fbpx
Föstudagur 22.nóvember 2024
Fókus

Leikstýrir kvikmynd um líkfundarmálið: „Það ætlaði sér enginn að sitja uppi með dauðan mann í húsinu, en ég er ekki að réttlæta gerðir þeirra“

Kristinn H. Guðnason
Laugardaginn 29. september 2018 14:00

Ljósmynd: DV/Hanna

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Í október verður kvikmyndin Undir halastjörnu frumsýnd. Hún er byggð á líkfundarmálinu svokallaða frá árinu 2004 sem öll þjóðin fylgdist með. Myndin er fyrsta leikna kvikmynd Ara Alexanders Ergis Magnússonar í fullri lengd en hann hefur lengi starfað við kvikmyndagerð, myndlist og fleira. DV ræddi við Ara um myndina, föðurmissinn og Síberíu en þaðan fluttist móðir hans til Íslands á sjöunda áratugnum.

Þetta er brot úr stóru viðtali í helgarblaði DV.

 

Líkfundarmálið stakk rosalega

Undir halastjörnu, sem ber titilinn Mihkel á erlendum tungumálum, verður frumsýnd í október en hún er fyrsta leikna kvikmynd Ara í fullri lengd. Myndin er byggð á lögreglumáli frá 2004 sem í daglegu tali er kallað líkfundarmálið. Lík ungs manns fannst í höfninni í Neskaupstað og um tíma ríkti algjör óvissa um hver maðurinn hefði verið. Síðar kom í ljós að iðrin voru full af eiturlyfjum og rannsókn lögreglu beindist að þremur mönnum sem höfðu staðið að fíkniefnainnflutningi. Ari segir að þetta verkefni hafi komið úr óvæntri átt.

„Ég hef aldrei haft áhuga á lögregludrama. Kvótann af því fyllti ég með því að horfa á Derrick sem unglingur. Síðan hafa þessar sögur verið sagðar í sjónvarpinu, yfirleitt alltaf á sama máta. Góðir lögreglumenn elta vonda glæpamenn. Þegar ég bjó í Danmörku sá ég krakka sem voru uppskriftir að glæpamönnum framtíðarinnar og þessi heimur er ekki svartur og hvítur.“

Af hverju ákvaðst þú að gera mynd um þetta mál?

„Það byrjaði um leið og þetta var að gerast. Á þessum tíma var ég að gefa út Gargandi snilld með Sigurjóni Sighvatssyni framleiðanda og við vorum boðaðir í þáttinn Ísland í dag hjá Stöð 2. Þá var þessi sprengja í samfélaginu í tengslum við þetta mál þar sem þessi Lithái fannst í höfninni. Þetta var ekkert ósvipuð fjölmiðlaathygli og í hinu hrikalega sorglega máli Birnu Brjánsdóttur í fyrra. Mér fannst þetta svo sorglegt og þekkti Eystrasaltslöndin og austurblokkina vel. Við Sigurjón sátum fyrir útsendinguna og ræddum þetta og á móti okkur sat einn af sakborningunum sem neitaði öllu. Hann fór þá að ræða við okkur og þvertók fyrir þetta allt saman.“

Ari og Sigurjón ræddu um sína mynd í þættinum og einn af sakborningunum kom í innslaginu á eftir þeim. Ari bað Sigurjón að bíða þar sem hann varð að fá að fylgjast með þessu baksviðs, þar sem þáttarstjórnandinn gekk á hann.

„Ég spurði Sigurjón hvort það væri ekki hægt að gera eitthvað með þetta og fór að hugsa um alls konar vinkla á málinu. Það sem mér fannst einna áhugaverðast við þetta var að einn sakborninganna og harður nagli, hafi farið heim til mömmu sinnar þegar allt var komið í óefni. Þetta var kunnuglegt stef í minni fjölskyldu. Yngri bróðir minn hafði leiðst út í óreglu, neyslu og eignast mjög óheppilega vini og faldi sig í kjallaranum hjá henni þegar allt var komið í óefni hjá honum. Ég þekkti marga af þessum strákum og margir af þeim eru nú löngu farnir. Einn af mínum nánu vinum lést úr ofneyslu eiturlyfja. Ég hafði skrifað alls kyns handrit í gegnum tíðina en aldrei neitt tengt dópi eða glæpum af þessum toga, hafði ekki haft áhuga á því. En þetta mál stakk mig alveg rosalega.“

 

Ari stýrir tökum á Undir halastjörnu

Hefur samúð með persónunum

Ari fór að skoða þetta mál nánar í samstarfi við Kristin Hrafnsson blaðamann og þá einkum bakgrunn leikendanna. Þeir settu sig í samband við móður Vaidasar, mannsins sem lést, í Litháen.

