fbpx
Fimmtudagur 23.janúar 2025
Fókus

Sif Sigmarsdóttir: „Allt var ömurlegt í gamla daga“

Kristinn H. Guðnason
Mánudaginn 17. desember 2018 21:00

Highbury í Islington Sif við bókasafnið í hverfinu sínu.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Sif Sigmarsdóttir er meðal þekktustu pistlahöfunda landsins. Hún hefur lengi verið búsett í Bretlandi og skrifar bækur fyrir börn og unglinga. Nýverið gaf hún út bókina Sjúklega súr saga til að kenna yngri kynslóðinni sögu Íslands á þeirra forsendum. DV ræddi við Sif um bókina, æskuna, stjórnmál og áfallið sem var Brexit.

 

Sjúklega súr saga
Vopn gegn fortíðarhyggjufólki.

Fortíðin var súr

„Ég vildi kveikja söguáhuga hjá krökkum,“ segir Sif. „Ég held að mjög mörgum krökkum finnist saga leiðinleg. Það er vel skiljanlegt því að við förum oft illa með söguna. Þau sjá þetta sem þurra upptalningu á atburðum og ártölum. Ég vildi sýna þeim að sagan er í raun og veru ótrúlega skemmtileg.“

Dvínun lestrar hjá börnum og ungu fólki er alþekkt vandamál og Sif vill hjálpa til við að sporna við þeirri þróun. Bækur eru í harðri samkeppni um tíma barna og unglinga við sjónvarp, tölvuleiki og samfélagsmiðla.

„Besta leiðin til fá krakka til að lesa er að bjóða þeim upp á bækur sem eru skemmtiefni. Eins og góður sjónvarpsþáttur sem maður gleymir sér yfir. En við höfum hingað til alltaf verið að segja krökkum hvað þau hafa gott af því að lesa. Bækur hafa verið eins og brokkolí. Við troðum þeim ofan í kokið á þeim og það drepur áhugann. Af hverju þurfa bækur að vera gagnlegar? Ég segi að markmiðið eigi að vera að börn geti lesið sér til skemmtunar, þá fylgir gagnið með.“

Sif fékk skopmyndateiknarann Halldór Baldursson, samstarfsmann sinn af Fréttablaðinu, til að myndskreyta bókina. Hún segist aðeins hafa séð bókina fyrir sér með myndunum hans og ef hann hefði ekki verið fáanlegur hefði hún aldrei skrifað hana. Sif segir að bókin sé fyrir átta ára börn og upp úr. Inni á milli leynast brandarar sem aðeins fullorðnir skilja.

Af hverju er sagan sjúklega súr?

„Ég er orðin svo þreytt á fólki sem segir að allt hafi verið betra í gamla daga. Svo fallegt og svo saklaust, allir í sauðskinnsskóm og ekkert sjónvarp á fimmtudögum. En ég held að ekkert okkar myndi vilja hafa verið uppi, til dæmis á Sturlungaöld þegar það ríkti stríðsástand hérna. Ég vildi setja söguna fram og segja frá því hvað sagan er í rauninni súr. Í byrjun bókarinnar er börnum seld bókin sem vopn gegn öllum þeim sem segja að allt hafi verið betra áður fyrr. Þetta er gegnumgangandi þema í bókinni, hvað sagan er súr og hvað allt var ömurlegt í gamla daga,“ segir Sif og hlær.

Sif segist einnig hafa viljað setja Íslandssöguna fram á mannlegan hátt. Að litlu hlutirnir, sem sleppt er í kennslubókunum, skipti máli og sýni hvernig lífið var fyrir almenning.

„Til dæmis fyrsta bíóið sem tók til starfa árið 1906. Fyrsta myndin sem þar var sýnd var úr jarðarför Kristjáns IX. konungs. Mér fannst þetta fyndið og tel að krakkar í dag myndu aldrei sætta sig við það val.“

 

Skrifar fyrir ungmenni

Sif starfaði sem blaðamaður hjá Morgunblaðinu um tíma. Árin 2006 og 2007 vakti hún athygli fyrir bækurnar um dramadrottninguna Emblu Þorvarðardóttur. Árið 2013 gaf hún út fyrstu bókina í þríleiknum Freyju sögu og þá næstu árið eftir. Allt eru þetta bækur sem stílaðar eru inn á unglinga og ungt fólk. Sjálf flutti Sif út til Bretlands til að læra barnabókmenntir.

