Stefanía bjó á götunni og sá enga útgönguleið úr neyslunni – „Ég átti rosalega erfitt með að hugsa til barnanna minna“
Fyrir rúmlega tveimur árum var Stefanía Óskarsdóttir nær dauða en lífi eftir langvarandi sprautuneyslu. Hún varð vitni að hroðalegum hlutum innan fíkniefnaheimsins og var búin að sætta sig við að örlög hennar yrðu þau að lúta í lægra haldi fyrir dópinu. Henni var komið til bjargar í tæka tíð en ekki eru allir svo heppnir. Hún gagnrýnir skort á fjármagni til meðferðarstofnana og furðar sig jafnframt á þeim leiðum sem gripið hefur verið til í því skyni að sporna við fíkniefnavandanum.
Stefanía kveðst á þessum tímapunkti, í upphafi árs 2016, hafa verið komin á vonarvöl. Hún sá enga útgönguleið út úr neyslunni.
„Ég var búin að sætta mig við að ég myndi deyja úr þessu. Ég meira að segja hugsaði að það yrði örugglega auðveldara fyrir alla ef ég væri dáin, þá myndu foreldrar mínir ekki þurfa að hafa áhyggjur af mér og börnin mín myndu þá ekki þurfa ekki að alast upp í óvissu um hvar mamma þeirra væri. Þá væri þetta bara búið. Auðvitað er þetta fáránleg hugsun en svona er þetta bara.
Ég var búin að missa alla von um að ég gæti orðið edrú. Ég trúði því ekki að það væri hægt að bjarga einhverjum sem væri búinn að sökkva svona djúpt eins og ég.
Á þessum tíma bjó ég á götunni og var að brjótast inn til að eiga fyrir dópi. Ég var alltaf á stolnum bílum. Ég er ekki með tölu á því hversu oft ég endaði í fangaklefa. Það eina sem skipti máli var að redda næsta skammti.“
Stefanía gætti þess ávallt að hitta ekki börnin sín undir áhrifum.
„Ég átti rosalega erfitt með að hugsa til barnanna minna. Það var of sárt. Undir restina þá lifði ég ekki af eina klukkustund án þess að fá mér. Ég þurfti að sprauta mig á 40 mínútna fresti. Um leið og efnið hætti að virka, áhrifin byrjuðu að dvína þá fór ég að hugsa um börnin mín og byrjaði að gráta. Þá setti ég beint í mig aftur og hugsanir hurfu.“