fbpx
Mánudagur 06.janúar 2025
Fókus

Eyjólfur rifjar upp ferilinn: Jón Ólafs rauk út af sviðinu

Kristinn H. Guðnason
Laugardaginn 8. september 2018 09:00

Ljósmynd: DV/Hanna

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Eyjólfur Kristjánsson, eða Eyfi eins og hann er gjarnan kallaður, var ein skærasta tónlistarstjarna Íslands á níunda og tíunda áratugnum þegar hann lék með Bítlavinafélaginu og söng fyrir Íslands hönd í Eurovision. Hann stendur núna á tímamótum og heldur stórtónleika Háskólabíói. Eyjólfur ræddi við DV um ferilinn, dekur í æsku, frægðina sem fór úr böndunum og gjaldþrotið í kjölfar bankahrunsins.

Þetta er brot úr stóru viðtali í helgarblaði DV.

Jón rauk af sviðinu

Eyjólfur á margar minningar frá þessum tíma og kann sögur af skrautlegum uppákomum. Ein sú minnisstæðasta gerðist á balli hjá Bítlavinafélaginu. Hann segir:

„Á fyrstu verslunarmannahelginni sem Bítlavinafélagið spilaði vorum við í Skeljavík á Ströndum. Þá var brunagaddur og hafís í Steingrímsfirðinum. Við urðum að spila í dúnúlpum og gátum varla hreyft fingurna á gítarhálsinum.“

Annað ball hljómsveitarinnar var ekki síður eftirminnilegt.

„Við vorum allir með kærusturnar með okkur á einu ballinu. Þegar við vorum að flytja eitt lagið taldi Jón sig sjá kærustuna sína vera að kyssa einhvern gæja á dansgólfinu. Hann varð helvíti fúll en hélt áfram að spila. Þegar lagið var búið gekk hann frá hljómborðinu, rauk út á gólf og óð í parið en þá var þetta allt önnur kona sem svo óheppilega vildi til að var í alveg eins fatnaði og kærasta Jóns. Kærastan hans beið bak við sviðið í rólegheitunum,“ segir Eyjólfur og hlær. „Við hinir horfðum gáttaður á þetta gerast.“

 

Hafnaði ávallt tilboðum erlendis frá

Flestir myndu segja að stærsta stund Eyjólfs á ferlinum hafi verið þegar hann og Stefán Hilmarsson fluttu Draum um Nínu í Eurovision í Ítalíu árið 1991. Eyjólfur hefur margoft tekið þátt í Söngvakeppni Sjónvarpsins og er einn af þeim höfundum sem tóku þátt í fyrstu keppninni. Árið 1988 söng hann tvö lög í keppninni sem höfnuðu í öðru og þriðja sæti.

„Árið 1989 flutti Bítlavinafélagið lagið Alpatvist eftir Geirmund Valtýsson í keppninni. Einn mjög góður vinur minn sagði mér fyrir keppnina að ef lagið myndi vinna þá myndi hann afsala sér íslenskum ríkisborgararétti,“ segir Eyfi kíminn.

Vinningslagið, Draumur um Nínu, var fyrsta lagið sem Eyjólfur samdi sérstaklega fyrir keppnina og hafði Stefán í huga sem mótsöngvara. Stefán var nú nokkuð tregur til þar sem hann var kominn á kaf í Sálina hans Jóns míns á þessum tíma en lét til leiðast.

Stefán og Eyfi fluttu lagið í Cinecitta-kvikmyndaverinu þar sem Eurovision-keppnin var haldin. Þar voru spaghettívestrarnir teknir upp á sínum tíma og uppi héngu stórar myndir af Clint Eastwood og leikstjóranum Sergio Leone. Eyjólfur valdi hópinn sjálfur og segist aðeins hafa tekið skemmtilegasta fólkið með sér, það er sem gat haldið lagi, Evu Ásrúnu, Ernu Þórarinsdóttur, Richard Scobie og Jón Ólafsson.

„Á þeim tíma var allt flutt á staðnum en ekki spilað af bandi eins og í dag. Jón fékk það hlutverk að útsetja lagið fyrir áttatíu manna hljómsveit. Þetta voru fýldir klassískir gæjar sem höfðu ekki gaman af því að spila popp en Jón var eini stjórnandinn sem fékk þá til að brosa. Alltaf þegar hann bauð þeim góðan dag fyrir æfingar þá sagði hann ekki bon giorno heldur bon pornó og gömlu karlarnir á fiðlunum skelltu upp úr,“ segir Eyjólfur og brosir breitt.

Varstu stressaður fyrir útsendinguna?

„Nei, ég var ekki stressaður. Við æfðum svo rosalega vel áður við fórum út að við hefðum getað flutt lagið sofandi. Þegar ég horfi á þetta í dag á Youtube sé ég að þetta er algerlega hnökralaus frammistaða, þótt ég segi sjálfur frá.“

Hugsaðir þú einhvern tímann um að reyna að „meikaða“ erlendis?

„Nei, aldrei nokkurn tímann. Ég hef fengið mörg tilboð um að syngja á ensku en hef aldrei haft neinn áhuga á því. Mig langar aðeins að vera hér heima á Íslandi.“

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Einbýlishús á einstökum stað til sölu – „Konfekt fyrir augun“

Einbýlishús á einstökum stað til sölu – „Konfekt fyrir augun“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Sirrý um erfiða tíma – „Út frá því fékk ég hugrekkið til að segja upp vinnunni minni”

Sirrý um erfiða tíma – „Út frá því fékk ég hugrekkið til að segja upp vinnunni minni”
Fókus
Fyrir 3 dögum

Þetta fannst lesendum DV um Skaupið

Þetta fannst lesendum DV um Skaupið
Fókus
Fyrir 3 dögum

Ferðamaður lét kuldann ekki stöðva sig við Skógafoss – Myndbandið hefur fengið yfir 17 milljónir áhorfa

Ferðamaður lét kuldann ekki stöðva sig við Skógafoss – Myndbandið hefur fengið yfir 17 milljónir áhorfa
Fókus
Fyrir 4 dögum

Skiptar skoðanir á Skaupinu – „Ég var ekki alveg sátt“ – „Man ekki eftir að hafa hlegið jafn mikið“

Skiptar skoðanir á Skaupinu – „Ég var ekki alveg sátt“ – „Man ekki eftir að hafa hlegið jafn mikið“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Ellý brugðið þegar hún spáði fyrir þátttöku Íslands í Eurovision – „Þetta finnst mér sérstakt“

Ellý brugðið þegar hún spáði fyrir þátttöku Íslands í Eurovision – „Þetta finnst mér sérstakt“