fbpx
Þriðjudagur 24.desember 2024
Fókus

Fyrsti innflytjandinn á þingi verður jafn framt sá fyrsti trans og kynsegin

Kristinn H. Guðnason
Mánudaginn 3. september 2018 20:00

Ljósmynd: DV/Hanna

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Árið 2007 markaði hin bandaríska Andie Fontaine tímamót þegar hán var fyrsti innflytjandinn til að taka sæti á Alþingi. Hán fæddist sem Paul Fontaine en tók upp nafnið Nikolov þegar hán gifti sig. Í sumar braut Andie annan múr þegar hán tilkynnti að að kynleiðréttingarferli væri að hefjast. DV ræddi við Andie um uppvöxtinn í Baltimore, innflytjendamál, veruna á Alþingi og leiðréttinguna.

 

Varð fyrir skotárás

Andie fæddist og ólst upp í borginni Baltimore í Maryland-fylki Bandaríkjanna árið 1971. Þá bar hán nafnið Paul Fontaine. Móðir Andie starfaði sem aðstoðarlögmaður og faðir háns vann fyrir verkalýðshreyfinguna. Andie hefur alla tíð hneigst til vinstri og í dag lýsir hán sér sem sósíalista en það hefur hán að miklu leyti frá föður sínum. Faðir háns tók hán með sér á mótmæli og á samkomur og hán sá óréttlætið sem margir þurfa að lifa við, sérstaklega hörundsdökkt fólk. Í Bandaríkjunum er það heldur ekki sjálfsagt mál að vera í verkalýðsfélagi líkt og hér.

„Baltimore er svo sannarlega ekki leiðinleg borg, þvert á móti er hún mjög lífleg. Flestir þekkja Baltimore úr þáttunum The Wire og þeir gefa mjög raunsanna mynd af borginni. Í sumum hverfum býr aðallega hvítt fólk en svart í öðrum og mikill gæðamunur á innviðum. Ofbeldi lögreglunnar er einnig mikið vandamál í borginni,“ segir Andie.

Í borg þar sem glæpatíðni er há, byssueign almenn og lögreglumenn óhræddir við að beita valdi sínu koma iðulega upp árekstrar og Andie fór ekki varhluta af því. Í þrígang hefur fólk beitt skotvopnum gegn háni. Hán segir:

„Ég var aðeins tíu ára þegar það gerðist í fyrsta skiptið og meðtók ekki alvarleika málsins. Ég og vinir mínir vorum að leika okkur með leikfangabyssur og einhver hringdi í lögregluna og sagði þeim að við værum vopnaðir alvöru byssum. Lögreglumaðurinn stoppaði mig og ég tók upp byssuna, þá tók hann upp sína og óð í mig. Þegar hann sá að þetta var aðeins leikfang varð hann hræddur og skammaðist sín. Síðan varð hann reiður út í mig fyrir að vera með leikfangabyssuna, því hann hefði allt eins getað skotið mig.“

Í annað skiptið, þegar Andie var eldri, var skotið á bíl sem hán var farþegi í. Eftir að hafa komið við í verslun keyrðu hán og Jeremy, félagi háns, frá versluninni á stórum, bláum pallbíl. Jeremy svínaði þá fyrir annan bíl og farþegi þar dró upp byssu. Andie segir:

„Þetta gerðist svo hratt að ég áttaði mig ekki á hvað var að gerast. Við klesstum á bíl og ég heyrði byssuhljóðin: POP! POP! POP! en ég hélt að það væri ekki verið að skjóta á okkur. Jeremy sagði mér að beygja mig og þegar ég hlýddi ekki ýtti hann höfði mínu niður og beygði sig sjálfur. Hann brunaði áfram og keyrði yfir þrjú gatnamót á rauðu ljósi. Síðan stöðvaði hann bílinn úti í vegkanti og ég spurði hvað í fjandanum hann væri að gera. Þá sagði hann mér að farþegi í hinum bílnum hefði verið að skjóta á okkur og hæft bílinn að aftan. Á þeirri stundu fann ég fyrir miklum ótta, skalf og sá að við hefðum getað dáið. Jeremy sá þegar farþeginn setti höndina út um farþegagluggann og beindi byssu að bílnum okkar. Hann keyrði því utan í bílinn sem olli því að þeir keyrðu á annan kyrrstæðan bíl. Við ákváðum hins vegar að tilkynna ekki atvikið til lögreglunnar.“

