Einar Bárðarson, athafnamaður og áður umboðsmaður með meiru, virðist heillaður af nýjasta æðinu á Norðurlöndum ef marka má stöðufærslu hans á Facebook. Þessi stundartíska snýst um að skokkarar tína upp rusl á leið sinni. Þetta nefnist Plogging og óskar Einar eftir íslenskri þýðingu í Facebook-hópnum Skemmtileg íslensk orð: „Að hlaupa og tína rusl er nýtt æði í Skandinavíu. Það er kallað Plogging. Sem er jogging og eitthvað sænskt orð um að tína, bundið í eitt.“ Meðlimir hópsins stinga upp á ýmsum nýyrðum en miðað við fjölda „læka“ virðist „pikkskokk“ vera hlutskarpast.