fbpx
Mánudagur 23.desember 2024
Fókus

Hápunkturinn að leiða KR í Liverpool

Kristinn H. Guðnason
Föstudaginn 28. desember 2018 21:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ellert B. Schram kom nýverið inn á þing sem varamaður, 79 ára að aldri. Hann hefur verið inni og úti af þingi nú í tæpa hálfa öld sem er met. Fyrst fyrir Sjálfstæðisflokkinn og síðan Samfylkinguna en um tíma var hann í raun óháður. Ellert er elsti Íslendingurinn sem hefur setið á þingi. Ellert ritstýrði DV ásamt Jónasi Kristjánssyni á stórveldistíma blaðsins og saman leiddu þeir baráttuna fyrir frjálsum og óháðum fjölmiðlum. Ellert komst fyrst í sviðsljósið sem fyrirliði og máttarstólpi gullaldarliðs KR og íslenska landsliðsins. Síðar leiddi hann bæði Knattspyrnusambandið og Íþróttasambandið. Ellert er lögfræðingur frá HÍ og starfaði á árunum 1966–1971 sem skrifstofustjóri Borgarverkfræðings í Rvík. Ellert er ekki hættur að láta gott af sér leiða því í dag er hann formaður Félags eldri borgara. DV ræddi við Ellert um það sem hæst ber á þessum langa og fjölbreytta ferli.

Jólainnlit á þingi

Ellert hefur nýlokið viku þingsetu. Sjálfur kallar hann þetta óvænt jólainnlit hjá sér. Hann náði að komast tvisvar í púlt og minna þingheim á kröpp kjör eldri borgara. Það er málefni sem hann hefur brunnið fyrir eftir að hann tók við formennsku í Félagi eldri borgara árið 2017. Hann segist ekki hafa átt von á að fá þetta tækifæri (að setjast inn á þing) enda voru tveir aðrir á undan honum í röðinni sem varaþingmenn.

Ellert kom inn sem varamaður fyrir Ágúst Ólaf Ágústsson sem tók sér leyfi vegna ásökunar um kynferðislega áreitni. Á sama tíma hafa borist fregnir af því að þingið sé illa starfhæft vegna máls sexmenninganna á barnum Klaustri. Ellert segir andrúmsloftið á Alþingi ekki vera jafn slæmt og af er látið.

„Ég varð ekki mikið var við þá ólgu sem talað er um. Þvert á móti þá verð ég að viðurkenna að það var gaman og merkileg uppákoma að detta svona inn á þing og mér fannst andrúmsloftið vera nokkuð gott. Ég get samt trúað því að mörgum þeirra sem eru í þinghúsinu finnist þetta óþægilegt. Ég tók ekki sæti hjá Samfylkingunni með það fyrir augum að ná inn heldur til að styrkja flokkinn og minna á gamla fólkið. Ég sá það sem gott tækifæri fyrir mig sem formann eldri borgara að komast í ræðustólinn á Alþingi, kalla eftir upplýsingum og tala máli elstu kynslóðarinnar.“

Hefur þú engar áhyggjur af að stjórnarandstaðan geti illa sinnt aðhaldshlutverki sínu?

„Nei, ef þú ert að tala um Klaustrið, þá tel ég það eigi ekki að  bitna á öllum flokkum sem eiga fulltrúa á þingi. Það er ekki hægt að dæma allt Alþingi og þá sem þar sitja fyrir þessa ógæfu sem sumir hafa kallað yfir sig. Þrátt fyrir allt er þetta valdamesta samkoman, sem við verðum að hlusta og taka mark á. Það er ekki mitt mat að svona atburðir ráði ferðinni þarna inni. Hvorki hjá stjórnarflokkunum né minnihlutaflokkunum.“

Vantar fleiri eldri borgara á þing

Ellert segir að staða eldri borgara á Íslandi sé mjög misjöfn. Margir hafa í sig og á og njóta mikilla lífsgæða en aðrir standa mjög höllum fæti. Hann segir Félag eldri borgara sinna báðum hópunum og bjóða upp á margvíslega þjónustu, utanferðir, námskeið og dægradvöl. Kjaramálin skipti hins vegar mestu máli.

