fbpx
Mánudagur 06.janúar 2025
Fókus

Tíðarandinn að kæfa tungumálið og húmorinn

Kristinn H. Guðnason
Fimmtudaginn 27. desember 2018 20:00

Hispurslaus Guðmundur segir sína meiningu og spyr ekki hvað öðrum finnst.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Guðmundur Brynjólfsson gaf nýlega út bókina Eitraða barnið. Hún er glæpasaga, skrifuð inn í sögulega sviðsmynd Árnessýslu í kringum aldamótin 1900. Guðmundur er djákni og innilega trúaður og jafnframt heltekinn af myrkum hliðum mannlífsins og óhræddur við að stuða fólk, hvort sem er í bókum sínum eða hárbeittum pistlum. DV ræddi við Guðmund um æskuna á Vellinum, rótleysið og árin í drykkju, hið myrka í mannskepnunni og ljósið í trúnni.

 

Hermangið á Vellinum

Guðmundur er fæddur árið 1964 og ólst upp á bæ sem heitir Hellur á Vatnsleysuströnd. Hann var næstyngstur sjö systkina en eitt dó í frumbernsku. Móðir hans starfaði sem handavinnukennari og faðir hans hjá véladeild ÍAV á Keflavíkurflugvelli. Ungur fór Guðmundur sjálfur að starfa á Vellinum og muldi þar grjót.

„Kaninn hafði mikil áhrif á svæðinu, bæði til góðs og ills. Það var auðvitað mikil velmegun því það var vel borgað á Vellinum og nóg af vinnu. Fimmtán eða sextán ára vann maður frá klukkan sjö á morgnana til að verða tíu um kvöldið.“

Guðmundur grúskaði og las mikið sem barn. Einnig hafði hann mikinn áhuga á fótbolta og sparkaði í tuðru fram á kvöld með systkinum sínum og frændsystkinum. Löngum stundum dvaldi hann hjá ömmu sinni sem var róttæk vinstrimanneskja og ekki hrifin af hermanginu.

„Það fjaraði nú af henni því að það unnu nánast allir hennar afkomendur þar. Eins með mig sjálfan, ég ætlaði aldrei að vinna uppi á Velli en svo fór ég og líkaði vel.“

Hvað vildir þú verða?

„Ég ætlaði að verða kokkur. Án þess að vita nokkuð út á hvað það gengi. Síðan ætlaði ég að verða leikari. Ég reyndi þrisvar sinnum að komast í leiklistarskólann, komst alltaf í lokahópinn í inntökuprófinu en datt þar út. Það var mikið skipbrot og svekkelsi. Ég taldi mig mesta leikaraefni landsins. En samkeppnin var hörð. Þarna voru meðal annarra Davíð Þór Jónsson, Steinn Ármann, Ingver E. Sigurðsson, Hilmar Jónsson, Baltasar og fleiri stórkanónur.“

 

Femínisti frá æsku

Framan af stóð Guðmundur sig vel í námi en þegar hann gekk í Fjölbrautaskóla Suðurnesja tók agaleysið völdin. Hann féll margoft og þurfti undanþágur til að vera ekki vísað úr námi. Meiri áhuga hafði hann á skemmtanalífinu og var fastagestur í Klúbbnum, Sigtúni og Evrópu.

„Maður eyddi öllum peningnum,“ segir hann. „Ég lifði hátt, keypti mér strax bíl, var endalaust í bíó og hverja einustu helgi að skemmta mér. Ég fékk nógan pening af Vellinum en hafði enga rænu til að leggja fyrir.“

Guðmundur náði að útskrifast 24 ára gamall og gekk þá í Háskóla Íslands til að læra bókmenntafræði. Það nám lá einstaklega vel fyrir honum og í kjölfarið flutti hann út til Bretlands til að nema leiklistarfræði. Á þessum árum vildi hann verða leikstjóri og rannsakaði femínisma í verkum Williams Shakespeare.

Varstu snemma femínisti?

