Ægir fékk alvarlegt hjartaáfall fyrir sléttu ári – Kláraði fimmta maraþonið í Tel Aviv á dögunum
Um miðjan febrúar fór fram stórt alþjóðlegt maraþon í Tel Aviv í Ísrael. Fjölmargir Íslendingar tóku þátt en einn af þeim sem luku hlaupinu var Skagamaðurinn Ægir Magnússon. Fyrir ári fékk Ægir, sem er 61 árs, alvarlegt hjartaáfall í svefni. Röð tilviljana réð því að hann lifði áfallið af. Læknir hans sagði að hann mætti aldrei hlaupa aftur en Ægir lét það ekki stöðva sig. Viku eftir áfallið var hann byrjaður að hlaupa á hlaupabretti og hefur ekki stoppað síðan. Maraþonið í Tel Aviv var hið fimmta sem hann hleypur frá áfallinu alvarlega og eins og sönnum hlaupara sæmir þá var hann hundfúll með tímann. „Að takast á við áföll er spurning um hugarfar. Það er auðvelt að falla í sjálfsvorkunn en það er líka hægt að ákveða að gera það ekki og halda ótrauður áfram. Þannig hef ég reynt að taka því sem á mér hefur dunið í þessu lífi,“ segir Ægir í helgarviðtali við DV.
Við hittumst í kaffibolla og spjall í IKEA, sem er nærri stálsmiðjunni Framtak, vinnustað Ægis. Blaðamaður pantar sér hefðbundið uppáhellt kaffi og Ægir biður um sama drykk, nema án koffeins. Það er ekki í boði á veitingastaðnum og það kemur Ægi ekki á óvart. Hann pantar heitt vatn og tekur síðan upp bréf með koffínlausu kaffi. „Það er erfitt að fá koffínlaust kaffi á Íslandi. Ég drekk alveg jafnmikið og áður, en það hjálpar svefninum að hafa það koffínlaust,“ segir Ægir.
Þetta er aðeins eitt af mörgum dæmum um skipulag Ægis, sem hann segir að sé afar mikilvægt þegar kemur að maraþonhlaupi. „Ég skipulegg tíma minn vel til þess að koma æfingum að. Þetta spjall er til dæmis að riðla skipulaginu,“ segir Ægir brosandi. Ólíkt mörgum hlaupurum þá æfir hann að mestu einn þó að vissulega hlaupi hann reglulega með vinum og kunningjum. „Það eru margir sem þurfa hvatninguna frá hópnum til þess að drífa sig af stað. Ég hef sjálfur alltaf haft mikinn sjálfsaga og því hefur það aldrei verið vandamál fyrir mig að gera áætlanir fram í tímann og standa við þær,“ segir Ægir ákveðinn.
Hann byrjaði að fikta við hlaup árið 2009. Eins og hjá flestum sem byrja að hlaupa þá gerðist það eiginlega óvart. „Vinnufélagi minn, Einar Guðmundsson, var að fara að keppa í 10 kílómetra hlaupi og hvatti mig til þess að koma með. Ég hafði gaman af áskoruninni og ákvað síðan að taka þátt að ári og æfa mig fyrir hlaupið. Þá var ég kominn á bragðið og síðan hef ég verið meira og minna hlaupandi,“ segir Ægir.
Eftir að hafa „dútlað“ við 10 kílómetra hlaup skráði Ægir sig í Reykjavíkurmaraþon árið 2013 ásamt syni sínum. „Það var mikil þrekraun. Ég fékk verk í mjöðmina eftir um 12 kílómetra og því voru síðustu þrjátíu nokkuð strembnir,“ segir Ægir og brosir þegar blaðamaður hristir hausinn yfir sjálfspíningunni. Þrátt fyrir kvalræðið hafði Ægir afar gaman af upplifuninni og síðan hefur maraþon átt hug hans allan. „Ég hef í allt hlaupið þrettán maraþon á síðustu fjórum og hálfu ári. Það þykir ágætt en ég er búin að setja stefnuna á mörg til viðbótar,“ segir Ægir.
