Vignir segir sögu sína í Helgarblaði DV eftir að hann og Kolbrún skildu, hvernig hann barðist við HIV og missti kærasta úr sjúkdómnum og hvaðan þetta óvanalega nafn Ljósálfur kemur.
Hér birtum við brot úr viðtalinu:
Eftir greininguna fór Vignir strax á lyf en þau voru ófullnægjandi. Í október árið 1993 lést Tóti síðan af sínum sjúkdómi en hann og Vignir höfðu þá verið saman í sjö ár. Það var ekki til nein áfallahjálp fyrir fólk til að takast á við slíkan missi og Vignir vissi þá að hann gæti farið sömu leið.
Hann sótti samkomur sem kallaðar voru Snæfellsásmótin, sem Guðlaugur og Guðrún Bergmann í Karnabæ stýrðu. Þeirri reynslu hefur hann lýst áður í viðtali við Rauða borðann, blað HIV-samtakanna. Á þessum andlegu samkomum gat fólk talað um sín vandamál og á einum fyrirlestri, þar sem kona lýsti makamissi, brotnaði Vignir niður og grét svo mikið að hann kom ekki upp orði. Hann var algerlega bugaður af harmi og var lagður á dýnu af öðrum fundargestum. Lýsti hann því sem nokkurs konar uppgjöri við þennan mikla missi.
Eftir það fór Vignir sjálfur að veikjast alvarlega og lá lengi á spítala.
Hann hefur verið með psoriasis-húðsjúkdóminn síðan hann var átján ára gamall og HIV-veiran braut niður ónæmið fyrir honum.
„Í eitt sinn var ég þrjá mánuði á spítalanum og var næstum búinn að yfirgefa þetta jarðlíf. Ég fékk slæma psoriasis-sýkingu, fékk slæm hitaköst og öll húðin þakin, var eins og hraun. Þegar maður er svona mikið veikur þá verður manni alveg sama um tilveruna. Ég fann ekki fyrir neinni hræðslu og var alveg tilbúinn að kveðja.“
Í kringum árið 1997 komu hinir nýju HIV-lyfjakokteilar til sögunnar sem Vignir lýsir sem kraftaverki. Allt í einu gátu HIV-smitaðir gert ráð fyrir að lifa í lengri tíma, en fram að því höfðu allar slíkar hugsanir þurft að víkja. Sumir voru búnir að búa sig undir dauðann en aðrir settu öll framtíðarplön einfaldlega á bið.
Lyfin gáfu líf en Vignir hefur þó verið óheppinn að því leyti að venjuleg HIV lyf virka illa á hann og þarf hann því á meiri lyfjagjöf að halda en flestir HIV-smitaðir því hans veira er fljótari að mynda ónæmi gagnvart lyfjum en flestra annarra. Auk þess hefur hann þurft að kljást við erfiðar aukaverkanir lyfjanna svo sem bólgur, magaverki, ofsjónir og ranghugmyndir. Um tíma þurfti hann að hafa stóra gashylkjabyssu á sér. Hann hefur verið á lyfjum sem talin hafa verið svo erfið að spítalinn krafðist þess að hann skrifaði undir pappíra um að spítalinn bæri ekki ábyrgð á aukaverkununum.