 

Fékk nóg á gamlárskvöld

Þriðja skiptið skeði einnig þegar Andie var á leið úr verslun. Hópur krakka stóð fyrir utan verslunina og einn þeirra, sennilega um átta ára gamall, kom upp að Andie, lyfti upp skyrtunni og sýndi háni byssuna sem var innanklæða. Ólíkt því sem við sjáum í bíómyndum þá fara flest rán í Bandaríkjunum fram á þennan hátt. Andie var hins vegar aðeins með rúmlega einn dollara í reiðufé á sér og krakkinn varð fyrir sárum vonbrigðum.

Hvenær ákvaðst þú að flytja burt?

„Ég man mjög greinilega eftir þeim tímapunkti þegar ég sá að ég yrði að flytja úr borginni,“ segir Andie. „Það var á gamlárskvöld árið 1997. Í Maryland má aðeins slökkviliðið skjóta upp flugeldum en byssur eru leyfðar. Þess vegna fer fólk út á götur og skýtur upp í loftið. Ég sat í íbúðinni minni og hlustaði á skothríðina úr skammbyssunum og hríðskotarifflunum alls staðar í kring og hugsaði með mér: Þetta er brjálæði.“

Andie vissi hins vegar ekki hvert hán ætti að fara. Hán hafði lesið mikið um ásatrú og Íslendingasögurnar og ákvað því að fara í ferðalag um Ísland. Hán fór á puttanum um landið og kynntist þá fjölskyldu frá Hafnarfirði en þá stóð ekki til að flytja til landsins. Eftir að hán kom aftur heim til Baltimore skrifaðist hán á við fjölskylduna og eftir að hafa endurskoðað líf sitt ákvað hán loks að flytja búferlum hingað árið 1999.

 

Fékk áhuga á málefnum innflytjenda

Draumur Andie var að verða rithöfundur og í Bandaríkjunum skrifaði hán fjölmargar smásögur í súrrealískum stíl og var undir áhrifum höfunda á borð við William H. Burroughs og Sylviu Plath. Andie sendi smásögurnar á alla þá útgefendur sem hán gat fundið en samkeppnin var ákaflega hörð. Til að sjá fyrir sér starfaði hán meðal annars á veitingastöðum og krám. Blaðamennska heillaði einnig, sérstaklega þau blöð sem hán las sem tóku ákveðna afstöðu í málum án þess þó að slá af gæðum rannsókna.

„Hér á Íslandi er innflytjendum skipt upp í þrjá flokka, Norðurlandabúa, Evrópubúa og alla aðra. Þeir sem tilheyra síðastnefnda hópnum fá yfirleitt aðeins störf sem aðrir vilja ekki vinna eða geta ekki, til dæmis láglaunastörf á leikskólum, dvalarheimilum aldraðra eða á veitingastöðum. Fyrstu árin vann ég á Fjörukránni í Hafnarfirði og á dvalarheimili fyrir fatlað fólk. Árið 2003 fór ég að skrifa fyrir Reykjavík Grapevine sem var þá nýbyrjað að koma út.“

En Andie hefur ekki aðeins beitt sér á ritvellinum heldur hóf hán bein afskipti af íslenskum stjórnmálum. Kveikjan að því varð eitt kvöld á Fjörukránni þegar Andie hitti tvo landa sína, annan hvítan og hinn svartan. Þeir spurðu Andie hvernig það væri að búa hér á landi og hán fór að telja upp alla ókostina. Hvernig það væri litið niður á hán, og að hán fengi öll erfiðustu og leiðinlegustu verkefnin og allar skammirnar líka. Þá kom bros á svarta ferðamanninn sem sagði: „Það er ágætt að sjá hvítan mann ganga í gegnum þetta til tilbreytingar“ og þetta opnaði augu Andie fyrir innflytjendamálum.

