fbpx
Þriðjudagur 21.janúar 2025
Fókus

Guðrún er 107 ára – Lykillinn að borða hvorki ávexti né grænmeti

Kristinn H. Guðnason, Ragna Gestsdóttir
Laugardaginn 1. desember 2018 22:10

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Guðrún Straumfjörð er fædd árið 1911 og því 107 ára gömul í dag. Er hún næstelsti núlifandi Íslendingurinn en man æsku sína líkt og hún hefði gerst í gær. Minnstu munaði að Guðrún hefði aðeins náð fimm ára aldri því hún veiktist illilega. Síðan þá hefur heilsan verið góð og lukkan mikil. Hún er mikill húmoristi og segir langlífi sitt helst til komið vegna þess hversu lítið hún hefur borðað af ávöxtum og grænmeti.

Líkbílarnir á ferð allan sólarhringinn

Faðir hennar var skósmiður með stofu við Laugaveginn og fyrstu árin bjó fjölskyldan við Grettisgötu. Þegar Guðrún var fimm ára gömul tók faðir hennar við húsvörslu í gamla pósthúsinu í Austurstræti. Þar bjó Guðrún þangað til hún var 23 ára. Ævin hefði hæglega getað orðið mun styttri því að árið 1916 veiktist Guðrún illilega.

„Þegar ég var fimm ára fékk ég lungnabólgu og varð mjög veik. Það var vakað yfir mér og læknir að nafni Thoroddsen kom og sinnti mér. Eitt kvöldið var ég svo veik að hann sagði: Ef hún kemst yfir þessa nótt verður henni borgið á lífsleiðinni. Það hefur sannast. Ég hef verið mjög heilsugóð eftir þetta.“

Árið 1918 var örlagaár á Íslandi. Þá geisaði frostaveturinn mikli, Katla gaus, fyrri heimsstyrjöldinni lauk, spænska veikin geisaði og landið fékk fullveldi frá Dönum. Þetta ár var Guðrún sjö ára.

„Ég man vel eftir þessum tíma,“ segir hún og minnist sérstaklega frosthörkunnar. „Eitt sinn stóð ég á horni Klapparstígs og Grettisgötu og sá niður alla götuna út á sjó. Það var allt frosið út á Viðeyjarsund og fólk var á göngu á ísnum út í Viðey. Ég man að kuldinn var mikill og þetta hlýtur að hafa verið erfiður tími fyrir fólk.“

Guðrún man einnig glöggt eftir spænsku veikinni enda fékk hún veikina sjálf.

„Ég sjálf slapp ansi vel. Pabbi minn fékk veikina, en mamma ekki. Þetta var hryllilegt. Þegar maður leit út á götu sá maður alltaf líkvagnana á ferðinni. Allan daginn, frá morgni til kvölds. Ég sá þá aldrei nema þegar spænska veikin geisaði.“

Misstir þú ættingja eða vini?

„Já, en ekki nærkomna ættingja.“

Litlir peningar til fyrir jólin

Guðrún stundaði nám við Barnaskólann við Tjörnina. Í æsku hennar voru nútímaþægindi smám saman að verða að veruleika. Vatnsveitan var komin en ekki raflýsingin þegar Guðrún man fyrst eftir sér. Heimilið var upplýst með olíulömpum og kynt með gasi. Seinna komu raflamparnir. Fjölskyldan keypti matvörur hjá Zimsen á Lækjartorgi og föt hjá Marteini kaupmanni við Laugaveg.

Hvernig voru jólin á þessum tíma?

„Þau voru róleg og góð. Ég var einbirni og við vorum þrjú heima. Það var ekki sama verslunarbrjálæðið eins og í dag. Fólk hafði ekki peninga og það var dýrt í gamla daga, að manni þótti. Til dæmis vínarbrauð. Hvað heldur þú að vínarbrauð hafi kostað, sundurskorið? Það kostaði tólf aura sem þótti mikill peningur.“

Manstu eftir einhverjum jólagjöfum?

„Það voru dúkkur aðallega. Seinna fóru stelpur að hætta að leika sér með dúkkur og fóru að leika sér með bangsa. Ég fékk líka alltaf nýjan kjól. Þá var ekkert síðbuxnastand komið hjá fólki. Alltaf kjólar.“

Hvað var borðað?

„Lambasteik, mjög góð. Alltaf súpu eða jólagraut með, grjónagraut,“ segir Guðrún.

Hvað gerðir þú þér til skemmtunar?

