fbpx
Miðvikudagur 08.janúar 2025
Fókus

Guðmundur segir tíðarandann kæfa húmor og tungumálið: „Hver gaf fólki úti í bæ heimild til að taka orð úr umferð?“

Kristinn H. Guðnason
Föstudaginn 21. desember 2018 20:00

Hispurslaus Guðmundur segir sína meiningu og spyr ekki hvað öðrum finnst.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Guðmundur Brynjólfsson gaf nýlega út bókina Eitraða barnið. Hún er glæpasaga, skrifuð inn í sögulega sviðsmynd Árnessýslu í kringum aldamótin 1900. Guðmundur er djákni og innilega trúaður og jafnframt heltekinn af myrkum hliðum mannlífsins og óhræddur við að stuða fólk, hvort sem er í bókum sínum eða hárbeittum pistlum. DV ræddi við Guðmund um æskuna á Vellinum, rótleysið og árin í drykkju, hið myrka í mannskepnunni og ljósið í trúnni.

Þetta er brot úr stóru viðtali í helgarblaði DV.

Segi kelling ef mér sýnist

Auk þess að skrifa bækur og leikrit skrifar Guðmundur beitta pistla í Fréttablaðið. Hafa þeir gjarnan vakið miklar umræður og stundum úlfúð hjá fólki, sérstaklega fólki sem tjáir sig á samfélagsmiðlum. Nýjustu dæmin eru ummæli hans um svínfeitar kerlingar í Reykjavíkurmaraþoni og Vinstri græn sem ljót og getulaus hjón.

Finnur þú sjálfur fyrir hörðum viðbrögðum?

„Ég hef gaman af þessu,“ segir Guðmundur og brosir breitt. „Ég fæ tölvupóst og er atyrtur í kommentakerfum. Skemmtilegast finnst mér að renna yfir kommentakerfin og sjá hvernig umræðan spinnst út í algerlega ótengda hluti. Ég er ekki í neinum pólitískum flokki, fyrir utan að ég er æviráðinn leiðtogi Öfgasinnaðra jafnaðarmanna. Þess vegna er gaman að sletta einhverju fram sem ergir vinstra fólkið og sjá íhaldspúkana á hægri vængnum fitna á fjósbitanum. Svo skelli ég einhverju á Sjálfstæðisflokkinn og þá hlakkar í öllum sem töldu mig forpokað íhald vikunni áður. Maður sér bylgjurnar rísa til skiptis og tvískinnunginn í þessu öllu saman.“

Er tíðarandinn að kæfa húmor og beitta notkun tungumálsins?

„Alveg skelfilega. Þetta er orðin bilun. Þegar einhver ósýnileg öfl eru farin að þrúga tungumálið. Ég má ekki segja kelling því þá verður allt vitlaust. Ég er alinn upp við að nota orðið kelling. Kellingin hún amma, stærsta kvenmynd í mínum huga sem ég elskaði svo heitt. Svo er eitthvert lið búið að ákveða að orðið kelling eigi ekki lengur við. Sama með orðið fáviti, dásamlegt orð sem ekki má nota lengur. Það lýsir mjög vel manni eða konu sem veit fátt. Hver gaf fólki úti í bæ heimild til að taka orð úr umferð?“

Guðmundur segir hins vegar að sum orð, til dæmis kynvillingur, megi missa sín. Orðum sem beint var gegn hópum um langa hríð.

„Kelling er ekki niðrandi orð, rétt eins og svo mörg sem hafa verið bönnuð. Í fötlunarfræðum er fagfólk orðið óöruggt þegar það tekur til máls því að það er ekki alveg með á hreinu hvaða orð sé búið að taka úr umferð. Nú má til dæmis ekki segja að einhver sé fatlaður, heldur aðeins að viðkomandi sé með fötlun. Eins með þennan pistil minn um svínfeitu kellingarnar, rennandi um í eigin lýsi. Hvernig á að djóka? Verður gefinn út bæklingur um það? Að minnsta kosti mun ég ekki taka við honum. Ég hef ekki marga mannkosti, að minnsta kosti sem ég hef geta staðið á í prinsippinu. En ég segi það sem mér sýnist og mér er nákvæmlega sama um hvað öðrum finnst.“

Verður þessari þróun snúið við?

„Ég ætla rétt að vona það. Málfrelsi á undir högg að sækja. Við sáum til dæmis Pétur Gunnlaugsson, útvarpsmann á Sögu, dreginn fyrir dómstóla fyrir eitthvað sem aðrir sögðu í símatíma hjá honum. Hver á að bera ábyrgð á hverjum? Þetta samfélag er að þróast út í það að enginn beri ábyrgð á sjálfum sér heldur beri allir saman ábyrgð á öllum. En allir, með stóru A-i, geta aldrei komið sér saman um neitt.“

 

Nýjasta bók Guðmundar
Glæpasaga með sögulega umgjörð.

Uppdiktað mál í sögulegri sviðsmynd

Á undanförnum árum hefur Guðmundur verið að færa sig yfir í myrkari hliðar mannlegrar hegðunar í skrifum sínum. Bókin Líkvaka frá árinu 2015 vakti óhugnað meðal lesenda og nýjasta bók Guðmundar, Eitraða barnið, hefst á hrottalegri nauðgun á unglingsstúlku. Guðmundur segir:

„Gagnrýnendur hafa sagt að bókin sé ljót, það sé svo ljót nauðgun í henni. Ég hef aldrei heyrt konu lýsa fallegri nauðgun og ekki karlmanni heldur. Þetta er mjög ljót nauðgun, hún er viðbjóðsleg. En lífið er eitt myrkur.“

Er engin ljóstíra til staðar?