„Margir sem komast á eftirlaunaaldurinn lifa við fátækt og hafa ekki í sig og á,“ segir hann. „Greiðslur frá Almannatryggingum eru einfaldlega of lágar og þar að auki er lífeyririnn skertur ef viðkomandi vogar sér að vinna sér inn peninga eða hagnast á sölu eigna. Það er stöðugt eftirlit með þessu. Þessi hópur þarf virkilega á hjálp að halda og það er verkefni okkar, sem búum við gott líf og heilsu, og stjórnvalda, að grípa til markvissra aðgerða og hækka greiðslurnar sem þjóðin aflar í gegnum Almannatryggingar. Fátæktin leiðir af sér einangrun, veikindi og tómleika. Lífsgæði og hagur fólks ræðst af því að fólk hafi eitthvað á milli handanna.“

Hluti af þessum vanda sé hugsanlega tengdur því að of fáir fulltrúar eldri kynslóðarinnar séu inni á þingi. Sem flestir stjórnmálaflokkar ættu að nýta sér þekkingu og reynslu eldri borgara og hafa þá með í flokkum sínum og sem fulltrúa á þingi.

Finnst þér vera lítill skilningur hjá ríkisstjórnarflokkunum?

„Nei, held að skilningurinn sé fyrir hendi og varð ekki var við annað þessa viku sem ég var núna inni á þingi. Ég flutti tvær ræður um málefni eldri borgara og það var tekið vel í þær. Það þarf hins vegar meiri umræðu og fleiri tillögur til þess að vekja athygli á þessum málum. Aldrað fólk á að hafa talsmenn á þingi.“

Á sjó til að drýgja þingfararkaupið

Í gegnum allt lífið hefur Ellert tekið að sér leiðtogahlutverk og trúnaðarstöður af ýmsum toga. Hann var formaður Stúdentaráðs, SUS, KSÍ, ÍSÍ, var ritstjóri tímarita og dagblaða, fyrirliði KR og íslenska landsliðsins svo eitthvað sé upptalið. Ellert segir hins vegar að hann hafi ekki alltaf sóst eftir öllum þessum stöðum heldur hafi margoft verið leitað til hans um þátttöku og forystu.

„Skýringin er að einhverju leyti sú að ég er félagslyndur að eðlisfari. Mér þykir gaman að umgangast fólk og taka á málefnum sem skipta máli. Einhverra hluta vegna hefur fólk talið að ég gæti gert gagn með að taka við formennsku og ég held sjálfur að þetta hafi gengið ágætlega,“ segir Ellert og brosir. „Faðir minn var Björgvin Schram sem var formaður KSÍ í fjórtán ár. Kannski er þetta að einhverju leyti í genunum. Og svo var Ellert, afi minn, skipstjóri á seglbátum.“

Þú varst rúmlega þrítugur þegar þú varst kjörinn inn á þing, árið 1971. Hvernig var fyrir ungan mann að stíga þarna inn?

„Ég var yngstur og nú er ég elstur,“ segir Ellert og hlær. „Þetta var auðvitað mjög spennandi. Ég var kornungur maður og sat með miklum höfðingjum á þingi. Mönnum sem ég bar mikla virðingu fyrir. Ég verð að játa að mér fannst til þess koma að vera á þingi og reyndi að standa mig. Ég tók út þroska og auðvitað varð mér á í sumum málum. En þrátt fyrir ungan aldur og axarsköft var ég kosinn aftur árið 1974.“

Ellert minnist sérstaklega jómfrúrræðu sinnar sem hann vildi þó helst gleyma.

„Í fyrstu ræðunni talaði ég gegn því að Ísland samþykkti að Kínverjar fengju aðild að Sameinuðu þjóðunum. Ég sé nú alltaf eftir að hafa verið að skipta mér af því,“ segir hann kíminn. „Þetta var sennilega full unglingslegt af mér.“

Hvernig var þingið þá miðað við í dag?

„Þetta voru nánast allt saman karlar. Það voru aðeins tvær konur þarna inni. Mikið til karlar sem voru búnir að vera lengi á þingi. Þeir voru líkt og heima hjá sér og vinir hver annars, þótt þeir hafi verið að rífast í ræðustól. Því var andrúmsloftið þarna inni nokkuð gott. Menn báru virðingu hver fyrir öðrum.“

Í dag er hávær umræða um laun og sporslur alþingismanna og annarra embættismanna. Svo miklar hækkanir hafa þeir fengið að það er talið ógna kjaraviðræðum. Öldin var önnur þegar Ellert kom inn á þing í fyrsta sinn.

