fbpx
Fimmtudagur 21.nóvember 2024
Fókus

Stærsta stundin að leiða KR út á Anfield: „Ég mun aldrei gleyma þessari stund“

Kristinn H. Guðnason
Miðvikudaginn 26. desember 2018 20:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ellert B. Schram kom nýverið inn á þing sem varamaður, 79 ára að aldri. Hann hefur verið inni og úti af þingi nú í tæpa hálfa öld sem er met. Fyrst fyrir Sjálfstæðisflokkinn og síðan Samfylkinguna en um tíma var hann í raun óháður. Ellert er elsti Íslendingurinn sem hefur setið á þingi. Ellert ritstýrði DV ásamt Jónasi Kristjánssyni á stórveldistíma blaðsins og saman leiddu þeir baráttuna fyrir frjálsum og óháðum fjölmiðlum. Ellert komst fyrst í sviðsljósið sem fyrirliði og máttarstólpi gullaldarliðs KR og íslenska landsliðsins. Síðar leiddi hann bæði Knattspyrnusambandið og Íþróttasambandið.

Ellert er lögfræðingur frá HÍ og starfaði á árunum 1966–1971 sem skrifstofustjóri Borgarverkfræðings í Rvík. Ellert er ekki hættur að láta gott af sér leiða því í dag er hann formaður Félags eldri borgara. DV ræddi við Ellert um það sem hæst ber á þessum langa og fjölbreytta ferli.

Þetta er brot úr stóru viðtali í helgarblaði DV.

Stærsta stundin að ganga út á Anfield

Ekki er hægt að sleppa Ellerti án þess að ræða um fótboltann. Hann lék allan ferilinn með sínu heittelskaða KR, var fyrirliði, raðaði inn mörkunum og vann fjölda titla. Markametið átti hann í um hálfa öld og skorað samanlagt 119 mörk.

Var þetta rokkstjörnulíf?

„Það var náttúrlega ekki mikið sýnt í sjónvarpi. Þannig að við vorum ekki frægar stjörnur, nema bara hjá sumum. En við vorum með mjög gott lið og unnum alla leiki. Í þessu liði voru ekki aðeins frábærir knattspyrnumenn heldur sterkir karakterar. Margir af þessum mönnum eru látnir, en við, sem eftir erum, erum góðir vinir og hittumst við og við.“

Á þessum tíma spilaði KR fyrst íslenskra liða í Evrópukeppni. Ellert segir að strákarnir í liðinu hafi þvingað þá ákvörðun í gegn hjá Knattspyrnusambandinu, árið 1964. Þar mættu þeir enska liðinu Liverpool, heima og úti.

„Við töpuðum báðum leikjunum en þetta voru stórir viðburðir. Hérna í Laugardalnum var uppselt. Síðan héldum við út til Liverpool. Það er mitt besta afrek á ferlinum að vera fyrirliði KR og ganga fyrstur út á Anfield Road fyrir framan 45 þúsund manns. Ég mun aldrei gleyma þessari stund. Við töldum okkur vera komna meðal þeirra allra bestu. Sem við sannarlega vorum.“

Voru einhverjir peningar í fótboltanum á þessum tíma?

„Nei, það var aldrei til króna fyrir eitt né neitt. Við fórum með búningana okkar heim til að þvo þá,“ segir Ellert og brosir.

Lengi framan af spilaði Ellert vinstra megin og svo á miðjunni. Síðustu árin færðist hann aftur í miðvörðinn og að eigin sögn var hann bestur þar. Þegar Ellert hætti að spila 1971, nýkjörinn á þing, fór KR liðinu að ganga heldur brösuglega. Þá sneri hann aftur til þess að bjarga liðinu frá falli og var kosinn knattspyrnumaður ársins.

Spilaðir þú hinn alræmda 14-2 leik við Dani?

„Nei, ég var svo heppinn að vera heima þegar þessi leikur fór fram. Þá var ég nýorðinn skrifstofustjóri hjá Reykjavíkurborg og gaf ekki kost á mér í þennan leik. Þeir vildu heldur ekki hafa mig, því þeir voru að skipta mönnum út og prófa nýja hluti.“

Þremur árum síðar, árið 1970, komu Danirnir hingað til Íslands og léku landsleik í Laugardalnum. Þá var Ellert fyrirliði og aftasti maður í vörn og leiknum lauk með 0-0 jafntefli.

„Við hefðum átt að vinna hann en náðum samt hefndum,“ segir Ellert ákveðinn.

Þú hefur verið lengi starfandi innan knattspyrnuhreyfingarinnar. Áttir þú von á að Ísland gæti náð jafn langt, bæði í karla- og kvennaflokki, eins og raun ber vitni?

„Nei. Mér hefði aldrei dottið það í hug að við kæmumst alla leið í úrslitakeppni. Hér áður fyrr vorum við vissulega góðir, en við vorum áhugamenn og gerðum okkur grein fyrir því að við myndum aldrei komast í efstu röð. Þessi árangur núna hlýtur að vera einhvers konar heimsmet, bæði hjá stúlkunum og piltunum. Ég er auðvitað mjög hreykinn af þeim. Það er ekki víst að þetta gerist nokkurn tímann aftur. En í dag getum við borið höfuðið hátt og sagst vera með þeim bestu. Sem við erum.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Matarbloggari kom upp um framhjáhald og hafði ekki hugmynd um það

Matarbloggari kom upp um framhjáhald og hafði ekki hugmynd um það
Fókus
Fyrir 2 dögum

Segir Íslendinga dæma ferðamenn fyrir þessi mistök – „Ekki gera þetta!“

Segir Íslendinga dæma ferðamenn fyrir þessi mistök – „Ekki gera þetta!“