fbpx
Mánudagur 23.desember 2024
Fókus

Transkonan Alexandra Briem: „Hef alltaf vitað að ég var öðruvísi“

Bjartmar Oddur Þeyr Alexandersson
Þriðjudaginn 15. maí 2018 20:00

Alexandra Briem gæti orðið fyrsta transkonan sem verður kjörin fulltrúi á Íslandi.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Alexandra Briem gæti orðið fyrsta transkonan sem verður kjörin fulltrúi á Íslandi í kosningum, ef marka má nýjustu skoðanakannanir um fylgi stjórnmálaflokkana til sveitarstjórnarkosninga í Reykjavík. Hún er í þriðja sæti hjá Pírötum og ein af fimm konum sem sitja í fimm efstu sætum fyrir hönd Pírata.

Alexandra er ekki nýgræðingur þegar kemur að stjórnmálum, hún hefur verið viðriðin Pírata síðan 2014 og var til dæmis í kosningastjórn Pírata fyrir alþingiskosningarnar árið 2017. Vegna anna hefur hún þurft að taka sér frí frá vinnu sinni hjá Símanum, þar sem hún vinnur sem þjónustufulltrúi, til þess að geta einbeitt sér algjörlega að sveitarstjórnarkosningunum í ár. „Ég hugsaði að þriðja sætið væri alveg nógu sennilegt og ég vildi geta sett mig hundrað prósent í þetta. Ég einsetti mér að mæta á alla viðburði og hef verið með í þessu af heilum hug. Ég hef aldrei verið svona upptekin á ævinni.“

Hrædd við að fylgið skili sér ekki á kjörstað

Samkvæmt könnunum mælast Píratar með fjóra borgarfulltrúa í Reykjavík og bæta við sig umtalsverðu fylgi frá kosningunum árið 2014. Í dag eru Píratar með einn fulltrúa og sitja í meirihluta borgarstjórnar. „Við mælumst með fjóra samkvæmt könnunum og ég er í skýjunum með það.“ Hún er hins vegar örlítið smeyk við að fylgið sem Píratar mælast með í dag í könnunum, skili sér ekki endilega allt á kjörstað. Ástæðan er sú að margt ungt fólk styður Pírata og það er líklegra til þess að mæta ekki í kjörklefana.

Vanvirðing í garð ungs fólks

Alexöndru finnst að stjórnmálamenn hafi of lengi talað niður til ungs fólks. „Þegar verið var að ræða á Alþingi núna um daginn hvort það ætti að lækka kosningaaldurinn í sveitarstjórnarkosningum niður í 16 ára, sem við erum hundrað prósent fylgjandi, þá voru margir stjórnmálamenn að segja að við ættum að leyfa þeim bara að vera börn og ekkert að ýta stjórnmálunum inn á þau. Mér finnst þetta svo yfirgengileg vanvirðing í þessu. Því fyrr sem við byrjum að kjósa, því fyrr sem við upplifum að það sé hlustað á okkur, því fyrr venjumst við að kosningaþátttaka skipti okkur máli. Ef við erum tilbúin að taka skattpeninga frá 16 ára gömlu fólki, þá ættum við að leyfa því að kjósa líka.“

Þegar hún er spurð hvort það fylgi einhver ábyrgð því að verða mögulega fyrsta transkona til að verða borgarfulltrúi í Reykjavík kemur vel fram hversu stolt hún er að hafa fengið þetta tækifæri. „Eftir því sem ég verð meira áberandi í pólitíkinni þá er ég mjög meðvituð um að fólk mun horfa til mín sem dæmis um hvernig transfólk sé. Það skiptir mig því miklu máli að vera fagleg í minni vinnu, heiðarleg í tilsvörum, vingjarnleg og kurteis. Það hef ég svo sem alltaf verið, ég hef aldrei verið dóni.“

