Óhætt er að segja að kvikmyndaaðdáendur bíði með öndina í hálsinum eftir fréttum af nýjustu mynd Quentin Tarantino.
Tarantino er einn allra vinsælasti leikstjóri heims og er hann nú með stórt verkefni í vinnslu um sem mun bera heitið Once Upon a Time in Hollywood.
Ekki alls fyrir löngu var staðfest að Leonardo DiCaprio færi með hlutverk í myndinni og í gærkvöldi var svo staðfest að Brad Pitt muni einnig leika í myndinni. Er þetta í fyrsta skipti sem þessir vinsælu leikarar leiða saman hesta sína á hvíta tjaldinu. Báðir hafa þó leikið í myndum eftir Tarantino; DiCaprio í Django Unchained og Pitt í Inglorious Basterds.
Tarantino leikstýrir og skrifar handrit myndarinnar sem gerist í Los Angeles árið 1969, þegar hippatímabilið stóð sem hæst og voðaverk Charles Manson og fylgismanna hans héldu borginni í heljargreipum.
Tarantino, sem leikstýrði síðast myndinni The Hateful Eight árið 2015, hefur verið með handrit myndarinnar í vinnslu í fimm ár. Once Upon a Time in Hollywood verður frumsýnd á næsta ári en auk DiCaprio og Pitt hefur verið orðrómur uppi um að Margot Robbie muni einnig fara með hlutverk í myndinni.