fbpx
Þriðjudagur 21.janúar 2025

Syni Kristínar var vísað úr meðferð á Vík: „Fyrr drepst ég en að ég standi hjá og horfi á barnið mitt drepa sig“

Ragna Gestsdóttir
Fimmtudaginn 16. ágúst 2018 08:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Mikið hefur verið rætt og ritað undanfarið um ungmenni sem misnotað hafa lyfseðilskyld lyf eða önnur fíkniefni, ungmennin sem fallið hafa frá af þeim völdum og þau sem fengu annað tækifæri. Átak ættingja og vinar Einars Darra Óskarssonar, Ég á bara eitt líf, hefur orðið samnefnari fyrir þá einstaklinga, sem vilja breytingar í þessum málaflokki, aukna fræðslu, forvarnir og fleiri og betri meðferðarúrræði.

Í einlægri stöðufærslu sem Kristín Ólafsdóttir skrifar á Facebook, segir hún frá baráttu sonar síns, Stefáns Ólafs, sem er 22 ára gamall, við fíknina. Færslan, sem skrifuð er með samþykki hans, segir frá hvernig ungur drengur ánetjast smátt og smátt fíkninni þar til einn daginn að allt hrynur.

Ég sótti hann hálf dauðan heim til sín. Í skítugu rúmi, angandi af brennsa og út úr kortinu. Skráði hann á Vog. Þá tók við bið. Var með hann heima í skelfilegu ástandi, vaktaði hann í 17 daga. Elti hann. Fylgdist með honum. Greip hann við lyfjakaup. Hélt utan um hann, sat bara og beið þegar hann vildi ekki tala. Vakti. Hlustaði á þvaðrið í honum, sá hvernig hann átti erfitt með að koma orðum frá sér, skalf, taugakippir.

Stefán ákvað að fara í meðferð á Vog, að mestu leyti fyrir móður sína og eftir 10 daga meðferð, féllst hann á áframhaldandi meðferð á Vík, þar sem hann átti að vera í 28 daga. Þar öðlaðist hann trú á lífið aftur og:

Þarna leið honum vel. Var með hlutverk – að sjá um morgunmatinn fyrir kallana. Var að lesa, skrifa í dagbók, sækja fundi, fyrirlestra, úti að hlaupa, lyfta grjóti í fjörunni, kynnast flóru mannlífsins. Átti að leiða fund í dag m.a.s! Það þótti honum mikill heiður og var mjög spenntur. Talaði um að hann langaði að verða ráðgjafi, svo flottir ráðgjafar þarna, góðar fyrirmyndir. Fara að vinna á Stuðlum t.d og hjálpa ungu fólki. Þarna er hann sterkur og myndi blómstra. Hann elskar fólk. Og fólk hann.

Vísað frá vegna ófullnægjandi þvagprufu

En eftir aðeins sex daga dvöl á Vík var Stefáni vísað frá á þriðjudag. Ástæðan? hann skilaði ófullnægjandi þvagprufu. Talið var að Stefán hefði átt við þvagprufuna, þrátt fyrir að hann pissi fyrir framan ráðgjafa á Vík og engin efni mælist í henni.

„Í gær er honum vísað frá Vík eftir einungis 6 daga dvöl. Hann skilaði ófullnægjandi þvagprufu. Ég sæki hann. Hann er út grátinn. Dapur. Viðkunnalegur og kurteis ráðgjafi útskýrir fyrir mér að talið sé að hann hafi átt við þvagprufuna á einhvern hátt. Tekið skal fram að hann pissar fyrir framan ráðgjafa sem er deildarstjórinn á Vík en hann sá víst ekki typpið á honum. Engin efni mælast í þvagprufunni. Hún var bara ófullnægjandi. Hann er rekinn. Búið,“ sagði Kristín í færslunni.

Hann tók próf fyrir mig hér heima og þau voru öll neikvæð. Sonur minn vill standa sig og breyta lífi sínu. Hann bað um hjálp og fékk hana, en aðeins í sex daga, segir Kristín í samtali við DV og gagnrýnir að sonur hennar hafi ekki fengið tækifæri til að taka aðra prufu.