„Ég fékk mikinn áhuga á svokölluðum YA (young adults) bókmenntum sem voru þá nýjar af nálinni. Bókmenntir fyrir eldri unglinga og ungt fólk upp í 25 ára aldur. Þarna undir eru til dæmis Hungurleikarnir og Gyllti kompásinn eftir Philip Pullman. Þessar bækur eru gjarnan gefnar út með mismunandi kápu til að höfða fólks á mismunandi aldri.“

 

Fólk skiptir ekki um stjórnmálaskoðun

Sif er einna þekktust fyrir pistla um þjóðfélagsmál sem hún hefur skrifað um margra ára skeið. Þeir fyrstu birtust í viðskiptablaði Morgunblaðsins í kringum 2003. Síðar fór hún að einbeita sér meira að stjórnmálum og hefur hún skrifað bæði fyrir Fréttablaðið og RÚV.

„Ég skrifa þetta fyrst og fremst til að skemmta sjálfri mér. Vonandi næ ég að skemmta einhverjum öðrum annað slagið í leiðinni. Ég skrifa ekki til þess að reyna að fá fólk til að skipta um skoðun á neinu. Það er ekki hægt.“

Sif vísar þá í bandaríska taugalækningarannsókn sem hún kynnti sér fyrir nokkru.

„Fólk skiptir ekki um skoðun í lífinu, sérstaklega ekki þegar kemur að stjórnmálum. Þegar fólki voru sýndar sannanir sem sýndu fram á að það sem það hélt fram væri rangt, skipti það samt ekki um skoðun. Þegar fólk var sett í heilaskanna kom í ljós að heilastöðvarnar sem ákvarða sjálfsmynd og meta hættu verða virkar þegar stjórnmálaskoðanir eru dregnar í efa. Vísindamennirnir komust að þeirri niðurstöðu að það er ekki sannleikurinn sem við stöndum vörð um þegar við rökræðum um stjórnmál heldur ættbálkurinn. Að falla í hópinn skiptir meira máli þegar kemur að því að lifa af heldur en að fara rétt með staðreyndir. Það má því segja að stjórnmálaskoðanir séu eins og trúarskoðanir. Þær eru annars vegar hluti af sjálfsmynd okkar og hins vegar skipta máli þegar við ákveðum hvaða samfélagshópi við viljum tilheyra. Ef maður breytir stjórnmálaskoðun er maður að breyta sjálfum sér.“

Sif segist alltaf skrifa um eitthvað sem brennur á henni en aldrei í reiði. Aldrei gæti hún skrifað um eitthvert málefni umbeðin ef hún hefði ekki áhuga og sannfæringu fyrir því.

„Ég er með pistilinn á heilanum alla vikuna og alltaf að fylgjast með til að finna næsta mál til að taka fyrir. Í rauninni eyði ég allt of miklum tíma í þetta og allt of mikilli orku. En mér finnst þetta svo skemmtilegt að ég get ekki hamið mig,“ segir Sif og skellir upp úr.

 

 

Leyft að vera þrjósk og frek

Sif er fædd árið 1978 og alin upp í Reykjavík. Dóttir lögfræðings og húsmóður, elst þriggja systkina.

„Æska mín var viðburðalítil og ég tel að það hafi verið mikið lán. Ég var ósköp venjulegur krakki. Ég tók það snemma í mig að ég ætlaði að verða rithöfundur og blaðamaður. Þegar ég var tíu ára hneppti ég bræður mína í þrældóm og fékk þá til að vinna með mér að tímariti sem hét hinu frumlega nafni Penninn. Við framleiddum þetta heima en ævintýrinu lauk þegar þeir fóru í varanlegt verkfall. Þeim fannst þetta svo leiðinlegt,“ segir Sif kímin.

„Móðir mín sagði að ég hefði verið mjög þrjósk. Þegar ég fékk hugmynd og ákvað eitthvað þá varð það að gerast strax. Það má segja að hún hafi ræktað þessa þrjósku í mér og tekið undir hana, hún leyfði mér að vera þrjósk og frek upp að vissu marki.“

Sif gekk í Hvassaleitisskóla, Menntaskólann í Reykjavík og svo sagnfræðideild Háskóla Íslands. Hún hafði mikinn áhuga á tónlist og söng.

„Ég var trúleysingi í kirkjukór. Framan af söng ég með Graduale kór Langholtskirkju og seinna Langholtskirkjukórnum. Ég valdi það sem lokaritgerð í sagnfræðinni að skrifa um tónskáldið Jón Leifs. Það var af því að ég kynntist verkum hans í kórastarfinu.“

Varstu í einhverjum hljómsveitum?

