Eggert Skúlason, sjónvarpsmaður og fyrrverandi ritstjóri DV, hefur undanfarna mánuði staðið í ströngu við upptöku veiðiþáttanna Sporðakasta sem sýndir verða á næsta ári. Tekur Eggert þar með upp þráðinn frá því fyrir tuttugu árum þegar samnefndir þættir hans slógu í gegn hjá veiðimönnum.
Verkefnið er Eggerti afar kært enda er hann annálaður áhugamaður um hvers konar veiði. Sonur Eggerts, Hafþór Eggertsson, er hæfileikaríkur húðflúrlistamaður og því fékk Eggert hann til þess að flúra á sig heiti verkefnisins. Hann deildi afrakstrinum með Facebook-vinum sínum á dögunum. „Eitt skemmtilegasta ár sem ég hef átt lengi,“ sagði sjónvarpsmaðurinn.