Þetta er brot úr löngu helgarviðtali við DV
Kolbrún útskrifaðist úr Verslunarskólanum og Vignir úr Kennaraháskólanum og saman fluttu þau á Stokkseyri þar sem þau kenndu bæði í barnaskólanum. Vorið 1981 var Karen Áslaug skírð og gengu Kolbrún og Vignir í hjónaband.
„Brúðkaupið fór allt í vaskinn. Ég fékk hárgreiðslu eins og fermingarbarn, kakan var glerhörð og óæt og brúðarvöndurinn hrundi í sundur í miðri athöfn. Vignir hafði keypt sér hvíta skó sem voru svo þröngir að það blæddi úr hælnum á honum og hann varð haltur. Þetta var algjörlega misheppnað,“ segir Kolbrún og hlær.
Um það bil þremur árum síðar varð það æ ljósara að hjónabandið var ekki alveg eins og það átti að vera. Þau voru miklir vinir, sálufélagar og ræktuðu hlutverk sitt sem foreldrar dyggilega en samt vantaði eitthvað.
„Á þessum tíma sá ég ekki annað fyrir mér en að við myndum alltaf vera saman, sérstaklega af því að við áttum þetta yndislega barn. En þegar við fluttum til Reykjavíkur árið 1983 vorum við búin að uppgötva að hjónabandið gengi ekki og það var farið að renna upp fyrir mér að hann væri samkynhneigður. En það var ekkert talað um svona hluti á þessum tíma, þetta var algjört tabú. Það var erfitt að koma orðum að þessu en eitt kvöldið þegar við sem oftar sátum og spjölluðum sagði ég við hann: Viggi, þú ert hommi.“