„Já, ég drakk það í mig með móðurmjólkinni og amma prentaði það í hausinn á mér að allir væru jafnir. Ég er þannig femínisti. Það þarf enga vitringa til að sjá að í gegnum aldirnar hafa konur ekki staðið jafnfætis karlmönnum. Mér getur hins vegar blöskrað þessi akademíski femínismi þar sem konur úr háskólum segja verkakonum og konum yfirhöfuð hvernig þær eigi að haga sér og móðgast fyrir þeirra hönd. Það verður hver að finna það hjá sjálfum sér hvaða skilningur felst í þessu hugtaki, femínisma. Fyrir mér snýst þetta um jafnrétti, hin sjálfsagða krafa að allir séu jafnir. Þar undir eru aðrir hópar líka, fatlaðir, samkynhneigðir og fleiri.“

 

Baráttan við Bakkus
Guðmundur var túramaður og stóð höllum fæti í átta ár.

Átta ár í drykkju

Eftir námið leikstýrði Guðmundur tveimur sýningum hjá framhaldsskólum en áttaði sig fljótlega á að þetta hentaði honum ekki sem framtíðar starfsvettvangur. Þá fór hann að vinna hjá fyrrverandi tengdaföður sínum í Gúmmíbátaþjónustu Reykjavíkur. Einnig með verkefni hjá Ríkisútvarpinu og fór loks að kenna hjá Listaháskólanum.

„Á þessum tíma var líka farið að halla undan fæti hjá mér í brennivínsdrykkju. Ég skildi um aldamótin og við tóku skelfilegustu ár lífs míns. Það var gegndarlaust fyllerí á mér í átta ár. Ég var hársbreidd frá því að vera róni. Ég á að baki svo margar brennivínsmeðferðir að ég er hættur að telja þær. Líf mitt var orðið tilgangslaust og ég var eins og Prins Póló-bréf sem fauk eftir götunum.“

Guðmundur endaði aldrei á götunni og hélst í vinnu. Hann fór hins vegar með mest öll launin beint á barinn. Á milli meðferða hélst hann þurr í einhvern tíma en aldrei langan. Að lokum drakk hann sig úr vinnunni í Listaháskólanum.

Varstu einangraður?

„Nei, ég átti góða vini á barnum. Ég fór þangað á hverju kvöldi og svo drakk ég líka heima. Ég var túramaður, drakk þá sleitulaust í tvær eða þrjár vikur.“

Hvenær náðir þú botninum?

„Ég hef nefnilega aldrei náð neinum botni. Þú ert ekki að ræða við fyllibyttuna sem segir að hún hafi hætt að drekka og lífið skyndilega gjörbreyst. Ég hef aldrei náð að frelsa mig frá þessu fyrir fullt og allt en ég lifi allt öðru lífi en áður fyrr. Það sem breyttist var að ég kynntist góðri og reglusamri konu á kaffihúsi á Selfossi árið 2008. Þá náði ég mér upp úr því fari sem ég var kominn í. Ég hef alltaf dottið í það öðru hverju en ekki með þeim hætti sem ég gerði. Túrarnir og stanslausa fylleríið hætti.“

 

Kallar kerfið til ábyrgðar

Þetta var einmitt tíminn þegar Guðmundur hóf að gefa út sínar fyrstu bækur. Hann hafði skrifað lengi og í miðju fylleríinu taldi hann sig vera mesta skáld allra tíma. Þá kom hins vegar ekkert út úr því. Guðmundur hóf ritferilinn með krafti og gaf út barnabækur og leikrit. Hann vann strax Íslensku barnabókaverðlaunin fyrir söguna Þvílík vika og lenti í öðru sæti í leikritasamkeppni Borgarleikhússins. Árið 2010 hlaut hann Grímuverðlaun fyrir leikritið Horn á höfði. Síðan hefur hann verið einn afkastamesti rithöfundur landsins.

