Hjálmar Sveinsson borgarfulltrúi Samfylkingarinnar og formaður umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur spáir því að byggður verði nýr borgarflugvöllur í Hvassahrauni sem verði tilbúinn eftir 12 ár.
Samgöngu- og skipulagsmál verða í brennidepli í borgarstjórnarkosningunum í Reykjavík í vor, af því tilefni fékk blaðamaður DV Hjálmar til að fara með sér í strætó um borgina til að fara yfir stefnu meirihlutans.
Þegar keyrt er framhjá flugvellinum segir Hjálmar: „„Mín spá er að það verði byggður nýr borgarflugvöllur í Hvassahrauni, ég held að árið 2026 verði sú framkvæmd komin á fullan skrið og hann verði tilbúinn 2030. Kannski fyrr.“
„Við vorum að keyra framhjá byggingarsvæðinu við Hlíðarenda, þetta eru ekki glærur, þetta eru 850 íbúðir sem verða langt komnar í uppsteypu í lok þessa árs. Svo erum við að skipuleggja byggð með álíka mörgum íbúðum í Skerjafirði. Það verður hægt að reka flugvöllinn áfram með miklu lendingaröryggi á tveimur brautum með þessa nýju byggð við Skerjafjörð og á Hlíðarenda í jaðri flugvallarsvæðisins.“