„Jú, hún er til og þess vegna er ég kirkjunnar maður. Það er samt ekki fallið til vinsælda hjá mörgum í menningarkreðsunni. Að auki er ég á móti inngöngu Íslands í Evrópusambandið. Það er því ekki að undra að elítan veiti mér ekki náð – nema endrum og sinnum.“

Eitraða barnið er fyrsta bókin í þríleik. Guðmundur er vel á veg kominn með aðra bókina og hefur glöggar hugmyndir um hvernig sú þriðja muni spinnast. Eitraða barnið gerist um aldamótin 1900. Hún segir frá Eyjólfi Jónssyni, vel ættuðum en misheppnuðum laganema sem er sóttur frá Kaupmannahöfn og plantað í sýslumannsembætti í Árnessýslu. Þegar snúið nauðgunarmál kemur upp er hann enginn maður til að valda því en þá stígur eiginkona hans, Anna, inn í málið.

„Þetta fólk var aldrei til og málið er uppdiktað líka. En ég hef alla staðarhætti rétta og lagði í mikla rannsóknarvinnu við það. Ég ráðfærði mig við sérfræðing til að hafa lagaumhverfið rétt og doktor í lyfjafræði til að finna þess tíma eitur til að nota í sögunni. Einnig nota ég alvöru fólk sem aukapersónur. Til dæmis Einar Ben sem tekur að sér málið í sögunni en hann var einmitt að geta sér nafn sem lögmaður á þessum tíma. Meðal annarra persóna má nefna norska skáldið Tryggve Andersen, síra Eggert á Vogsósum og Valtý Guðmundsson ritstjóra. Þetta gerði ég ekki til þess að skreyta bókina heldur til að negla hana niður í tíma og hafa umgjörðina rétta.“

 

Mannleg hegðun ekki breyst

Eitraða barnið er stutt, líkt og aðrar bækur Guðmundar. Kaflarnir eru einnig stuttir. Hans stíll er að skrifa knappt og leyfa sögunni að koma fram í samtölum sögupersónanna. Minna er um beinar lýsingar og frásagnir. Orð persónanna setja tóninn, lýsa persónunum sjálfum og sviðsmyndinni.

„Eftir að Líkvaka kom út hitti ég við Þorstein frá Hamri skáld í bókabúð í Reykjavík. Hann sagði þá við mig: „Þú skrifar þennan knappa texta, stuttar bækur.“ Ég jánkaði því og sagði að það hentaði mér best. Þá leit hann yfir borðið með öllum nýútkomnu bókunum og sagði: „Já, það er líka rétt hjá þér. Það er til mikið af bókum sem mætti stytta um tvo þriðju án þess að nokkuð færi forgörðum.“ Þetta er besta krítík sem ég hef fengið“ segir Guðmundur og brosir.

Í Eitraða barninu er fjallað um kynferðisofbeldi, sem er málefni sem ekki var mikið rætt á þessum tíma. Er þessi bók að tala til nútímans eða er hún að lýsa böli formæðra okkar?

„Hvoru tveggja,“ segir Guðmundur með áherslu. „Konur voru ennþá bjargarlausari áður fyrr og atburðir af þessu tagi þaggaðir niður. Hún er líka að sýna fólki að sömu spurningar koma upp nú og fyrir hundrað árum. Sá sem misnotar unga stúlku í bókinni notar sömu kúgunartæki og gert er í dag. Hann segir við hana að henni verði ekki trúað og að mannorð hennar verði lagt í rúst. Annað sem kemur fram í bókinni sem hefur ekki breyst er hversu mikilvæg menntun getur verið. Hvað sá menntaði á auðvelt með að kúga þann ómenntaða. Hinn ómenntaði á erfitt með að lesa úr opinberum skjölum og fóta sig í lagalegum rimmum við þann menntaða. Þetta sjáum við í dag í uppboðsbeiðnum og frásögnum fátæks fólks í fjölmiðlum. Þegar maður spólar hundrað ár aftur í tímann sjáum við hvað svona hlutir eru nauðalíkir samtímanum.“

Er þetta mannleg hegðun?

„Já, þetta eilífa myrkur sem við paufumst í gegnum. Franski heimspekingurinn Albert Camus sagði að það væri aðeins ein megin spurning í lífinu: „Viltu drepa þig eða ekki?“ og ef ekki þá ættum við að reyna að gera hitt þokkalega. Mér finnst ekki skrýtið að margir taki föggur sínar og kveðji þennan heim. Þetta er táradalur.“

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Stjörnurnar skinu skært á rauða dregli Golden Globes

Stjörnurnar skinu skært á rauða dregli Golden Globes
Fókus
Fyrir 2 dögum

Andvirði gjafapokans á Golden Globes er 1 milljón dala – Norðurljósaferð, andlitslyfting, ferð til Balí og Frakklands

Andvirði gjafapokans á Golden Globes er 1 milljón dala – Norðurljósaferð, andlitslyfting, ferð til Balí og Frakklands
Fókus
Fyrir 3 dögum

Gunnar Þórðarson er áttræður í dag – „Takk fyrir alla dásamlegu músíkina“

Gunnar Þórðarson er áttræður í dag – „Takk fyrir alla dásamlegu músíkina“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Þetta gerist ef þú sleppir áfengi í janúar

Þetta gerist ef þú sleppir áfengi í janúar