fbpx
Miðvikudagur 22.janúar 2025
Fókus

Guðmundur var átta ár í drykkju: „Ég hef aldrei náð að frelsa mig frá þessu fyrir fullt og allt en ég lifi allt öðru lífi en áður fyrr“

Kristinn H. Guðnason
Sunnudaginn 23. desember 2018 20:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Guðmundur Brynjólfsson gaf nýlega út bókina Eitraða barnið. Hún er glæpasaga, skrifuð inn í sögulega sviðsmynd Árnessýslu í kringum aldamótin 1900. Guðmundur er djákni og innilega trúaður og jafnframt heltekinn af myrkum hliðum mannlífsins og óhræddur við að stuða fólk, hvort sem er í bókum sínum eða hárbeittum pistlum. DV ræddi við Guðmund um æskuna á Vellinum, rótleysið og árin í drykkju, hið myrka í mannskepnunni og ljósið í trúnni.

Þetta er brot úr stóru viðtali í helgarblaði DV.

Átta ár í drykkju

Eftir námið leikstýrði Guðmundur tveimur sýningum hjá framhaldsskólum en áttaði sig fljótlega á að þetta hentaði honum ekki sem framtíðar starfsvettvangur. Þá fór hann að vinna hjá fyrrverandi tengdaföður sínum í Gúmmíbátaþjónustu Reykjavíkur. Einnig með verkefni hjá Ríkisútvarpinu og fór loks að kenna hjá Listaháskólanum.

„Á þessum tíma var líka farið að halla undan fæti hjá mér í brennivínsdrykkju. Ég skildi um aldamótin og við tóku skelfilegustu ár lífs míns. Það var gegndarlaust fyllerí á mér í átta ár. Ég var hársbreidd frá því að vera róni. Ég á að baki svo margar brennivínsmeðferðir að ég er hættur að telja þær. Líf mitt var orðið tilgangslaust og ég var eins og Prins Póló-bréf sem fauk eftir götunum.“

Guðmundur endaði aldrei á götunni og hélst í vinnu. Hann fór hins vegar með mest öll launin beint á barinn. Á milli meðferða hélst hann þurr í einhvern tíma en aldrei langan. Að lokum drakk hann sig úr vinnunni í Listaháskólanum.

Varstu einangraður?

„Nei, ég átti góða vini á barnum. Ég fór þangað á hverju kvöldi og svo drakk ég líka heima. Ég var túramaður, drakk þá sleitulaust í tvær eða þrjár vikur.“

Hvenær náðir þú botninum?

„Ég hef nefnilega aldrei náð neinum botni. Þú ert ekki að ræða við fyllibyttuna sem segir að hún hafi hætt að drekka og lífið skyndilega gjörbreyst. Ég hef aldrei náð að frelsa mig frá þessu fyrir fullt og allt en ég lifi allt öðru lífi en áður fyrr. Það sem breyttist var að ég kynntist góðri og reglusamri konu á kaffihúsi á Selfossi árið 2008. Þá náði ég mér upp úr því fari sem ég var kominn í. Ég hef alltaf dottið í það öðru hverju en ekki með þeim hætti sem ég gerði. Túrarnir og stanslausa fylleríið hætti.“

 

Kallar kerfið til ábyrgðar

Þetta var einmitt tíminn þegar Guðmundur hóf að gefa út sínar fyrstu bækur. Hann hafði skrifað lengi og í miðju fylleríinu taldi hann sig vera mesta skáld allra tíma. Þá kom hins vegar ekkert út úr því. Guðmundur hóf ritferilinn með krafti og gaf út barnabækur og leikrit. Hann vann strax Íslensku barnabókaverðlaunin fyrir söguna Þvílík vika og lenti í öðru sæti í leikritasamkeppni Borgarleikhússins. Árið 2010 hlaut hann Grímuverðlaun fyrir leikritið Horn á höfði. Síðan hefur hann verið einn afkastamesti rithöfundur landsins.

