Þetta er brot úr stóru viðtali í helgarblaði DV.
Næstu tíu ár voru Steinunni ákaflega erfið, og þá er mjög vægt til orða tekið, og andlegu eftirköstin mikil. Vegna heilaskaðans missti hún mikið af skammtímaminninu. Hún gleymir andlitum og á erfitt með að vita hvern hún þekkir og hvern ekki. En eldri minningar, lagatextar og fleira í þeim dúr hafa haldið sér.
Vegna áfallastreituröskunarinnar, sem er mjög algeng hjá fyrrverandi hermönnum, hrjá minningar úr hildarleiknum í Írak hana. Alls 38 sinnum hefur hún fengið raflostmeðferð til að reyna að þurrka þessar minningar út en það er alltaf eitthvað annað sem fer í staðinn.
Annar vágestur, þunglyndi, fór einnig að leggjast á hana með miklum þunga. Hún segir:
„Mér leið mjög illa í um tíu ár á eftir að ég kom heim og ég var ekki sama manneskjan. Mamma var hjá mér og hjálpaði mér með stelpurnar og ég reyndi að sinna þeim eins og ég gat. Ég lokaði mig oft af inni í herbergi, vildi ekki vera innan um fólk og gat ekki sofið. Síðan snerist það við og ég fór að fara óhóflega mikið út á lífið og drakk allt of mikið. Ég vissi eiginlega ekkert hvernig ég ætti að haga mér. Ég var á alls nítján mismunandi lyfjum og var alveg týnd andlega.“
Það er ekki auðvelt að rifja þennan tíma upp en Steinunn er róleg og einlæg í svörum sínum.
Varstu með sjálfsvígshugsanir?
„Já, tvisvar sinnum var ég á mjög vondum stað og systir mín á Íslandi lét senda mig á geðdeild til aðhlynningar.“
Það voru hins vegar ekki aðeins eftirköst sprengingarinnar og minningarnar frá Írak sem sóttu á Steinunni því á þessum tíma, þegar hún var á hvað viðkvæmasta staðnum, var henni nauðgað af óþekktum manni. Hún segir:
„Það var áður en ég fór í seinna skiptið inn á geðdeild. Ég ætlaði að taka Uber-bíl en sá sem sat undir stýri var ekki með leyfi frá fyrirtækinu. Hann réðst á mig, nauðgaði mér, reyndi svo að drepa mig og henti mér út úr bílnum.“
Hvernig komstu í gegnum þetta allt saman?
„Það sem kom mér í gegnum þetta voru dætur mínar og hestarnir. Svo á ég yndislega vinkonu sem heitir Jenny sem hefur hjálpað mér mjög mikið. Hérna úti eru líka Íslendingar sem ég er í miklum samskiptum við og hafa reynst mér vel. Í dag þarf ég ekki að taka nein lyf lengur.“