„Ég var með eiginkonu og fjögur börn og hún þurfti að vera heima til að sinna þeim. Launin voru ekki meiri en svo, að ég þurfti á þessum árum að fara á sjóinn tvö sumur til að við ættum í okkur og á.“

Fyrirmyndirnar, þorskastríðin og gengisfellingarnar

Áttir þú þér fyrirmyndir í stjórnmálunum?

„Ég á kannski ekki neinar fyrirmyndir en mér fannst margir þeirra vera flottir og vildi vera eins og þeir. Ég man eftir Eysteini Jónssyni, Hannibal Valdimarssyni, Jóhanni Hafstein, Gunnari Thoroddsen og Lúðvík Jósefssyni svo ég nefni nokkra alþingismenn. Síðan kom Steingrímur Hermannsson og næsta kynslóð. Ég gæti nefnt marga aðra þing- og forystumenn, sem eru eftirminnilegir. Mér fannst ég njóta góðs af þessum félagsskap og þroskaðist af þessu.“

Snemma á sínum pólitíska ferli kynntist Ellert Bjarna Benediktssyni forsætisráðherra sem lést í voveiflegum eldsvoða ásamt eiginkonu sinni og barnabarni á Þingvöllum, sumarið 1970. Ellert, sem þá var formaður SUS, var með Bjarna skömmu fyrir andlátið.

„Við sigldum saman norður á Siglufjörð til að vera viðstaddir héraðsmót Sjálfstæðisflokksins. Eftir það þurfti ég að fljúga beint suður til að spila landsleik við Dani á Laugardalsvellinum en Bjarni fór þá á Þingvelli. Hann ætlaði síðan að sækja mig og við ætluðum að fara vestur í Stykkishólm saman um næstu helgi. En þá fékk ég símhringingu frá Alberti Guðmundssyni um morguninn, sem sagði mér hvað hafði gerst.“

Ári síðar var Viðreisnarstjórnin fallin og þorskastríðið í algleymingi. Ellert segir að mikill tími hafi farið í að takast á við landhelgismálin. Annað mál var rétturinn til fóstureyðingar og var Ellert sjálfur í þeirri nefnd sem leiddi þá lagabreytingu í gegn. Mestur tíminn hafi þó farið í að kljást við efnahagsmálin sem voru í algerri óreglu. Verðtrygging var ekki til staðar og peningarnir þurrkuðust upp á milli ára.

„Þetta var skelfilegur tími. Það voru gengisfellingar á gengisfellingar ofan. Um leið og laun voru hækkuð var gengi fellt. Sérstaklega eftir hækkanir hjá verkafólki og sjómönnum. Á tíma stjórnar Gunnars Thoroddsen var gengið fellt um og yfir hundrað prósent.“

Ellert segir að öfgarnar hafi verið miklar á þessum tíma.

„Þetta var það sem hafði mest áhrif á líf fólks og virkaði á báða bóga. Ég keypti mér kjallaraíbúð á 390 þúsund krónur árið 1962. Þegar ég stækkaði við mig hafði það engin áhrif því að skuldirnar hurfu. Ég keypti þrisvar eða fjórum sinnum nýja íbúð og þurfti aldrei að hafa neinar áhyggjur af því.“

 

Fékk ekki framgöngu í flokknum

Eftir ákveðinn tíma á þingi fór Ellert að hugsa um frekari frama innan þingliðsins og fannst sem hann hefði unnið sér það inn og hefði stuðning kjósenda til þess. Það gekk hins vegar ekki eftir eins og hann vildi.

„Það er enginn annars bróðir í leik,“ segir hann. „Allir voru að leita að sínum eigin farvegi. Þegar kom að kosningum og menn fór að skipta með sér verkum var hver að hugsa um sjálfan sig, sem er kannski ekkert óeðlilegt í slíkum baráttuhóp. Mér fannst að ég ætti að fá meiri frama, kannski af því að ég var mikill keppnismaður og vildi vera í liðinu,“ segir Ellert og brosir.

