fbpx
Mánudagur 25.nóvember 2024
Fókus

Stefanía var tveggja barna móðir og sprautufíkill á götunni: „Ég hef horft upp á ógeðslega hluti“

Sökk djúpt í heim fíkninnar – „Það er í rauninni bara kraftaverk að ég sé á lífi í dag“

Auður Ösp
Laugardaginn 3. febrúar 2018 09:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Fyrir rúmlega tveimur árum var Stefanía Óskarsdóttir nær dauða en lífi eftir langvarandi sprautuneyslu. Hún varð vitni að hroðalegum hlutum innan fíkniefnaheimsins og var búin að sætta sig við að örlög hennar yrðu þau að lúta í lægra haldi fyrir dópinu. Henni var komið til bjargar í tæka tíð en ekki eru allir svo heppnir. Hún gagnrýnir skort á fjármagni til meðferðarstofnana og furðar sig jafnframt á þeim leiðum sem gripið hefur verið til í því skyni að sporna við fíkniefnavandanum.

Átti sama séns og allir aðrir

Stefanía er fædd og uppalin í litlu samfélagi á Fáskrúðsfirði og fátt benti til þess að hún ætti eftir að leiðast út í óreglu síðar meir. Hún ólst upp við mikla reglusemi þó svo að alkóhólismi væri í „genunum“ eins og hún orðar það.

„Ég á svokallaða fullkomna fjölskyldu. Pabbi minn er vaktstjóri hjá lögreglunni. Foreldrar mínir eru ofboðslega gott fólk og ég átti alveg jafn mikinn séns og allir aðrir. En ég var í rosalega miklum mótþróa. Ég var líka mjög kvíðið barn án þess að vita af því. Ofan á það var ég með mikinn athyglisbrest og ofvirkni og fékk ekki greiningu á því fyrr en ég var orðin 18 ára. Mér leið alltaf verr og verr og það var alltaf eitthvað að og mér fannst ég ekki passa inn neins staðar.“

„Þarna tókst mér að hemla athyglisbrestinn og ofvirknina, ég fékk loksins frið í hausinn. Þetta var góður staður. Ég ætlaði bara að vera þarna“

Hún var 15 ára þegar hún prófaði eiturlyf í fyrsta skipti. „Og þá upplifði ég þetta sem að svo margir fíklar tala um, ég náði loksins að fylla upp í þetta tómarúm. Þarna tókst mér að hemla athyglisbrestinn og ofvirknina, ég fékk loksins frið í hausinn. Þetta var góður staður. Ég ætlaði bara að vera þarna.“

Fimm látnir

Talið er að fimm einstaklingar hafi hafi látið lífið á höfuðborgarsvæðinu það sem af er þessu ári vegna ofneyslu lyfja. Í samtali við RÚV í janúar síðastliðnum staðfesti Grímur Grímsson yfirlögregluþjónn að lögreglan hefði til rannsóknar fimm mál þar sem grunnur léki á að fólk hafi látiist af of stórum skammti en banamein einstaklinganna hefur þó ekki verið staðfest.

Þá sagði Valgerður Á. Rúnarsdóttir fréttirnar vera hræðilegar. Jafnframt koma fram að síðustu tvö árin hefur ótímabærum dauðsföllum hjá sjúklingahópi SÁÁ fjölgað verulega. „Eins og kom fram í fréttum nýlega hefur orðið aukning á dauðsföllum úr hópi þeirra sem komið hafa til meðferðar hjá okkur.“

Jafnframt kom fram í frétt RÚV þann 31.janúar síðastliðinn að nokkuð er um að afar sterk verkjalyf, svokallaðir ópíóíðar séu í umferð meðal fíkla. Fram kemur í grein Læknablaðsins árið 2016 að mest notuðu lyfin á Íslandi sem innihalda ópíóíða eru blöndur parasetamóls og kódeins en árið 2014 fengu ríflega 22.000 einstaklingar ávísað Parkódín forte. Allra síðustu ár hefur hlutur Parkódíns haldist svipaður en aðrir ópíóíðar hafa verið að sækja á.

