Aldrei að fara auðveldu leiðina í lífinu – Leið eins og úrgangi – Fékk tækifæri á Íslandi
„Ég er búinn að spila bumbubolta í Reykjavík í rúm fimm ár. Meirihlutinn í grúppunni er útlendingar; Pólverjar, Slóvenar, Litháar og Serbar. Það myndar áhugaverða dýnamík. Sumir tala hvorki ensku né íslensku. En við getum talað saman á vellinum. Þetta eru bestu samskiptin. Samskipti án orða.“
Þetta segir rithöfundurinn Bjarni Klemenz sem er einn þeirra sem halda utan um að skipuleggja knattspyrnuæfingar fyrir flóttamenn á Íslandi. Í Facebook-hóp félagsins eru um 150 manns. Bjarni segir að fastur kjarni af flóttamönnum mæti á æfingar.
„Að einhverju leyti gefur fótboltastíllinn til kynna hvers konar karakter maður er. Eftir nokkra leiki veit maður nokkurn veginn hvers konar náungi liðsfélagi manns er. Egóisti á vellinum er það líka í lífinu. Það gildir einnig um vinnuhestana,“ segir Bjarni.
Einn liðsfélagi hans heitir Sayed Ehsan Hoseiny (Ehsan Ísaksson á íslensku) sem kemur frá Afganistan. Hann hefur engan bakgrunn í fótbolta, byrjaði að spila sautján ára gamall og hefur óbilandi trú á fótbolta. Hann fæddist í Íran og tilheyrir útbrenndu kynslóðinni – börnum flóttamanna. Hann hefur mjög sterka framtíðarsýn og ætlar að snúa aftur til Afganistan og leggja sitt af mörkum við endurbyggja land sitt, svo ekkert annað barn þurfi að ganga í gegnum það helvíti sem hann hefur þurft að upplifa. Bjarni ræddi við Ehsan Ísaksson fyrir DV.
„Ég er Afgani, ég fæddist reyndar í Íran. Foreldrar mínir bjuggu þar í rúm 35 ár,“ segir Sayed Ehsan spurður um uppruna sinn. Hann bætir við hann sé enn að bæta sig og hafi ekki náð markmiðum sínum.
Þú hefur aldrei gefist upp?
„Jú, það gerði ég. Ég er mannlegur, en ég reyni samt …“
Þú ert góður varnarmaður, er það þín uppáhaldsstaða?
„Takk fyrir að segja það. Enginn hefur sagt mér það fyrr. Að vísu finnst mér gaman að sóla og skora, þannig að vörn er ekki beint óskastaða.“
Myndir þú vilja spila annars staðar?
„Já, mér finnst gaman að vera frammi, óskastaða mín er að vera staðsettur framarlega á miðjunni. Svona eins og Marcelo.“
Vinur þinn Ra Ali (Ali Akbar) er góður. Spilar hann með alvöru liði?
„Já, hann er mjög hæfileikaríkur. Hann spilaði með heimaliði sínu í Íran. En hann náði aldrei að blómstra og nýta hæfileika sína til fulls af því írönsk stjórnvöld eru andsnúin innflytjendum. Ali Akbar er frá Afganistan eins og ég. Svo flutti hann til Noregs og spilaði knattspyrnu með liði þar, en þurfti að yfirgefa Noreg af því að þarlend yfirvöld synjuðu beiðni hans um hæli. Hann langar að spila með liði á Íslandi, en það er flókið. Hann er jú ekki með neina samninga og talar hvorki ensku né íslensku. Ég er búinn að senda nokkrum liðum í fjórðu deildinni póst fyrir hans hönd í von um svör. En því miður var mér ekki svarað. Ali Akbar er mjög hæfileikaríkur og mér þykir leitt að vinur minn geti ekki nýtt hæfileika sína. En það eru fleiri rosalega góðir í grúppunni, eins og Ivan and Dominique.“
Fótbolti er alþjóðlegt tungumál. Að mínu mati skiptir öllu máli að vera læs á leikinn ekki satt?