Ellert sat samfellt á þingi til ársins 1978. Í seinni alþingiskosningunum það árið var mikil kergja eftir prófkjör Sjálfstæðismanna í Reykjavík og víðar. Þá höfðu fulltrúar flokksins í verkalýðshreyfingunni fengið verri útkomu en þeir bjuggust við. Til að halda friðinn innan flokksins bauðst Ellert að fara úr fimmta sætinu í það áttunda. Þessu var hampað sem miklum drengskap hjá Ellert en olli því hins vegar að hann missti þingsætið.

Þá tók hann við ritstjórastólnum hjá síðdegisblaðinu Vísi en þar hafði hann starfað sem blaðamaður á sjöunda áratugnum. Árið 1981 voru Vísir og Dagblaðið sameinuð í DV og Ellert tók við ritstjórastólnum ásamt Jónasi Kristjánssyni. Hann var þó ekki hættur afskiptum af stjórnmálum. Árið 1983 bauð Ellert sig aftur fram í prófkjöri Sjálfstæðismanna fyrir alþingiskosningar. Þar endaði hann í öruggu fjórða sæti.

„Ég gerði það í raun og veru til að sanna mig og átta mig á því hvar ég stæði í þinginu og pólitíkinni allri. Þegar ég kom inn í þingflokkinn bauð ég fram krafta mína sem ráðherra eða formaður þingflokksins. Hvorugt var samþykkt. Þá gekk ég út og hætti að mæta á fundi hjá flokknum. Ég sat á þingi til ársins 1987 af því að það var búið að kjósa mig. Ég tók til málanna og hafði afskipti af ýmsum frumvörpum en var ekki virkur í mínum gamla flokki. Í rauninni var ég óháður þingmaður.“

Var ekki reiði í þinn garð af hálfu Sjálfstæðismanna?

„Ég veit ekkert um það, ég talaði ekkert meira við þá,“ segir Ellert og hlær. „Geir Hallgrímsson var formaður á þessum tíma og ég taldi hann vera mikinn vin minn. Við höfðum unnið vel saman hjá Reykjavíkurborg áður. Ég held að Geir hafi sjálfur verið í vandræðum og ekki haft kraft eða tíma til að hjálpa mér. Hann hafði nóg með sjálfan sig. Geir var yndislegur maður en stundum allt of kurteis. Og svo lenti hann í bardaga gegn Gunnari Thoroddsen.“

Urðu vinslit hjá ykkur?

„Nei, nei. Ég fór mína leið og hann sína.“

Hvernig fór það saman að vera ritstjóri dagblaðs og þingmaður?

„Ég var með annan fótinn á þinginu og hinn á blaðinu. Skrifaði til dæmis leiðarana niðri í þingi. Þetta hafði þau áhrif á mig að sjóndeildarhringurinn stækkaði. Þegar maður er virkur í stjórnmálaflokki og í baráttu um að komast til valda þá verður maður að passa sig að vera á réttri línu. En eftir að ég fór að skrifa fyrir blað sem var frjálst og óháð, þá þurfti ég að skoða alla atburði í stærra ljósi. Ég þurfti að taka tillit til þeirra sem voru ekki endilega sammála mér.“

Hvernig var samstarfið við Jónas?

„Jónas var frábær penni og snillingur. Hann sagði það sem honum sýndist, hvort sem það var í leiðurum eða í samtali. Okkur kom meira og minna vel saman. Ég held að sameining Dagblaðsins og Vísis hafi styrkt stöðuna og verið áfram í þeim anda sem Jónas hafði skapað. Blaðið var frjálslynt og hafði enga þræði til neinna sem sögðu okkur fyrir verkum. Þetta var frjálst og við fengum að skrifa það sem okkur sýndist.“

 

Útvörpuðu úr kjöllurum

Ellert og Jónas störfuðu saman í fimmtán ár og skiptu með sér verkum. Jónas sá mestmegnis um morgnana og Ellert síðdegið. Ellert skrifaði einnig laugardagsgreinar um margra ára skeið. Blaðið rokseldist og fór upp fyrir Morgunblaðið á tímabili.