Vegna þessarar þróunar hefur verkjalyfjanotkun á Íslandi verið að stíga í samanburði við aðrar þjóðir. Á síðustu árum hefur aukning orðið mest í notkun oxýkódons og búprenorfíns, sem er visst áhyggjuefni vegna vaxandi misnotkunar þessara lyfja erlendis. Aukin notkun sterkra verkjalyfja hefur einnig átt sér stað hjá öðrum þjóðum sem hefur valdið ýmsum vandamálum þar sem hafa kallað á aðgerðir til að hefta óhóflegar ávísanir sterkra verkjalyfja.

Ólafur B. Einarsson verkefnastjóri hjá Embætti landlæknis bendir á að óvant fólk getur látist af einni töflu af sterkustu verkjalyfjunum.

„Fyrir venjulegan einstakling að taka eina töflu af sterkasta formi af OxyContini, getur þýtt að hjartað stöðvast. Áttatíu milligramma taflan er það sterk að fyrir þann sem er óvanur, þá gæti það leitt til þess.“

Jafnframt kom fram í fyrrnefndri grein Læknablaðsins að einstaklingar sem misnota ópíóíða eins og oxýkódon eða búprenorfín, eru í aukinni hættu á að leiðast út í misnotkun enn hættulegri efna eins og heróíns. Þeir sem eru háðir sterkum verkjalyfjum eru 40 sinnum líklegri en aðrir til að verða heróínsprautufíklar.

Ekki löngu seinna flutti Stefanía suður til Reykjavíkur og leiðin lá aðeins niður á við. Hún byrjaði fljótlega í dagneyslu á örvandi efnum. Og þá neyslu þurfti að fjármagna með einum eða öðrum hætti.

„Ég gerði það með því að selja efni, það var mikið um klúbbakvöld á þessum tíma sem ég nýtti mér. Helgarnar byrjuðu á fimmtudegi og enduðu á þriðjudegi eða miðvikudegi, þá svaf ég og byrjaði svo aftur. Mér tókst mjög vel að fela neysluna fyrir til dæmis foreldrum mínum þó svo að þau grunaði alltaf eitthvað. Ég þekkti ekkert nein meðferðarkerfi og vissi í raun ekkert hvað alkóhólismi væri.“

Endaði á götunni

Það urðu kaflaskil í lífi Stefaníu árið 2010 þegar í ljós kom að hún var barnshafandi. Hún sneri til baka í gamla heimabæinn ásamt kærastanum og fór edrú í gegnum meðgönguna „á hnefanum.“

„Ég var í rosalega mikilli afneitun og fannst ég ekki þurfa neina hjálp, ég gæti alveg hætt sjálf. Staðreyndin var þó sú að mér leið bara rosalega illa allan tímann og skildi samt ekkert af hverju af því að ég vissi ekkert um alkóhólisma. Ég var stútfull af kvíða og hélt að ég væri bara eitthvað geðveik. Ég skildi ekki af hverju mér leið ekki vel.“

18 mánuðum eftir fæðingu elsta barnsins kom síðan annað barn hennar í heiminn. Í lok árs 2014 fluttu Stefanía og barnsfaðir hennar aftur suður en ekki leið á löngu þar til það slitnaði upp úr sambandinu.

„Á þessum tíma bjuggum við hjá foreldrum hans. Ég flutti út og kom mér fyrir á hótelherbergi úti í bæ og ætlaði að vera þar á meðan ég væri að finna eitthvað annað. Ég datt mjög fljótt í það, byrjaði á því að fara út um helgar og svo vatt þetta mjög hratt upp á sig. Það fór allt niður á við. Við vorum með börnin viku og viku og ég bað barnsföður minn um að taka börnin alveg á meðan ég væri að ná mér á strik. En svo náði ég mér aldrei á strik. Í júní 2015 var ég komin á götuna.“

„Um leið og þú byrjar að sprauta þig þá hverfur allt siðferði. Sjálfsvirðingin fýkur út um gluggann“