Daginn eftir í samtali við ráðgjafa á Vogi kemur fram að saltmagnið hafi verið lágt í prufunum og Stefán megi sækja um aftur á Vogi og fær hann pláss þar 25. ágúst, 11 dögum eftir að honum er vísað út af Vík.

Við kröfðumst þess að hann fengi að fara á Vík aftur og klára meðferðina, ekki fara í afeitrun aftur, byrja upp á nýtt þar sem hann klúðraði jú engu, segir Kristín, en ekki kom til greina að hann fengi að fara aftur í plássið á Vík.

„Poster child“ fyrir #égábaraeittlíf

Kristín segir að sonur hennar sé dæmi um ungmennin sem herferðin #égábaraeittlíf fjallar um, hann er á sama aldri og að gera það sama og þau. „Ég vil ekki að hann verði eitt af tuttuguogeitthvað andlitunum sem tengjast þessari herferð. Ég finn hversu tæpt allt er og nú var hann sleginn niður. Ungur maður sem misnotar kvíðastillandi lyf, glímir við þunglyndi, kvíða, sjálfsvígshugsanir, sjálfskaðandi hegðun, með brotna sjálfsmynd.“

Kristín telur að sonur hennar hafi verið gripinn á réttu augnabliki og segist gráta fyrir þá foreldra sem misst hafa börnin sín. „Kannski ekki fengið tækifæri til að reyna að grípa þau einu sinni. En nú er komið nóg. Fyrr drepst ég en að ég standi hjá og horfi á barnið mitt drepa sig.“

Kristín segir að það sé ótækt að vísa einstaklingi frá sinni fyrstu meðferð með þessum hætti og hún neitar að samþykkja að ófullnægjandi þvagprufa sé brottrekstrarsök.

Ég vil hjálp, við þurfum hjálp. Við þurfum að hjálpast að,“ segir Kristín. „Ég vil að börnin okkar séu gripin, þeim hjálpað, unnið með þau og að þeim. Ég er ekki til í þetta…..

Svona hljóðar færslan í heild sinni:

Enn einn svona pistillinn. Enn ein svona mamman og enn einn sonurinn. Enn ein andlitin sem gleymast. Kannski ekki á morgun en allavega eftir nokkra daga. Þá man enginn eftir þessu. En nú er komið nóg.

Tekið skal fram að þetta er skrifað og birt í fullu samráði við son minn, Stefán Ólafur. Sem er frábær mannvera.

Hann er eitt af þessum yndislegu börnum sem hafa fæðst. Bjartur, hlýr, skemmtilegur, hlýðinn og allt það sem prýðir vel gerð börn. Við höfum alla tíð verið afar náin. Fljótlega lá það ljóst fyrir að hann yrði enginn lærdómshestur. Lesblinda, athyglisbrestur – þetta klassíska bara. Hélt ég að honum tónlist (gítar og Selló), Söng og leiklist (Sönglist) og einnig var boltinn prófaður, skátarnir, MMA, skautar, skíði, bretti og lengi mætti áfram telja. Ég var að reyna að styrkja ungan mann sem var uppfullur af sjálfstrausti og lífsgleði því ég vissi inn í mér að einn daginn myndi sjáfsmyndin skaddast og sjálfstraustið dvína því að skólakerfið hentar honum alls ekki.

Líkt og tíðkast (já, það gerir það bara víst) fór hann að sulla í brennsa í lok grunnskóla. Kannabisfiktið kikkaði inn í framhaldsskóla. Svo við 18 ára aldur kemur mér ekkert við lengur.
Sambúðin varð stirð, við náðum enganveginn saman. Ég alltaf hrædd, nöldrandi um að ég grunaði hann um neyslu og hann alltaf í bullandi vörn, neitandi öllu.

Hann flosnar upp úr skóla og fer að vinna. Flytur út og fer að leigja með vini sínum.
Ég vissi að djammið var með hressara móti en hey – ég var svaka hress 21 árs… En alltaf þessi ónotatilfinning.

Svo fer hann að glíma við þunglyndi og kvíða. Horast, er dapur, leiður. Bara allt ómögulegt.
Í boði er sálfræðiþjónusta sem kostar 14-18 þús tíminn.
Mamma tekur upp á að spila í reikningalottóinu og hendir sér í að hlúa að unganum sínum. Geðlyf ýmiskonar, samtalsmeðferðir, komumst loks að hjá geðlækni einnig eftir 2 mánaða bið a.m.k….