„Það var nú ekki mikið hægt að gera sér til skemmtunar. Ég fór ekkert út að dansa enda hafði ég ekki gaman af því. Þegar ég var búin að borða klukkan átta fór ég gjarnan á rúntinn svokallaða til tíu, þá með annarri vinkonu. Við gengum frá horninu á Lækjargötu og Austurstræti að Herkastalanum og til baka. Fram og aftur í tvo tíma. Þetta var ánægjan,“ segir Guðrún og glottir. „Mér var sagt að ef ég yrði ekki komin heim á réttum tíma yrði húsinu lokað. Það hefði aldrei verið gert, en ég þorði ekki annað en að hlýða.“

Guðrún nam eitt ár í verslunarskóla og starfaði eftir það aðallega við skrifstofustörf í Reykjavík. Lengst af vann hún sem gjaldkeri hjá Skipaútgerð ríkisins, í meira en tuttugu ár. Hún kynntist eiginmanni sínum, Ólafi, á vinnustað hans, í heildverslun Garðars Gíslasonar.

„Okkur vantaði aldrei neitt og höfðum það þokkalegt,“ segir hún.

 

Sigldu fram hjá kafbátunum

Guðrún man glöggt hvar hún var þegar seinni heimsstyrjöldin braust út. Þann 1. september árið 1939 þegar skriðdrekar Hitlers stormuðu inn í Pólland.

„Ég og maðurinn minn höfðum verið í heimsókn hjá kunningjum okkar í Þýskalandi. Við vorum á leiðinni heim aftur. Við þvældumst í eina viku á Norðursjónum í vondu veðri. Þá var fullt af kafbátum ofansjávar en við vissum ekkert hvað þetta var, enda kom okkur það ekki við. Þegar við komum heim til Íslands fengum við fyrst að heyra að stríðið hefði brotist út.“

Guðrún segir að Reykjavík hafi verið að breytast mikið á þessum árum. Úr bæ í borg og fólk flutti af landsbyggðinni. Hernámið og stríðið sjálft hafði hins vegar ekki mikil áhrif á líf hennar og stríðsgangurinn var sjaldan ræddur á hennar heimili. Guðrún og Ólafur eignuðust son árið 1941, Jón Þ. Ólafsson.

„Hann er mikill íþróttamaður og fór á Ólympíuleikana árið 1964 í Tókýó.“ Jón keppti þar í hástökki og var valinn íþróttamaður ársins.

Þú hefur væntanlega verið mjög stolt af honum?

„Auðvitað var ég það. Ég fylgdist með öllum íþróttum og var sjálf í leikfimi í gamla daga hjá Í.R. í mörg ár. Hann er mér til heiðurs, sonur minn.“

Ferðaðist þú mikið?

„Já, ég ferðaðist óstjórnlega mikið. Ég hef komið til fimmtán landa. Þegar ég var sextug fór ég til Kanada og hélt upp á afmælið mitt þar. Það er annar af tveimur fallegustu stöðum sem ég hef komið á. Hinn er Júgóslavía. Borg þar sem heitir Bled.“

 

Ávextir og grænmeti óæti

Er langlífi í ættinni?

„Nei. Faðir minn féll og höfuðkúpubrotnaði og móðir mín fór úr hjartabilun. Hjartabilun er ættgeng hjá okkur.“

Hverju þakkar þú þitt langlífi?

„Ég grínaðist með það í gamla daga að ég væri svona hraust af því að ég borðaði ekki grænmeti eða ávexti. Pabbi minn kynntist dönskum háseta hjá Íslandsskipum sem sigldu á milli Íslands og Danmerkur. Hann kom eitt sinn með epli handa mér en það var svo hart að ég gat ekki tuggið það. Þá hét ég að borða aldrei epli framar. Í annað skipti kom hann með appelsínu og hún var svo súr að það fór sömu leið. Ég hef lítið borðað af grænmeti á lífsleiðinni. Aðeins hvítkál og blómkál.“

Guðrún segist aldrei hafa reykt um ævina. „Áfengi hef ég smakkað ef mér hefur verið boðið það.“

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Hannes Hólmsteinn opnar sig um sambúðina í Brasilíu – 47 ára aldursmunur

Hannes Hólmsteinn opnar sig um sambúðina í Brasilíu – 47 ára aldursmunur
Fókus
Í gær

Fékk þær erfiðu fréttir að hann yrði líklega ófrjór eftir meðferðina – „Við fengum einn mánuð til að reyna“

Fékk þær erfiðu fréttir að hann yrði líklega ófrjór eftir meðferðina – „Við fengum einn mánuð til að reyna“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Tilnefningar til Writers Guild-verðlaunanna

Tilnefningar til Writers Guild-verðlaunanna
Fókus
Fyrir 2 dögum

14 merki þess að veitingastaðurinn er slæmur

14 merki þess að veitingastaðurinn er slæmur
Fókus
Fyrir 4 dögum

„Einn af helstu kvikmyndahöfundum sögunnar og maður sem bjó til ný viðmið í sjónvarpi“

„Einn af helstu kvikmyndahöfundum sögunnar og maður sem bjó til ný viðmið í sjónvarpi“
Fókus
Fyrir 4 dögum

„Það er þjóðarharmur þegar heilt byggðarlag á Íslandi verður fyrir slíkum náttúruhamförum“

„Það er þjóðarharmur þegar heilt byggðarlag á Íslandi verður fyrir slíkum náttúruhamförum“