„Ég hef sótt mikið í þetta lífshlaup mitt í skrifunum. Ef vel er að gáð er hægt að finna fyllibyttu í hverri bók, nema í Kattasamsærinu, sem er barnabók. Í öllum harminum hef ég kynnst besta fólkinu. Þetta hafa verið glæpamenn, alkóhólistar, fíklar og geðbilaðir menn. Það er gegnumsneitt besta fólkið sem ég hef kynnst í lífinu með örfáum undantekningum. Þetta fólk býr yfir miklu. Það hefur þennan venjulega lífshæfileika, en bilunin, afbrotin og fíknin eru aukageta sem leiðir fólk í ógöngur. Þetta fólk hefur frá svo miklu að segja.“

Guðmundur býr á Eyrarbakka í nábýli við fangana á Litla-Hrauni. Í störfum sínum sem djákni hefur hann einnig kynnst fjölda fólks sem er á slæmum stað í lífinu. Það hefur gefið honum aðra sýn á það fólk en margir aðrir hafa.

„Það er svo margt fólk sem samfélagið afskrifar. „Þetta er glæpamaður“, „Er þetta ekki dópisti?“ Fólk heldur því fram að þessu fólki sé ekki viðbjargandi og það sé algjörlega þeim í sjálfsvald sett hvernig komið er fyrir því. En þetta er mun flóknara mál og utanaðkomandi þættir ráða svo miklu. Við sjáum til dæmis öll þessi upptökuheimili og hæli þar sem meðferðin hefur verið hræðileg og nú þarf að borga sanngirnisbætur. Þetta gerðist ekki árið 1604 heldur eru örfá ár síðan og er svona enn sums staðar. Ég hef komið inn á stofnanir sem eru ekki mannlegar.“

Máli sínu til stuðnings nefnir Guðmundur félaga sinn sem hann kynntist í áfengismeðferð. Mann sem átti við geðræn vandamál að stríða og lést fyrir örfáum árum.

„Hann var búinn að vera á Kleppi í mörg ár en fór út og datt í það. Þegar hann ætlaði inn eitt kvöldið þá var honum úthýst. Lögreglan tók við honum og hýsti hann. Síðan var hann á götunni í einhvern tíma og ekkert hægt að gera fyrir hann, líkt og hann væri staddur í úthverfum Naíróbí. Loks var hann settur í gám úti á Granda, eins langt frá hinu borgaralega samfélagi og hægt var. Þar dó hann. Ég lýsi ábyrgð á hendur kerfinu í svona málum. Allir vissu að hann væri sjúklingur.“

 

Nýjasta bók Guðmundar
Glæpasaga með sögulega umgjörð.

Uppdiktað mál í sögulegri sviðsmynd

Á undanförnum árum hefur Guðmundur verið að færa sig yfir í myrkari hliðar mannlegrar hegðunar í skrifum sínum. Bókin Líkvaka frá árinu 2015 vakti óhugnað meðal lesenda og nýjasta bók Guðmundar, Eitraða barnið, hefst á hrottalegri nauðgun á unglingsstúlku. Guðmundur segir:

„Gagnrýnendur hafa sagt að bókin sé ljót, það sé svo ljót nauðgun í henni. Ég hef aldrei heyrt konu lýsa fallegri nauðgun og ekki karlmanni heldur. Þetta er mjög ljót nauðgun, hún er viðbjóðsleg. En lífið er eitt myrkur.“

Er engin ljóstíra til staðar?

„Jú, hún er til og þess vegna er ég kirkjunnar maður. Það er samt ekki fallið til vinsælda hjá mörgum í menningarkreðsunni. Að auki er ég á móti inngöngu Íslands í Evrópusambandið. Það er því ekki að undra að elítan veiti mér ekki náð – nema endrum og sinnum.“

Eitraða barnið er fyrsta bókin í þríleik. Guðmundur er vel á veg kominn með aðra bókina og hefur glöggar hugmyndir um hvernig sú þriðja muni spinnast. Eitraða barnið gerist um aldamótin 1900. Hún segir frá Eyjólfi Jónssyni, vel ættuðum en misheppnuðum laganema sem er sóttur frá Kaupmannahöfn og plantað í sýslumannsembætti í Árnessýslu. Þegar snúið nauðgunarmál kemur upp er hann enginn maður til að valda því en þá stígur eiginkona hans, Anna, inn í málið.