Aðspurður hverju sé mikilvægast að huga að fyrir maraþonhlaup, fyrir utan augljósar æfingar, kemur Ægir blaðamanni talsvert á óvart. „Klósettferðir fyrir hlaup,“ segir hann brosandi, en er þó greinilega fúlasta alvara. „Það er afar mikilvægt að tæma sig alveg fyrir hlaup. Ég hef orðið vitni að mörgum uppákomum í hlaupum þar sem hlauparar hafa gert mistök varðandi það,“ segir Ægir. Í hönd fara epískar lýsingar Ægis af ælandi og mígandi hlaupurum í maraþonhlaupum um allan heim sem og þeim hvimleiða vanda í stærri maraþonhlaupum að klósettpappírinn klárast strax. „Það er mjög mikilvægt heilræði fyrir hlaupara að taka alltaf klósettpappír með sér á vettvang hlaupsins,“ segir Ægir og deilir með blaðamanni sögu frá Berlínarhlaupinu þar sem hann klikkaði á þessu atriði og reif niður aukabol sem hann var í til þess að gegna þessu mikilvæga hlutverki. Sjálfur hefur hann aldrei orðið veikur í maga eða þurft að skvetta úr skinnsokknum í miðju hlaupi eins og algengt er. Ægir er þó afdráttarlaus í svörum þegar hann er spurður um hvernig hann myndi takast á við slíkar aðstæður. „Ég myndi míga í mig,“ segir hann ákveðinn.
Hjartaáfallið alvarlega átti sér stað föstudagskvöld í febrúar í fyrra. Eins og áður segir reið það yfir í svefni og er í raun lygilegt að Ægir hafi lifað það af. „Ég var ofboðslega heppinn. Ég heyrði einhvers staðar að aðeins um 20 prósent þeirra sem fá hjartaáfall í svefni lifi það af,“ segir Ægir. Hann hafði ekki kennt sér meins fyrir áfallið, þvert á móti. „Ég hafði eiginlega aldrei verið brattari. Ég var í miðjum undirbúningi fyrir maraþonhlaup í Kaupmannahöfn í maí. Ég var að hlaupa um 100 kílómetra á viku og var að bæta mig í hvert sinn sem ég hljóp. Það er ótrúlegt í ljósi þess að dælan var höktandi,“ segir Ægir kíminn. Tveimur vikum síðar hafði Ægir ráðgert að fara í æfingaferð til Tenerife en hefði áfallið riðið yfir þar ytra, þar sem Ægir hefði verið einsamall, hefði ekki þurft að spyrja að leikslokum. Sú sem bjargaði honum var eiginkona hans, Ragga, en svo ótrúlega vildi til að hún hafði nýlokið námskeiði í skyndihjálp og brást því strax hárrétt við. „Það varð mér lífs,“ segir Ægir.
Þetta örlagaríka föstudagskvöld fór hann á undan eiginkonu sinni í háttinn enda var fram undan strembið 35 kílómetra hlaup á laugardagsmorgni. „Þegar Ragga kom í háttinn þá var ég sofnaður en hún heyrði óeðlileg hljóð í mér. Hún er framhaldsskólakennari og hafði nýlokið námskeiði í skyndihjálp. Þess vegna skildi hún strax hvað var að gerast,“ segir Ægir. Ragga hringdi umsvifalaust í Neyðarlínuna og byrjaði strax að hnoða eiginmann sinn. „Það er betra að hnoða en blása og þetta hafði Ragga lært.“ Svo heppilega vildi til að þau búa skammt frá sjúkrahúsinu í Reykjanesbæ og því voru sjúkraflutningamenn fljótir á vettvang. Ægir var endurlífgaður með hjartastuðtæki og „hrökk í gang við fyrstu tilraun“ eins og hann orðar það sjálfur. Það var afar mikilvægt enda aukast líkur á varanlegum skaða ef tilraunirnar eru fleiri.
Í ljós kom að alvarleg kransæðastífla hrjáði Ægi. Alls fannst stífla á sex stöðum í hjarta hans. Hann var fluttur til Reykjavíkur og þar undirgekkst hann þegar hjartaþræðingu. Þegar henni var lokið var honum haldið sofandi fram á mánudag. „Ég varð aldrei var við neitt. Ég bauð konunni minni bara góða nótt á föstudegi og síðan góðan daginn á mánudegi,“ segir Ægir og brosir.
Það er auðheyrt að Ægir er afar þakklátur eiginkonu sinni fyrir lífgjöfina og hann talar hlýlega um hana. Það er þó ekki langt í gamansemina. „Við skiptum með okkur heimilisverkum þannig að ég hef tekið að mér bróðurpartinn af heimilisþrifunum. Þegar ég var úr hættu grínaðist Ragga mín með að hún hefði hnoðað mig svona vel því að hún vildi alls ekki missa þrifin,“ segir Ægir og hlær dátt.