„Nei. Ég átti mér alltaf draum um að syngja með hljómsveit en ég var aldrei nógu kúl,“ segir Sif og hlær. „Ég var aðeins of mikill nörd.“

Á miðjunni „Miklu auðveldara að selja öfgaskoðanir, bæði til vinstri og hægri.“

Bestu partíin í pólitíkinni

Með pistlum sínum tekur Sif virkan þátt í stjórnmála- og þjóðfélagsumræðunni. Á sínum yngri árum var Sif virk innan Ungra jafnaðarmanna, ungliðasamtaka Samfylkingarinnar. Stýrði hún þar vefritinu Pólitík.is.

„Ég byrjaði að taka þátt í pólitík um það leyti sem ég gekk í háskólann. Þá starfaði ég innan stúdentahreyfingarinnar Röskvu. Þetta var nú samt aðallega gert til að komast í góð partí. Ég hef brennandi áhuga á pólitík en ég er ekki flokksbundin í dag. Ég kýs þann flokk hverju sinni sem mér finnst vera að berjast fyrir sniðugum og góðum málum. Mér finnst rökræður sérstaklega skemmtilegar. Bestu partíin eru þar sem fólk stendur, borðar góðan mat, drekkur gott hvítvín og á í rökræðum um stjórnmál.“

Sif segist vera miðjumanneskja þótt margir myndu sennilega skilgreina hana sem jafnaðarmann.

„Mörgum finnst miðjan vera leiðinleg og ekki nógu tilkomumikil. Á miðjunni sé fólk of skynsamt. Það er miklu auðveldara að selja öfgaskoðanir, bæði til vinstri og hægri, og kveikja í fólki með þeim.“

Hvaða málefni skipta þig mestu máli?

„Það er mjög breytilegt eftir því hvar ég hef verið stödd í lífinu hverju sinni. Núna skoða ég til dæmis skóla- og leikskólamál því að ég á börn sem eru á þessum aldri. Jöfnuður hefur samt alltaf verið númer eitt, tvö og þrjú. Ég veit að íslenskt samfélag kemur vel út þegar súlurit og slíkt er skoðað. En áþreifanlegur ójöfnuður er samt til staðar og það er hægt að gera miklu betur. Margir hafa það alveg ofsalega skítt.“

Hefur þig langað til að feta slóð stjórnmálamannsins?

„Aldrei nokkurn tímann,“ segir Sif ákveðin. „Ég dáist að þeim sem að bjóða sig fram í þetta starf. Ég held að þetta sé mjög erfitt og fólk fær ekkert nema skít og skömm fyrir. Persónulega treysti ég mér ekki í þetta. Ég held ég standi áfram á hliðarlínunni.“

Sif hefur vissar áhyggjur af stöðu hógværra og yfirvegaðra afla í íslensku þjóðfélagi og óttast ris hins popúlíska hægris. Það sé þó langt því frá séríslenskt fyrirbæri og hefur verið að gerast víða í Evrópu og um heiminn allan. Einnig í Bretlandi.

„Þetta er það sem veldur mér mestum áhyggjum þessa dagana. Ég vona að þetta sé bóla sem muni springa. Skoðanakannanir núna gefa mér von um að svo sé en ég fylgist alltaf spennt með öllum kosningum.“

 

Aumingjaskapur að kalla sig ekki femínista

Líkt og aðrir hefur Sif fylgst grannt með máli sexmenninganna á Klaustri bar. Hún segir að meðal Íslendinga í London sé um fátt annað rætt. Málið sé allt hið vandræðalegasta fyrir Íslendinga.

„Hér er gantast með að Sigmundur sé búinn að kenna öllum öðrum en sjálfum sér um þetta. Hann eigi aðeins eftir að benda á vertinn fyrir að bera allt áfengið í þá. Þetta sé augljóslega honum að kenna.“

Hvernig hefðu viðbrögðin verið ef þetta hefði gerst í Bretlandi?

„Þá væru þessir einstaklingar búnir að segja af sér, þeim væri ekki vært. Þetta yrði ekki liðið af flokksfélögum þeirra.“

Eru Íslendingar kannski komnir skemur á veg í jafnréttismálum en við teljum okkur vera?

„Við stöndum okkur vel í alþjóðlegum samanburði en það er alltaf hægt að gera betur. Klaustursmálið sýnir okkur að kvenfyrirlitning fær ennþá að þrífast í skuggunum, í partíum og hversdagslegum ummælum um konur. Það er mjög rótgróið vandamál. Á Klaustri bar sat fólk sem gerðist sekt um að segja asnalega hluti. En mesta hneykslið er að þau hafa verið mjög treg til að biðjast afsökunar og viðurkenna að þessi ummæli hafi verið verulega óviðeigandi. Frekar reynt að gera lítið úr þessu. Það er það sorglegasta í þessu öllu saman.“

Nú hafa sumir þessara einstaklinga fengið viðurkenningar á sviði jafnréttismála. Heldur þú að jafnréttishugsjónin sé meira í orði en á borði hjá mörgum?