„Ég er hvítur og á þessum tíma leit ég á mig sem karlmann. Fyrst ég fékk svona framkomu hvernig ætli sé þá komið fram við konur, svart fólk, múslima og fleiri minnihlutahópa? Þá hóf ég þessa vegferð mína í að rannsaka málefni innflytjenda og reyna að bæta stöðu þeirra.“

 

Flokkur nýrra Íslendinga viðbragð við smölun

Andie vakti fyrst athygli á sviði fjölmiðlanna þegar hán stofnaði nýjan stjórnmálaflokk sem hafði málefni innflytjenda að leiðarljósi, Flokk nýrra Íslendinga, árið 2006. Sá flokkur var í raun stofnaður sem viðbragð við smölun Framsóknarflokksins fyrir borgarstjórnarkosningarnar.

„Vinur minn sagði mér frá því að honum hefði verið borgað fyrir að fá fólk á kjörstað og spurði mig hvort ég vildi koma. Hann var með lista með nöfnum innflytjenda og kennitölur þeirra með sér. Ég sagði já og fór með honum en við fórum ekki beint á kjörstað heldur fyrst á kosningamiðstöð Framsóknarflokksins þar sem við þurftum að sitja undir ræðu um hversu frábær flokkurinn væri. Síðan var farið á kjörstað og mér fannst þetta mjög skrýtið. Áróður er bannaður á kjörstað og mér fannst vera farið í kringum reglurnar. En engir aðrir flokkar, hvorki til hægri né vinstri, gagnrýndu Framsóknarflokkinn fyrir þetta eða gerðu neitt í þessu. Það var öllum sama,“ segir Andie og virðist enn hissa öllum þessum árum seinna. „Ég kom í viðtal á Stöð 2 og sagði frá þessu og fékk hörð viðbrögð frá Framsóknarmönnum sem neituðu því að þeir væru að smala innflytjendum á kjörstað.“

Flokkur nýrra Íslendinga fékk strax góðar viðtökur eftir að Andie tilkynnti stofnun hans á bloggsíðu sinni. En flokkurinn varð í rauninni aldrei formlega til því áður en Andie náði að sækja um kennitölu fyrir flokkinn og halda fyrsta aðalfundinn bauðst háni að ganga til samstarfs við Vinstri græn. Sóley Tómasdóttir varaborgarfulltrúi kom að máli við Andie og bauð háni að taka þátt í að móta innflytjendastefnu flokksins og þáði hán það.

 

Vildi ekki heiðra Bobby Fischer

Andie tók þriðja sætið á framboðslista Vinstri grænna í Reykjavíkurkjördæmi norður fyrir alþingiskosningarnar árið 2007 og varð varaþingmaður. Í nóvember það ár kom hán inn á þing og markaði það tímamót því aldrei áður hafði innflytjandi setið á Alþingi Íslendinga.

Hvernig var þér tekið á Alþingi?

„Það var mjög sérstakt að koma þarna inn,“ segir Andie og glottir. „Ég hafði séð marga af þessum þingmönnum tala af heiftúð um málefni innflytjenda. En tónn margra breyttist eftir að einn slíkur var kominn inn í þingsalinn og þeir fóru að velja orð sín betur. Ég man sérstaklega eftir einu tilviki þar sem Pétur Blöndal, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, var að ræða áhrif innflytjenda á skattkerfið okkar. Hann var að tala við alla í herberginu en horfði í sífellu á mig og var að athuga hvernig ég myndi bregðast við.“

Lentir þú einhvern tímann í illdeilum?