Í fjölskyldu Ægis er saga um hjartaáföll. „Faðir minn fékk kransæðastíflu og lést úr hjartaáfalli rúmlega sjötugur. Í ljósi þess var ég mjög meðvitaður um að ég var í áhættuhópi og því hafði ég sinnt því mjög vel að mæta í reglulegt eftirlit hjá Hjartavernd. Allar þær rannsóknir komu mjög vel út og ég taldi mig því vera alveg heilbrigðan. Þessar rannsóknir veittu mér í raun falskt öryggi,“ segir Ægir og setur spurningarmerki við tilgang slíks eftirlits ef það greinir ekki svo alvarlega kransæðavandamál og hann þurfti að takast á við. „Ég veit ekki alveg hvað ég gat gert meira til þess að fyrirbyggja þetta hjartaáfall. Það er í sjálfu sér ansi óhuggulegt og vonandi koma betri greiningaraðferðir fljótlega fram á sjónarsviðið,“ segir Ægir.
Eins og áður segir var fyrsti hjartalæknirinn sem Ægir ráðfærði sig við eftir áfallið afdráttarlaus í þeirri skoðun sinni að Ægir mætti ekki hlaupa aftur. „Það stóð bara skýrum stöfum á blaði sem ég fékk. Þrátt fyrir þær úrtölur þá var ég harðákveðinn í að sætta mig ekki við þann dóm,“ segir Ægir. Aðeins viku eftir hjartaáfallið steig Ægir fyrst á hlaupabretti heima hjá sér og síðan hefur hann ekki stoppað. „Ég var aldrei hræddur við að fara af stað. Ég trúi því að hver og einn sé ábyrgur fyrir sinni endurhæfingu. Hugarfarið er lykilatriði í því. Ég fann strax að mér leið ágætlega og ég ákvað að vera ekki hræddur heldur halda ótrauður áfram. Hlaupin gefa mér mikið og ég vildi gera allt til þess að halda þeim áfram,“ segir hann. Hann hafði ekki trú á því að batinn yrði svo snöggur og því afbókaði hann ferðina á maraþonhlaupið í Kaupmannahöfn í maí. „Það voru mikil mistök því ég var mjög fljótlega kominn á sama stað og ég var fyrir hjartaáfallið,“ segir Ægir. Svo fór að hann hljóp maraþon í Kópavogi í byrjun apríl, tæpum þremur mánuðum eftir hjartaáfallið og nú, ári síðar, hefur hann lokið fimm slíkum þrekraunum.
Það er auðheyrt að Ægir er ósáttur við þau skilaboð hjartalæknisins að hann mætti ekki hlaupa aftur. „Ég held að læknar verði líka stundum að taka lífsgæði sjúklinga inn í myndina. Ég var þarna að jafna mig eftir alvarlegt áfall og það gerir manni ekkert gott að heyra að maður hafi verið sviptur aðaláhugamáli sínu og ástríðu. Það hefði ekki hentað mínum lífsstíl að verða kyrrsetumaður og því var ég ákveðinn í að ég skyldi hlaupa aftur,“ segir Ægir. Síðan þá hefur hann fengið sér nýjan hjartalækni sem er mun jákvæðari gagnvart hlaupunum. „Sá sagði mér bara að drulla mér af stað. Hreyfing væri það besta sem ég gæti gert fyrir mig,“ segir Ægir.
Þetta baráttuhugarfar hefur áður komið Ægi vel. Fyrri eiginkona hans lést í byrjun aldarinnar eftir erfið veikindi og þá stóð hann uppi einsamall með þrjú börn. „Ég var þá fjörtíu og fimm ára en konan mín var fertug. Hún veiktist af krabbameini og því var talsverður aðdragandi að því að hún kvaddi,“ segir Ægir. Eins og eðlilegt er þá upplifði hann mikla sorg við missinn en hann segist hafa ákveðið með sjálfum sér að hann skyldi ekki festast í sjálfsvorkunn yfir hlutskipti sínu. „Ég þurfti að sjá um þrjú börn og og ég gat einfaldlega ekki farið að dvelja við hvað þetta væri ósanngjarnt og erfitt. Lífið varð að halda áfram,“ segir Ægir.