fbpx
Miðvikudagur 22.janúar 2025

Árni Johnsen: „Þetta er það alversta sem ég hef lent í og hef ég lent í mörgu“

Kristinn H. Guðnason
Sunnudaginn 29. apríl 2018 09:48

Árni Johnsen Mynd: Hanna

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Veturinn hefur verið erfiður hjá Árna Johnsen, þessum þekktasta syni Vestmannaeyja. Á aðeins hálfu ári hefur Árni misst tvo syni á sviplegan hátt. Á sama tíma og hann hefur tekist á við sársauka sem vart verður lýst í orðum hefur hann glímt við alvarleg veikindi. En Árni brosir í gegnum tárin með sinni einstöku glettni og heldur áfram sinni óhefðbundnu göngu í lífinu. Nú í vor gefur hann út þrjú tónlistarsöfn, öll með ólíku sniði. Blaðamaður DV skrapp út í Eyjar til að ræða æskuna, starfsferilinn, tónlistina og sonamissinn við Árna.

„Það er enginn sem hefur lofað því að lífið verði skemmtilegt, en það eru allt of margir sem rembast við að gera það leiðinlegt.“

 

Með nýmúruð lungu

Þegar blaðamaður og Jóhanna Andrésdóttir, ljósmyndari DV, koma inn í afgreiðsluhús Landeyjahafnar einn mildan miðvikudagsmorgun blasir við þeim skilti, Herjólfur er bilaður og fer ekki af stað fyrr en seint um kvöld. Það fer heldur engin flugvél frá Bakka. Fyrir guðs náð er dráttarbáturinn Lóðsinn að störfum í höfninni og á leið út í Eyjar. Skipperinn Svenni leyfir okkur að fljóta með en hann er einmitt góðvinur Árna og hefur siglt með honum um heimsins höf. Í Lóðsinum eru Belgar að blása sandi úr höfninni en sandfok hefur verið þrálátt vandamál í Landeyjahöfn síðan hún var tekin í notkun og stundum þarf Herjólfur enn að sigla til Þorlákshafnar.

Öldurnar ýta við bátnum á meðan skipverjar láta gamminn geisa. Það er smávegis súld. Eftir því sem árunum hefur fjölgað á sjó er húmorinn svartur eins og djúpið og ekki allt prenthæft sem sagt er í stýrishúsinu. En andinn er góður og DV kann áhöfn Lóðsins bestu þakkir fyrir viðvikið.

Það er íðilfögur sjón að sigla inn að höfninni í Heimaey. Húsfreyjan og fyrrverandi flugfreyjan Halldóra Filippusdóttir sækir okkur og ekur upp að Höfðabóli í útjaðri kaupstaðarins. Þetta er tilkomumikið bjálkahús, innflutt frá Finnlandi. Norðan við stendur torfbærinn Húsið sem reist var sem gestahús og sunnan við verkstæðið Smiðjan þar sem standa margir skúlptúrar Árna. Bak við Höfðaból stendur Suðurgarður, hvítt eldra hús sem Árni ólst upp í.

„Það hefði nú verið betra að hafa göngin þín Árni núna,“ segi ég þegar ég geng inn í stofuna á Höfðabóli. „Já, heldur betur. Það voru svik og heimska að hafa ekki farið strax í að láta grafa þau,“ svarar húsbóndinn sem háði áralanga baráttu fyrir því að grafin yrðu göng frá landi yfir í Eyjar.

Heilsan er ekki upp á sitt besta en Árni er nokkuð brattur þegar hann rýnir í framtíðina.

„Ég er búinn að vera að slást svolítið í eitt ár en þetta er nú loksins að koma og ég verð bráðum alveg djöfullegur,“ segir Árni ákveðinn. „Ég fékk afar slæma lungnabólgu og það kom vatn inn í lungun. Þá er maður að synda í sjálfum sér. Ég mæddist mikið og var töluvert rúmliggjandi síðasta árið. En svo fór ég í aðgerð og lungun á mér voru múruð að innan. Þeir klæða slyðruvefina í kringum lungun með efni sem þéttir þá og þá hættir að leka inn í hólfin. Þetta er einhver hræra sem er dælt inn í mann, eins og lambalifur áður en þú steikir hana á pönnunni. Síðan er ég með áunna sykursýki. Það er sykurinn, pastað og kartöflurnar sem eru að trufla og ég þarf að passa hvað ég set ofan í mig.“