Í kjölfarið tók við eitt harðasta form fíkninnar. Langt leiddir fíklar mynda ósjaldan þol fyrir dópinu og leita þá í sterkari efni. Stefanía á óljósa minningu um að hafa verið stödd einhvers staðar í svokölluðu „blackouti“ þegar hún fékk sprautunál í höndina í fyrsta skipti. „Þetta var seinasta sort. Ég hafði alltaf fyrirlitið sprautufíkla. Ég sagði alltaf að ég ætlaði sko aldrei að sprauta mig. En það virkaði ekkert á mig lengur. Þessi tími í lífi mínu er rosalega óljós og allur í móðu, ég man bara brot og brot. Þegar ég rifja upp söguna mína þá finnst mér alltaf eins og ég sé bara að bulla einhverju steypu, þetta er svo óraunverulegt. Um leið og þú byrjar að sprauta þig þá hverfur allt siðferði. Sjálfsvirðingin fýkur út um gluggann.“

Viðbjóðslegur heimur

„Það er eiginlega ómögulegt að lýsa því hversu harður og viðbjóðslegur fíkniefnaheimurinn er hérna á Íslandi. Fólk er með einhverja ákveðna mynd í hausnum en raunveruleikinn er miklu svartari og harðari. Ég hef horft upp á ógeðslega hluti, ég hef séð fólk vera barið þar til það er orðið meðvitundarlaust og ég hef horft upp á fleira en eina nauðgun.
Ég hef bókstaflega verið tekin í gíslingu, haldið fanginni í marga klukkutíma og byrlað dópi í æð, ekki út af neinu sem ég gerði heldur vegna þess að ég var á röngum stað á röngum tíma.“

Á einum tímapunkti var Stefanía lögð inn á Vog, meðal annars fyrir tilstilli foreldra sinna. Það bar ekki tilætlaðan árangur og hún var komin út þremur dögum síðar.

„Ég vissi í raun ekkert hvað ég var að gera þarna inni og það vantaði einhvern til að koma og leiðbeina mér, það var eins og það væri gert ráð fyrir að ég vissi það sjálf hvað ég ætti að gera. Mér tókst að vera edrú í einhverjar tvær vikur eftir að ég fór út, en þá hrundi ég í það og keyrði mig algjörlega í þrot. Ég hef oftar en einu sinni tekið alltof stóran skammt og það er í rauninni bara kraftaverk að ég sé á lífi í dag.“

„Ég var búin að sætta mig að ég myndi deyja úr þessu. Ég meira að segja hugsaði að það yrði örugglega auðveldara fyrir alla ef ég væri dáin, þá myndu foreldrar mínir ekki þurfa að hafa áhyggjur af mér. Þá væri þetta bara búið“

Sætti sig við að deyja

Stefanía kveðst á þessum tímapunkti, í upphafi árs 2016, hafa verið komin á vonarvöl. Hún sá enga útgönguleið út úr neyslunni.

„Ég var búin að sætta mig við að ég myndi deyja úr þessu. Ég meira að segja hugsaði að það yrði örugglega auðveldara fyrir alla ef ég væri dáin, þá myndu foreldrar mínir ekki þurfa að hafa áhyggjur af mér og börnin mín myndu þá ekki þurfa ekki að alast upp í óvissu um hvar mamma þeirra væri. Þá væri þetta bara búið. Auðvitað er þetta fáránleg hugsun en svona er þetta bara. Ég var búin að missa alla von um að ég gæti orðið edrú. Ég trúði því ekki að það væri hægt að bjarga einhverjum sem væri búinn að sökkva svona djúpt eins og ég. Á þessum tíma bjó ég á götunni og var að brjótast inn til að eiga fyrir dópi. Ég var alltaf á stolnum bílum. Ég er ekki með tölu á því hversu oft ég endaði í fangaklefa. Það eina sem skipti máli var að redda næsta skammti.

Stefanía gætti þess ávallt að hitta ekki börnin sín undir áhrifum. „Ég átti rosalega erfitt með að hugsa til barnanna minna. Það var of sárt. Undir restina þá lifði ég ekki af eina klukkustund án þess að fá mér. Ég þurfti að sprauta mig á 40 mínútna fresti. Um leið og efnið hætti að virka, áhrifin byrjuðu að dvína þá fór ég að hugsa um börnin mín og byrjaði að gráta. Þá setti ég beint í mig aftur og hugsanir hurfu.“

„Þetta voru einstaklingar með sama tilverurétt og við öll“

Í áhrifamiklum pistil á facebook spyr Birgir Örn Guðjónsson lögregluþjónn, eða Biggi lögga, hver eigi að tala máli þeirra einstaklinga sem látist hafa vegna ofneyslu lyfja á þessu ári.