„Já, mestu deilurnar spruttu upp vegna máls sem kom upp undir lok þingsins árið 2008. Verið var að samþykkja frumvörp í hrönnum fram á kvöld til þess að ljúka málum fyrir sumarfrí og þá sá ég að Guðni Ágústsson, þingmaður Framsóknarflokksins, hafði lagt fram tillögu um að koma á fót skáksetri í minningu Bobbys Fischer. Allir kusu með þessu nema ég og fólk varð forviða. Ég þurfti því að stíga í pontu og segja mína meiningu, það er að Bobby Fischer hefði verið mikill gyðingahatari. Andstyggilegur maður sem fagnaði hryðjuverkaárásunum þann 11. september árið 2001. Ég gat ekki samþykkt að þessi maður yrði heiðraður og stakk upp á að því að setrið yrði nefnt eftir stórmeistaranum Friðriki Ólafssyni. Sjálfstæðismaðurinn Sigurður Kári Kristjánsson steig þá í pontu og svaraði mér með mikilli hrútskýringu, að málið snerist ekki um pólitík, þetta snerist um skák,“ segir Andie og hlær. „Ég ákvað eftir þetta að sitja hjá í staðinn fyrir að kjósa á móti en margir voru samt illir út í mig.“

Á þessum tíma var Frjálslyndi flokkurinn á þingi og þeirra fulltrúar höfðu reynt að marka sér sérstöðu með að tala með mjög ákveðnum hætti gegn innflytjendum. Andie segist ekki hafa haft geð í sér til að ræða við eða vera nærri Jóni Magnússyni, Grétari Mar Jónssyni eða öðrum fulltrúum þess flokks, hvorki í starfi né utan starfs.

„Matsalurinn á Alþingi minnti mjög á menntó, eins og klipptur út úr unglingakvikmyndinni Mean Girls. Samflokksmenn sátu saman við borð og ef maður fór yfir á borð annars flokks þá fékk maður ískalt augnaráð. Sumir sátu reyndar alltaf einir, til dæmis Björn Bjarnason, þáverandi dómsmálaráðherra, sem sat alltaf einn við borð í enda salarins og sneri baki í alla.“

Andie segist ekki alltaf hafa verið sammála sínum eigin flokksmönnum í málum sem komu upp. Heilbrigðisráðherrann Guðlaugur Þór Þórðarson bar fram frumvarp sem meðal annars fól í sér leyfi almennra verslana til að selja nikótíntyggjó og Andie fannst það góð hugmynd að auka aðgengi að því, í ljósi þess að sígarettur og annað tóbak væri selt í verslunum. En flestir samflokksmenn háns lögðust gegn þessu, annaðhvort vegna þess að tillagan kom frá Sjálfstæðismönnum eða vegna lýðheilsusjónarmiða. Að fólk ætti ekki að skipta um fíkn heldur hætta alfarið að neyta nikótíns.

 

Undrandi yfir vegferð Vinstri grænna

Kjörtímabilið sem Andie sat var stutt því að eftir bankahrunið árið 2008 var boðað til kosninga. Andie tók þátt í prófkjöri Vinstri grænna en fékk slæma útkomu, aðeins sjöunda sæti í Reykjavíkurkjördæmi suður, sem var langt frá því að duga inn á þing. Hán segir það þó hafa verið allt í lagi, því að hugurinn hefði verið kominn annað.

„Ég var ekki virk í prófkjörsbaráttunni heldur einbeitti mér að því að vinna og hafa í mig og á því að tíminn eftir hrunið var erfiður. Pólitíska virknin þurfti að víkja fyrir heimilisbókhaldinu. Ég var nánast ósýnileg í starfi flokksins í heilt ár fyrir kosningarnar árið 2009.“

Ertu enn þá í flokknum?