Svo hrundi allt einn daginn. Hann er að misnota kvíðastillandi lyf.. Barnið mitt. Xanax. Oxy. Þessi hræðilegu orð.

Ég sótti hann hálf dauðan heim til sín. Í skítugu rúmi, angandi af brennsa og út úr kortinu. Skráði hann á Vog. Þá tók við bið. Var með hann heima í skelfilegu ástandi, vaktaði hann í 17 daga. Elti hann. Fylgdist með honum. Greip hann við lyfjakaup. Hélt utan um hann, sat bara og beið þegar hann vildi ekki tala. Vakti. Hlustaði á þvaðrið í honum, sá hvernig hann átti erfitt með að koma orðum frá sér, skalf, taugakippir….

Svo kom að Vogi sem hann fór á fyrir mig. Það var skýrt. Bara gert fyrir mömmu. Hann var enginn fíkill að eigin sögn. Í 10 daga naut hann atlætis og faglegrar þjónustu, var byggður upp og fellst hann á að fara í áframhaldandi meðferð á Vík. Eða velur það sjálfur í raun. Massa peppaður, til í að massa lífið og einlægur vilji til að taka sig á. Sá glitta í son minn þarna. Hann sá framtíð allt í einu. Sá möguleika á að gera eitthvað. Þurfti að vísu að bíða í 11 daga því það var jú lokað vegna sumarfría.

Erfiðir dagar. Okkar maður þungur. Dapur. Leiður. Lokað inn í herbergi. Svo fer hann út. Kemur aftur. Ég hrædd.

Svo kemur að Vík. Dásamleg stemming á planinu á Vogi – leið eins og ég væri að senda drenginn minn í sumarbúðir. Allir svo hressir, uppfullir af von og lífsgleði. Fallegt.

Þarna leið honum vel. Var með hlutverk – að sjá um morgunmatinn fyrir kallana. Var að lesa, skrifa í dagbók, sækja fundi, fyrirlestra, úti að hlaupa, lyfta grjóti í fjörunni, kynnast flóru mannlífsins. Átti að leiða fund í dag m.a.s! Það þótti honum mikill heiður og var mjög spenntur. Talaði um að hann langaði að verða ráðgjafi, svo flottir ráðgjafar þarna, góðar fyrirmyndir. Fara að vinna á Stuðlum t.d og hjálpa ungu fólki. Þarna er hann sterkur og myndi blómstra. Hann elskar fólk. Og fólk hann.

Í gær er honum vísað frá Vík eftir einungis 6 daga dvöl. Hann skilaði ófullnægjandi þvagprufu. Ég sæki hann. Hann er út grátinn. Dapur. Viðkunnalegur og kurteis ráðgjafi útskýrir fyrir mér að talið sé að hann hafi átt við þvagprufuna á einhvern hátt. Tekið skal fram að hann pissar fyrir framan ráðgjafa sem er deildarstjórinn á Vík en hann sá víst ekki typpið á honum. Engin efni mælast í þvagprufunni. Hún var bara ófullnægjandi.
Hann er rekinn. Búið.

Hann á mig. Og ég hann. Og við erum heppin. Og við eigum dásamlega fjölskyldu og erum umvafin ást og skynsemi og stuðningi frá bestu vinum heimsins. En það eiga ekki allir svoleiðis.

Hann tók próf fyrir mig hér heima. Þau eru öll neikvæð. Það er ekkert í krakkanum. Hann er að vera duglegur. Hann vill standa sig. Hann ætlar að breyta lífinu sínu. Hann bað um hjálp. Fékk hana. Í 6 daga. En vegna ófullnægjandi þvagprufu var honum vísað frá. Og ekkert til umræðu. Enginn séns að taka aðra.