„Ég er búinn að vera að slást svolítið í eitt ár en þetta er nú loksins að koma og ég verð bráðum alveg djöfullegur“

Pabbi barðist í Normandí

Árni færir okkur að gjöf eintök af nýju plötunum sínum. Eitt af þessum tónverkum er svíta sem nefnist Gríska sólarsvítan þar sem leikið er á hið kynngimagnaða þjóðarhljóðfæri Grikkja, bouzouki. Það er engin tilviljun að þetta rataði í safnið því í æðum Árna rennur grískt blóð.

„Pabbi minn var Grikki. Bandarískur hermaður af grískum ættum sem var á herstöðinni í Keflavík í stríðinu. Hann hét Poul C. Kanelas og starfaði lengst af sem fasteignasali í borginni Detroit. Ég hitti hann aðeins einu sinni, fyrir tíu eða tólf árum. Þá flaug ég út og bankaði upp á hjá honum sem var mjög skemmtileg reynsla. Ég er mjög líkur honum í útliti, það eru til ljósmyndir þar sem er ekki hægt að þekkja okkur í sundur. Við spjölluðum saman um heima og geima og hann fór að stúdera mig, til dæmis hendurnar. Við vorum þá með alveg eins hendur.“

Vissi hann ekki af þér?

„Jú, jú. Móðir mín hafði eitthvert samband við hann í gegnum árin en það fór allt í gegnum bróður pabba sem bjó í Massachusetts. Þetta var eitthvað viðkvæmt því fjölskylda hans var kaþólsk og hann var ókvæntur þegar ég kom undir.“

Árni var ekki slysabarn. Móðir hans, Ingibjörg Á. Johnsen, og Poul voru saman um nokkurt skeið og voru trúlofuð. En einn daginn vorið 1944 var Poul færður úr landi til að taka þátt í innrásinni á strönd Normandí. Í orrustunni náðu Bandamenn fótfestu í Frakklandi og varð hún ein sú þekktasta í seinni heimsstyrjöldinni. Poul særðist í bardaganum, var sendur á herspítala og síðan heim til Bandaríkjanna. Síðan leið og beið í eitt eða tvö ár.

„Einn daginn kom bréf inn um lúguna frá pabba sem amma tók upp. Í bréfinu sagðist pabbi ætla að koma til Íslands til að sækja mömmu og mig. En það var ekki hægt því mamma var að fara að gifta sig viku síðar. Þannig var þetta bara, þannig var stríðið.“

Ingibjörg giftist Bjarnhéðni Elíassyni skipstjóra og eignuðust þau þrjú börn til viðbótar.

„Ef amma hefði ekki tekið upp bréfið væri ég sennilega forseti Bandaríkjanna í dag,“ segir Árni og skellir upp úr. „En mér finnst þetta betra.“

Áttu systkini úti?

„Já, ég á þrjú systkini úti en hef ekki haft samband við þau. Ég ætla nú að gera það einhvern tímann, það gæti verið forvitnilegt. Eftir að ég hitti pabba heyrði ég ekkert meira frá honum. Síðan dó hann fyrir tveimur eða þremur árum.“

 

Spretthlaup og Surtsey

Það var lúxus, að mati Árna, að alast upp í Vestmannaeyjum. Hvern dag fór hann niður að höfn til að fylgjast með bátunum, en hann sá einnig um skepnurnar við Suðurgerði og seig í björg eftir lundaeggjum. Hann viðurkennir að hafa sjálfsagt verið dálítið erfiður krakki en kannski af því að hann hafði mikla drift og vildi vera í svo mörgu. Á unglingsárunum stundaði hann frjálsar íþróttir af miklum móð. Hann var þá með fremstu spretthlaupurum landsins og á enn þá 15. besta tímann í 100 metra spretthlaupi á Íslandi, um 11 sekúndur.

„Á þessum tíma voru aðeins 100 bestu hlauparar heimsins með slíkan tíma en ég vissi það ekki þá. Það var enginn sem sagði mér það.“

Kom íþróttaferill aldrei til greina?

