fbpx
Sunnudagur 19.janúar 2025
Fókus

Ómenntuð láglaunakona ætlar að taka niður auðvaldið

Sólveig Anna býður sig fram til formanns Eflingar – Tími til kominn að hætta tali um stöðugleika

Ari Brynjólfsson
Föstudaginn 9. febrúar 2018 20:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Sólveig Anna Jónsdóttir kom eins og stormsveipur fram á sjónarsviðið í verkalýðsbaráttunni í lok janúar með framboði sínu til formanns Eflingar. Sólveig Anna talar tæpitungulaust um stöðu verkafólks í íslensku samfélagi og verkalýðsforingjana sem hún telur hafa gengið í lið með fjármálaöflunum. Hún er vön því að vera í baráttu fyrir félagslegu réttlæti samhliða því að berjast fyrir því að draga fram lífið sem ómenntuð verkakona. Blaðamaður DV hitti Sólveigu Önnu á heimili hennar í Reykjavík.

Sólveig slasaðist illa á öxl í nóvember síðastliðnum og hefur hún verið óvinnufær fram til þessa. „Ég var á leið út í bíl í óveðri. Það kom hrikaleg vindhviða og ég fauk eins og plastpoki og lenti á hægri öxlinni sem mölbrotnaði. Ég var flutt burt í sjúkrabíl og hef þurft að vera frá vinnu, ég byrja reyndar aftur að vinna í næstu viku.“

Þú hefur þá haft tíma frá vinnu til að láta að þér kveða í verkalýðsmálum?

„Það má að einhverju leyti segja það, ég var illa slösuð og gat lítið gert fram að jólum. Ég var þá spurð hvort ég gæfi kost á mér í þetta en þá sagði ég nei og meinti það. Ég hef verið virkur aðgerðasinni frá því 2008 og sá verkalýðsbaráttuna sem allt sem ég forðaðist að lenda í. Flókinn heimur sem stýrt er af körlum og regluverki, þetta fannst mér einstaklega fráhrindandi.“ Milli jóla og nýárs snerist Sólveigu svo hugur og hún lét slag standa. „Þegar ég áttaði mig á því að þarna var alvara að baki þá fór ég að taka þessu með opnum huga. Hræðslan vék fyrir löngun að sjá hvort það væri hægt að gera eitthvað. Ég er samt ennþá hrædd,“ segir Sólveig og hlær. „Þetta er allt í lagi, ég er kona, ég má viðurkenna að ég sé hrædd.“

Ekkert grínframboð

Sólveig býður sig fram gegn frambjóðanda uppstillingarnefndar, Ingvari Vigur Halldórssyni. Sigurður Bessason sem gegnt hefur formennsku í Eflingu í tvo áratugi bauð sig ekki fram til endurkjörs. Allan þann tíma hefur verið sjálfkjörið í stjórn félagsins þar sem aldrei hefur áður komið fram mótframboð. Fimmtán sitja í stjórn Eflingar og kosið er í stjórnina árlega, í ár er kosið um formann og sjö aðra stjórnarmenn og á næsta ári verður kosið um varaformann og sex aðra stjórnarmenn. Þetta þýðir að Sólveig hefur nú tækifæri til að ná meirihluta í stjórninni. „Ein af ástæðunum fyrir því að við erum að þessu er að á okkar lista eru þrír einstaklingar af erlendum uppruna, tvær konur og einn maður. Það er enginn af erlendum uppruna á hinum listanum, sem félagið stillir upp, það skýtur skökku við þar sem gríðarlegur fjöldi félagsmanna Eflingar er aðflutt verkafólk. Íslenskt verkafólk vinnur við hlið fólks af erlendum uppruna og er í hvað mestum samskiptum við það. Það er bráðnauðsynlegt að þeirra rödd fái að heyrast og ekki að við séum alltaf að tala fyrir þau, það á bæði við um kjarabaráttu og í samfélaginu.“

Ég er svo sannarlega ekki í þessu af einhverjum hégómleika

Nokkur ládeyða hefur verið í verkalýðsmálum undanfarin ár og lítil kosningaþátttaka, Sólveig telur að það sé að breytast. „Þetta er ekkert grínframboð, ég er svo sannarlega ekki í þessu af einhverjum hégómleika enda datt mér aldrei í hug að framboðið myndi vekja svona mikla athygli.“

