður í hina. Pabbi er úr Svarfaðardalnum og mamma frá Noregi. Ég fæddist á Akureyri og ólst þar upp að hluta til. Annars vorum við að flakka mikið milli Íslands og Noregs, við og systur mínar tvær.“

Faðir Þrándar er sagnfræðingur að mennt og starfaði við stálplötusmíði. Móðir hans þýddi fyrir norsku lögregluna.

„Ég var mikið rólyndisbarn og alltaf að teikna og dunda mér, vel upp alinn og þægilegur strákur,“ segir Þrándur. „Það var lítið um vandræði á mér. Teikningin átti hug minn allan og ég var aldrei í neinum íþróttum. Ég átti einnig ýmis lúðaáhugamál eins og hlutverkaspil. Ég lék mér meira og minna við frændur mína og við vorum allir að teikna.“

Einn þessara frænda er Hugleikur Dagsson skopmyndateiknari sem er ári eldri en Þrándur.

„Við teiknuðum mikið saman. Stundum bjuggum við hvor í sínu landinu og þegar við hittumst bárum við saman teikningarnar okkar. Ég held að áhuginn hafi sprottið frá þessum stundum. Snemma áttaði ég mig hins vegar á því að við Hugleikur myndum stefna hvor í sína áttina á þessu sviði.“

Þrándur segist hafa tekið þá ákvörðun að verða listmálari á menntaskólaárunum. Hann var þá á myndlistarbraut við Menntaskólann á Akureyri.

„Það var hátíðleg stund þegar ég ákvað að leggja þetta fyrir mig. Ég hafði alltaf teiknað en byrjaði að mála á þessum árum. Ég sá fyrir mér að þetta væri það eina sem ég vildi gera. En ég gerði mér grein fyrir því að þetta væri ekki auðveldasta leiðin. Það væri miklu hagkvæmara að fara í grafíska hönnun eða eitthvað þvíumlíkt.“

Á Akureyri umgekkst Þrándur annað listafólk og bóhemana á Kaffi Karólínu. Síðan lá leið hans í Listaháskólann en þar var hann einungis í eitt ár. Þrándur hafði þá strax mun meiri áhuga á eldri stíl en almennt tíðkaðist innan skólans.

„Það var engin stemning fyrir því sem ég var að gera. Kennararnir sýndu þessu lítinn skilning og sögðu mér að ég yrði að læra þennan fígúratífa stíl heima. Eina myndlistin sem var kennd þar var hugmyndalist, konseptlist. Það sem ég vildi gera var alveg á skjön við það sem var verið að kenna. Ég vildi mála eins og gömlu meistararnir.“

 

Hélt að Odd væri fullur við fyrstu kynni

Þrándur leit til meistara á borð við Rembrandt, Goya og yngri málara eins og Lucian Freud, Andrew Wyeth og Odd Nerdrum. Lá hann yfir listaverkabókum þeirra á námsárum sínum. Menntun sína sótti Þrándur til sjálfs Nerdrum á meðan hann bjó hér á landi og var lærlingur málarans sérvitra í þrjú ár.

„Ég frétti að hann væri fluttur til Íslands og fannst upplagt að athuga hvort hann vildi taka við lærlingi eins og mér. Fyrir tilviljun sá ég hann á rölti á Laugaveginum og elti hann inn á Súfistann. Hann tók vel í þetta og sagði mér að banka upp á hjá honum daginn eftir. Odd er einn skemmtilegasti karl sem ég hef kynnst. Hann er einstaklega sérvitur og skrýtinn. En ástmildur líka og fjölfróður. Svo talar hann út í eitt eins og það skipti ekki máli hvort einhver sé að hlusta. Í fyrsta skiptið sem ég hitti hann hélt ég að hann væri fullur.“

Áttu honum mikið að þakka?

„Já, bæði faglega og síðan sagði hann mér svo margt sem fékk mig til að hugsa. Hann sér hlutina í svo allt öðru ljósi en aðrir sem hef kynnst. Ég er ekki viss um að það séu margir í mínu lífi sem hafa haft meiri áhrif á mig en hann.“

Odd Nerdrum hefur lýst sjálfum sem sem kitsch-málara og síðan þá hefur eins konar hreyfing myndast í kringum hann. Í kitsch felst afturhvarf til gömlu meistaranna og gagnrýni á nýrri listastefnur. Þrándur skilgreinir sig sjálfan hins vegar ekki sem kitsch-listamann.

„Ég get ekki alveg lagt mið að þessari stefnu. Ég skil þessa hugmyndafræði og styð hana að einhverju leyti. Mér finnst hún samt sníða fólki örlítið of þröngan stakk. Odd sjálfur var orðinn svo leiður á allri gagnrýninni sem hann fékk að hann bjó til þessa hreyfingu sem stendur fyrir utan myndlistaheiminn.“

Umtalaður
Nábrók Bjarna og Klausturfokk komust í fréttirnar á liðnu ári.