„Þetta voru einstaklingar með sama tilverurétt og við öll. Einstaklingar sem áttu fjölskyldu og vini sem nú sitja eftir með sorg, söknuð og oft reiði og margar spurningar. Hugur minn og samúð er hjá öllum þessum fjölskyldum og vinum.Á sama tíma heyrum við fréttir af því að SÁÁ verði að hætta starfsemi á norðurlandi vegna niðurskurðar. Hversu klikkað er það? Það bara má ekki gerast. Sjálfur starfa ég innan öflugra meðferðarsamtaka og hef því reynslu af því hvernig það er að berjast í bökkum og betla fé til að geta unnið þetta starf. Það er kannski bara ekkert spennandi fyrir samfélagið að snerta of mikið á þessum málum. Við viljum kannski bara hafa þessi mál í hæfilegri fjarlægð? Þetta er eitthvað óhreint og fjarlægt okkur sjálfum. Eða er það?“

Ég setti inn færslu um daginn þar sem ég opinberaði skoðun mína á því að við þyrftum að nálgast þessi mál á annan hátt en við höfum gert. Sú færsla fékk jafn misjafnar móttökur og ég bjóst við. Ég skil vel alla þá sem halda að ég sé í ruglinu með þessa skoðun. Ég hefði verið á sama stað fyrir ekki svo löngu síðan. Áður en ég opnaði augun og sökkti mér ofan í málefnið. Ég hefði pottþétt talið þann hálfvita, og örugglega dópista, sem hefði verið með þá skoðun sem ég hef í dag. Við skulum samt átta okkur á að ég er lögreglumaður, starfa í meðferðarsamtökum og á börn sem nálgast unglingsaldur. Ég er ekki að ræða þessi mál út af því að ég vil aukið aðgengi að fíkniefnum eða af því að ég tel þau skaðlaus. Síður en svo! Ég sé einmitt vandamálið, þekki hætturnar og þrái lausnir.

Nokkrum klukkutímum eftir að ég birti umrædda færslu stóð ég með símann í hendinni og tilkynnti móður ungs manns að sonur hennar hefði farið í hjartastopp vegna ofneyslu. Sá ungi maður er einn af þessum fimm einstaklingum. Einstaklingum sem hafa enga rödd. Þetta er ekki í fyrsta og pottþétt ekki í síðasta skiptið sem ég þarf að flytja slíkar fréttir. Vandamáið er raunverulegt. Vandamálið er hér í dag og það þarfnast víðtækra lausna. Spurningin er bara hvort við þorum og hvort við viljum?“

Sett á biðlista

Stefanía kannast vel við úrræðaleysi og fjársvelti kerfisins. Það hefur hún fengið að reyna á eigin skinni. „Í tvö skipti fór ég hágrátandi niður á Von í Efstaleiti og bókstaflega grátbað um einhverja hjálp, hvort það væri hægt að koma mér inn bara einhvers staðar, geðdeild eða hvað sem er. Þarna var ég búin að vera vakandi í marga daga. Ég gekk svo langt að rúlla upp erminni á peysunni minni og sýna þeim götin á hendinni á mér. Í annað skiptið var ég komin með sýkingu í handlegginn. Svörin sem ég fékk voru þau að það væri ekkert hægt að gera nema að setja mig á biðlista, og að ég myndi fá símtal en það gætu verið nokkrar vikur þangað til.“

Stefaníu er mikið niðri fyrir þegar hún rifjar þessar heimsóknir upp og segir þetta lýsandi fyrir það hvernig fjárskortur í kerfinu kemur í veg fyrir það að hægt sé að veita langt leiddum fíklum nauðsynlega aðstoð á ögurstundu.