Kynntist firringu og mannvonsku í Bandaríkjunum

Sólveig er 42 ára, tveggja barna móðir, gift og á kött. „Stjórnmál hafa verið eina alvöru áhugamálið mitt á fullorðinsárum, ég hef eytt miklum tíma í að reyna að skilja ástæðurnar fyrir því að veröldin er eins og hún er og hvers vegna hlutirnir eru eins og þeir eru.“

Sólveig bjó með fjölskyldu sinni í Minnesota í Bandaríkjunum á árunum 2000–2008 þar sem eiginmaður hennar var í námi. „Þetta voru einmitt árin þegar George W. Bush var forseti og þessi ár höfðu mjög mótandi áhrif á mig. Ég hafði vissulega verið róttæk, enda ólst ég þannig upp, en þarna fékk ég að kynnast firringunni og mannvonskunni sem fylgir þessu ofurkapítalíska hermangssamfélagi. Um 2002 þá áttaði mig hversu brjálað þetta samfélag er og varð fyrir ákveðinni vakningu, þá fór það að verða svo áberandi hversu landlægur rasismi er þarna og hversu tryllingslegt bil er á milli ríkra og fátækra.“

Sólveig segir að það hafi verið frábært að búa vestanhafs, en það hafi verið vegna þess að hún var hvít af norrænum uppruna. „Þetta olli mér hugarangri og særði réttlætiskennd mína, að bara vegna þess hvernig ég er á litinn þá var ég komin í vissa forréttindastöðu. Það var mjög þroskandi að fá að kynnast kerfisbundnu óréttlæti, við náðum að lifa góðu en takmörkuðu lífi, en milljón sinnum betra lífi en ef við hefðum verið öðruvísi á litinn.“

Fluttu heim, beint inn í bankahrun

Sólveig flutti ásamt fjölskyldu sinni aftur heim til Íslands sumarið 2008. „Ég var ótrúlega spennt og hlakkaði mikið til, ég var ekkert búin að velta fyrir ástandinu á Íslandi því það var svo margt að gerast í Bandaríkjunum á þessum tíma og allt á suðupunkti. Ég var að fylgjast með þessum innrásarstríðum þeirra í Írak og Afganistan, svo kom fellibylurinn Katrína sem afhjúpaði bara endanlega rasismann og viðbjóðinn sem fékk að grassera óáreittur. Stjórnvöldum og yfirstéttinni fannst ekkert stórmál að láta fjölda fólks drukkna bara af því að það var svart og fátækt. Þannig að ég hafði ekkert verið að velta fyrir mér íslenskum stjórnmálum á meðan ég bjó úti.“

Þegar fjölskyldan var nýflutt heim hrundu bankarnir. „Maðurinn minn var kominn með góða vinnu, ég fór að vinna á leikskólanum en strax í nóvember var honum sagt upp. Þá tók við alveg gríðarlega erfiður tími hjá okkur. Maðurinn minn var með mjög stopular tekjur í mörg ár þrátt fyrir að vera vel menntaður, hann tók reyndar þátt í að skrifa kafla í rannsóknarskýrslu Alþingis sem kom út 2010, þá var uppskeruhátíð heima hjá okkur. Það er ekki fyrr en nýlega sem hann fékk greitt sumarfrí. Óréttlætið og arðránið í íslensku samfélagi beinist ekki bara gegn láglaunafólki.“

Það var mjög hressandi lífsreynsla að upplifa íslenskt arðránssamfélag.

Fjölskyldan bjó í húsi tengdaföður Sólveigar á meðan hann var erlendis. „Það bjargaði okkur. Ef við hefðum ekki fengið hana þá veit ég ekki hvað við hefðum gert, líklegast endað einhvers staðar í Noregi. Við rétt mörðum að kaupa íbúðina sem við búum í núna, við vorum heppin að ná að kaupa áður en húsnæðisverðið rauk upp.“
Sólveigu finnst að reynslu þorra almennings af hruninu hafi verið ýtt til hliðar. „Við eigum að halda að þetta hafi bara verið eitthvað leiðinlegt uppnám í samfélaginu, nú sé bara komið nýtt góðæri. Við verðum að muna þetta og muna hvernig okkur sjálfum leið. Krísa er innbyggð í kapítalismann og á meðan við búum við það kerfi er óumflýjanlegt að efnahagurinn fari í uppnám reglulega og það séum við sem erum látin borga brúsann. Strax árið 2011 var bankastarfsfólk farið að hækka í launum og bankastjórar farnir að borga sér bónusa. Á þeim tíma voru ég og maðurinn minn pikkföst í djúpri efnahagslegri holu þar sem sá ekki til sólar. Við vorum sem betur fer ekki skuldsett, það voru margir í tíu sinnum verri stöðu, en við vorum eigna- og peningalaus. Við gátum ekki farið að safna fyrir íbúð fyrr en 2013, þá var maðurinn minn að vinna við allt sem honum bauðst og ég í tveimur störfum. Þannig er lífið þegar annar aðilinn er í stopulli vinnu og hinn á arðránstöxtum hjá Reykjavíkurborg. Það var mjög hressandi lífsreynsla að upplifa íslenskt arðránssamfélag.“

