Snjólfur Gunnlaugsson er 73 ára gamall fyrrverandi sjómaður og leigubílstjóri sem búsettur er á Blönduósi. Snjólfur byrjaði að reykja sígarettur þegar hann var einungis þrettán ára og gerði hann það daglega eftir það í 56 ár. „Þegar ég hætti að reykja var ég búinn að reykja í 56 ár og búinn að reyna allt. Ég keyrði leigubíl bæði í Reykjavík og Keflavík og til þess að geta hætt að reykja í vinnunni keypti ég mér neftóbak. Það varð til þess að á meðan ég var að keyra þá reykti ég ekkert en um leið og ég kom heim sat ég og keðjureykti til þess að vinna upp glataðan tíma,“ segir Snjólfur í viðtali við DV.
Þegar Snjólfur flutti á Blönduós tók hann þá ákvörðun að leggja frá sér sígaretturnar. „Það varð til þess að ég jók munntóbakið um helming. Ég var farinn að moka tveimur dósum upp í kjaftinn á mér á viku og kyngdi þessu svo niður með svörtu kaffi. Þá var mér öllum lokið og áttaði mig á því hvað ég var að gera mér. En ég gat ekki hætt, ef ég skildi dósina eftir heima þegar ég fór út þá keyrði ég strax í næstu sjoppu og keypti mér nýja.“
Dag einn var Snjólfur staddur á Akureyri hjá tannlækni þegar hann rakst á skilti sem vakti áhuga hans. „Ég rakst á lítið merki sem á stóð Djákninn og ég var forvitinn af því að bíllinn minn hét Höfðingi. Ég fór þarna inn og gekk svoleiðis inn í gufuský. Ég ákvað að leggja allt í hendurnar á þeim sem afgreiddi mig og valdi hann fyrir mig græju og vökva. Ég gekk út úr þessum kofa algjörlega frelsaður maður,“ segir Snjólfur sem í dag, þremur árum seinna á enn sömu tóbaksdolluna uppi í hillu. „Ég hef ekki tekið reyk inn fyrir mínar varir síðan og ekki tóbakskorn upp í kjaftinn á mér. Mér líður miklu betur og fann svo mikinn mun á mér strax.“
Blaðamaður hafði samband við Gunnar Viðar Þórarinsson sem ásamt Adolfi Braga Austfjörð stofnaði og rekur veipverslunina Djáknann. Hver veipbúðin hefur sprottið upp á fætur annarri en á annan tug verslana er að finna á höfuðborgarsvæðinu. DV hefur áður greint frá því að á Facebook sé að finna þráð þar sem íslenskir veiparar sem reyktu áður tilkynna hversu mikið þeir spara á mánuði eftir að þeir byrjuðu að veipa. Flestir þar segja að kostnaðurinn nú sé um þriðjungur eða fjórðungur af því sem þeir eyddu áður. Stærstu verslanirnar á höfuðborgarsvæðinu eru Fairwape, Póló, Drekinn og svo Djákninn. Í vetur var rapparinn Garðar Eyfjörð í viðtali við DV en hann var þá í samstarfi við Djáknann. Þá sagði rapparinn: „Veip er tískubóla fyrir fólk sem hefur ekki reykt, en þetta bjargar mannslífum. Án gríns. Þetta er 95 prósent minna skaðlegt en sígarettutóbak og reykingar hafa minnkað heilmikið á landinu vegna þess. Þetta er ekki alveg skaðlaust en þú þarft ekki að vera kjarneðlisfræðingur til að sjá að þetta er mun betra en að reykja tóbak.“
Gunnar Viðar, annar stofnanda Djáknans, kveðst aldrei hafa reykt en hann er einn af þeim sem veipar. Gunnar segir að algengustu viðskiptavinir þeirra sé fólk sem er að hætta að reykja. Hann bætir við að nikótínið sem notað er í vökvana sé unnið úr tómatplöntum en ekki tóbaksplöntum.
„Það er auðveldara að líkja saman sígarettum og kaffi en sígarettum og veipi út af innihaldsefninu. Við gerð tómatsósu til dæmis er nikótínið tekið frá af því að það er vont bragð af því. Það nikótín er notað bæði fyrir nikótíntyggjó og vökva fyrir veip. Nikótíntyggjóið virkar auðvitað að einhverju leyti en málið er að nikótínið hjá allflestum hefur átt upptök sín í gegnum lungun og þar af leiðandi virkar það miklu hraðar með veipi en með því að fá það í gegnum meltingarveginn. Það er þess vegna sem veipið er að virka svona vel fyrir fólk sem er að hætta að reykja, af því að nikótínið er að koma inn á sama stað.“
„Örugglega yfir 90% af viðskiptavinum okkar er fólk sem hefur ánetjast tóbaki áður fyrr. Það hleypur á hundruðum ef ekki þúsundum einstaklinga sem hafa leitað til okkar til þess að geta hætt að reykja og við höldum utan um það fólk.“
Gunnar segir að þegar hann sjái fólk í dag sem enn reykir þá vorkenni hann því.