„Það kemur þarna bútur í lífi fíkils þar sem hann gjörsamlega gefst upp og er kannski tilbúinn til að fá hjálp akkúrat þarna. Þá er nauðsynlegt að grípa inn í á réttum tímapunkti. Ef það er ekki gert fyrr en nokkrum vikum seinna þá getur viðkomandi verið komin aftur í rugl eða hreinlega dáinn.“

Stefanía kveðst einnig hafa gert tilraun til að komast í meðferð á Krýsuvík en rétt eins og áður þurfti hún að fara aftast í röðina. „Það var búið að ýta við mér að fara inn á Krýsuvík og á einhverjum tímapunkti gafst ég aftur upp og samþykkti það. Ég fór þangað í viðtal og var sagt að sem móðir á götunni þá væri ég í forgangi. Ég átti síðan að hringja vikulega á hverjum þriðjudegi til að minna á mig, sem ég gerði. Meira að segja nokkrum sinnum, þegar ég hafði gist í fangaklefa, þá lét ég löggurnar hringja fyrir mig.“

Eftir því sem vikurnar liðu án þess að Stefanía fengi inni á Krýsvík fór ástandið versnandi. Hún komst í kynni við heróín, fíkniefni sem er sjaldséð á Íslandi. Lou Reed söng á sínum tíma um „lyfið sem fær þig til þess að líða eins og þú sért sonur Jesú.“ Þeir sem þekkja til í fíkniefnaheiminum vita að heróínneysla er í meirihluta tilfella ávísun á dauða.

„Þið verðið að bjarga mér“

13.apríl 2016 var Stefanía búin á því á líkama og sál.

„Ég var í svo slæmum fráhvörfum að ég hélt að ég væri að deyja. Ég var orðin 42 kíló, og ég er 172 sentimetrar á hæð. Líkaminn var bara að gefa sig. Ég vissi að ég gat ekki meira. Ég var þarna í einhverju iðnaðarhúsnæði með vini mínum, og ég gat ekki gengið. Ég þurfti að skríða yfir í hinn endann á herberginu til að geta sett símann minn í hleðslu. Ég var ekki vön að hringja í pabba minn en þarna hringdi ég í hann og ég sagði við hann: „Þið verðið að bjarga mér.“ Ég varð að komast í burtu.

„Líkaminn var bara að gefa sig. Ég vissi að ég gat ekki meira. Ég var þarna í einhverju iðnaðahúsnæði með vini mínum og ég gat ekki gengið“

Guðmundur Fylkisson, varðstjórinn sem hefur sérhæft sig í leitinni að týndum ungmennum, reyndist bjargvættur Stefaníu þennan dag. „Það var svo heppilegt að pabbi þekkir hann og gat hringt í hann strax. Ég held að það hafi ekki verið liðnar tíu mínútur þar til Guðmundur var kominn til að sækja mig. Á sama tíma kom pabbi brunandi í bæinn frá Fáskrúðsfirði, sótti mig og fór með mig heim.“ Heima á Fáskrúðsfirði voru Stefaníu gefin lyf til niðurtröppunar og hlúð var að henni. „Þegar ég vaknaði og mest var runnið af mér þá leið mér betur, og ég vissi að ég vildi ekki fara til baka. Ekki þarna.“

Man vel eftir Stefaníu

Man vel eftir Stefaníu

Guðmundur Fylkisson varðstjóri man vel eftir að hafa sótt Stefaníu þennan örlagaríka dag í apríl 2016.

„Við pabbi hennar erum kunningjar og hann hafði samband við mig. Hún hafði látið vita að hún væri búin að gefast upp og vantaði honum einhvern sem gæti nálgast hana og komið henni í skjól. Ég fór og sótti hana í iðnaðarhverfi í Hafnarfirði, hún kom út, með stór dökk sólgleraugu á andlitinu og föggur sínar í einhverjum poka. Hún var glorsoltin og spurði ég hana hvað hún vildi borða. Fór með hana á KFC og pantaði það sem hún vildi, man ekki hvað það var reyndar. Hún borðaði þetta hratt og örugglega og síðan fór ég með hana á stað sem hún hefði skjól á þá nóttina. Pabbi hennar var lagður af stað frá Austfjörðum til að sækja hana, akandi. Ég var nú ekki alveg bjartsýnn á að hún yrði þar þegar hann kæmi en hún var það og hefur staðið sig frábærlega síðan.