Talað um hana sem skríl, hyski og hettuklætt ungmenni

Sólveig var í hópi níumenninganna sem voru ákærðir fyrir árás á Alþingi, brot gegn valdstjórninni, almannafriði og allsherjarreglu fyrir að hafa ruðst inn í Alþingishúsið 8. desember 2008. „Þau vildu dæma okkur í allt frá árs til sextán ára fangelsis. Þetta var mikið áfall og mjög skrítin lífsreynsla,“ segir Sólveig og hristir höfuðið. Dómur féll í málinu í febrúar 2011. „Þetta var mjög sárt og erfitt, rændi mig ró og friði að hafa þetta hangandi yfir mér í allan þennan tíma. Og sjá bara þessi vitfirrtu viðbrögð valdsins við uppreisn í samfélaginu. Refsi- og hefnigirni valdsins gagnvart okkur var mjög opinberandi. Við vorum fjögur sem fengum væga dóma, það var betra en fangelsi.“

Sólveig Anna er dóttir útvarpsþulanna Jóns Múla Árnasonar og Ragnheiðar Ástu Pétursdóttur, á heimilinu var stöðugt talað um stjórnmál.
Alin upp við pólitík og menningu Sólveig Anna er dóttir útvarpsþulanna Jóns Múla Árnasonar og Ragnheiðar Ástu Pétursdóttur, á heimilinu var stöðugt talað um stjórnmál.

Mynd: Sigtryggur Ari

Hún eignaðist marga vini í gegnum þessa reynslu. „Það var mjög merkilegt að sjá alls konar fólk gefa tíma sinn í að standa með okkur. Það fór af stað mjög markviss og merkileg herferð í kringum okkur. Það hallaði mjög á okkur í orðræðunni á þessum tíma. Okkur var lýst sem skríl, hyski, það var gjarnan talað um hettuklædd ungmenni. Það var stemning í samfélaginu að ýta þessu til hliðar og við ættum þetta bara skilið, sem eru alveg dæmigerð viðbrögð íslenskrar yfirstéttar. Þessi skortur á vilja til að setja hlutina í samhengi og tjá sig þá eins og mesti bjáninn í bænum. Þá fór af stað herferð góðs fólks sem hóf að skrifa og tjá sig til að fá fólk til að skilja að við værum ekki þetta viðbjóðslega glæpahyski og sjúka ofbeldisfólk sem átti að láta okkur líta út fyrir að vera.“

Hvað varst þú að gera þarna?

„Við ætluðum upp á þingpallana, það er stjórnarskrárbundinn réttur almennings að gera það. Ég vil ekki endurskrifa söguna, okkur fannst það sjálfsagður hlutur að færa mótmælin af Austurvelli inn á þingpallana. Það var allt í einu einhver ný regla í þessu regluóða samfélagi að það mætti bara mótmæla á Austurvelli á laugardögum, við róttæka fólkið sættum okkur ekki við það þegar svona söguleg mótmælaalda grípur um sig.“ Faðir Sólveigar hlaut fangelsisdóm fyrir þátttöku sína í óeirðum á Austurvelli og árás á Alþingishúsið 30. mars 1949, en var náðaður. „Það var nú eitthvað mjög skrítinn dómur, hann var meira að segja sviptur kjörgengi, en svo var það látið niður falla einhverjum árum síðar. Valdið bregst alltaf við á svo fáránlegan hátt þegar fólk hættir að spila eftir reglunum og rís upp.“

Fór með pabba á Rocky

Faðir Sólveigar er Jón Múli Árnason, tónskáld og ein þekktasta útvarpsrödd sem Íslendingar hafa átt, móðir hennar er Ragnheiður Ásta Pétursdóttir útvarpsþulur. „Mamma og pabbi voru bæði mjög greindar manneskjur með mjög sterkar skoðanir og það var mjög mikið rætt um pólitík, nánast linnulaust. Þetta var aldrei bundið við fréttatíma eða eitthvað slíkt, það var stöðugt verið að kenna mér eitthvað og útskýra hluti fyrir mér, ef minnst var á einhvern stað eða hann bar á góma þá var dregin fram landabréfabókin. Mér fannst þetta ekki alltaf skemmtilegt, en oftast,“ segir Sólveig og hlær.

