Nýr landsliðsbúningur var kynntur á fimmtudag – Tískufróðir eru misánægðir
Nýr landsliðsbúningur íslenska landsliðsins var kynntur á fimmtudag. Almenn ánægja virðist vera með búninginn þótt skoðanir séu skiptar eins og alltaf. DV spurði þrjá tískufróða einstaklinga um álit þeirra á nýja landsliðsbúningnum.
„Ég hef nú aldrei verið aðdáandi landsliðstreyjunnar og er engin breyting þar á eftir að hafa séð þessa nýju,“ segir Ellen Loftsdóttir stílisti. Ellen segir að treyjan sé þó nokkru skárri en síðasta treyja „sem var eitt það ljótasta sem ég hef séð í þessum málum,“ segir Ellen og bætir við:
„Maður hálf vorkenndi þessum sætu strákum að þurfa að spila á stórmóti í þessu, enda er Errea merki sem sérhæfir sig í hönnun á markmannshönskum. Er frændi eigandans að vinna hjá KSÍ? Veit ekki um neitt landslið í heiminum sem klæðist þessu merki.“
Bóas Kristjánsson fatahönnuður segir að um sé að ræða einfaldan búning sem sé í raun bara gott mál.
„Íslenski búningurinn fær „pixla gradient“ bláan, rauðan og hvítan á ermarnar sem mér finnst frekar dúllulegt en er ekki viss um að líti vel út í fjarlægð. Kraginn nær ekki alla leið í hálsmálinu sem hönnuðurinn hefur leikið sér aðeins með. Búningurinn er of flatur fyrir minn smekk. Það sem er mjög skemmtilegt er að inni í bolnum skuli standa „Fyrir Ísland.“ Ég hef trú að því að strákarnir fái auka hvatningu við að sjá búningana hangandi í klefanum með þessari áletrun. Ef ég á að vera 100% hreinskilinn, og mér finnst leiðinlegt að segja það, en hann er að mínu mati nokkuð ódýr og mislukkaður.“
Eygló Margrét Lárusdóttir fatahönnuður var stuttorð í samtali við DV. „Mér finnst öll íþróttaföt ljót. Ég sé að það er svona frussandi eldfjall á ermunum. En hvað get ég sagt, ég er bara aumingi uppi í rúmi að éta beikonbugður.“