Konráð Valur Gíslason (38) helgar lífið fitnessþjálfun:
Konráð Valur,eða Konni eins og hann er alltaf kallaður, hefur stundað líkamsrækt frá því hann var barn. Hann byrjaði í fótbolta til að „fitta“ inn sem nýi strákurinn í hverfinu, en fann sig í lyftingum og hefur starfað við þjálfun afreksfólks í fitness hálfa ævina. Veikindi ollu því að hann varð sjálfur að hverfa frá keppnum, en í staðinn leggur hann allan sinn metnað í að þjálfa keppnisfólk til verðlaunasæta í stærstu fitnesskeppnum heims.
„Ég var á kafi í fótbolta og frjálsum þegar ég var barn og unglingur,“ segir Konni. „Ég byrjaði tíu ára í fótbolta hjá Fjölni sem var glænýtt félag og ég fór bara til að kynnast krökkum, enda nýr í hverfinu og þekkti engan. Hann segir fótboltann frábæra leið til að kynnast öðrum krökkum og með því að vera í hópíþrótt þá megi koma í veg fyrir að lenda í einelti. Konni var sprettharður og fór einnig að æfa frjálsar íþróttir þar sem hann setti meðal annars Íslandsmet í 4 x 100 metrum. Einnig var hann valinn í landslið undir 16 ára, bæði í fótbolta og frjálsum.
„Með fótboltanum vorum við að stunda styrktarþjálfun og brautryðjandinn í henni var Lárus sem var knattspyrnuþjálfari hjá Fjölni og á þeim tíma var besti unglingaþjálfari landsins. Slík þjálfun þótti tabú á þeim tíma og margir voru á móti henni, en hann trúði á þetta. Styrktarþjálfunin fór fram í World Class sem þá var í Mylluhúsinu í Skeifunni.“
Konni fékk bakteríuna og heillaðist af lyftingunum, fótboltinn fór að lúta í æ meira haldi fyrir lyftingunum og á endanum fór svo að Konni hætti alfarið í boltanum. „Það fór alltaf í taugarnar á mér að vera í liðsþrótt og vera að stóla á aðra, það sem mér fannst heillandi við lyftingarnar var að ég þurfti bara að stóla á mig sjálfan.“ Á þessum tíma byrjaði Konni að lyfta í Orkulind, stöð sem var í Brautarholti og eigandinn, Stefán Hallgrímsson, gaf honum einfaldlega lykla að stöðinni. „Hann var gömul kempa í tugþrautum og tók mig upp á sína arma. Ég gat komið og farið eins og ég vildi og þegar félagarnir voru niðri í miðbæ að djamma, þá fór ég að lyfta. Einn að taka á því undir miðnætti með músíkina í botni.“
Árið 1996 keppti Konni í fyrsta sinn í vaxtarrækt, 16 ára, og vann sinn flokk, var reyndar eini keppandinn. Hann ætlaði bara að keppa einu sinni og hafa gaman af, en góðlátleg athugasemd frá þáverandi meistara, Magnúsi Bess, vakti í honum keppnisskapið. „Þarna var ég 16 ára og 65 kíló og á meðal verðlauna var meðal annars Mega Mass próteinblanda, svona 10 kílóa poki. Þegar tilkynnt er um verðlaunin segir Maggi, sem vann over all-titilinn á þessu móti og búinn að taka meistaratitilinn í vaxtarrækt 20 ár í röð, „Já, þú þarft aldeilis á þessu að halda.“ Þetta var auðvitað bara vel meint, en fór samt rosalega í mig og ég setti mér markmið að vinna hann, sem því miður tókst ekki þar sem hann keppti ekki síðasta árið sem ég var í hans þyngdarflokki.“
Árið 2004 greindist Konni með arfgengan nýrnasjúkdóm og 2005 fékk hann nýrnagjöf frá systur sinni. Hann ákvað því að það væri ekki leggjandi á líkamann að standa í þessu. Og það lá beinast við að byrja að þjálfa í staðinn fyrir að keppa sjálfur. „Ég var 19 ára, á íþróttabraut í Fjölbraut í Breiðholti, æfði tvisvar á dag og hugsaði ekki um neitt annað,“ segir Konni. Hann tók einkaþjálfararéttindi hjá ISSA og byrjaði strax að þjálfa keppnisfólk í fitness og vaxtarrækt. „Ég er svo „mótiveraður“ sjálfur og finnst gaman að „mótivera“ aðra. Það var hins vegar gríðarlegt áfall fyrir mig að þurfa að hætta að keppa.“
Konni er með fjölda fólks í þjálfun og World Class Laugum er hans annað heimili, enda er hann þar frá sex á morgnana og langt fram á kvöld. „Það er mjög mikið að gera, eins mikið að gera og ég vil, sem er æðislegt. Seinni ár hef ég getað valið um kúnna og ég vil þjálfa fólk sem hefur metnað til að ná árangri,“ segir Konni, sem er að jafnaði með 15–20 manns á hverju móti hér heima og flestir þeirra ná verðlaunasæti.