„Ja, að einhverju leyti er ég sammála þér. Félagslega séð verða samskiptin á fótboltavellinum að ganga upp jafnt innan sem utan. Ég held að bestu liðin samanstandi af leikmönnum sem geta hreinlega lesið hugsanir liðsfélaga sinna og umbera galla þeirra. Líklega er það ástæðan fyrir því að Pólverjar vilja helst vera saman í liði og að við Afganarnir erum oftast saman í liði. Fótbolti er eitthvað miklu meira en bara fótbolti. Hann er lífsstíll. Í hinu fullkomna liði ríkir samkennd milli leikmanna.“
Er fótbolti góð leið til að kynnast fólki?
„Já, svo sannarlega. Það segi ég alltaf. Ég er alltaf að segja við vin minn Ali að besta leiðin til að átta sig á því hvort einhver sé fábjáni, afsakið orðbragðið, er að fylgjast með honum í bolta, skoða leikstíl hans.“
Spilaðir þú lengi í heimalandi þínu?
„Við – ég og Ali – fæddumst báðir í Íran en fengum aldrei tækifæri til að spila fyrir landið. Þeir kalla okkar kynslóð útbrunnu kynslóðina, sem er börn flóttamanna. Við, þessi útbrenndu börn, verðum að finna okkur annan stað til að koma okkur fyrir á.“
Hvað varstu gamall þegar þú byrjaðir?
„Ég byrjaði að spila fótbolta í Noregi sautján ára gamall, núna er ég tvítugur. Í upphafi spilaði ég fótbolta af því að mér fannst hann vera frábær líkamsrækt. En svo gerðist það allt í einu að ég lærði að meta fótboltann. Og núna er þetta – að spila fótbolta – það allra skemmtilegasta sem ég geri. Ég verð stundum pirraður út í sjálfan mig fyrir að hafa ekki uppgötvað sportið fyrr. Þá hefði ég kannski getað lifað af þessu. Ég verð þreyttur á mörgu, en aldrei boltanum.“
Er fótboltinn góður fyrir sálina?
„Ójá. Ég verð stundum mjög þungur og einmana. Æi, þú skilur kannski. Ég er auðvitað búsettur í framandi landi og sakna mömmu og pabba. En strax og ég er kominn inn á völlinn þá hverfa þessar hugsanir, eins og fyrir töfra. Ég hef engar áhyggjur á meðan ég spila fótbolta. Ég geri mitt besta og þegar vel gengur þá lyftist sál mín upp á æðra plan. Ég verð hamingjusamur, líka eftir æfingu. Það er nóg að rifja upp taktana. Vá, kom þessi sending frá mér? Bíddu, skoraði ég þetta mark?“
Af hverju er fótbolti svona skemmtilegur?
„Af því að hann er allt saman. Bara allt. Lífið.“
Allt?
„Já, allt, brjálæðisleg líkamleg átök, samvinna, hugarleikfimi. Hann er svo margt, maður lærir að hugsa hratt og jafnvel halda ró sinni þegar adrenalínið er alveg í botni. Maður lærir líka að taka réttar ákvarðanir undir mikilli tímapressu og vera til staðar fyrir samherja sína.“
Stundum hugsar þú of lengi. Þú hikar með boltann?
„Líklega er það rétt. Ég á það til að bíða svolítið lengi með að gefa boltann. Sendingin verður nefnilega að vera alveg fullkomin. Minn mesti veikleiki er efinn. Þegar ég fer að efast um sjálfan mig. Þetta á líka við um lífið og fótbolti gefur mér tækifæri til að takast á við þennan veikleika minn. Mitt mottó er að efast aldrei og óttast ekkert. „Just do it“. Það þýðir ekkert að vera að velta sér upp úr áhyggjum.“
Er innsæi mikilvægt á vellinum?
„Ég held að innsæi sé nákvæmlega eins og vöðvaminni. Þegar maður hefur mikla reynslu nýtist það manni, en sem betur fer snýst fótbolti ekki bara um vöðvaminni heldur er hann mjög skapandi og margbreytilegur.“
Þú bjóst í Noregi áður en þú komst hingað. Varst þú sáttur þar?