„Já, á pappírunum að minnsta kosti. Tími minn á þingi var mjög lærdómsríkur en stjórnmálaskoðanir mínar hafa breyst mikið síðan þá og ég er orðin róttækari. Ég trúi ekki lengur á fulltrúalýðræðið og lít á mig sem kommúnista. En að skrá mig úr Vinstri grænum finnst mér vera of mikil yfirlýsing og ég á mjög marga vini sem eru starfandi innan flokksins og líkar við þá flesta,“ segir Andie og hlær.

Hvað finnst þér um þá ríkisstjórn sem nú situr?

„Hún er klúður,“ segir Andie og dæsir. „Ég er ekki í innsta kjarnanum en mér sýnist á öllu að fulltrúum Vinstri grænna hafi þótt það mikilvægara að komast til valda en að fylgja grunngildum flokksins. Við sjáum það líka í skoðanakönnunum að flokkurinn er að gjalda fyrir stjórnarsamstarfið. Margir úr flokknum hamra á því að þeir muni ná fram sumum stefnumálum sínum og ég efast ekki um þeirra trú. En við sjáum stefnuna verða undir, til dæmis í kjaramálum þar sem almennt launafólk getur aðeins fengið fjögurra prósenta launahækkun á meðan embættismenn og forstjórar eru að skammta sér ríflegar hækkanir. Þetta sendir skilaboð. Það er einnig hægt að tína fleira til eins og hvalveiði. Vinstri græn hafa þá stefnu að vera á móti hvalveiðum en þegja þunnu hljóði þegar Kristján Loftsson veiðir steypireyðar og kálffullar hvalkýr. Miklir skattafslættir til ríkra og stuðningur við hernað Atlantshafsbandalagsins í Sýrlandi eru önnur mál sem mætti nefna. Ég hef þekkt Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra lengi og veit að hún er viljasterk kona með mikla sannfæringu. En þegar ég sé þetta gerast þá verð ég bæði undrandi og leið. Er þetta þess virði til þess eins að vera forsætisráðherra?“

 

Vill byltingu á stjórnkerfinu og verkalýðsfélögunum

Þrátt fyrir alla þessa erfiðleika sem Andie telur upp þá telur hán að stjórnin muni lifa þetta kjörtímabil. Andie myndi þó vilja sjá hreina vinstristjórn taka við og sér jafnvel hinn nýja Sósíalistaflokk leika þar stórt hlutverk.

„Sósíalistarnir tala beint til innflytjenda og tala fyrir málum sem skipta almenning miklu máli, svo sem að gera húsnæði að mannréttindum og hækka laun þeirra allra verst settu. En stóru vandamálin verða ekki leyst með einni og einni aðgerð. Hér þarf umbyltingu á stjórnkerfinu og nýja stjórnarskrá.“

Andie er ánægð með að sjá þann mikla áhuga og athygli sem hefur verið á verkalýðsmál undanfarin misseri og þær hallarbyltingar sem orðið hafa í stjórnum félaganna. En hán telur hins vegar að vandi verkalýðshreyfingarinnar risti djúpt og ekki nægilegt að skipta um stjórnir.

„Félögunum ætti ekki að vera skipt eftir menntun eða störfum heldur ættu heilu vinnustaðirnir  að vera undir sama hatti. Tökum spítalana sem dæmi, þar höfum við lækna, hjúkrunarfræðinga, geislafræðinga, skúringafólk og matreiðslufólk sem starfar allt í heilbrigðisgeiranum en er samt í hinum og þessum verkalýðsfélögum. Hagsmunir þeirra rekast því á og samstaðan er engin. Þetta er leið auðvaldsins til þess að fá launafólk upp á móti hvert öðru.“

 

Útlendingastofnun lömuð

Útlendingamál og málefni hælisleitenda hafa verið mikið í umræðunni hér á landi þó að deilurnar um málaflokkinn hafi ekki farið jafn hátt og í nágrannalöndum okkar vestra og eystra. Upp hafa komið mál þar sem fólk hefur verið sent úr landi, jafnvel með börn og um miðjar nætur með lögregluvaldi, sem hefur valdið töluverðri úlfúð. Andie hefur skrifað um þessi mál og hefur á þeim sterkar skoðanir.