„Það komu eitt sinn menn frá háskóla í Flórída og vildu bjóða mér frítt nám ef ég myndi hlaupa fyrir þá. Örn Eiðsson, formaður ÍSÍ, kom með þeim. En ég vildi heldur vera hérna hjá lundanum og gella. Ég var ekkert að pæla í einhverju stjörnulífi í íþróttum.“

Á þessum árum vildi Árni verða náttúrufræðingur því sjórinn og fuglalífið heillaði hann svo mikið. Hann fór hins vegar í Kennaraskólann og lauk prófi þar árið 1966. Eftir námið dvaldi hann í Surtsey, sem þá var nýrisin úr sjó, og starfaði þar í tvö ár sem vaktmaður yfir eynni og við rannsóknarvinnu.

„Eyjan varð til árið 1964 og það var ótrúleg upplifun að vera þarna. Gosið var alltaf í gangi og það kraumaði í eynni. Ég var mikið einn þarna en stundum voru margir vísindamenn. Þetta var góður skóli en það varð þó ekkert úr náttúrufræðinni hjá mér.“

Árni fann sig heldur ekki í kennarastörfunum og kenndi aðeins í eitt ár fyrir útskrift og eitt ár eftir. Árið 1967 fann hann loks sína fjöl í blaðamennskunni og dagskrárgerð.

„Ef amma hefði ekki tekið upp bréfið væri ég sennilega forseti Bandaríkjanna í dag“

Gosið og Gísli á Uppsölum

Árni bankaði upp á hjá Matthíasi Johannessen, ritstjóra Morgunblaðsins, og fékk þar vinnu sem blaðamaður og því starfi átti hann eftir að sinna í 24 ár, eða til ársins 1991, og um tíma var hann fréttastjóri blaðsins. Á sama tíma var hann einnig dagskrárgerðarmaður hjá Ríkisútvarpinu, bæði í sjónvarpi og útvarpi, og stjórnaði meðal annars fyrsta helgarþættinum, Í vikulokin.

„Þetta var það skemmtilegasta sem ég hef gert um ævina. Ég var mest í innlendum fréttum og karakterviðtölum. En ég sá einnig um slysafréttir og önnur stór mál þar sem þurfti að fara á vettvang.“

Þú hefur væntanlega séð um gosið hér 1973?

„Já. Móðir mín hringdi í mig þremur mínútum eftir að gosið hófst, klukkan tvö um nóttina, og sagði mér að það væri soldið að ske austur í Eyjum. Ég var á vakt þá og hringdi í Styrmi Gunnarsson, sem var þá nýorðinn ritstjóri, og sagði honum að við þyrftum að stoppa blaðið. Ég yrði að fara út í Eyjar af því að það væri að byrja gos og við þyrftum að setja nýja forsíðu á blaðið. Eftir þetta samtal hringdi Styrmir í Björn Jóhannsson, fréttastjóra, og spurði hvort ég væri byrjaður að drekka.“

Hvernig varð þér við að sjá heimabyggðina loga?

„Mér bregður aldrei en þetta var sérkennilegt. Fólkið var ekki hrætt og það tók þessu með yfirvegun. Fyrst héldu margir að þetta væri flugeldasýning á bænum Kirkjubæ af því að það var afmæli þar. Ég fór beint af flugvellinum upp á Helgafell til að ná sem bestu útsýni og svo niður í bæ þar sem ég skrifaði stanslaust um hvað var að gerast. Síðan gaf ég út bók sem Ómar Ragnarsson kallaði stóru kokkabókina. Hún hét Eldar í Heimaey og Ómar leit svo á að ég væri að elda í Heimaey,“ segir Árni kíminn.

Á blaðamannaferli Árna var hann sennilega best þekktur fyrir mannlífsviðtölin sín, til dæmis við Gústaf guðsmann á Siglufirði og Gísla á Uppsölum. Árni og síðar Ómar Ragnarsson gerðu Gísla að þjóðþekktum manni í einu vetfangi en fram að því hafði hann verið nánast alveg óþekktur. Árni heyrði fyrst af Gísla á Bíldudal árið 1977. Hann spurði kunnuga menn hvort það væru ekki einhverjir kynlegir kvistir í sveitinni og þeir sögðust halda að það væri maður sem héti Gísli í Selárdalnum, en vissu ekki einu sinni hvort hann var á lífi.

Árni bað Ómar að fljúga með sig og þar hitti hann Gísla og tók viðtalið fræga. Fjórum árum síðar fóru Árni og Ómar saman til hans en þá með sjónvarpsmyndavélar með sér.

