Hver er elsta jólagjöfin sem þú átt?
„Ég held að það séu rúmföt sem ég fékk frá mömmu og pabba þegar ég var unglingur. Ég hafði sagt mömmu að mig langaði svo í dökkblá rúmföt. Þetta var þegar úrvalið var lítið og ég er svo skrýtinn að ég vil eiginlega alltaf vera öðruvísi en aðrir. Mamma skellti sér auðvitað í að sauma, án þess að ég vissi af. Á Þorláksmessu gekk ég óvart inn í þvottahús, þar sem pabbi var að strauja þau. Ég mátti hafa mig allan við að taka ekki eftir neinu, sneri við á sekúndubroti og þóttist ekkert vita. Það heppnaðist ágætlega og tilhlökkunin eftir jólunum varð ekkert minni. Þó að þessi rúmföt séu orðin dálítið lúin mörgum áratugum síðar, fæ ég alltaf yl í hjartað, af því að þau minna mig á samvinnu mömmu og pabba við að gleðja mig.“