„Þau sem eru að æfa hjá mér byrja mestmegnis frá grunni, en stundum hafa þau byrjað sjálf eða koma til mín frá öðrum, sum eru hjá mér í nokkra mánuði, önnur í mörg ár. Það liggur til dæmis mun meiri tími að baki því að byggja upp vöðvamassa fyrir vaxtarræktina. Að vera að þjálfa keppnisfólk, gefur mér tækifæri til að vera áfram keppandi, innan gæsalappa, í fitness og vaxtarrækt. Ég stend á hliðarlínunni kvíðnari og stressaðri en aðrir,“ segir Konni. Stressið er þó algjör óþarfi því einstaklingar sem Konni hefur þjálfað hafa raðað inn titlum á mótum hér heima, auk þess sem Evrópumeistara- og heimsmeistaratitill hafa komið í hús. Mesti fjöldinn er 13 titlar á einu móti hér heima af 17 mögulegum.
Þó að þjálfunin sé fullur vinnudagur og vel það, þá heldur Konni einnig úti heimasíðu ifitness.is. Hann hefur einnig þjálfað afreksfólk í öðrum íþróttum og komið leikurum í form fyrir hlutverk. „Ég þjálfaði Atla Rafn Sigurðarson og Tómas Lemarquis fyrir mynd sem kemur út í haust, þar leika þeir tvo stráka sem eru í óreglu en áttu líka að vera í formi,“ segir Konni, sem hefur gaman af þessu aukastarfi, eins og aðalstarfinu. „Ég hef gaman af að vera með fólk sem er að vinna að alvöru markmiði. Ég væri líklega hættur að þjálfa ef ég væri alltaf með þennan mann sem er að bæta á sig 5 kg og taka af sér 5 kg til skiptis. Það er æðislegt að vinna með íþróttafólki, en þetta er gríðarlega erfitt sport og það gera sér ekki allir grein fyrir því. Þú ert að æfa tvisvar á dag og þarft að vera 100% í mataræðinu.“
Konni er núna staddur erlendis í Santa Susana á Spáni, þar sem þrjár stúlkur sem æfa hjá honum eru að keppa á Evrópumeistaramótinu í vaxtarrækt, þær Bergrós, Inga Hrönn og Tanja Rún. „Á heimsvísu er þetta annað sterkasta mótið, 1500 keppendur, þar af fimm íslenskir,“ segir Konni. „Tanja Rún sem er 16 ára sem rétt nær inn í yngsta flokkinn, 16 – 23 ára, en hún byrjaði að æfa hjá Konna í júlí í fyrra. „Þá var hún búin að lyfta ein í tvo mánuði, en hún er núverandi íslands- og bikarmeistari í unglingamódelfitness og í haust vann hún einnig fullorðinsflokkinn sem er ótrúlegur árangur. Inga Hrönn vann over all titil í fitness flokki kvenna (sem á mótinu úti heitir bodyfitness). Hún vann titil á Grand prix mótinu í Osló nýlega, sem er sterkasta mót á Norðurlöndum. Þar vann hún sinn flokk og var over all meistari. Mest hafði hún náð þriðja sæti hér heima fyrir það mót, þannig að þetta voru miklar bætingar og rosa flottur árangur. Bergrós er Íslandsmeistari unglinga í fitness og vann líka undir 163 flokkinn,“ segir Konni stoltur af árangri fitnessdrottninganna sinna.
„Það er gríðarlega mikilvægt fyrir okkur að stunda lyftingar, sérstaklega kvenfólk, með því ertu að styrkja stoðkerfið, styrkja bein og vöðva og með auknum vöðvamassa aukum við fitubrennsluna í líkamanum,“ segir Konni. „Við verðum öll heilbrigðari, með því að hreyfa okkur þá batnar mataræðið, þér líður betur, maður er sáttari með sjálfan sig í betra formi, kynlíf batnar og þetta smitar út frá sér til fjölskyldunnar, barnanna okkar. Aðrir borða hollara þegar þú borðar hollt, manni líður betur þegar maður borðar rétt, maður er ekki alltaf þreyttur, heilt yfir bara betra líf,“ segir Konni sem er sáttur við farveginn sem hann valdi sér þegar hann var 19 ára.