„Þetta fólk var aldrei til og málið er uppdiktað líka. En ég hef alla staðarhætti rétta og lagði í mikla rannsóknarvinnu við það. Ég ráðfærði mig við sérfræðing til að hafa lagaumhverfið rétt og doktor í lyfjafræði til að finna þess tíma eitur til að nota í sögunni. Einnig nota ég alvöru fólk sem aukapersónur. Til dæmis Einar Ben sem tekur að sér málið í sögunni en hann var einmitt að geta sér nafn sem lögmaður á þessum tíma. Meðal annarra persóna má nefna norska skáldið Tryggve Andersen, síra Eggert á Vogsósum og Valtý Guðmundsson ritstjóra. Þetta gerði ég ekki til þess að skreyta bókina heldur til að negla hana niður í tíma og hafa umgjörðina rétta.“

 

Mannleg hegðun ekki breyst

Eitraða barnið er stutt, líkt og aðrar bækur Guðmundar. Kaflarnir eru einnig stuttir. Hans stíll er að skrifa knappt og leyfa sögunni að koma fram í samtölum sögupersónanna. Minna er um beinar lýsingar og frásagnir. Orð persónanna setja tóninn, lýsa persónunum sjálfum og sviðsmyndinni.

„Eftir að Líkvaka kom út hitti ég við Þorstein frá Hamri skáld í bókabúð í Reykjavík. Hann sagði þá við mig: „Þú skrifar þennan knappa texta, stuttar bækur.“ Ég jánkaði því og sagði að það hentaði mér best. Þá leit hann yfir borðið með öllum nýútkomnu bókunum og sagði: „Já, það er líka rétt hjá þér. Það er til mikið af bókum sem mætti stytta um tvo þriðju án þess að nokkuð færi forgörðum.“ Þetta er besta krítík sem ég hef fengið“ segir Guðmundur og brosir.

Í Eitraða barninu er fjallað um kynferðisofbeldi, sem er málefni sem ekki var mikið rætt á þessum tíma. Er þessi bók að tala til nútímans eða er hún að lýsa böli formæðra okkar?

„Hvoru tveggja,“ segir Guðmundur með áherslu. „Konur voru ennþá bjargarlausari áður fyrr og atburðir af þessu tagi þaggaðir niður. Hún er líka að sýna fólki að sömu spurningar koma upp nú og fyrir hundrað árum. Sá sem misnotar unga stúlku í bókinni notar sömu kúgunartæki og gert er í dag. Hann segir við hana að henni verði ekki trúað og að mannorð hennar verði lagt í rúst. Annað sem kemur fram í bókinni sem hefur ekki breyst er hversu mikilvæg menntun getur verið. Hvað sá menntaði á auðvelt með að kúga þann ómenntaða. Hinn ómenntaði á erfitt með að lesa úr opinberum skjölum og fóta sig í lagalegum rimmum við þann menntaða. Þetta sjáum við í dag í uppboðsbeiðnum og frásögnum fátæks fólks í fjölmiðlum. Þegar maður spólar hundrað ár aftur í tímann sjáum við hvað svona hlutir eru nauðalíkir samtímanum.“

Er þetta mannleg hegðun?

„Já, þetta eilífa myrkur sem við paufumst í gegnum. Franski heimspekingurinn Albert Camus sagði að það væri aðeins ein megin spurning í lífinu: „Viltu drepa þig eða ekki?“ og ef ekki þá ættum við að reyna að gera hitt þokkalega. Mér finnst ekki skrýtið að margir taki föggur sínar og kveðji þennan heim. Þetta er táradalur.“

Djákni
Trúin hefur fylgt Guðmundi alla ævina.

Djákni í kraftaverkakirkju

Guðmundur starfar með séra Baldri Kristjánssyni sem djákni í Þorlákshafnarprestakalli. Hafa þeir umsjón með Þorlákskirkju í Þorlákshöfn, Hjallakirkju í Ölfusi og hinni þekktu Strandarkirkju í Selvogi. Í daglegum störfum felst meðal annars umsjón með sunnudagaskólanum, heimsóknir til eldri borgara og geðfatlaðra, útköll í líknarþjónustu, predikanir í messu og afleysingar fyrir sóknarprestinn.