Ég veit að það hefur ekki verið auðvelt fyrir hana að takast á við fráhvörfin og afeitrunina fyrir austan en hún á góða að. Hún var djúpt sokkin og ég hef rifjað það upp með henni síðar, að ég hafði fengið hana við hliðina á mér á stolnum bíl, ég var þá með ungling í stroki í bílnum. Ég fór á eftir henni, krókaleiðir upp frá Vífilsstöðum og þar til merktur lögreglubíll kom og stoppaði þau ofan við Kópavog. Unglingurinn sem var í bílnum hjá mér setti hettuna yfir hausinn, fannst það ekki spennandi að vera í „eftirför“ og það yrði örugglega haldið að hann hefði sagt til. Tilviljunin var hins vegar sú að þegar tilkynnt var um stolinn bíl í fjarskiptum og lýsing gefin, þá var ég að aka fyrir aftan bílinn. Stefanía mundi svo sem ekki eftir þessu en sendi mér svo skjáskot þegar hún var á leið í dóm, þar sem hún hélt á skýrslu með nafninu mínu á….. og sagði… „Þessi Guðmundur.“

Guðmundur hefur síðustu árin komið hundruðum ungmenna til bjargar og í mörgum tilfellum hefur tekist að beina einstaklingum á rétta braut.

„Það er bara svo gefandi að fá að sinna þessu og þá fær maður áhuga og heldur honum. Vissulega sé ég oft árangur, sem betur fer. Stefanía er reyndar utan míns aldurshóps en ég vinn með ungmennin upp að 18 ára aldri. Hún er aftur á móti ekki sú eina sem ég hef komið að því að ná sér út úr svona rugli. Það er að segja þegar maður sér einhvern í vanda, lætur vita að maður sé tilbúin og viðkomandi er tilbúin að þiggja aðstoðina,“

segir Guðmundur og rifjar upp dæmi. „Önnur stelpa sem er rétt rúmlega tvítug sem var orðin hluti af útigangsmönnum miðborgar. Hún er búin að standa sig vel nú í eitt og hálft ár, ef ég man rétt.Ég nálgaðist hana í rólegheitum og á endanum bað hún um hjálp. Baklandið hennar var kannski ekki eins sterkt og hjá Stefaníu. En það hafðist.

Svo eru það einstaklingarnir sem hafa verið grátandi í bílnum hjá mér og spurt af hverju ekki var eitthvað svona verkefni í gangi þegar þau voru yngri, þá væru þau kannski ekki í þeirra stöðu í dag, sem þau eru í. Einn pilturinn tók sig á í framhaldi, með nánast ekkert bakland, og hefur staðið sig vel. Það tekur vissulega langan tíma að ná sér í eðlilegan farveg, það þarf að vinna úr svo mörgu. Ég hitti hann annað slagið og hann kemur alltaf og heilsar.“

Stefanía fékk í kjölfarið pláss á Hlaðgerðarkoti. Hún fékk að fara fram fyrir á biðlistanum og segir fullvíst að annars hefði hún endað aftur á götunni. „Af því að um leið og þér er farið að líða aðeins betur þá ertu tilbúinn til að byrja aftur að nota. Það verður að vera hægt að grípa fíkilinn þegar hann er tilbúinn, þegar hann er gjörsamlega búinn á því og jafnvel við það að deyja. Það eru alltof margir fíklar sem hugsa bara að það sé vonlaust að reyna að fá hjálp af því að það eru bara biðlistar alls staðar,“ segir hún og nefnir sem dæmi að á meðan hún dvaldi á Hlaðgerðarkoti hafi einstaklingur látist sem var á biðlista í að komast í meðferðina. Hún var hins vegar heppin.

„Það bjargaði lífi mínu að fara á Hlaðgerðarkot. Ef það hefði ekki verið gripið inn í þarna þá væri ég ekki á lífi í dag. Það er bara ekkert flóknara en það. Ég var búin að taka of stóran skammt nokkrum sinnum og lifði það alltaf af en ef ég hefði tekið of stóran skammt einu í sinni í viðbót þá er ég ekkert viss um að ég hefði verið það heppin.“

Stöðugt skorið niður

Framlög ríkisins til SÁÁ koma til með minnka um 13 prósent á næstu tveimur árum líkt og fram kemur í Fjárlögum árins 2018. Ákvörðunin kallar á sparnað upp á 70 milljónir á þessu ári.