„Gísli vildi fyrst ekki koma út úr húsinu en þá var hann spurður hvort hann vildi ekki koma og hitta blaðamanninn af Morgunblaðinu sem hafði heimsótt hann um árið.“ Árni setur sig í stellingar og hermir eftir Gísla: „Ha? Jú, ég man eftir honum. Hann var svo skrítinn.“

Árni segist aldrei hafa verið í innsta hring Ríkissjónvarpsins, eða klíkunni eins og hann kallar það. Hann hafi frekar verið talinn aðskotahlutur þar. En hann stýrði þó yfir hundrað þáttum og þar á meðal þeim fyrsta sem sýndur var í lit.

„Í þættinum tók ég viðtöl við söngkonurnar Guðrúnu Símonardóttur og Þuríði Pálsdóttur. Þátturinn var einn og hálfur tími og það var sagt að þegar þættinum lauk hafi verið mikið álag á vatnskerfið í borginni því að það hefði enginn tímt að fara á klósettið og missa af þeim, kellingunum.“

 

Vestfirsk kona hengdi klóna á gítarinn

Tónlist var ávallt stór þáttur á heimili Árna í barnæsku og alltaf sungið þegar fólk kom saman. Hann byrjaði hins vegar ekki að sinna listinni fyrir alvöru fyrr en á miðjum táningsaldri þegar Oddgeir Kristjánsson kenndi honum á gítar. Í kringum árið 1967 fór hann að skemmta opinberlega í fyrstu skiptin, á þjóðlagakvöldum í Tónabæ. Um þetta leyti samdi hann fyrstu lögin sín og 1971 kom fyrsta platan út, Milli lands og Eyja. Síðan hefur plötunum fjölgað í 20 og tónleikunum í nærri 4.000.

Árni hugsar sig vel um þegar hann er spurður um fyrirmyndir í tónlist en segir svo: „Presley! En ég átti engan séns í hann þannig að ég fór mína eigin leið.“

Hann hefur flutt öll helstu sjómannalögin og þjóðlagaperlurnar en einnig samið ótal lög sjálfur. Þá sérhæfði hann sig í að semja lög við ljóð íslenskra skálda, til dæmis heila plötu sem hann vann náið með Halldóri Laxness árið 1975.

„Halldór sagði við mig að það besta sem hann hefði skrifað væru ljóðin.“ Árni setur sig í leikrænar stellingar á ný og hermir eftir nóbelskáldinu: „En krítíkerar, þeir telja eitthvað annað, ég skil það ekki.

Gítarinn frægi með fuglsklónni er fyrir löngu orðinn óaðskiljanlegur hluti af ímynd Árna sem tónlistarmanns. En hvernig rataði hún þangað?

„Það var ekki mín hugmynd. Ég var að spila á kvöldvöku um páska í Hlíðarfjalli á Akureyri árið 1968. Um miðnætti kom til mín eldri kona frá Vestfjörðum og hengdi klóna á gítarinn hjá mér. Síðan hefur hún verið þarna. Hún er nú svolítið komin til ára sinna enda hafa margir verið að grípa í hana og fikta á öllum þessum skemmtunum. Þá lét ég smíða silfurhosur á klærnar, og kostaði 20 þúsund kall hosan.“

Annað sem Árni er þjóðþekktur fyrir er brekkusöngurinn sem hann hefur stýrt á lokadegi Þjóðhátíðar, flest ár síðan 1977. Hann segir einn mesta hápunkt á ferlinum hafa verið þegar mættu hátt í 20 þúsund manns til að hlýða á. „Ein gítardrusla og fátækleg rödd fyrir framan þennan skara.“

„Þarna var drengur sem hafði lamast ungur og var eiginlega út úr myndinni. En hann hafði fallegasta bros sem ég hafði séð“

Bros fatlaðs barns minnisstætt

Árni er með þrjú tónlistarsöfn, glæný úr pressunni, undir höndum. Í fyrsta lagi er það þreföld DVD-útgáfa sem nefnist Sólarsvítan. Þar má finna safn af lögum sem Árni saumaði saman í svítu fyrir sinfóníu og flutti Sinfóníuhljómsveit Úkraínu verkið. Þar má einnig finna hina áðurnefndu Grísku sólarsvítu sem flutt er af sömu sveit og bouzouki-leikaranum Panagiotis Sterigou en það ku vera í fyrsta skiptið sem hljóðfærið er notað með sinfóníu. Þriðji diskurinn er kóraútsetning á lögum Árna, flutt af Karlakórnum Þröstum frá Hafnarfirði.