„Útlendingastofnun er lömuð stofnun og ég tel að það þurfi einfaldlega að loka henni. Þarna er mannekla, fjárskortur og starfsfólkið hefur ekki orku eða vilja til að sinna þessum málum eins og það ætti að vera að gera. Þarna inni eru gerð ótal hroðvirknisleg mistök sem auðveldlega væri hægt að komast hjá. Sumar ákvarðanirnar eru ómannúðlegar og ólöglegar samkvæmt bæði íslenskum og alþjóðlegum lögum. Ef þessi mistök væru gerð í heilbrigðisráðuneytinu, svo að dæmi sé tekið, þá væru þingmenn organdi og ráðherrann þyrfti að segja af sér. En þar sem þetta snýr að erlendum borgurum þá skiptir það ekki máli.“

Andie undrast hversu lítil virkni er innan stofnunarinnar.

„Bakgrunnsskoðanir eru framkvæmdar af lögreglunni, heilsufarsskoðanir á heilsugæslu, atvinnuleyfi gefin út af vinnumálastofnun. Það eina sem Útlendingastofnun virðist gera er að gefa fólki leyfi til að vera hér eða senda það úr landi. Til hvers er þessi stofnun?“ segir Andie. Einnig að starfsmenn stofnunarinnar skýli sér bak við þá staðreynd að því fólki, frá til dæmis Írak eða Sýrlandi, sem ekki fljúgi hingað beint heldur komi við í öðrum Evrópulöndum og sé skráð þar, sé hægt að vísa beina leið aftur til baka á grundvelli Dyflinnarreglunnar. „Það verður að líta á hvert mál fyrir sig, lesa skýrslur og taka niður vitnisburði, en það kostar tíma, orku og peninga og enginn vilji er til þess.“

 

Óþægileg uppákoma vegna rasisma

Erlendis höfum við séð hægri-popúlistaflokka rísa hratt en ekki hér á Íslandi. Hvað heldur þú að valdi því?

„Ég held að það sé vegna þess að Íslendingar eru almennt á móti öfgum. Á Norðurlöndum hefur lengi ríkt það sem kallast félagsleg sátt og það hefur þótt óþægilegt þegar einhver ruggar bátum, til dæmis ef einhver kvartar á vinnustað. Hinn frægi Indriði, persóna Jóns Gnarr sem kvartar yfir öllu, er dæmigerð fyrir persónu sem þrífst illa í félagslegri sátt. Öllum finnst nærvera hans óþægileg og kvíðavaldandi. Hin félagslega sátt er enn þá mjög sterk á Íslandi en við erum að sjá breytingar á hinum Norðurlöndunum og þess vegna hefur skapast jarðvegur fyrir hægri popúlistaflokka þar og nýnasistar eru að verða meira áberandi.“

Heldur þú að þetta muni gerast hérna líka?

„Ég vona svo sannarlega ekki. Sá rasismi sem birtist hérna er yfirleitt annaðhvort innbyggður í stofnanir eða ómeðvitaður. Ómeðvitaður rasismi birtist okkur í sífellu og get ég nefnt Tong Monitor, persónu sem grínistinn Pétur Jóhann Sigfússon skapaði. Hann birtist í auglýsingu með augun límd, gulmálaður í framan og með ýktan asískan hreim. Einnig hljómsveitin The Hefners frá Húsavík, meðlimir hennar koma fram svartmálaðir með afróhárkollur. Við sjáum alltaf sömu afsökunina, það hafi ekki verið ætlunin að móðga neinn, þetta sé í rauninni ekki rasismi og enginn er tilbúinn að axla ábyrgð á neinu. Málið er að hvítt fólk fær ekki að ákveða hvað sé ekki rasismi.“

Hér á landi hefur öfgaflokkum á borð við Íslensku þjóðfylkinguna og Frelsisflokkinn ekki orðið neitt ágengt í kosningum og þeir fáu nýnasistar sem þorað hafa að tjá sig hafa verið úthrópaðir og hent að þeim grín. Engu að síður fá raddir þeirra sem tala gegn til dæmis múslimum óvenju mikið rými í fjölmiðlum að mati Andie.