„Ég held að það sé nú oft raunin. Það er auðvelt að tala fallega á einhverri ráðstefnu og fá viðurkenningu. Síðan hagar fólk sér kannski allt öðruvísi heima hjá sér. Það er ekki hægt að meta fólk út frá því hvernig það talar út á við.“

Jafnrétti og kvenréttindabarátta skiptir Sif miklu máli. Þetta er einmitt málaflokkur sem hefur verið mikið í deiglunni undanfarna mánuði. Sumir ganga svo langt að segja að eiginlegt kynjastríð geisi í þjóðfélaginu og vígvöllurinn er fjölmiðlar og samfélagsmiðlar.

„Ég er svo sannarlega femínisti og skammast mín ekkert fyrir það,“ segir Sif ákveðin. „Ég skil ekki fólk sem vill ekki nota orðið femínisti – fólk sem styður samt jafnrétti. Það er ekkert annað en aumingjaskapur. Femínistar eru stór hópur fólks með mismunandi skoðanir sem allar geta þrifist innan stefnunnar. Þú getur verið femínisti án þess að deila skoðunum allra hinna. Það sama gildir um til dæmis stjórnmálaflokka. Fólk innan ákveðins stjórnmálaflokks er ekki sammála um allt. Femínismi er regnhlífarhugtak.“

Ertu sammála því að kynjastríð sé í gangi?

„Nei. Stundum finnst mér baráttan vera óþarflega herská. Ég myndi ekki endilega taka slaginn á þann hátt heldur meira í góðu. Ég skil alveg þegar karlmenn fara í vörn og finnst að sér vegið. En ég tel ekki að það sé stríð í gangi á milli kynjanna.“

Lundúnabúi „Í hverfinu mínu þyki ég skrýtin af því að ég býð fólki góðan daginn úti á götu.“

Sextán ár í London

Sif hefur búið í London síðan árið 2002 ásamt eiginmanni sínum, Geir Freyssyni. Þau kynntust í háskólanum, giftust árið 2005 og eiga þau saman tvö börn. Geir rekur hugbúnaðarfyrirtæki sem hefur starfsemi í London og á Íslandi.

„Ég fór í nám og svo kom ég ekki aftur til baka. Það var að einhverju leyti planið því að ég er mikill aðdáandi Bretlands og Breta. Sem unglingur kom ég til London og féll algjörlega fyrir borginni. Þá ákvað ég að ég myndi búa hér í framtíðinni. Hérna er allt svo fjölbreytt, bæði útlit fólks og skoðanir.“

Sif og Geir búa í hverfinu Highbury í Islington. Hún segir að það komi mörgum sem heimsækja þau á óvart hversu lítið og krúttlegt það er. Þetta er ekki það stórborgarlíf sem margir eiga von á. Sif segir að þau umgangist fjölda Íslendinga, sem eru dreifðir um alla borgina. Íslendingar hafi einhvers konar radar til að finna hver annan.

Ætlar þú að flytja heim einhvern daginn?

„Þeir Íslendingar sem búa í London og annars staðar í útlöndum enda yfirleitt á að flytja aftur heim. Við erum öll svo miklir Íslendingar inni við beinið. Ég uni mér vel hér í London sem stendur, en aldrei að segja aldrei.“

Hvers saknar þú helst?

„Alla vega ekki veðursins,“ segir Sif og hlær. „Auðvitað er það fjölskyldan og vinirnir. Einnig smæðin og stuðningsnetið. Ef eitthvað kemur upp á á Íslandi þá kemur fjöldi fólks sem er viljugt til að hjálpa. Í stórborginni er maður svolítið einn. Í hverfinu mínu þyki ég skrýtin af því að ég býð fólki góðan daginn úti á götu. Bretarnir líta varla í augun á fólki.“

 

Brexit-þreyta

Brexit, útganga Bretlands úr Evrópusambandinu, hefur verið mál málanna síðan sumarið 2016. Þá var hún samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu og síðan hafa bresk stjórnmál verið í ólgusjó. Sif segir að fólk sé alveg að verða uppgefið á umræðunni um Brexit.

„Það er mikil Brexit-þreyta hér. Fólk er hætt að tala um þetta og fólk er hætt að nenna að fylgjast með þessu. Það bíður eftir niðurstöðunni og tekur henni þegar hún liggur fyrir. Hingað til höfum við fylgst með hverju einasta hænuskrefi í þessu máli. Þetta eru of miklar upplýsingar og fólk gefst upp.“

Var kosningin sjálf áfall?