„Ég yfirgaf Íran fimmtán ára gamall. Það tók mig rúmlega sextán mánuði að komast til Noregs. Ég var rúma fimm mánuði í Tyrklandi. Ég eyddi hinum mánuðunum í að komast í gegnum lönd til Noregs. Ég fór í gegnum Grikkland, Albaníu, Makedóníu, Serbíu, Ungverjaland, Austurríki, Þýskaland, Danmörku og Svíþjóð áður en ég komst til Noregs. Ég bjó rúm þrjú ár í Noregi þar til mér var vísað á brott til Afganistan. Mínu máli var nefnilega hafnað af norsku útlendingastofnuninni. Þá var ég rúmlega sautján. Ég var mjög miður mín. Ég bjó þarna í rúm þrjú ár og gekk í skóla. Norðmenn eru ekki beint að bjóða útlendinga velkomna. Ég átti bara einn norskan vin sem var líka svolítið út undan í bekknum mínum. Líklega af því að hann var nörd. Ég er trúlega ekki alveg hlutlaus í þessu málefni af því að ég lagði svo mikið á mig til að verða einn af þeim. En mér var hafnað.“
Hver er besti fótboltamaður í heimi?
„Messi, það kemur enginn annar til greina. Auðvitað er hann frábær, en eins og við vitum báðir þá er fótbolti eitthvað miklu meira en bara fótbolti. Hann er lífið sjálft. Og spilamennska manns gefur innsýn inn í persónuleikann. Messi, hann vill ekki bara skora mörk, hann vill skora eftirminnileg mörk. Auk þess fer hann aldrei auðveldu leiðina, hann er þú veist, „ókei, nú ætla ég að gera enn betur en síðast“. Maður á aldrei að fara auðveldu leiðina í lífinu heldur miða hátt og reyna að komast sem allra lengst í lífinu. Þetta lærði ég af Messi. Þess vegna nenni ég ekki að skora ef markið er autt, það er of létt, ég bíð frekar eftir markmanninum og reyni að vippa yfir hann eða gera eitthvað flott.“
Ronaldo. Líkar þér við hann?
„Nja, hann er ágætur. Það skiptir engu máli þó að maður geti skorað mörk. Þau verða að vera glæsileg.“
Af hverju Ísland?
„Ég veit að þetta beinlínis tengist ekki spurningu þinni. En Ísland er æði, dvöl mín hér hefur verið alveg frábær. Ég hefði bara óskað þess að ég hefði komið hingað í staðinn fyrir Noreg. Ég var tvö ár að læra norsku og komst áfram í gaggó þrátt fyrir að hafa engan bakgrunn í menntun. Það braut mig alveg niður að vera sendur burt. Sjálfstraust mitt molnaði. Mér leið eins og úrgangi sem mætti henda í ruslið. Ég lagði mig allan fram til að verða einn af þeim og gerði mitt allra besta. En það var ekki nógu gott. Þetta var ömurlegt. Þegar ég kom til Evrópu aftur í annað sinn hafði viðhorf mitt breyst. Ég hef það ekki að markmiði að setjast að neins staðar. Ég ætla að njóta augnabliksins og verða mér úti um reynslu, markmiðið er að verða sterkari einstaklingur og fara aftur til baka. Ég veit að það skiptir engu máli hversu mikið þú leggur þig fram við að vera einn af „þeim“. Maður verður alltaf útlendingur nema heima. Þess vegna ætla ég aftur til Afganistans og nota reynslu mína – og vonandi peninga og menntun – til að leggja mitt af mörkum við að endurreisa heimaland mitt.
Minn draumur er að ekkert annað barn frá Afganistan þurfi að ganga í gegnum þetta helvíti. Ég vil að afgönsku börnin fái tækifæri til að geta gert hvað sem er, spila fótbolta, syngja, eða jafnvel fara út í geim. En jú, ég hefði svo mikið viljað koma hingað. Af því að hér er ríkir allt annað viðhorf en í Noregi og líklega væri ég orðinn góður í íslensku. Mér finnst þetta land vera langbest. Fólk samþykkir mig eins og ég er.
Ég fékk vinnu fljótlega og komst í skóla, ég er núna í Menntaskólanum í Hamrahlíð. Ég náði einhvern veginn að byggja mig aftur upp og er aftur kominn með sjálfstraust. Mér líður samt svolítið eins og ég verðskuldi þetta ekki af því að ég hef ekki lagt mig nægilega fram við að læra íslensku. Ég verð bara að leggja áherslu á ensku. Hún nýttist mér svo vel á flakkinu. Ég get ekki hætt að leggja áherslu á það hversu vel mér líður hér. Ég hefði óskað þess að Ísland hefði orðið fyrir valinu, en ekki Noregur, af því að þá hefði ég pottþétt viljað eiga heima hér.“