„Hennar saga snerti mig mikið. Hún vildi vitaskuld fá barnið sitt heim en íslenska ríkið vildi ekki borga fyrir flutninginn á líkinu þannig að hann var brenndur og sendur til hennar í krukku. Þetta fannst mér eitthvað svo andstyggilegt,“ segir Ari með fyrirlitningartón. „Þegar þú er barn eða unglingur þá ætlar þú ekkert að verða dópisti, glæpamaður eða handrukkari.“

Hefur þú samúð með þessum persónum?

„Já. Mér fannst vegið að þessu fólki og fór að hugsa: Af hverju má ekki segja svona sögu frá mannlegu hliðinni? Það er kannski einn fjölskyldumeðlimur fastur í þessum heimi og dregur alla vini og fjölskylduna ofan í svarthol. Ég vildi segja frá einhverju meira en aðeins lögreglurannsókninni og framvindu málsins. Það eru áhrifin á fjölskyldurnar og sér í lagi foreldra Vaidasar og hinna strákanna, og einnig þeirra sjálfra. Það ætlaði sér enginn að sitja uppi með dauðan mann í húsinu, en ég er ekki að réttlæta gerðir þeirra.“

Upprunalega var hugmynd Ara að gera heimildamynd um málið en en síðan þróaðist það út í að verða að leikinni kvikmynd. Handritið var til árið 2007 en eftir bankahrunið ári síðar voru úthlutanir Kvikmyndasjóðs helmingaðar og verkefnið sat lengi á hakanum. Árið 2012 kviknaði hugmyndin á ný, handritið var endurskrifað og árið 2016 hófust tökurnar loks.

Hversu nákvæmlega ferð þú eftir sögunni?

„Ég tek mér mikið skáldaleyfi en atburðarásin er nokkurn veginn sannsöguleg nema það að myndin byrjar í Eistlandi 1991 þegar þeir eru börn og sjá í sjónvarpinu að Ísland er fyrst allra ríkja til að viðurkenna sjálfstæði þeirra. Þannig flakka ég einnig í tíma þegar aðalpersóna myndarinnar byrjar að veikjast, förum aftur í æskuna. Ég skoðaði gögnin og ræddi við Arnar Jensson, sem stýrði rannsókn málsins, Svein Andra, verjanda í málinu, og fleiri sem höfðu aðkomu að málinu. En ég vildi halda ákveðinni fjarlægð við málið engu að síður og breytti því sögusviðinu og nöfnum. Ég nota Eistland en ekki Litháen. Síðan tókum við upp senur á Djúpavogi en ekki Neskaupstað þar sem ég þekki Djúpavog betur og handritið var að miklu leyti skrifað þar.“

Með aðalhlutverk myndarinnar fara íslensku leikararnir Tómas Lemarquis og Atli Rafn Sigurðsson og hinir eistnesku Paaru Oja og Kaspar Velberg. Framleiðendur eru Friðrik Þór Friðriksson, Leifur Dagfinnsson og Kristinn Þórðarson hjá True North. Ari segir að tökurnar hafi gengið vonum framar enda hafi undirbúningurinn verið mikill og nákvæmur. Hann sé þó smámunasamur og sé sífellt að laga eitthvað til.

„Að sjá mynd fæðast er alltaf spennandi. Við heimsfrumsýnum á kvikmyndahátíðinni í Busan í Suður-Kóreu 6. október, forsýning á Íslandi 10. október fyrir samstarfsfólk, fjölmiðla, vini og fjölskyldur, 12. október fer hún í almenna sýningu á Íslandi, við erum í keppni í Varsjá í Póllandi 16. október og Tallinn í Eistlandi 18. október, til að nefna það sem stendur okkur næst.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Matarbloggari kom upp um framhjáhald og hafði ekki hugmynd um það

Matarbloggari kom upp um framhjáhald og hafði ekki hugmynd um það
Fókus
Fyrir 2 dögum

Segir Íslendinga dæma ferðamenn fyrir þessi mistök – „Ekki gera þetta!“

Segir Íslendinga dæma ferðamenn fyrir þessi mistök – „Ekki gera þetta!“