„Ég fékk hugmyndina þegar ég heyrði svítu byggða á lögum Oddgeirs. Mér fannst þetta svo fallegt og datt í hug að gera þetta með mín eigin lög. Einn af mínum göllum er að ég veð í það sem mér dettur í hug. Ég hvorki kann né get geymt hluti. Síðan verð ég að reyna að bjarga mér á sundi.“

Við gluggann er tvöföld tónleikaplata, Við gluggann, tekin upp á sjötugsafmæli Árna sem haldið var í Salnum í Kópavogi. Þar lék undir með honum úrval íslenskra tónlistarmanna, Magnús Kjartansson, Birgir Níelsen, Ingólfur Magnússon, Björn Thoroddsen og Úlfar Sigmarsson.

„Þetta er topplið. Ég hef alltaf bjargað mér með því að vinna með þeim bestu. Þá flýt ég með, eins og korktappi. Þetta voru sígild og falleg lög sem mér finnst gaman að syngja. Bara bjútí og ævintýr.“

Síðast en ekki síst er það tvöfalda barnaplatan Bara gaman sem inniheldur meira en hundrað af helstu barnasöngvum síðustu áratuga og með honum sungu stúlkur úr Stúlknakór Reykjavíkur. Þetta er fyrsta barnaplatan sem Árni gefur út en það er ástæða fyrir útgáfunni:

„Þetta eru lög sem leikskólarnir eru meira og minna hættir að spila. Í stað þess taka þeir slitrur úr erlendum lögum og semja einhverja drasltexta við. Þetta eru lög sem hægt er að syngja í skólunum og foreldrar geta sungið með börnunum sínum.“

Hefur þú spilað mikið fyrir börn?

„Ég hef alltaf gert það, já. Í mörg ár spilaði ég fyrir þroskaheftu börnin á Selfossi, á vinnuheimilinu þeirra. Þau voru svo glöð að syngja og þakklát.“ Það er ekki laust við að Árni klökkni örlítið á þessum stað í samtalinu. „Það er svo margt sem undirstrikar í smáatriðum hvað er mest virði. Þarna var drengur sem hafði lamast ungur og var eiginlega út úr myndinni. En hann hafði fallegasta bros sem ég hafði séð. Sá bjargarlausasti af öllum en með fallegasta brosið. Þetta sest í mann.“

 

Utangarðs í flokknum

Viðbrögð stjórnvalda, eða skortur á þeim réttara sagt, urðu til þess að Árni bauð sig fram til Alþingis fyrir Sjálfstæðisflokkinn árið 1983 og náði kjöri. Alls sat hann á þingi frá 1983 til 2013 með hléum 1987 til 1991, þegar hann náði ekki kjöri, og árin 2001 til 2007 þegar hann sagði af sér þingmennsku vegna misferlis með reikninga og hlaut tveggja ára fangelsisdóm. Árni var alla tíð hávær og umdeildur þingmaður, ekki síst innan eigin flokks. En engum duldist að hann barðist dyggilega fyrir sína heimabyggð.

„Mér fannst Eyjamenn fara svo illa út úr kerfinu. Þeim var ekki hjálpað eins og til stóð eftir gosið en það hefur verið þannig alla tíð. Eyjamönnum hefur alla tíð verið gert að bjarga sér sjálfir. Áður fyrr voru Eyjarnar séreign konungs og kallaðar gullkista Íslands. Nýhöfnin, Konunglega leikhúsið og allt þetta var byggt fyrir peninga héðan. Við áttum að vinna fyrir öllu en fá ekkert í staðinn. Þess vegna fór ég út í pólitík.“

Árni segir að honum hafi gengið vel á þingi og hann náð ýmsum þjóðþrifamálum í gegn með setu í fjárlaganefnd. Hann sótti mál hart og fékk margt í gegn með frekju og eftirfylgni að eigin sögn. Krabbameinsdeildin, fjarkennsla og tilkynningarskylda sjómanna eru mál sem nefnd eru sérstaklega. Hann gerði sér þó grein fyrir því að samvinna við aðra þingmenn, sama í hvaða flokki þeir stóðu, var mikilvæg.