Jón Múli Árnason og Ragnheiður Ásta Pétursdóttir.
Foreldrar Sólveigar Önnu Jón Múli Árnason og Ragnheiður Ásta Pétursdóttir.

Foreldrar Sólveigar höfðu hana iðulega með þegar þau brugðu sér af bæ. „Ég er með mjög sterkar minningar frá því að fara með pabba í bíó þegar ég var lítil. Hann var ekki að fara með mig á barnamyndir, hann var að fara með mig á Rocky í Tónabíó þegar ég var pínulítil stelpa.“

Ótrúleg grimmd gagnvart þeim sem ljúka ekki námi

Menningin var aldrei langt undan og hún lærði snemma að lesa sér til gagns. „Það má segja að ég sé heimaskóluð, mér leiddist í alvöru skóla og vildi frekar vera heima að lesa. Ég vildi fá að vera í friði, leitaði inn í bókaheim og eyddi miklum tíma þar.“ Sólveig lauk aldrei stúdentsprófi. „Ég flosnaði bara upp úr námi, þegar ég var unglingur var ég bæði þunglynd og kvíðin, það var meginástæða þess að ég hætti í skóla. Ég fann mig bara aldrei í skóla, það var bara ekki staður fyrir mig.

Þessi grimmilega láglaunastefna gagnvart ómenntuðu fólki er eitthvað svo sjúk

Það er ótrúleg grimmd í íslensku samfélagi gagnvart fólki sem hefur af einhverjum ástæðum ekki lokið námi. Ástæðurnar eru margvíslegar, geðræn vandamál, fátækt á heimilum, neysla. Þessi grimmilega láglaunastefna gagnvart ómenntuðu fólki er eitthvað svo sjúk, hugsaðu þér, það á að refsa fólki alla ævi fyrir það að hlutirnir gengu illa á unglingsárunum. Það er eins konar kvalalosti í samfélaginu, að láta fólk skrimta alla ævi á launum sem eru ekki boðleg fólki,“ segir Sólveig.

Hún segir það siðferðislega rangt að borga fólki lág laun og það geti ekki staðist að flestir vilji það, en til að breyta því þurfi samstöðu. „Við sem erum í láglaunastörfum þurfum að hætta að láta eins og við getum sjálfum okkur um kennt eða að það skipti engu máli hvað við segjum því við séum svo leiðinleg, vitlaus og ómenntuð.“

Skömmin er hjá þeim sem finnst lág laun vera í lagi

Þú ert búin að vera aðgerðasinni í mörg ár, nú ertu að bjóða þig fram í embætti formanns í rótgrónu félagi, má segja að það hafi ekki skilað tilætluðum árangri?

„Ég varð fyrir pólitískri vakningu 2013, enn ein vakningin, ég hef fengið mjög margar. Þá fór ég að hugsa um stöðu láglaunakvenna sem eru nýttar til að vinna mikilvæg störf sem samfélagið kemst ekki af án, eins og að manna leikskólana, án þess að einhver segi að það þurfi að greiða þessum konum mannsæmandi laun. Þær eiga að sinna mennta- og menningarlegu uppeldi á kærleiksríkan hátt en fá greidd laun sem er ekki hægt að lifa af. Allt í einu sá ég svo skýrt hversu fráleitt þetta er.

Sólveig Anna segir verkalýðshreyfinguna hafa gefist upp fyrir auðvaldinu og samþykkt láglaunastefnu gagnvart verkafólki.
Gefur ekkert fyrir tal um stöðugleika Sólveig Anna segir verkalýðshreyfinguna hafa gefist upp fyrir auðvaldinu og samþykkt láglaunastefnu gagnvart verkafólki.