Erfiðara að stuða fólk í dag

Þrándur vakti fyrst athygli landsmanna með hinu óhugnanlega verki Grýla fyrir um áratug. Eftir það hefur hann notið sívaxandi vinsælda og nú rjúka verkin út, stundum áður en hann nær að klára þau.

Hvað er það við þennan gamla stíl sem heillar fólk?

„Eflaust er það misjafnt. Ég fæ oft að að heyra um mig að loksins máli einhver myndir sem fólk skilur. Þetta er aðgengilegt form. Svo finnst fólki þetta sjálfsagt fallegt líka,“ segir Þrándur og brosir út í annað. „Undanfarin ár hef ég verið að taka nútímann inn í verkin og ég held að fólki kunni að meta það.“

Sum verk þín stuða fólk, til dæmis Nábrók Bjarna Benediktssonar og Klausturfokk. Ertu markvisst að reyna að stuða?

„Mér finnst gaman að stuða, en er ekki markvisst að reyna það á daglegum grunni. Jú, jú, ég vissi að Klausturfokkið myndi stuða einhverja en ég reyni að hafa þetta fyndið líka. Ég hef samt verið passasamur að grípa málefni líðandi stundar ef þetta reynast vera dægurflugur. Bæði er ég svo lengi með hvert verk og svo vil ég að verkin geti staðist tímans tönn. Að fólk geti skilið þetta eftir tvö eða jafnvel tíu ár. Ég gerði undantekningu fyrir þetta Klaustursmál, það var of gott til að gera það ekki.“

Þrándur segist aldrei hafa lent í reiðu fólki vegna verka sinna. Hann hefur hins vegar lent í því að vera úthýst af  listsýningu vegna Nábrókarinnar og þá var verkið Norwegian Wood fjarlægt af Facebook fyrir að sýna karlmannslim.

„Ég hef gaman af því að sjá fólk röfla í kommentakerfunum. Þar sé ég að fólk getur verið ósátt við sum verkin mín. Hingað til hefur enginn angrað mig prívat og persónulega en það kemur eflaust að því. Ég hef gaman af því þegar fólk hefur sterkar skoðanir á list en það er miklu minna en var. Í dag verða sjaldan deilur um listaverk. Listamenn kvarta meira að segja yfir því að það megi allt í dag og það sé erfiðara að stuða. Fólki standi almennt á sama.“

Hvað finnst þér um abstrakt og nútímalist?

„Hún getur verið falleg og dekoratíf en á ekki jafn greiða leið að mínu hjarta og hin fígúratífa. Mér finnst líka áhugaverð þessi saga, í mannfræðilegum skilningi. Að eftir að þessi formbylting átti sér stað upp úr stríðsárunum var þeim sem ekki vildu taka þátt úthýst úr myndlistarheiminum.“

 

Fær ekki listamannalaun

Efniviðurinn sem Þrándur sækir í við sköpun sína eru sögulegir viðburðir og persónur, þjóðsögur, nútíminn og fleira. Hann segist lítið blanda eigin persónu inn í verkin.

„Ég nota mitt eigið smetti svolítið mikið sem módel. En ég hef ekki verið að vinna úr mínum málum á striganum, nema þá mjög óbeint. Mér finnst það ekki eins áhugavert. Auðvitað hafa margir málarar gert það með mjög góðum árangri. Ef ég geri það þá blasir það ekki beint við áhorfandanum.“

Hvað ertu ánægðastur með?

„Þau verk sem ég er að vinna að núna. Ég held til dæmis að þessi frelsisstyttumynd fyrir framan okkur verði býsna góð þegar hún verður fullgerð. Þegar ég verð búinn að setja smá Hollywood og húmor í hana.“

En mestu vonbrigðin?

„Það eru nú alltaf stöðug vonbrigði þegar ég sæki um listamannalaun. Árleg vonbrigði. Eins þegar ég sæki um að halda sýningar á opinberum vettvangi. Þá kemur alltaf synjun.“

Ertu utangarðs í listaheiminum?

„Ég get nú ekki sagt það, nei. Mér líður ekki þannig og mér gengur svo afskaplega vel að ég vil alls ekki kvarta. Þegar kemur að öðrum listamönnum upplifi ég ekkert annað en gagnkvæma virðingu. Ég veit ekki af hverju ég er ekki í náðinni hjá þeim sem útdeila þessu.“

 

Vinnustofan
Líf listmálarans getur verið einmanalegt.