Það kemur hik á Árna þegar ég spyr hann hvort honum hafi alltaf gengið vel að vinna í flokknum.

„Ég var eiginlega ekkert í flokknum,“ segir hann loks. „Þetta er eins og með tónlistina. Ég hef gefið út fleiri hundruð lög, en Andrea Jóns hefur aldrei spilað þau í útvarpinu. Mér hefur heldur aldrei verið boðið að flytja ræðu í Valhöll, jafnvel þó að ég hafi verið einn af helstu ræðumönnum Sjálfstæðisflokksins í mörg ár. Þetta er bara svona, maður passaði ekki alls staðar inn. Ég var ekki venjulegur stjórnmálamaður, ég var byltingarmaður. Sennilega sá eini sem hefur setið á Alþingi Íslendinga. Ég tók af skarið og keyrði hlutina í gegn. Þess vegna var ég líka alveg djöfullega umdeildur og margir biðu eftir tækifæri til að sparka í mig. En skítt með það, ég hef sterk bein,“ segir hann ákveðinn.

Árni viðurkennir að í athafnasemi sinni hafi hann gert mistök. En hann hafi þá reynt að leiðrétta þau, klára og gera upp.

Hann flettir í símanum og sýnir mér svo langa og innilega afmæliskveðju sem hann fékk senda frá Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, fyrrverandi forsætisráðherra. Það fer ekki á milli mála að honum þótti mjög vænt um kveðjuna og segir að þeir Sigmundur þekkist ekki einu sinni vel.

„Ég hef ekki fengið svona kveðju frá mínum eigin samflokksmönnum.“

Árni hefur blendnar tilfinningar gagnvart stjórnmálunum í dag. Inni á Alþingi sé upp til hópa „námskeiðs- og skýrslufólk“ sem komi hlutum sjaldnast í verk. „Ég vil ekki vera að dæma einstaklinga en það er margt fólk í stjórnmálunum í dag sem hefur enga reynslu og ekkert verkvit. Gráður frá skólum og stofnunum skipta ekki máli. Stjórnmálin í dag ráðast að miklu leyti af dægurflugum og uppþotum. Hlutir eins og naglalakk geta hleypt öllu í bál og brand.“ Er hann þar mögulega að vísa í naglalakkstilraun Þorsteins V. Einarssonar, frambjóðanda Vinstri grænna.

Honum líst hins vegar ágætlega á þessa ríkisstjórn sem nú situr.

„Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að Sjálfstæðismenn og kommarnir ættu að vinna saman. Það er svo margt líkt með þeim, þeir taka af skarið og standa við það sem þeir segja. Loksins þorðu gömlu allaballarnir að mæta til samstarfs við íhaldið,“ segir hann kátur. „Mér fannst mikilvægt að fá Framsókn með því þeir eru mjög stabílir. Því miður er það með apparat eins og Samfylkinguna, allt ágætisfólk og indælt, en þetta er eins og viðbrenndur bíxímatur. Þokkalegt á pönnunni framan af en skilar ekki árangri. Það var alltaf sagt að Jóhanna Sigurðar hefði gert svo mikið fyrir fólk. Kjaftæði. Ég skora á þig að finna eitthvað sem hún gerði, þetta var meira og minna blaður.“

„Það er ekkert til sem er eins sárt og sorgarsársauki, ekkert“

Missti tvo syni í vetur

Nú víkur talinu að öðrum og sorglegri hlutum. Því það er ekki hægt að skauta fram hjá því að síðasta ár hefur verið örlagaríkt í lífi Árna, Halldóru og fjölskyldunnar allrar. Þann 30. nóvember varð Haukur A. Clausen, sonur Halldóru, bráðkvaddur á heimili sínu aðeins 58 ára gamall og 20. mars lést svo Breki Johnsen, sonur þeirra beggja, í slysi aðeins fertugur að aldri. Breki hafði barist við fíknivandamál í einhvern tíma og Árni lýsti því í minningargrein hversu sorglegt það hafi verið að tapa syninum í slíkri orrustu. „Allt var reynt sem hægt var til þess að fá hann til að þiggja þá aðstoð sem bauðst í baráttunni gegn Bakkusi, en hann þáði hana ekki.“

Þetta er búinn að vera erfiður vetur hjá þér Árni?