„Ég hef sótt mikið í þetta lífshlaup mitt í skrifunum. Ef vel er að gáð er hægt að finna fyllibyttu í hverri bók, nema í Kattasamsærinu, sem er barnabók. Í öllum harminum hef ég kynnst besta fólkinu. Þetta hafa verið glæpamenn, alkóhólistar, fíklar og geðbilaðir menn. Það er gegnumsneitt besta fólkið sem ég hef kynnst í lífinu með örfáum undantekningum. Þetta fólk býr yfir miklu. Það hefur þennan venjulega lífshæfileika, en bilunin, afbrotin og fíknin eru aukageta sem leiðir fólk í ógöngur. Þetta fólk hefur frá svo miklu að segja.“

Guðmundur býr á Eyrarbakka í nábýli við fangana á Litla-Hrauni. Í störfum sínum sem djákni hefur hann einnig kynnst fjölda fólks sem er á slæmum stað í lífinu. Það hefur gefið honum aðra sýn á það fólk en margir aðrir hafa.

„Það er svo margt fólk sem samfélagið afskrifar. „Þetta er glæpamaður“, „Er þetta ekki dópisti?“ Fólk heldur því fram að þessu fólki sé ekki viðbjargandi og það sé algjörlega þeim í sjálfsvald sett hvernig komið er fyrir því. En þetta er mun flóknara mál og utanaðkomandi þættir ráða svo miklu. Við sjáum til dæmis öll þessi upptökuheimili og hæli þar sem meðferðin hefur verið hræðileg og nú þarf að borga sanngirnisbætur. Þetta gerðist ekki árið 1604 heldur eru örfá ár síðan og er svona enn sums staðar. Ég hef komið inn á stofnanir sem eru ekki mannlegar.“

Máli sínu til stuðnings nefnir Guðmundur félaga sinn sem hann kynntist í áfengismeðferð. Mann sem átti við geðræn vandamál að stríða og lést fyrir örfáum árum.

„Hann var búinn að vera á Kleppi í mörg ár en fór út og datt í það. Þegar hann ætlaði inn eitt kvöldið þá var honum úthýst. Lögreglan tók við honum og hýsti hann. Síðan var hann á götunni í einhvern tíma og ekkert hægt að gera fyrir hann, líkt og hann væri staddur í úthverfum Naíróbí. Loks var hann settur í gám úti á Granda, eins langt frá hinu borgaralega samfélagi og hægt var. Þar dó hann. Ég lýsi ábyrgð á hendur kerfinu í svona málum. Allir vissu að hann væri sjúklingur.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Er steinhissa á því sem hann sér aftur og aftur á Íslandi

Er steinhissa á því sem hann sér aftur og aftur á Íslandi
Fókus
Fyrir 2 dögum

Einkaspæjari afhjúpar nýja leið hvernig makar fela framhjáhald – Forrit sem er í öllum iPhone símum og vekur engar grunsemdir

Einkaspæjari afhjúpar nýja leið hvernig makar fela framhjáhald – Forrit sem er í öllum iPhone símum og vekur engar grunsemdir
Fókus
Fyrir 2 dögum

Tímamót hjá Helga Ómars – „Af einhverjum óútskýranlegum ástæðum er það rétt“

Tímamót hjá Helga Ómars – „Af einhverjum óútskýranlegum ástæðum er það rétt“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Hera Björk varð fyrir hatrammri aðför: „Þetta var í hundraðatali og endaði í þúsundatali og var augljóslega skipulagt“

Hera Björk varð fyrir hatrammri aðför: „Þetta var í hundraðatali og endaði í þúsundatali og var augljóslega skipulagt“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Fyrrum landbúnaðarráðherra og sagnamaður selur miðbæjarperlu á Selfossi

Fyrrum landbúnaðarráðherra og sagnamaður selur miðbæjarperlu á Selfossi
Fókus
Fyrir 4 dögum

Sérstæð vinátta ræstingakonu og kolkrabba hefur heillað heimsbyggðina

Sérstæð vinátta ræstingakonu og kolkrabba hefur heillað heimsbyggðina