„Ég get nefnt sem dæmi Margréti Friðriksdóttur. Af hverju skiptir álit hennar fjölmiðla svo miklu máli? Hún er ekki guðfræðingur, hún hefur ekki stöðu eða menntun í þessum fræðum. Hún stjórnar Facebook-hópi, það er allt og sumt. En fjölmiðlar éta gagnrýnislaust allt upp sem hún segir um múslima, lögregluna, landamæragæslu og hvað eina, af því að ummæli hennar stuða, vekja umtal og skemmtun fyrir lesendur. Sama mætti segja um aðra sem setja fram rangar staðhæfingar um múslima, Araba og aðra útlendinga og heyrast iðulega á Útvarpi Sögu.“

Andie segir að það megi ekki vanmeta þetta vandamál og að þær skoðanir sem birtast á Útvarpi Sögu og víðar geti haft áhrif á skoðanir fólks. Í eitt skipti veittist ókunnug manneskja að háni úti á götu þar sem hán var á rölti með eiginkonu sinni og þriggja ára dóttur.

„Hann kom og öskraði á mig að skattarnir hans væru að fara í að halda mér uppi. En ég sagði honum að ég hefði alltaf unnið og borgað mína skatta og skyldur. Þá varð hann reiðari og sat við sinn keip – að ég hlyti að vera á bótum fyrst ég væri útlendingur. Það kom næstum til handalögmála út af þessu.“

 

Manaði sig í pils og öllum var sama

Í sumar vakti Andie athygli þegar hán tilkynnti að kynleiðréttingarferli háns væri að hefjast og hán vonaðist að hormónagjöf gæti hafist bráðum en hán verður þá fyrsta transmanneskjan til að hafa setið á Alþingi. Einnig skilgreinir hán sig sem kynsegin manneskju, eða non-binary. Andie segist hafa fundið fyrir kvenleika sínum frá barnæsku en á áttunda og níunda áratugnum var þetta ekki rætt. Andie hefur ávallt litið bæði á sig sem karl og konu. Hán segir:

„Að þykjast að vera karlmaður hefur valdið mér mikilli eymd í gegnum tíðina og ég þurfti að neita mér um að þessi helmingur af mér væri til. Vegna þessa fannst mér karllega hliðin af mér sífellt óþægilegri og var farin að hata hana vegna vanlíðunar minnar.“

Ræddir þú við einhvern um þetta?

„Já, ég ræddi við fólk og viðbrögðin voru yfirleitt á sama veg, að ég væri ekki dæmigerður karlmaður, eða kvenlegur karlmaður. Þetta hjálpaði hins vegar ekki og ég varð sífellt þreyttari á því að vera vansæll og óheiðarlegur gagnvart mínum nánustu.“

Hvernig brást fólk við þegar þú tilkynntir að kynleiðréttingarferlið væri hafið?

„Mjög vel. Ég hef fengið fullt af hamingjuóskum í skilaboðum frá fólki og fjölskyldan hefur einnig stutt mig. Pabbi minn, sem er að nálgast sjötugt, er nú að lesa sér til um kynsegin málefni, og mér finnst það frábært. Á Hinsegin dögum fór ég í fyrsta skiptið út á meðal fólks í pilsi til að sýna mína kvenlegu hlið opinberlega. Það var reyndar nokkuð fyndin reynsla,“ segir Andie og hlær. „Ég þurfti að safna kjarki til að gera þetta og bjóst við því allra versta. Ég klæddi mig í pilsið, sokkabuxur og kvenlegan topp og arkaði niður í bæ … og öllum var skítsama.“