Dagblaðið og síðar DV voru á þessum tíma leiðandi í baráttunni fyrir frjálsri og óháðri blaðamennsku. Einnig fyrir afnámi ríkiseinokunar á ljósvakamiðlum. Þetta var eitt af baráttumálum Ellerts á þingi og þegar starfsmenn RÚV fóru í verkfall árið 1983 gripu hann, Jónas og eigendur blaðsins, Sveinn Eyjólfsson og Hörður Einarsson, til beinna aðgerða. Þá settu þeir upp eigin útvarpsstöð, Fréttaútvarpið.

„Við settum upp stöðvar og hlupum með þetta út um allan bæ,“ segir Ellert og hlær. „Við tókum upp í einhverjum kjöllurum og læddumst með upptökur á milli húsa og hverfa. Svo var það mjög dramatískt þegar lögreglan kom og braust inn á skrifstofuna. Við vissum að lögreglumenn væru á leiðinni og ég steig þá fram og hélt mjög alvörugefna ræðu. Ég talaði nú ekki vel um þá, lögregluna og meirihlutann í þinginu. En einnig um hve mikilvægt það væri að til væri fleiri en ein útvarpsstöð. Við vissum að það sem við vorum að gera var ólöglegt en létum það yfir okkur ganga. Ég fékk meira að segja dóm í héraði fyrir þetta. En honum var reyndar vísað frá í Hæstarétti.“

Eftir þetta fór Ellert í þingið og hélt langa og innblásna ræðu um málið.

„Hún bar árangur. Ragnhildur Helgadóttir var þá nýorðin menntamálaráðherra og hún tók undir margt af því sem ég sagði og lét á það reyna að breyta lögunum um ríkiseinokun.“

Ein minnisstæðasta upplifun Ellerts hjá DV var á erlendri grundu. Árið 1990 lýstu Eystrasaltsríkin yfir sjálfstæði frá Sovétríkjunum og Íslendingar voru fyrsta ríkið til að viðurkenna það. Ellert fór þá út til að kynna sér aðstæður.

„Á tímabili leit út fyrir að Rússarnir myndu hefja innrás. Jón Baldvin Hannibalsson stóð sig ákaflega vel í þessu máli og bauð okkur fulltrúum fjölmiðla út með sér. Við ferðuðumst frá einu landi til annars. Það var búið að hlaða upp sementspokunum og stilla upp byssum því að þeir bjuggust við að Rússarnir kæmu þá þegar.“

Varstu smeykur?

„Nei, ég var það nú ekki, en mér fannst þetta ógnvænlegt og það hafði mikil áhrif á mig að upplifa þetta ástand.“

 

Kratablóð í æðum

Ellert starfaði sem ritstjóri DV til ársins 1996. Samhliða því hafði hann starfað sem formaður Knattspyrnusambandsins til ársins 1989 og árið 1991 var hann kjörinn forseti Íþróttasambandsins. Þar að auki starfaði hann innan UEFA, knattspyrnusambands Evrópu. Ellert var löngu búinn að kúpla sig út úr öllum stjórnmálum þegar hann dúkkaði, flestum að óvörum, upp á lista hjá Samfylkingunni fyrir kosningarnar árið 2003. Fjórum árum síðar vann flokkurinn mikinn sigur og Ellert var aftur kjörinn á þing, mjög óvænt að hans mati.

„Það voru einir þrír eða fjórir flokkar sem vildu fá mig í framboð með sér,“ segir Ellert. „Ég áttaði mig á því að ég væri eftirsóttur og velti því fyrir mér hvort ég ætti að fara aftur í Sjálfstæðisflokkinn. En mér fannst að flokkurinn hefði horfið frá sinni gömlu meginstefnu um stétt með stétt. Þá var flokkurinn kominn langt til hægri og stefnan var að auka frjálshyggju og minnka eftirlit. Bankarnir voru seldir og kvótinn gefinn. Það var aðeins verið að hjálpa þeim sem áttu mestu peningana. Ég átti ekki samleið með þeim lengur.“

Af hverju valdir þú Samfylkinguna?