Í síðasta mánuði var greint frá því að undirbúningur væri hafinn vegna lokunar á göngudeild SÁÁ á Akureyri. Lokun göngudeildarinnar er hluti af 100 milljóna niðurskurðsáætlun sem samtökin starfa nú eftir að SÁÁ hóf rekstur göngudeildar á Akureyri í byrjun árs 1993 og hefur deildin sinnt ráðgjöf og greiningu fyrir áfengis- og vímuefnasjúklinga á öllu Norðurlandi síðan. Í tilkynningu kemur fram að engin framlög hafi komið frá ríkinu til göngudeildarstarfsemi SÁÁ undanfarin þrjú ár.

Levý Traustason, framkvæmdastjóri Samhjálpar, sagði í viðtali við síðdegisútvarpið á Útvarpi Sögu í fyrrasumar að erfitt væri reka meðferðarstarf í Hlaðgerðarkoti þegar framlögin til starfsins væru háð duttlunum stjórnmálamanna. Allt kapp væri þó lagt á að hjálpa öllum þeim sem leita að aðstoð.

„Við erum að reyna að vinna að því að fá samning við ríkið, það er dapurlegt og erfitt að reka svona úrræði sem Hlaðgerðarkot er og fá að vita kannski 21. desember hvað við fáum mikið á fjárlögum því það er bara happa og glappa hvort sitjandi ríkisstjórn er hlynnt þessu eða ekki.“

Hún segir ómetanlegt starf unnið á meðferðarheimilinu og því sé sorglegt að horfa upp á þær kringumstæður sem starfið er rekið undir.

„Þau sem koma að starfinu eru öll af vilja gerð til að hjálpa. Í desember 2016 fór mér að líða illa og fékk þá að koma strax inn til þeirra og dvelja í viku. Ef ég hefði ekki fengið það hefði þetta getað endað illa. Það er ömurlegt að Samhjálp þurfi að reiða sig á styrki frá einstaklingum og fyrirtækjum til að geta haldið starfseminni uppi. Mér finnst mjög erfitt að skilja af hverju stofnanir sem eru að hjálpa fólki fá ekki meira fé frá ríkinu.“

Fíkillinn finnur alltaf leið

Eins og gefur að skilja hefur Stefanía sterkar skoðanir á ráðagerðum ríkisins í málefnum fíkla. Hún segir lausnir ráðamanna þjóðarinnar síst til þess fallnar að að taka á vandanum, þvert á móti hafi þær öfug áhrif. Í dag hafa allir læknar á Íslandi aðgang að lyfjagagnagrunni Landlæknisembættisins þannig að erfiðara er fyrir einstaklinga að fara á milli lækna og verða sér úti um sömu lyf á sama tíma. Erfiðarara er fyrir fíkla að verða sér úti um svokallað læknadóp.

„Þetta er engin lausn. Það er eins og menn fatti ekki að fíkill hættir ekkert að vera fíkill þó að honum sé gert erfitt fyrir að fá efnin. Hann verður að fá efnin, sama hvað, hann finnur alltaf leið og svífst einskis. Þetta þýðir bara að það verður meiri harka í undirheimunum og fíklar ganga ennþá lengra og gera ennþá ljótari hluti til að redda efnum. Þetta þýðir að það kemur bara eitthvað annað efni í staðinn. Það gengur ekki að skrúfa fyrir dæluna og setja enga peninga í meðferðarkerfið í staðinn. Taka efnin af fíklunum en ekki gera neitt til að hjálpa þeim.“

Stefaníu er annt um að koma fólki í skilning um að að fíknin fer ekki í manngreinarálit.

„Mér finnst svo sárt að heyra fólk tala um að það ætli sko ekki að láta sína skattpeninga fara í að halda uppi fíklum og aumingum. Þegar ég heyri til dæmis: „Af hverju hætta þau ekki bara?“ eða þegar einhver deyr og fólk segir að það sé bara einum fíklinum færra. Það er eins og fólk geri sér ekki alltaf grein fyrir að þetta eru manneskjur sem er verið að tala um: dætur og synir, fólk sem á börn.“

Hún tekur undir að ef til vill vilji fæstir vita yfirhöfuð af vandanum. Fíklar eru ennþá óhreinu börnin hennar Evu.