Mynd: Sigtryggur Ari

Láglaunafólk vinnur alla sína ævi störf sem verður að vinna en er alveg ósýnilegt, það er ekki talað um okkur, við sjáumst ekki og eigum svona augnablik þegar við lítum í spegilinn og áttum okkur á að þetta bara verður svona. Það þýðir ekkert að skipta um vinnustað því það bíða manns ekki betri laun því samfélagið, atvinnurekendur, borg, ríki og verkalýðsfélögin hafa samþykkt að það sé í lagi að nýta mann til vinnu alla ævi á ömurlegum launum.“

Þrátt fyrir þessa vakningu hefur Sólveig ekki alveg hætt sem róttækur aðgerðasinni, hún tekur þátt í ýmsu starfi, þar á meðal skipulagningu Róttæka sumarháskólans. „Ég las mér mikið til um baráttu kvenna og sótti mjög í reynslu kvennanna sem ég vann með. Það er mjög sárt að horfast í augu við að það er bara verið að nota þig til vinnu og fá lítið í staðinn. Það er hins vegar mjög hollt fyrir fólk að horfast í augu við aðstæðurnar eins og þær eru. Fyrsta skrefið er að tala opinskátt um hvað maður fær í laun og viðurkenna að eina ástæðan fyrir því að hægt sé að leyfa sér að gera eitthvað skemmtilegt með börnunum er sú að maður er með VISA-kort. Hætta að þykjast vera hluti af einhverri millistétt þegar maður er það ekki. Skömmin er ekki hjá okkur sem fáum þessi lélegu laun. Skömmin er hjá þeim sem halda að það sé boðlegt að borga fullorðnu fólki laun, fyrir unna vinnu, sem duga ekki til að komast af. Skömmin er hjá þeim sem sjá ekkert athugavert við að kapítalistum sé afhent allt sem þeir girnast á silfurfati. Þeir fengu húsnæðismarkaðinn á meðan það er enginn vilji til að afhenda láglaunafólki nokkurn skapaðan hlut.“

Stöðugleikinn er ekki fyrir verkafólk

Hefur stjórn Eflingar og Alþýðusambandið ekki barist fyrir ykkar hagsmunum?

„Nei. ASÍ og Efling hafa tekið þátt í því að samþykkja láglaunastefnu gagnvart verkafólki. Það er ekkert hægt að tala sig í kringum það.“

Stöðugleikinn er fyrir auðvaldið

Hverju þarf að breyta hjá Eflingu?

„Það er svo ótrúlega margt. Það þarf að bæta samskipti stéttarfélaganna við félagsmenn sína og samskiptin við þá sem er samið við. Það gengur ekki lengur að láglaunafólk sé látið axla ábyrgð á einhverjum stöðugleika þegar það ríkir aldrei neinn stöðugleiki í lífi láglaunafólks. Stöðugleikinn er fyrir auðvaldið sem getur þá haldið áfram að auðgast. Það er enginn stöðugleiki hjá þeim sem eru alltaf með fjárhagsáhyggjur, þurfa að leita til ættingja og vina eftir láni út mánuðinn eða húsnæði. Það er enginn stöðugleiki að þurfa að flytja á hverju ári og þurfa að setja börnin í nýjan skóla. Það er svo kostuleg þessi skoðun og þessi veraldarsýn að allir séu í sama bátnum sem megi ekki rugga. Við höfnum þessu alfarið, við erum ekki í sama báti, okkar bátur lekur á meðan hinir eru um borð í snekkju á leiðinni í skattaskjólin sín. Verkalýðshreyfingin á að vera löngu hætt að taka þátt í þessu stöðugleikatali.“

Reiðin er réttlætanleg

Sólveig segir að nýleg ákvörðun kjararáðs um að hækka laun æðstu ráðamanna og greiða þeim laun afturvirkt sé til marks um firringu valdsins. „Þeim er alveg sama. Þeir skilja ekki og þekkja ekki alþýðufólk. Vita ekkert hvað okkur finnst um þetta og hversu mikið láglaunafólk fyrirlítur kerfið. Reiði okkar er réttlætanleg, valdið fær milljónir í afturvirk laun til að tryggja sig í sessi sem einhverja yfirstétt á kostnað okkar, á meðan það er kastað til okkar nokkrum þúsundköllum.“ Þetta sé staða þar sem ekki eigi að lýsa yfir hneykslun. „Þarna þarf verkafólk einfaldlega að segja „þrjár milljónir í afturvirk laun, flott, þá vitum við hvað við eigum að fá“, við verðum að sameinast í baráttunni gegn þessum eignatilfærslum í samfélaginu því annars verður það of seint.“

Þarna þarf verkafólk einfaldlega að segja „þrjár milljónir í afturvirk laun, flott, þá vitum við hvað við eigum að fá“

