Þórlaug gekk út af líknardeild og lenti á hrakhólum
„Ég var kölluð gangandi kraftaverk. Ég var greind með leghálskrabbamein árið 2010, ég vissi að það fór ekki og fékk loksins að fara í myndatöku haustið 2011, þá kom í ljós að ég var komin á grafarbakkann. Ég fer í gengum hrikalega meðferð, uppskurði, innri og ytri geislameðferðir,“ segir Þórlaug Ágústsdóttir í einlægu viðtali í helgarblaði DV.
Þórlaug var laus við krabbameinið vorið 2012 en skömmu síðar var hún greind með krabbamein í eitlum. „Ég fékk hlé þarna um sumarið og svo um haustið var sagt við mig að það væri ekkert hægt að gera fyrir mig. Ég mátti búast við því að lifa í hálft ár, í mesta lagi eitt og hálft ár með lyfjameðferð.“
Á þessum tíma bjó hún úti í Danmörku og lá inni á líknardeild í Kaupmannahöfn nokkra mánuði. Það er sjaldgæft að einhver lifi af dvöl á líknardeild. „Það er mjög sjaldgæft. Það dó einhver á deildinni þriðja hvern dag. Ég gekk af og til fram á lík frammi á gangi þar sem starfsmenn voru að fá sér kaffi og spjalla. Það var ekki auðvelt að hugsa til þess að næsta dag gæti þetta verið ég. Ég horfði alltaf fram á veginn, ég fór af deildinni reglulega til að mæta í tíma í háskólanum, ég man að fagfólkinu fannst það mjög óvenjulegt.“