Andie segist þó ekki hafa verið alveg laus við áreiti vegna þessa því að eftir að hán skrifaði um leiðréttingarferlið á vef Reykjavík Grapevine og Stundin gerði frétt upp úr því, skrifaði Jón Valur Jensson, frambjóðandi Íslensku þjóðfylkingarinnar, athugasemd við fréttina þar sem hann minntist á dóttur Andie og notaði gamla nafn háns, Paul. Andie segir slík ummæli vissulega truflandi en komandi úr þessari átt séu þau í raun fyrirsjáanleg.

„Ég er í raun ekki að segja neitt nýtt varðandi málefni transfólks. Ég er að segja það sama og til dæmis Alda Villiljós og Ugla Stefanía hafa verið að segja,“ segir Andie.

Hvað varðar leiðréttingarferlið sjálft þá telur Andie Íslendinga vera að fara rangt að. Ólíkt því sem gerist til dæmis í San Francisco þá þurfa umsækjendur að fara í gegnum svokallað undirbúningsferli hjá teymi sem geðlæknirinn Óttar Guðmundsson stýrir.

„Bæði transkonur og transmenn lýsa sömu reynslu af þessu. Að þurfa að segja þessum manni hvaða nærfatnað þau nota, hvaða kynlífsstellingar þeim líkar við og fleira í þeim dúr. Í sex til átján mánuði þarf fólk að lifa eins og það kyn sem það valdi sér. Það er eitthvað verulega að þessari hugsun því hlutir eins og hárgreiðsla, farði, fatnaður og fleira hefur ekkert með kyn að gera.“

Hán nefnir einnig að kynleiðréttingarferli sé sérstaklega flókið fyrir innflytjendur sem þurfi að fá nýtt kyn sitt skráð í heimalandinu áður en það er hægt að breyta því hér. Þessar hindranir gagnist engum. Sjálfur er Andie hins vegar mjög ánægð með að vera byrjuð á ferlinu.

Ertu frjáls núna?

„Mun frjálsari og mun ánægðari. En ég held enn þá niðri í mér andanum og bíð eftir bakslaginu. Viðbrögðin hafa verið svo jákvæð að mér finnst þetta of gott til að vera satt. Það hlýtur einhver að reyna að gera líf mitt að pínu út af þessu.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 3 dögum

Dennis Rodman með yfirlýsingu eftir að dóttir hans varpaði sprengju

Dennis Rodman með yfirlýsingu eftir að dóttir hans varpaði sprengju
Fókus
Fyrir 3 dögum

Jólakort ársins frá Vilhjálmi og Katrínu

Jólakort ársins frá Vilhjálmi og Katrínu
Fókus
Fyrir 4 dögum

Myndir af leikkonunni settu allt á hliðina og nú svarar hún tröllunum fullum hálsi – Málið vekur upp spurningar um kröfur karla til kvenna

Myndir af leikkonunni settu allt á hliðina og nú svarar hún tröllunum fullum hálsi – Málið vekur upp spurningar um kröfur karla til kvenna
Fókus
Fyrir 4 dögum

Dennis Rodman fær það óþvegið frá dóttur sinni

Dennis Rodman fær það óþvegið frá dóttur sinni
Fókus
Fyrir 4 dögum

Kynlífsathöfnin sem Christina Aguilera fær ekki nóg af

Kynlífsathöfnin sem Christina Aguilera fær ekki nóg af
Fókus
Fyrir 4 dögum

Fyrsta stefnumótið var fyrir tíu árum á Litla-Hrauni: „Ég fór þarna út með hjartað í brókinni og stjörnur í augunum“

Fyrsta stefnumótið var fyrir tíu árum á Litla-Hrauni: „Ég fór þarna út með hjartað í brókinni og stjörnur í augunum“