„Fólk sem hefur ekki verið þarna, það gerir sér enga grein fyrir hversu svartur og ógeðslegur þessi heimur er. Þú kannski sérð sprautufíkil á mynd en þú sérð aldrei allt sem er í gangi, alla þessa eymd. Þess vegna skil ég alveg að fólk geti ekki sett sig í þessi spor en það er samt ömurlegt að upplifa þessa fordóma og fáfræði í samfélaginu. Þó svo að umræðan sé vissulega komin lengra í dag en áður og skilningurinn meiri þá skína fordómarnir í gegn,“ segir hún og tekur sem dæmi að það sem af er ári hafa fimm einstaklingar látist vegna fíkninnar.

„Ef að þessir fimm einstaklingar hefðu allir dáið í bílslysi þá efast ég ekki um að það væri allt vitlaust og umræðan miklu meiri. En það er eins og þessi umræða komist aldrei almennilega á flug. Kannski af því að fólk vill frekar loka augunum fyrir þessu. Fólk er svo vant að sjá þetta sem svartan blett á samfélaginu.

Þann 13. apríl næstkomandi fagnar Stefanía tveggja ára edrúafmæli. Hún á í dag þrjú börn, en lítill drengur bættist við á síðasta ári. Eldri börnin tvö, sex ára og fjögurra ára, búa hjá föður sínum og koma reglulega í heimsókn til Fáskrúðsfjarðar þar sem Stefanía býr enn í dag, ásamt kærasta og yngsta syninum. Hún stefnir á að klára stúdentinn í fjarnámi en í framtíðinni vill hún nýta reynslu sína til góðs. Hana langar að geta forðað ungum krökkum frá því að leiðast út í neyslu.

„Draumurinn er að hjálpa fólki, mig langar að hjálpa þeim sem eru í sömu stöðu og ég var í. Ég á ótrúlega fallegt líf í dag. Ég á ótrúlega gott bakland, fjölskyldu, kærasta, vini og kunningja sem hafa staðið við bakið á mér eins og klettar og þó svo að allir hafi lokað á mig á meðan ég var í neyslu þá voru allir tilbúnir með björgunarhringinn þegar ég loksins bað um hjálpina. Það er skrítið að hugsa til þess núna að fyrir nokkrum árum átti ég ekkert, ég gekk um í fötum af vini mínum með bakpoka sem innihélt ekkert nema hleðslutækið af símanum mínum. Í dag á ég allt sem ég þarf.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Skipulögð brotastarfsemi mikið áhyggjuefni

Skipulögð brotastarfsemi mikið áhyggjuefni
Fókus
Í gær

Endaði á spítala og í hjólastól eftir atriði í klámmynd – Mætt fyrir framan myndavélarnir degi seinna

Endaði á spítala og í hjólastól eftir atriði í klámmynd – Mætt fyrir framan myndavélarnir degi seinna
Fókus
Fyrir 2 dögum

Dularfull eftirlýsing lögreglunnar á Norðurlandi vestra vekur athygli – „Ætlið þið að vera með skemmtiatriði hjá þeim sem svara?“

Dularfull eftirlýsing lögreglunnar á Norðurlandi vestra vekur athygli – „Ætlið þið að vera með skemmtiatriði hjá þeim sem svara?“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Gleymið Bjarna og kökuskreytingunum – nú er það Bjarnapitsa – „Sjáið drenginn, hann á ekkert að vera að vinna á þingi“

Gleymið Bjarna og kökuskreytingunum – nú er það Bjarnapitsa – „Sjáið drenginn, hann á ekkert að vera að vinna á þingi“
Fókus
Fyrir 4 dögum

„Maður þarf bæði að leyfa henni að vera og fara, sorginni“

„Maður þarf bæði að leyfa henni að vera og fara, sorginni“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Prestur rekinn eftir að hafa hleypt Sabrinu Carpenter inn í kirkjuna

Prestur rekinn eftir að hafa hleypt Sabrinu Carpenter inn í kirkjuna