Hefur þú alltaf verið trúaður?

„Já, frá blautu barnsbeini. Ég hef aldrei snúið baki við guði. Iðkunin hefur verið mismikil í gegnum tíðina en ég hef alltaf lesið mikið í Biblíunni og trúarheimspeki. Ég pæli líka mikið í mystík og táknmáli en er enginn grillufangari í talnafanatík eða slíku. Það er samt aðallega fyrir forvitni sakir. Ég trúi fyrst og fremst á Jesú Krist, krossfestan, grafinn og upprisinn.“

Trúir þú á illsku og jafnvel djöfulinn sjálfan?

„Já, en ekki á djöfulinn í þeirri mynd að hann sé með horn og hala. En ég trúi að djöfullinn birtist manninum í hinum ólíkustu myndum. Í voðaverkum frömdum af ásetningi og ráðabruggi. Í einræðisherrum og manndýrum sem hafa ríkt víða um jörðina. Lengi vel trúði ég ekki á illsku. En eftir að hafa hlýtt á fyrirlestur hjá fangapresti sannfærðist ég um að það væru til vondir menn. Ég sá þetta líka sjálfur þegar ég hrærðist í myrkraheiminum og kynntist fíklum, handrukkurum og sakamönnum. Sumir voru afvegaleiddir en aðrir eiginlega vondir og nutu engrar virðingar hjá hinum, voru óforbetranlegir. Ég tel að það sé sjálfsblekking hins borgaralega samfélags að allir geti tekið sig á. Þetta er ekki stór hópur, en þó nokkrir.“

Íslendingar hafa heitið á Strandarkirkju síðan á þrettándu öld. Sagt er að kirkjan hafi verið byggð eftir að skipstjóri hét á Maríu mey þegar skip hans lenti í aftakaveðri. Himneskt ljós í engilsmynd lýsti þeim þá leiðina að ströndinni þar sem kirkjan reis. Guðmundur segir að fólk heiti enn þá á Strandarkirkju, sérstaklega eldra fólk.

„Ég trúi einlæglega á helgi þessa staðar og finn fyrir henni. Einnig fæ ég að heyra sögur frá fólki sem hefur heitið á kirkjuna með góðum árangri. Í haust sagði kona, rúmlega níræð, mér frá því að hún hefði verið nær dauða en lífi vegna veikinda fyrir um hálfri öld. En náði bata eftir að sonur hennar fór að heita á Strandarkirkju af mikilli ákefð. Henni batnaði og hefur aldrei kennt sér meins síðan.“

 

Segi kelling ef mér sýnist

Auk þess að skrifa bækur og leikrit skrifar Guðmundur beitta pistla í Fréttablaðið. Hafa þeir gjarnan vakið miklar umræður og stundum úlfúð hjá fólki, sérstaklega fólki sem tjáir sig á samfélagsmiðlum. Nýjustu dæmin eru ummæli hans um svínfeitar kerlingar í Reykjavíkurmaraþoni og Vinstri græn sem ljót og getulaus hjón.

Finnur þú sjálfur fyrir hörðum viðbrögðum?

„Ég hef gaman af þessu,“ segir Guðmundur og brosir breitt. „Ég fæ tölvupóst og er atyrtur í kommentakerfum. Skemmtilegast finnst mér að renna yfir kommentakerfin og sjá hvernig umræðan spinnst út í algerlega ótengda hluti. Ég er ekki í neinum pólitískum flokki, fyrir utan að ég er æviráðinn leiðtogi Öfgasinnaðra jafnaðarmanna. Þess vegna er gaman að sletta einhverju fram sem ergir vinstra fólkið og sjá íhaldspúkana á hægri vængnum fitna á fjósbitanum. Svo skelli ég einhverju á Sjálfstæðisflokkinn og þá hlakkar í öllum sem töldu mig forpokað íhald vikunni áður. Maður sér bylgjurnar rísa til skiptis og tvískinnunginn í þessu öllu saman.“

Er tíðarandinn að kæfa húmor og beitta notkun tungumálsins?

