fbpx
Laugardagur 23.nóvember 2024
Fókus

Ættleiðing Guðrúnar gekk vel: „Þá settust foreldrar okkar niður með okkur og útskýrðu allt, mjög fallega“

Kristinn H. Guðnason, Auður Ösp
Sunnudaginn 9. desember 2018 19:10

Kimberley og Guðrún Eins og þær hefðu alltaf þekkst.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Guðrún Dröfn Emilsdóttir var ættleidd við fæðingu og er 51 árs gömul í dag. Hún kynntist nýverið föðurfjölskyldu sinni í Bandaríkjunum en þau eru frumbyggjar af ættbálki sem býr á verndarsvæði í Oklahoma. Guðrún hafði aldrei ætlað sér að leita upprunans en fyrir tilstilli ungs frænda síns hófst vegferðin. Nú hefur hún heimsótt bæði systur sína og frændfólk og myndað náin og góð tengsl. Einnig hefur hún formlega sótt um inngöngu í ættbálkinn og vonast eftir jákvæðri niðurstöðu í upphafi næsta árs. DV ræddi við Guðrúnu um þessa reynslu og þær tilfinningar sem hafa bærst innra með henni í öllu ferlinu.

Þetta er brot úr stærra viðtali í helgarblaði DV.

Vel heppnuð ættleiðing

Henry Linwood Jackson hét faðir Guðrúnar, úr ættbálknum Otoe-Missouria. Í ættbálknum eru rúmlega þrú þúsund manns, flestir búsettir í Oklahoma-fylki í Bandaríkjunum. Ættbálkurinn hefur sína eigin stjórn og sitt eigið yfirráðasvæði. Henry var sjómaður í bandaríska flotanum og kom til Íslands árið 1966. Guðrún segir:

„Hann hitti blóðmóður mína sem varð ólétt í afmælisboði í júlímánuði. Hún býr ekki lengur á Íslandi og þetta er mjög viðkvæmt fyrir hana. Hún hefur aldrei viljað tala mikið um þetta. Hún gaf mig til ættleiðingar og valdi foreldrana vel. Þegar hún var gengin um sex mánuði komst á samband með þeim. Ég er mjög þakklát fyrir það hvernig hún stóð að þessu. Hún setti til dæmis nafn föður míns á fæðingarvottorðið sem varð lykilatriði fyrir mig þegar ég sótti um að ganga í ættbálkinn.“

Eina vandamálið var að það vantaði millinafnið Linwood. Henry Jackson er mjög algengt nafn í Bandaríkjunum. Faðir Guðrúnar gekk almennt undir nafninu Linwood og gata í landi Otoe-Missouria heitir í höfuðið á honum.

Frændi Guðrúnar hóf að leita að Henry fyrir mörgum árum síðan. Ef millinafnið hefði verið með hefði hann að öllum líkindum fundið hann miklu fyrr.

Henry Linwood Jackson
Kom til Íslands árið 1966.

Leit öðruvísi út en önnur börn í Vesturbænum

Lengi vel hugsaði Guðrún ekki mikið út í uppruna sinn jafnvel þó að útlit hennar væri ekki áþekkt flestum Íslendingum. Guðrún var dekkri á hörund þegar hún var yngri og enginn annar krakki í Vesturbænum leit út eins og hún. Yngri systir hennar hugsaði meira út í þetta og þær spurningar sem þær fengu um hversu ólíkar þær voru.

„Fólk kemur sjaldnast upp að manni sjálfum til að spyrja svona spurninga,“ segir Guðrún. „Það er auðveldara að spyrja einhvern annan. Í eitt skipti þegar við vorum litlar kom systir mín grátandi heim og sagði að það væri verið að stríða sér út af þessu. Hún leit upp til stóru systur sinnar og skildi ekkert í þessu. Þá settust foreldrar okkar niður með okkur og útskýrðu allt, mjög fallega.“

Þegar Guðrún var 25 ára hafði eldri bróðir hennar í móðurlegg uppi á henni. Tilvist Guðrúnar hafði verið leyndarmál í þeirri ætt. 28 ára ára komst hún í samband við blóðmóður sína.

„Þá vissi ég hvernig þetta allt hefði atvikast og var því ekki með neinar neikvæðar tilfinningar út í blóðmóður mína. Ég var mjög þakklát henni og það gekk auðveldlega að ganga inn í kærleiksríkt samband við hana og þau öll. Krakkar sem eru gefin til ættleiðingar eru oft að burðast með mikla höfnun og hafa blendnar tilfinningar til blóðforeldra sinna. Hjá mér var ekki búið að sverta eitt né neitt.“

Varst þú sjálf fyrir aðkasti sem barn?

„Nei, ég var ótrúlega heppin. Ég var í bekk sem var mjög samheldinn og ég átti góða vini. Ég hef alltaf verið mjög vinamörg og þetta hefur aldrei truflað mig neitt. En ég var auðvitað meðvituð um útlitið eins og allir krakkar.“

 

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Sharon Osbourne dauðsér eftir Ozempic – „Þetta sýnir bara hætturnar við þessi lyf sem lofa árangri strax“

Sharon Osbourne dauðsér eftir Ozempic – „Þetta sýnir bara hætturnar við þessi lyf sem lofa árangri strax“
Fókus
Í gær

Simmi Vill segir að þetta sé stærsta kjarabótin fyrir íslenskar fjölskyldur – „Nú verð ég kallaður karlrembupungur“

Simmi Vill segir að þetta sé stærsta kjarabótin fyrir íslenskar fjölskyldur – „Nú verð ég kallaður karlrembupungur“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Segja atvikið í bardaganum sýna að úrslitin hafi verið fyrir fram ákveðin

Segja atvikið í bardaganum sýna að úrslitin hafi verið fyrir fram ákveðin
Fókus
Fyrir 3 dögum

Dómnefnd FKA skipuð fyrir árlega viðurkenningarhátíð 

Dómnefnd FKA skipuð fyrir árlega viðurkenningarhátíð 
Fókus
Fyrir 3 dögum

Kynlífsóðu klámstjörnunni sparkað úr landi

Kynlífsóðu klámstjörnunni sparkað úr landi
Fókus
Fyrir 4 dögum

„Konur sem sætta sig við framkomu sem þær eiga ekki skilið eru kannski í samböndum sem þeim líður ekki vel í“

„Konur sem sætta sig við framkomu sem þær eiga ekki skilið eru kannski í samböndum sem þeim líður ekki vel í“