„Mér fannst Ingibjörg Sólrún góð og sá flokkur vera á réttri leið. Sennilega var þetta líka í genunum. Mamma mín, Aldís Brynjólfsdóttir, og hennar fjölskylda voru alla tíð miklir jafnaðarmenn. Hún kaus alltaf Alþýðuflokkinn nema þegar ég var í framboði fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Mamma var krati.“

Árið 2007 fór Samfylkingin í stjórn með Sjálfstæðisflokknum en sú stjórn varð ekki langlíf. Í kjölfar bankahrunsins var stjórninni slitið og boðað til nýrra kosninga eftir aðeins tvö ár.

„Mér fannst stundum sem ég og mínir menn ættu sök á þessu, af því að ég sat á þingi þegar þetta dundi yfir. Þetta var gríðarlega erfiður tími og við þurftum að taka margar erfiðar ákvarðanir. En mér fannst mitt fólk í Samfylkingunni standa sig vel. Þegar ég lít til baka finnst mér það hafa tekið Ísland mun skemmri tíma að rísa en ég átti von á. Auðvitað hafa utanaðkomandi áhrifaþættir spilað þar inn í, ferðamannasprengjan og gott gengi í fiskveiðum.“

Óttaðist þú að mótmælin færu úr böndunum?

„Þau gerðu það og fólk gerði árás inn í þinghúsið. Ég vissi ekki hvar þetta myndi enda og hafði áhyggjur af þessu. Ég hafði líka samúð með því fólki sem lenti illa í hruninu, og ekki aðeins þeim sem stóðu úti á Austurvelli. Ég óttaðist það ekki að út myndu bresta blóðug átök en áttaði mig á því að þetta var alvarlegasta tímabil sem íslenska þjóðin hefði gengið í gegnum. Þetta hafði áhrif á alla sem störfuðu í þinginu og fólk grét þar innanhúss. En það var ekki hægt að gera neitt samstundis, þetta tók allt tíma. Mér fannst þetta vera hugrekki hjá þeim sem stóðu vaktina í ríkisstjórninni á þessum tíma. Jóhanna stóð fyrir sínu.“

Vorið 2009 sá Ellert sína sæng upp reidda og ákvað að best væri að hleypa nýju fólki að til að takast á við uppbygginguna eftir hrunið.

 

Stærsta stundin að ganga út á Anfield

Ekki er hægt að sleppa Ellerti án þess að ræða um fótboltann. Hann lék allan ferilinn með sínu heittelskaða KR, var fyrirliði, raðaði inn mörkunum og vann fjölda titla. Markametið átti hann í um hálfa öld og skorað samanlagt 119 mörk.

Var þetta rokkstjörnulíf?

„Það var náttúrlega ekki mikið sýnt í sjónvarpi. Þannig að við vorum ekki frægar stjörnur, nema bara hjá sumum. En við vorum með mjög gott lið og unnum alla leiki. Í þessu liði voru ekki aðeins frábærir knattspyrnumenn heldur sterkir karakterar. Margir af þessum mönnum eru látnir, en við, sem eftir erum, erum góðir vinir og hittumst við og við.“

Á þessum tíma spilaði KR fyrst íslenskra liða í Evrópukeppni. Ellert segir að strákarnir í liðinu hafi þvingað þá ákvörðun í gegn hjá Knattspyrnusambandinu, árið 1964. Þar mættu þeir enska liðinu Liverpool, heima og úti.

„Við töpuðum báðum leikjunum en þetta voru stórir viðburðir. Hérna í Laugardalnum var uppselt. Síðan héldum við út til Liverpool. Það er mitt besta afrek á ferlinum að vera fyrirliði KR og ganga fyrstur út á Anfield Road fyrir framan 45 þúsund manns. Ég mun aldrei gleyma þessari stund. Við töldum okkur vera komna meðal þeirra allra bestu. Sem við sannarlega vorum.“

Voru einhverjir peningar í fótboltanum á þessum tíma?

„Nei, það var aldrei til króna fyrir eitt né neitt. Við fórum með búningana okkar heim til að þvo þá,“ segir Ellert og brosir.

Lengi framan af spilaði Ellert vinstra megin og svo á miðjunni. Síðustu árin færðist hann aftur í miðvörðinn og að eigin sögn var hann bestur þar. Þegar Ellert hætti að spila 1971, nýkjörinn á þing, fór KR liðinu að ganga heldur brösuglega. Þá sneri hann aftur til þess að bjarga liðinu frá falli og var kosinn knattspyrnumaður ársins.