Í morgun fórum við á Vog. Í læknaviðtal. Og hafið þökk fyrir ráðgjafar á Vík fyrir að koma því á fyrir okkur. Fram fyrir hina 500 sem bíða (hresst). Hlýr og prófessjonal læknir staðfestir niðurstöðurnar, jú – saltmagnið var lágt í prufunum. Ekkert annað. Jú. Hann má sækja aftur um á Vogi. Við kröfðumst þess að hann fengi að fara á Vík aftur og klára meðferðina, ekki fara í afeitrun aftur, byrja upp á nýtt þar sem hann klúðraði jú engu. Var hafður fyrir rangri sök. Deildarstjórinn sagði að hann hefði svindlað… Það særði hann.. Og það var ekki rétt.

Rétt í þessu hringdi læknirinn til baka. Sonur minn má koma á Vog 25 ágúst. Annað er ekki í boði. Ekki til umræðu. Búið að ræða við yfirlækni og þetta er bara svona. Göngudeildin er líka lokuð en opnar í næstu viku. Þar gæti hann fengið stuðning fram að næstu innlögn á Vog.

Þar til er það ég. Og hann. Og lífið. Og lukkan.

Hér taldi ég mig vera að grípa “poster child” fyrir#égábaraeittlíf. Barnið mitt er á þem aldri. Er að gera það sem þau öll eru að gera, þessi sem telja sig kunna á lífið. Ég vil ekki að hann verið eitt af tuttuguogeitthvað andlitunum sem tengjast þessari herferð. Ég held að hann hafi verið gripinn á réttum tíma. Ég vona það. En ég finn hversu tæpt allt er. Hversu stutt er í allt. Og nú var hann sleginn niður. Ungur maður sem misnotar kvíðastillandi lyf, glímir við þunglyndi, kvíða, sjálfsvígshugsanir, sjálfskaðandi hegðun, með brotna sjálfsmynd. Ég græt fyrir foreldra sem misst hafa börnin sín. Kannski ekki fengið tækifæri til að reyna að grípa þau einu sinni. En nú er komið nóg. Fyrr drepst ég en að ég standi hjá og horfi á barnið mitt drepa sig.

Þessi lyf eru svo ávanabindandi að það er ógeðslegt. Fráhvörfin eru m.a ofsakvíði, þunglyndi, svefnleysi…. Ég leyfi mér að fullyrða að fá okkar koma okkur út úr óheilbrigðum vanamynstrum sama svo hver þau eru ein og óstudd. Við þurfum hjálp. Þurfum að hjálpast að.

Þarna er barn, sem er stundum talið fullorðið, í vanda. Gott barn með gott hjarta.
Ég neita að samþykkja að þetta sé eðlilegt. Með fullri virðingu fyrir því frábæra starfi sem SÁÁ er að sinna þá er það ótækt að vísa einstaklingi frá sinni fyrstu meðferð vegna svona einhvers.

Ég neita að samþykkja að ófullnægjandi þvagprufa sé brottrekstarsök. Ófullnægjandi þvagprufa getur kannski þýtt að eitthvað líffræðilegt ójafnvægi sé hjá molanum mínum? Prufan kannski gölluð? Getur þýtt allskonar annað en að hann hafi svindlað. Ég neita að trúa og samþykkja að það sé lausn að henda svona einstaklingum út á gvöð og gaddinn (í þessu tilviki mömmu).

Jú, tökum sénsinn. Kannski verður þetta auka spark í sjálfsmyndina og fíknina bara ok…. Kannski verður allt í lagi.

En kannski ekki.

Og hvað þá?

Ég vil hjálp. Ég vil að börnin okkar séu gripin, þeim hjálpað, unnið með þeim og að þeim.

Ég er ekki til í þetta…

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Fyrir 2 klukkutímum

Musk skefur ekki utan af því – „Þetta verða endalok Evrópu“

Musk skefur ekki utan af því – „Þetta verða endalok Evrópu“
433Sport
Fyrir 2 klukkutímum

Er óvænt orðaður við Arsenal

Er óvænt orðaður við Arsenal
Pressan
Fyrir 6 klukkutímum

Datt í lukkupottinn í pakkaleiknum – Skipti á vasaljósi og besta vinningnum

Datt í lukkupottinn í pakkaleiknum – Skipti á vasaljósi og besta vinningnum
Fréttir
Fyrir 6 klukkutímum

Hér felur Pútín sig og baðar sig í dýrablóði

Hér felur Pútín sig og baðar sig í dýrablóði