„Já, veturinn er búinn að vera erfiður, svakalegur. Fyrst dó Haukur, fóstursonurinn, og svo hann Breki minn. Það er ekkert til sem er eins sárt og sorgarsársauki, ekkert. Þetta er það alversta sem ég hef lent í og hef ég lent í mörgu. Hitt er allt saman smámunir og hjóm, alveg sama hvað það hefur verið þungbært á hverjum tíma. Ég get líkt þessu við að vera hent undir skriðjökul. Þá verður maður að reyna að standa á fótunum.“

Það er erfitt að heyra þessi þungu orð og auðséð hversu djúpt sorgin ristir. Of erfitt er að ræða þá baráttu sem Breki háði á sinni allt of stuttu ævi.

„Það eiga allir sinn djöful að draga. Það er ekki hægt að komast undan því,“ segir Árni.

Hvernig persóna var Breki?

„Hann var magnaður. Ofboðslega fær og einnig blíður, góður og viðkvæmur. Hann sagði að við ættum að passa að misnota ekki stóru orðin því þau væru svo sár fyrir sálina. Maður verður að passa sig á að tala ekki af sér. Skólasystkini hans héldu minningarathöfn í Hólakirkju í Reykjavík þar sem mættu um 100 manns. Einn skólabróðir hans sagði: Það var alveg sama hvað Breki gerði, hann hafði ekkert hátt en hann var alltaf bestur. Sama hvort það var sem plötusnúður, að spreyja, hjólabretti, snjóbretti eða hvað sem var. Hann tók flugpróf á breiðþotu í Flórída með hæstu einkunn og hann var einn af aðalmarkaskorurum Vals sem peyi. Hann var perla.“

Á veggnum fyrir ofan okkur í Höfðabóli hangir ein af graffitímyndum Breka, falleg mynd af rauðleitum höndum og á eldhúsborðinu eru innrammaðar minningamyndir af honum og kerti. Breki gekk undir listamannsnafninu STARZ og vakti eftirtekt út fyrir landsteinana. Hann starfaði hins vegar aðeins sem flugmaður í skamma stund því hann átti við bakmeiðsli að stríða.

Fylgdist þú vel með honum og þessari nýmóðins list og íþróttum sem hann stundaði?

„Já. Við vorum afskaplega nánir. En hann hafði nú líka gaman af eldri tónlist. Mamma hans neitaði einu lagi sem ég ætlaði að láta spila í útförinni hans. Kántrílaginu All my ex’s live in Texas,“ og nú lifnar aðeins yfir Eyjajarlinum. „Það var alveg í stíl Breka.“

Voruð þið líkir persónuleikar?

„Já, og það er kannski eitt af því sem er erfitt. En ég hugsa að hann hafi verið heilsteyptari en ég.“

Getur þú sagt mér frá Hauki?

„Haukur var mjög sérstakur og flottur, en sérvitur og fór sínar eigin leiðir. Tölvugrúskari mikill og bjó til sína eigin veröld. Hann varð bráðkvaddur en hafði áður veikst alvarlega af krabbameini í læri.“

Voruð þið nánir?

„Ekki eins og við Breki. Haukur vildi svo mikið vera einn, svona sérsinna. Hann var einfari. En yndislegur drengur.“

Auk sonanna sem Árni og Halldóra misstu eiga þau tvær dætur. Breki átti 15 ára son, Eldar Mána, sem Árni segir ákaflega líkan pabba sínum.

„Við höfum fundið fyrir alveg ótrúlegri umhyggju og vinarþeli frá hundruðum manna úr Eyjum og af öllu landinu“

Stutt í eilífðina

Að lenda í svona áföllum, hvað þá tveimur á skömmum tíma, hlýtur að vera nærri óyfirstíganlegt. Hafið þið leitað hjálpar?

„Við höfum fundið fyrir alveg ótrúlegri umhyggju og vinarþeli frá hundruðum manna úr Eyjum og af öllu landinu. Fólk hlúir að og notar hjarta sitt til að slá fyrir þá sem eiga um sárt að binda og það skiptir máli. Síðan höfum við mjög fína presta hérna sem hafa hjálpað. Þannig er styrkurinn í mörgum byggðarlögum, að fólki er ekki á sama hvernig hlutirnir æxlast.“

Hefur trúin hjálpað þér?