Spilaðir þú hinn alræmda 14-2 leik við Dani?

„Nei, ég var svo heppinn að vera heima þegar þessi leikur fór fram. Þá var ég nýorðinn skrifstofustjóri hjá Reykjavíkurborg og gaf ekki kost á mér í þennan leik. Þeir vildu heldur ekki hafa mig, því þeir voru að skipta mönnum út og prófa nýja hluti.“

Þremur árum síðar, árið 1970, komu Danirnir hingað til Íslands og léku landsleik í Laugardalnum. Þá var Ellert fyrirliði og aftasti maður í vörn og leiknum lauk með 0-0 jafntefli.

„Við hefðum átt að vinna hann og en náðum samt hefndum,“ segir Ellert ákveðinn.

Þú hefur verið lengi starfandi innan knattspyrnuhreyfingarinnar. Áttir þú von á að Ísland gæti náð jafn langt, bæði í karla- og kvennaflokki, eins og raun ber vitni?

„Nei. Mér hefði aldrei dottið það í hug að við kæmumst alla leið í úrslitakeppni. Hér áður fyrr vorum við vissulega góðir, en við vorum áhugamenn og gerðum okkur grein fyrir því að við myndum aldrei komast í efstu röð. Þessi árangur núna hlýtur að vera einhvers konar heimsmet, bæði hjá stúlkunum og piltunum. Ég er auðvitað mjög hreykinn af þeim. Það er ekki víst að þetta gerist nokkurn tímann aftur. En í dag getum við borið höfuðið hátt og sagst vera með þeim bestu. Sem við erum.“

 

Hvergi nærri hættur

Ellert hefur á langri ævi náð árangri á mörgum sviðum og átt gæfuríkan feril. Hann er þó fyrst og fremst fjölskyldumaður og hans mesta stolt í lífinu eru börnin og barnabörnin.

„Ég er þakklátur fyrir allt og hef sloppið nokkuð vel frá því að vera leiðinlegur og að gera eitthvað af mér. Ég hef verið heppinn með vini og störf, en er ekki nærri hættur að lifa lífinu lifandi.“

Hann er við hestaheilsu og vel á sig kominn þrátt fyrir aldurinn. Þegar við náðum tali af Ellerti var hann nýkominn úr líkamsrækt.

„Ávallt hef ég hugsað vel um heilsuna, bæði líkamlega og andlega. Ég hreyfi mig og nýt góðs af því að hafa verið í íþróttum. Ég hef nóg að gera við að sinna fjölskyldunni og starfið í Félagi eldri borgara hefur gefið mér nýtt líf.“

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 3 dögum

Dennis Rodman með yfirlýsingu eftir að dóttir hans varpaði sprengju

Dennis Rodman með yfirlýsingu eftir að dóttir hans varpaði sprengju
Fókus
Fyrir 3 dögum

Jólakort ársins frá Vilhjálmi og Katrínu

Jólakort ársins frá Vilhjálmi og Katrínu
Fókus
Fyrir 3 dögum

Myndir af leikkonunni settu allt á hliðina og nú svarar hún tröllunum fullum hálsi – Málið vekur upp spurningar um kröfur karla til kvenna

Myndir af leikkonunni settu allt á hliðina og nú svarar hún tröllunum fullum hálsi – Málið vekur upp spurningar um kröfur karla til kvenna
Fókus
Fyrir 3 dögum

Dennis Rodman fær það óþvegið frá dóttur sinni

Dennis Rodman fær það óþvegið frá dóttur sinni
Fókus
Fyrir 4 dögum

Kynlífsathöfnin sem Christina Aguilera fær ekki nóg af

Kynlífsathöfnin sem Christina Aguilera fær ekki nóg af
Fókus
Fyrir 4 dögum

Fyrsta stefnumótið var fyrir tíu árum á Litla-Hrauni: „Ég fór þarna út með hjartað í brókinni og stjörnur í augunum“

Fyrsta stefnumótið var fyrir tíu árum á Litla-Hrauni: „Ég fór þarna út með hjartað í brókinni og stjörnur í augunum“