fbpx
Mánudagur 23.desember 2024

Árni Johnsen syrgir tvo syni: „Það er ekkert til sem er eins sárt og sorgarsársauki, ekkert“

Kristinn H. Guðnason
Föstudaginn 27. apríl 2018 09:50

Árni Johnsen Mynd: Hanna

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Veturinn hefur verið erfiður hjá Árna Johnsen, þessum þekktasta syni Vestmannaeyja. Á aðeins hálfu ári hefur Árni misst tvo syni á sviplegan hátt. Á sama tíma og hann hefur tekist á við sársauka sem vart verður lýst í orðum hefur hann glímt við alvarleg veikindi. En Árni brosir í gegnum tárin með sinni einstöku glettni og heldur áfram sinni óhefðbundnu göngu í lífinu. Nú í vor gefur hann út þrjú tónlistarsöfn, öll með ólíku sniði. Blaðamaður DV skrapp út í Eyjar til að ræða æskuna, starfsferilinn, tónlistina og sonamissinn við Árna.

Þetta er brot úr stóru viðtali í helgarblaði DV

Missti tvo syni í vetur

Nú víkur talinu að öðrum og sorglegri hlutum. Því það er ekki hægt að skauta fram hjá því að síðasta ár hefur verið örlagaríkt í lífi Árna, Halldóru og fjölskyldunnar allrar. Þann 30. nóvember varð Haukur A. Clausen, sonur Halldóru, bráðkvaddur á heimili sínu aðeins 58 ára gamall og 20. mars lést svo Breki Johnsen, sonur þeirra beggja, í slysi aðeins fertugur að aldri. Breki hafði barist við fíknivandamál í einhvern tíma og Árni lýsti því í minningargrein hversu sorglegt það hafi verið að tapa syninum í slíkri orrustu. „Allt var reynt sem hægt var til þess að fá hann til að þiggja þá aðstoð sem bauðst í baráttunni gegn Bakkusi, en hann þáði hana ekki.“

Þetta er búinn að vera erfiður vetur hjá þér Árni?

„Já, veturinn er búinn að vera erfiður, svakalegur. Fyrst dó Haukur, fóstursonurinn, og svo hann Breki minn. Það er ekkert til sem er eins sárt og sorgarsársauki, ekkert. Þetta er það alversta sem ég hef lent í og hef ég lent í mörgu. Hitt er allt saman smámunir og hjóm, alveg sama hvað það hefur verið þungbært á hverjum tíma. Ég get líkt þessu við að vera hent undir skriðjökul. Þá verður maður að reyna að standa á fótunum.“

Það er erfitt að heyra þessi þungu orð og auðséð hversu djúpt sorgin ristir. Of erfitt er að ræða þá baráttu sem Breki háði á sinni allt of stuttu ævi.

„Það eiga allir sinn djöful að draga. Það er ekki hægt að komast undan því,“ segir Árni.

Hvernig persóna var Breki?

„Hann var magnaður. Ofboðslega fær og einnig blíður, góður og viðkvæmur. Hann sagði að við ættum að passa að misnota ekki stóru orðin því þau væru svo sár fyrir sálina. Maður verður að passa sig á að tala ekki af sér. Skólasystkini hans héldu minningarathöfn í Hólakirkju í Reykjavík þar sem mættu um 100 manns. Einn skólabróðir hans sagði: Það var alveg sama hvað Breki gerði, hann hafði ekkert hátt en hann var alltaf bestur. Sama hvort það var sem plötusnúður, að spreyja, hjólabretti, snjóbretti eða hvað sem var. Hann tók flugpróf á breiðþotu í Flórída með hæstu einkunn og hann var einn af aðalmarkaskorurum Vals sem peyi. Hann var perla.“

Á veggnum fyrir ofan okkur í Höfðabóli hangir ein af graffitímyndum Breka, falleg mynd af rauðleitum höndum og á eldhúsborðinu eru innrammaðar minningamyndir af honum og kerti. Breki gekk undir listamannsnafninu STARZ og vakti eftirtekt út fyrir landsteinana. Hann starfaði hins vegar aðeins sem flugmaður í skamma stund því hann átti við bakmeiðsli að stríða.

Fylgdist þú vel með honum og þessari nýmóðins list og íþróttum sem hann stundaði?

„Já. Við vorum afskaplega nánir. En hann hafði nú líka gaman af eldri tónlist. Mamma hans neitaði einu lagi sem ég ætlaði að láta spila í útförinni hans. Kántrílaginu All my ex’s live in Texas,“ og nú lifnar aðeins yfir Eyjajarlinum. „Það var alveg í stíl Breka.“

Voruð þið líkir persónuleikar?

„Já, og það er kannski eitt af því sem er erfitt. En ég hugsa að hann hafi verið heilsteyptari en ég.“

Getur þú sagt mér frá Hauki?

„Haukur var mjög sérstakur og flottur, en sérvitur og fór sínar eigin leiðir. Tölvugrúskari mikill og bjó til sína eigin veröld. Hann varð bráðkvaddur en hafði áður veikst alvarlega af krabbameini í læri.“

Voruð þið nánir?

„Ekki eins og við Breki. Haukur vildi svo mikið vera einn, svona sérsinna. Hann var einfari. En yndislegur drengur.“

Auk sonanna sem Árni og Halldóra misstu eiga þau tvær dætur. Breki átti 15 ára son, Eldar Mána, sem Árni segir ákaflega líkan pabba sínum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 9 klukkutímum

Nýir ráðherrar hafa tekið við embættum – Myndir frá ríkisráðsfundi

Nýir ráðherrar hafa tekið við embættum – Myndir frá ríkisráðsfundi
433Sport
Fyrir 9 klukkutímum

Átti í engum erfiðleikum með að hafna Liverpool í sumar

Átti í engum erfiðleikum með að hafna Liverpool í sumar
Pressan
Fyrir 11 klukkutímum

Regluleg neysla á dökku súkkulaði gæti minnkað líkurnar á sykursýki 2

Regluleg neysla á dökku súkkulaði gæti minnkað líkurnar á sykursýki 2
433Sport
Fyrir 11 klukkutímum

Byrjunarlið Tottenham og Liverpool – Gakpo byrjar

Byrjunarlið Tottenham og Liverpool – Gakpo byrjar