„Alveg skelfilega. Þetta er orðin bilun. Þegar einhver ósýnileg öfl eru farin að þrúga tungumálið. Ég má ekki segja kelling því þá verður allt vitlaust. Ég er alinn upp við að nota orðið kelling. Kellingin hún amma, stærsta kvenmynd í mínum huga sem ég elskaði svo heitt. Svo er eitthvert lið búið að ákveða að orðið kelling eigi ekki lengur við. Sama með orðið fáviti, dásamlegt orð sem ekki má nota lengur. Það lýsir mjög vel manni eða konu sem veit fátt. Hver gaf fólki úti í bæ heimild til að taka orð úr umferð?“

Guðmundur segir hins vegar að sum orð, til dæmis kynvillingur, megi missa sín. Orðum sem beint var gegn hópum um langa hríð.

„Kelling er ekki niðrandi orð, rétt eins og svo mörg sem hafa verið bönnuð. Í fötlunarfræðum er fagfólk orðið óöruggt þegar það tekur til máls því að það er ekki alveg með á hreinu hvaða orð sé búið að taka úr umferð. Nú má til dæmis ekki segja að einhver sé fatlaður, heldur aðeins að viðkomandi sé með fötlun. Eins með þennan pistil minn um svínfeitu kellingarnar, rennandi um í eigin lýsi. Hvernig á að djóka? Verður gefinn út bæklingur um það? Að minnsta kosti mun ég ekki taka við honum. Ég hef ekki marga mannkosti, að minnsta kosti sem ég hef geta staðið á í prinsippinu. En ég segi það sem mér sýnist og mér er nákvæmlega sama um hvað öðrum finnst.“

Verður þessari þróun snúið við?

„Ég ætla rétt að vona það. Málfrelsi á undir högg að sækja. Við sáum til dæmis Pétur Gunnlaugsson, útvarpsmann á Sögu, dreginn fyrir dómstóla fyrir eitthvað sem aðrir sögðu í símatíma hjá honum. Hver á að bera ábyrgð á hverjum? Þetta samfélag er að þróast út í það að enginn beri ábyrgð á sjálfum sér heldur beri allir saman ábyrgð á öllum. En allir, með stóru A-i, geta aldrei komið sér saman um neitt.“

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Fer í gegnum síma eiginmannsins á hverju kvöldi og skammast sín ekkert fyrir það

Fer í gegnum síma eiginmannsins á hverju kvöldi og skammast sín ekkert fyrir það
Fókus
Fyrir 2 dögum

Boða grundvallarbreytingar á Söngvakeppninni – Ekkert einvígi og alþjóðleg dómnefnd

Boða grundvallarbreytingar á Söngvakeppninni – Ekkert einvígi og alþjóðleg dómnefnd
Fókus
Fyrir 3 dögum

Segir að „flensubomban“ geti gert kraftaverk í veikindum – Svona er uppskriftin

Segir að „flensubomban“ geti gert kraftaverk í veikindum – Svona er uppskriftin
Fókus
Fyrir 3 dögum

„Það er gaman að sjá þessa konu við hliðina á honum, sem er styrkurinn hans og ýtir honum út fyrir þægindarammann“

„Það er gaman að sjá þessa konu við hliðina á honum, sem er styrkurinn hans og ýtir honum út fyrir þægindarammann“
Fókus
Fyrir 5 dögum

Vinsælustu heyrnartólin á skrifstofuna 2024

Vinsælustu heyrnartólin á skrifstofuna 2024
Fókus
Fyrir 5 dögum

Málin sem vöktu mesta athygli á árinu á Fókus – Afmælisferð sem breyttist í martröð, strákarifrildi og hættur Tenerife

Málin sem vöktu mesta athygli á árinu á Fókus – Afmælisferð sem breyttist í martröð, strákarifrildi og hættur Tenerife