„Það er loksins búið að finna góða afgerandi lausn á þessu stærsta heilsufarsvandamáli síðustu áratuga. Veip er lausn gegn sígarettuvandamálinu og að líkja þessu saman er algjörlega útí hött.“
Gunnar segir að því miður komi helstu fordómarnir í samfélaginu frá Krabbameinsfélaginu.
„Þau hafa verið að tala niður til veipa án þess að hafa fulla þekkingu á því hvað þau eru að tala um. Þeirra umræða hefur skaðleg áhrif á alla hér á landi, þetta er mjög alvarlegt mál þar sem þeir eru vísvitandi að veita rangar upplýsingar. Í einni rannsókn voru upplýsingar teknar algjörlega úr samhengi við raunverulega niðurstöðu. Þessi rannsókn var framkvæmd í Bretlandi og þá var tekin veipgræja og hún látin ganga á fullum hita í heilar tvær mínútur. Þá fóru þeir að finna krabbameinsvaldandi efni þar sem jú auðvitað allir innviðir græjunar voru byrjaðir að brenna. Það er auðvitað engin sem sýgur í sig gufu í tvær mínútur, þetta eru í mesta lagi um tvær sekúndur. En til gamans, ef við tökum samt þetta efni sem þeir fundu eftir tvær mínútur af bruna í veipi, þá var það samt 800 sinnum minna magn af því þar heldur en er nú þegar í sígarettum. Þú getur farið upp á Vatnajökul og fundið krabbameinsvaldandi efni þar. En þetta er allt spurning um magn. En það hefur þó enginn orðið veikur af þessu efni sem þeir fundu af því að hin efnin sem eru í sígarettunum eru svo miklu skaðlegri.“
Gunnar telur að rafretturnar séu hjálparhönd sem muni gera Ísland reyklaust.
„Þegar við stofnuðum Djáknann þá var það fyrst og fremst til þess að hjálpa fólki til þess að hætta að reykja, við vildum að viðskiptavinurinn fengi besta möguleikann á að bjarga lífi sínu. Þetta er leið út úr tóbakinu. Þetta virkar fyrir alla. Fólk þarf bara að koma í næstu veipverslun og fá hjálp við að velja græju, því sumt virkar fyrir einn en ekki annan. Það er mismunandi hvernig veip virkar fyrir hvern. Ef þetta yrði leyft með öllu, þá gætum við gert Ísland reyklaust.“
Upplýsingar af síðunni Veipum Lifum:
Í rannsóknum á yfir 80.000 börnum beggja vegna Atlantshafsins, kemur glöggt fram að krakkar sem aldrei hafa reykt áður leiðast ekki út í reglulega notkun á veipum (<0,1–0,5%) og hvað þá heldur að veipur leiði börnin út í reykingar skamkvæmt þessum risastóru rannsóknum. Þau börn sem eru að veipa hafa því verið að reykja áður (99,9%) og engin börn leiðast út í reykingar frá veipunum. Það sama birtist í nýlegri rannsókn Farsalinos et al og sýnir að þau börn sem aldrei hafa reykt tóbak áður eru eingöngu 0,3% og að þau eru ekki að sýna neina fíkn af veipunotkun. Enn fremur benda þessar tölur (<1%) sterklega til kynna að um engin ávana- eða fíknaráhrif sé að ræða af nikótíni í veipum. Engin merki fíknar er að finna hjá börnunum af veipum.
Aldrei hefur verið sýnt fram á skaðsemi fyrir nærstadda eða óbein skaðleg áhrif af veipugufunni. Veipugufan er ekki skaðleg þeim sem veipar og hvað þá gufan sem hann andar frá sér. Útöndunarloft einstaklinga sem veipa samanstendur 96% af vatnsgufu, 3,7% af glycerini (sem brotnar í líkamanum sem sykrur), propylene glycol 0,03% og svo ómælanlegt eða snefilmagn nikótíns sem nær engum skaðlegum gildum. Niðurstaða Krabbameinsfélags Bretlands (UK Centre for Tobacco and Alcohol Studies, UKCTAS).