„Já, hún gerir það og skiptir mig máli. Kristnin á Íslandi byrjaði á þessum stað með byggingu stafkirkjunnar árið 1000, sem var síðan endurbyggð á Skansinum. Mormónar voru hérna fyrst, hvítasunnumenn, aðventistar. Eina trúarhreyfingin sem ekki hefur átt upptök sín í Vestmannaeyjum eru Vottar Jehóva.“

Árni segist ekki vita fyrir víst af hverju trúin er svona sterk í Eyjum en hann hefur sínar kenningar um það. Tengslin við náttúruna, nálægðin við hafið og mannskaðarnir.

„Fimm hundruð sjómenn hafa farist á síðustu hundrað árum við Vestmannaeyjar, það eru fimm á ári. Ég tel að þetta valdi meiri nálægð samfélagsins við það sem heitir trúarlíf. Hér er allt smátt og stutt í eilífðina. Ég segi alltaf að það smæsta sé næst guði.“

Árni og Halldóra eru gestrisið og hlýtt fólk þó að sorgin og erfiðleikarnir grúfi yfir þessa stundina. Árni sýnir okkur verkin sín fyrir utan Smiðjuna og Halldóra býður upp á heita og ljúffenga brauðtertu. Pistilinn fæ ég að skrifa í torfbænum sem er eins og nýmóðins sumarhús að innan. Hér er þessi ekta hlýja sem maður finnur svo sterkt fyrir á landsbyggðinni. Við tökum smá rúnt fram hjá Stafkirkjunni á Skansinum sem Árni lét byggja á sínum tíma. Síðan kveðjum við þau með virktum áður en haldið er upp í Herjólf.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 3 klukkutímum

Feðgarnir Davíð og Þorvarður sögðu upp störfum til að elta drauminn – „Við ákváðum að kýla á þetta og stofna fyrirtæki saman“

Feðgarnir Davíð og Þorvarður sögðu upp störfum til að elta drauminn – „Við ákváðum að kýla á þetta og stofna fyrirtæki saman“
Fréttir
Fyrir 3 klukkutímum

Sara furðar sig á því að leikskólar haldi upp á bóndadaginn – „Komið út í svo mikið bull”

Sara furðar sig á því að leikskólar haldi upp á bóndadaginn – „Komið út í svo mikið bull”
433Sport
Fyrir 5 klukkutímum

United sagt hafa snarlækkað verðmiðann

United sagt hafa snarlækkað verðmiðann
Sport
Fyrir 5 klukkutímum

Veðbankar hliðhollir Íslendingum fyrir kvöldið – Þetta segja þeir nú um sigurlíkur Strákanna okkar á HM

Veðbankar hliðhollir Íslendingum fyrir kvöldið – Þetta segja þeir nú um sigurlíkur Strákanna okkar á HM
Fókus
Fyrir 5 klukkutímum

Þetta er síðasta myndin af henni á lífi: Fór spennt á Tinder-stefnumót en hryllingur beið hennar

Þetta er síðasta myndin af henni á lífi: Fór spennt á Tinder-stefnumót en hryllingur beið hennar
433Sport
Fyrir 5 klukkutímum
Aftur sektaðir af KSÍ
433Sport
Fyrir 6 klukkutímum

Áttu fund vegna Rashford – Þurfa að leysa þessi tvö mál svo skiptin gangi upp

Áttu fund vegna Rashford – Þurfa að leysa þessi tvö mál svo skiptin gangi upp
433Sport
Fyrir 6 klukkutímum

Fyrrum Liverpool-maðurinn fékk stígvélið

Fyrrum Liverpool-maðurinn fékk stígvélið
433Sport
Fyrir 7 klukkutímum

De Bruyne tjáir sig – „Skrifa ekki undir tíu ára samning“

De Bruyne tjáir sig – „Skrifa ekki undir tíu ára samning“
Fréttir
Fyrir 7 klukkutímum

Búseti kærir borgina: Bygg­ing­ar­leyfi gefið út löngu áður en sérupp­drætt­ir voru lagðir fram

Búseti kærir borgina: Bygg­ing­ar­leyfi gefið út löngu áður en sérupp­drætt­ir voru lagðir fram