„Já, alveg ótrúlega mikið áfall. Ég bý í frjálslyndu hverfi í London og enginn hér átti von á þessu. Fólk var virkilega miður sín. Ég hef aldrei séð neinn bregðast við pólitískum atburði af svona miklum tilfinningahita og Brexit. Fólk var að rífast um þetta úti í búð og á götum úti. Það var merkilegt að verða vitni að þessu. Heilu fjölskyldurnar hafa splundrast líka. Ég þekki einn sem getur ekki lengur talað um stjórnmál við föður sinn af því að hann kaus með Brexit.“

Sif segir að ákveðin værukærð hafi einkennt umræðuna fyrir kosninguna. Sjálf hafi hún farið að sofa áður en úrslitin urðu ljós og ekki órað fyrir því að þetta gæti gerst.

Heldur þú að þetta endi illa og engir samningar náist?

„Stundum velti ég því fyrir mér hvort að lífið gangi ekki sinn vanagang, sama hvað gerist í pólitíkinni. Ég er mikið á móti Brexit en kannski verður allt eins, þó að það náist engir samningar. Það gæti verið að stjórnmálamenn hafi ekki jafn mikil áhrif og þeir vilja láta fólk halda að þeir geri. Tilviljanir ráði frekar ferðinni.“

 

Vændiskona í símaklefa

Það er nóg að gera hjá Sif þessa dagana. Það líður að lokafresti til að skila enskri útgáfu bókar sem hún skrifar fyrir Hodder og kemur út næsta sumar.

„Þetta á að heita hernaðarleyndarmál. En líkt og bækur sem ég hef áður skrifað er bókin fyrir YA-markaðinn. Hún er nokkurs konar norræn glæpasaga fyrir ungt fólk með femínskri fléttu. Ég seldi útgefandanum að þetta væri Girl with the Dragon Tattoo mætir Nancy Drew,“ segir Sif og brosir.

Sif og fjölskylda hennar dvelja síðan á Íslandi yfir jólin, sem er orðin nokkurs konar hefð eftir slæma reynslu þeirra af breskum jólum fyrsta árið sem þau voru úti. Hún segir:

„Bretar halda sín jól 25. desember, en við vorum of miklir Íslendingar til að gera það. Ég kunni ekkert að elda þannig að ég keypti örbylgjukalkún í Marks & Spencer. Svo reyndum við að gera hátíðlegt með gjöfum og svona. En fyrir utan voru Bretarnir á blindafylleríi á pöbbnum. Þeir rúlluðu út á götu með hávaða og látum. Beint á móti húsinu okkar var síðan vændiskona að stunda sína iðju í símaklefa. Þegar við ætluðum að finna okkur eitthvað skemmtilegt að gera á jóladag var allt lokað og dautt. Við ráfuðum um og vissum ekkert hvað við áttum af okkur að gera. Eftir þessi örbylgju- og fyllerísjól höfum við alltaf flogið heim til Íslands um hátíðirnar.“

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Er steinhissa á því sem hann sér aftur og aftur á Íslandi

Er steinhissa á því sem hann sér aftur og aftur á Íslandi
Fókus
Fyrir 2 dögum

Einkaspæjari afhjúpar nýja leið hvernig makar fela framhjáhald – Forrit sem er í öllum iPhone símum og vekur engar grunsemdir

Einkaspæjari afhjúpar nýja leið hvernig makar fela framhjáhald – Forrit sem er í öllum iPhone símum og vekur engar grunsemdir
Fókus
Fyrir 2 dögum

Tímamót hjá Helga Ómars – „Af einhverjum óútskýranlegum ástæðum er það rétt“

Tímamót hjá Helga Ómars – „Af einhverjum óútskýranlegum ástæðum er það rétt“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Hera Björk varð fyrir hatrammri aðför: „Þetta var í hundraðatali og endaði í þúsundatali og var augljóslega skipulagt“

Hera Björk varð fyrir hatrammri aðför: „Þetta var í hundraðatali og endaði í þúsundatali og var augljóslega skipulagt“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Fyrrum landbúnaðarráðherra og sagnamaður selur miðbæjarperlu á Selfossi

Fyrrum landbúnaðarráðherra og sagnamaður selur miðbæjarperlu á Selfossi
Fókus
Fyrir 4 dögum

Sérstæð vinátta ræstingakonu og kolkrabba hefur heillað heimsbyggðina

Sérstæð vinátta ræstingakonu og kolkrabba hefur heillað heimsbyggðina