„Mér hefur verið tekið frábærlega vel“

Samtalið berst að því hvernig það sé að vera transkona á þeim vígvelli sem pólitík getur stundum verið, og sú spurning vaknar hvort hún hafi orðið fyrir einhvers konar mótlæti eða fordómum með kosningaþátttöku sinni. „Það hefur komið mér á óvart hvað aðrir flokkar hafa verið jákvæðir, þá er ég ekki bara að tala um vinstri flokka, Samfylkingu eða VG, þau eru bara mjög fín. En ég hef líka tekið eftir því að önnur framboð sem maður hafði haldið að væru íhaldssamari, þau eru allavega ekki íhaldssöm hvað þetta varðar, allavega ekki við mig. Ég hef ekki fengið nein leiðindi frá neinum, mér hefur bara verið tekið frábærlega vel.

Fagnar hverju jákvæðu skrefi

Réttindi transfólks skipta Alexöndru miklu máli og hefur hún fylgst vel  með baráttunni hérlendis. Sú barátta hefur skilað sér að einhverju leyti til að tryggja transfólki aukin réttindi í samfélaginu. Þrátt fyrir það telur Alexandra að enn sé langt í land en að fagna þurfi hverju jákvæðu skrefi.

„Það er mjög mikilvægt að við fögnum öllum þeim jákvæðu skrefum sem stigin hafa verið. Ég bý að því að aðrir  frumkvöðlar hafa rutt þessa braut fyrir mig. Ég á því baráttufólki mikið að þakka og ég vona innilega að ég geti gert sama gagn og það fyrir komandi kynslóðir.“

Var í afneitun til átján ára aldurs

Fjölskyldan stóð þétt að baki Alexöndru þegar hún var að ganga í gegnum þessar breytingar og tekur maður mjög vel eftir því að henni þykir afar vænt um fjölskyldu sína og þakkar henni mikið að hafa verið svona stuðningsrík og elskuleg.

„Frá því að ég var barn þá hef ég vitað að ég væri öðruvísi. Ég man vel eftir draumum þegar ég var á leikskólaaldri og get ekki útskýrt. Ég fattaði eiginlega ekki hvað þetta var fyrr en ég varð svona níu eða tíu ára. Þá var ég alltaf að passa hegðun mína, að það væri ekki of augljóst að ég vildi leika með stelpunum en ekki strákunum. Í rauninni var ég í mikilli afneitun þangað til ég varð 18 ára. Afneitun er ekki einu sinni rétta orðið.  Ég var bara ákveðin í að sjá hvort ég gæti ekki hunsað þessar tilfinningar. Ég hélt að það yrði minna vesen. Sennilega óttaðist ég líka að ég yrði ekki sátt við lokaniðurstöðuna. Mér óx líka í augum að taka samtalið við vini og vandamenn.“

Alexandra tók þó skrefið að lokum og sér ekki eftir því. Hún segist aldrei hafa verið hamingjusamari.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Kolbrún syrgir bróður sinn

Kolbrún syrgir bróður sinn
Fókus
Fyrir 2 dögum

Dennis Rodman með yfirlýsingu eftir að dóttir hans varpaði sprengju

Dennis Rodman með yfirlýsingu eftir að dóttir hans varpaði sprengju
Fókus
Fyrir 2 dögum

Kristín og Árni nýtt stjörnupar

Kristín og Árni nýtt stjörnupar
Fókus
Fyrir 2 dögum

Unnur birti tvær myndir – Önnur tekin fyrir ári síðan og sýnir ótrúlegan mun

Unnur birti tvær myndir – Önnur tekin fyrir ári síðan og sýnir ótrúlegan mun
Fókus
Fyrir 3 dögum

Ómar leitar að leigjanda yfir jólahátíðina fyrir 600 þúsund krónur

Ómar leitar að leigjanda yfir jólahátíðina fyrir 600 þúsund krónur
Fókus
Fyrir 4 dögum

Læknir svarar því hvort maður geti raunverulega fengið klamýdíu af líkamsræktartæki

Læknir svarar því hvort maður geti raunverulega fengið klamýdíu af líkamsræktartæki