Sólveig gefur ekki mikið fyrir vinstrimenn og yfirlýsta femínista sem eru nú við völd í samfélaginu. „Ég hef alltaf litið á mig sem sósíalískan femínista en það hefur truflað mig yfirgengilega mikið þegar sumir segjast berjast fyrir frelsun kvenna en ætla alveg blákalt og kerfisbundið að líta framhjá stöðu kvenna í samfélaginu. Maður þarf að vera alveg sérstaklega blindur eða óheiðarlegur til að sjá þetta ekki, það er margt sem stuðar mig en það stuðar mig mjög að sjá Dag B. Eggertsson mæta í Druslugöngu og tala sem karlmaður sem sé umhugað um stöðu kvenna en ætlar alls ekki að stuðla að efnahagshagslegu frelsi kvenna. Það er frelsið sem skiptir öllu máli, þá getur konan staðið á eigin fótum og þarf ekki að vera föst í ömurlegu sambandi án þess að lenda á götunni.“

Ekki að skipuleggja hallarbyltingu

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, hefur gagnrýnt lífeyrissjóðakerfið harðlega, Sólveig tekur undir að þetta sé kerfi sem þurfi að breyta. „Þetta er fé vinnandi fólks sem er notað á ólýðræðislegan hátt til að fjármagna verkefni auðvaldsins. Það er ekki verið að fara í nein verkefni sem bæta líf okkar eins og að byggja húsnæði. Nú er Ragnar Þór að tala fyrir leigufélagi á vegum VR, en í arðránssamfélagi eins og okkar er alltaf unnið gegn hugmyndum sem geta bætt líf láglaunafólks. Það er strax byrjað að tala um að hann viti ekkert um hvað hann sé að tala, viti ekki hvernig markaðurinn virkar og svo framvegis. Bankar og fyrirtæki mega svo alltaf fá hugmyndir um hvernig má græða á fólki. Krafan á vinnandi fólk er að það sætti sig við þetta. Það er svo brjálað að hugsa þetta í sögulegu samhengi, það verður hérna hrun, almenningur tekur á sig miklar skerðingar, niðurskurð, atvinnuleysi og barnafátækt, svo segir valdið að það sé fáránlegt að ræða lausnir sem geta komið verkafólki til góða.“

Hvað er hægt að gera, hver er lausnin?

„Þegar nógu mörg okkar uppgötva mikilvægi sitt í samfélaginu þá eru okkur allar leiðir færar.“

Ert þú að skipuleggja hallarbyltingu í ASÍ með Ragnari Þór og Vilhjálmi Birgissyni, verkalýðsleiðtoga á Akranesi?

„Nei. Ég og fólkið sem er með mér á listanum erum Eflingarfólk og erum að þessu út frá hagsmunum félagsmanna. Það er aðdáunarvert að fylgjast með þeim Ragnari og Vilhjálmi og baráttu þeirra, stuðningur þeirra við mitt framboð er alveg ómetanlegur. Ég sæki til þeirra innblástur því þeir hafa sýnt að það er hægt að ná árangri með því að fara aðra leið en ASÍ boðar.

Nú er þessi kosningabarátta hafin innan Eflingar, ég og mitt fólk ætlum að vinna heiðarlega Ég ætla ekki að draga þetta ofan í einhverja persónulega baráttu heldur sýna félagsmönnum að okkar stefna er það sem verður þeim til hagsbóta. Málstaður okkar er bara það góður og það augljós að ég tel að það þurfi ekki meira til. Ég er ekki að selja neinn leik, ég hef bara lifað sem láglaunakona og býð mig fram því ég treysti mér til að ná árangri fyrir þá sem eru í sömu stöðu.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Vissi að hjónabandið væri dauðadæmt þegar eiginmaðurinn sagði þessi tvö orð í brúðkaupinu

Vissi að hjónabandið væri dauðadæmt þegar eiginmaðurinn sagði þessi tvö orð í brúðkaupinu
Fókus
Í gær

Taylor Swift sogast inn í stóra Hollywood-dramað – „Ég er Khaleesi og eins og hún þá vill svo til að ég á nokkra dreka“

Taylor Swift sogast inn í stóra Hollywood-dramað – „Ég er Khaleesi og eins og hún þá vill svo til að ég á nokkra dreka“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Getur verið að úrslitum í handbolta sé viljandi hagrætt?

Getur verið að úrslitum í handbolta sé viljandi hagrætt?
Fókus
Fyrir 3 dögum

Nökkvi Fjalar er kominn til baka – „Gerum það ómögulega mögulegt saman“

Nökkvi Fjalar er kominn til baka – „Gerum það ómögulega mögulegt saman“