Dýrasta verkið á tæpar tvær milljónir

Fá, ef nokkur, störf virðast vera jafn einmanaleg og starf listmálarans. Að vera klukkutímum saman einn í herbergi með pensil og striga. Eða að standa einsamall úti og mæna á fjall eða fljót. Þrándur tekur undir þetta.

„Mér finnst voða gott að vera einn með sjálfum mér. En ég fæ oft kofaveiki hérna á vinnustofunni þegar ég er búinn að vera hérna allt of lengi. Þá fer ég út og hitti fólk. Ég er félagsvera eins og allir aðrir. En ég eyði meiri tíma með sjálfum mér heldur en Jón og Gunna gera.“

Þrándur býr með sjö ára dóttur sinni hálft árið en hinn helminginn er hún hjá móður sinni í Danmörku. Utan vinnutíma sækir hann gjarnan menningarviðburði af ýmsum toga. Hann tók þátt í göngum á síðasta ári og stefnir að því að stunda meiri útivist á þessu.

Hefur þú alltaf getað lifað á listinni?

„Ekki alltaf, nei. Eftir fyrstu einkasýninguna mína árið 2008 sagði ég upp vinnunni minni. En síðan elti ég barnsmóður mína út til Kaupmannahafnar árið 2012 og kláraði þar mastersnám í heimspeki. Eftir að ég sneri heim árið 2015 fór þetta að ganga og ég hef lifað á þessu síðan þá.“

Vinsældir Þrándar hér heima hafa hvatt hann til að hasla sér völl á erlendri grundu. Hann hélt sýningu í Kaupmannahöfn síðasta sumar þar sem seldist töluvert af verkum. Markmiðið hjá honum núna er að halda áfram að kynna sig erlendis.

„Það er samt svolítið erfitt því að það selst eiginlega allt upp hérna jafnóðum. En ég þarf að hugsa um að setja egg í fleiri en eina körfu.“

Hefur þú ekki undan að framleiða?

„Nei, eiginlega ekki. Ég fæ mikið af tölvupósti frá fólki sem er að biðja um myndir og ég er farinn að þurfa að vísa mörgum frá. Flestar myndir eru fljótar að fara, nema að þær séu þeim mun meira stuðandi. Ég er alveg hættur að taka við pöntunum á ákveðnum myndum til að mála, nema það sé eitthvað alveg sérstakt.“

Enn sem komið er hefur Þrándur aðeins selt til einstaklinga og para. Engin fyrirtæki eða stofnanir hafa keypt af honum.

Hvert er dýrasta verkið þitt?

„Kristnitakan, sem ég málaði árið 2009, seldist á uppboði á 1,9 milljónir. Það var hins vegar ekki ég sjálfur sem seldi það. Ég sjálfur hef ekki ennþá selt fyrir milljón en það fer að nálgast það. Þrjú til fimm hundruð þúsund er algengasta verðið.“

Verður þú var við mikið snobb í kringum þennan bransa?

„Já, ég verð að segja það. Ég tek líka eftir því að það er byrjað að snobba svolítið fyrir mér. Ég finn að það er orðið nokkurs konar stöðutákn að eiga Þrándarmynd. Sjálfur snobba ég sjálfur fyrir hinu og þessu,“ segir Þrándur og brosir.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Fer í gegnum síma eiginmannsins á hverju kvöldi og skammast sín ekkert fyrir það

Fer í gegnum síma eiginmannsins á hverju kvöldi og skammast sín ekkert fyrir það
Fókus
Fyrir 2 dögum

Boða grundvallarbreytingar á Söngvakeppninni – Ekkert einvígi og alþjóðleg dómnefnd

Boða grundvallarbreytingar á Söngvakeppninni – Ekkert einvígi og alþjóðleg dómnefnd
Fókus
Fyrir 3 dögum

Segir að „flensubomban“ geti gert kraftaverk í veikindum – Svona er uppskriftin

Segir að „flensubomban“ geti gert kraftaverk í veikindum – Svona er uppskriftin
Fókus
Fyrir 3 dögum

„Það er gaman að sjá þessa konu við hliðina á honum, sem er styrkurinn hans og ýtir honum út fyrir þægindarammann“

„Það er gaman að sjá þessa konu við hliðina á honum, sem er styrkurinn hans og ýtir honum út fyrir þægindarammann“
Fókus
Fyrir 5 dögum

Vinsælustu heyrnartólin á skrifstofuna 2024

Vinsælustu heyrnartólin á skrifstofuna 2024
Fókus
Fyrir 5 dögum

Málin sem vöktu mesta athygli á árinu á Fókus – Afmælisferð sem breyttist í martröð, strákarifrildi og hættur Tenerife

Málin sem vöktu mesta athygli á árinu á Fókus – Afmælisferð sem breyttist í martröð, strákarifrildi og hættur Tenerife