fbpx
Föstudagur 22.nóvember 2024
Fókus

Eyþór Ingi átti ímyndaðan vin: „Það þurfti að leggja á borð fyrir hann eins og aðra í fjölskyldunni“

Kristinn H. Guðnason
Laugardaginn 24. nóvember 2018 12:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Eyþór Ingi Gunnlaugsson hefur ekki náð þrítugsaldri enn þá en er þó fyrir löngu orðinn stórt nafn í skemmtanabransanum. Hann á að baki fjölbreyttan feril bæði í tónlist og leiklist og hefur unnið hverja keppnina á fætur annarri, jafnvel þótt hann hafi ímugust á þeim. DV ræddi við Eyþór um ímyndunarveika krakkann á Dalvík, átján ára sjónvarpsstjörnuna, Eurovision-farann og eftirhermuna.

Þetta er brot úr stóru viðtali í helgarblaði DV.

Átti ímyndaðan vin

Við hittum Eyþór fyrir á kaffihúsinu í núverandi heimabæ hans, Hafnarfirði. Allar hans rætur eru þó fyrir norðan. Eyþór er fæddur árið 1989 og uppalinn á Dalvík í Eyjafirði, elstur þriggja systkina. Móðir hans er leiðbeinandi í skóla og faðir hans er sjómaður sem hefur bæði siglt á togara og trillu. Eyþór var gjarnan dreginn með á sjóinn sem unglingur en hann sá það ekki fyrir sér sem framtíðarstarf.

„Sjómennskan átti ekki við mig. Ég hef alltaf verið upptekinn af leiklist og söng, strax á leikskólaaldri. Þegar ég hitti leikskólakennarana sem ég var hjá rifja þeir þetta gjarnan upp. Varla talandi var ég búinn að ákveða hvað ég vildi gera. Það hefur aldrei neitt annað komið til greina.“

Eyþór fékk góðan stuðning frá foreldrum sínum í að feta þessa braut, en móðir hans var hrifnari af að hann yrði söngvari.

„Henni fannst leikarar eitthvað svo skrýtið fólk,“ segir hann og hlær.

Hvernig krakki varst þú?

„Ég var tiltölulega rólegur og mjög utan við mig. Alveg ofboðslega ímyndunarveikur. Hafði svo mikið ímyndunarafl að sem pjakkur átti ég ósýnilegan vin sem hét Ganga. Það mátti ekki loka dyrunum á Ganga. Það þurfti að leggja á borð fyrir hann eins og aðra í fjölskyldunni. Þetta var áður en ég man eftir mér en foreldrar mínir hafa sagt mér vel frá þessu. Eina minningin sem ég á sjálfur var þegar ég fór að skæla í eitt skiptið þegar mamma neitaði að opna dyrnar og Ganga komst ekki inn.“

Þó að Eyþór hætti að sjá og tala við Ganga dvínaði ímyndunaraflið ekki.

„Ég var alltaf að setja upp leikrit, „mæma“ við tónlist og fleira í þeim dúr. Ég var með vínylplötuspilara heima. Þar rúlluðu til skiptis plötur með Ladda og Elvis Presley og ég var með sýningar fyrir gesti og gangandi. Ég var alls ekki ofvirkur en mér leiddist ekki athygli.“

Skólabókin átti ekkert sérstaklega vel við Eyþór en félagslega stóð hann vel og var vinmargur.

„Langt fram eftir lék ég mér mikið við stelpur. Þegar strákarnir fóru að hafa áhuga á fótbolta leiddist mér. Stelpurnar voru frekar til í að setjast niður með mér og skrifa bók, setja upp leikrit eða bíómyndir.“

Heldur þú að það hafi hentað þér vel að alast upp í litlu sjávarplássi?

„Já, og ég er ákaflega þakklátur fyrir að hafa alist upp í litlu þorpi. Ég tel að það hafi hentað einstaklingi eins og mér ofboðslega vel. Ég er ekki viss um að ég hefði þrifist jafn vel í allri umferðinni og hraðanum í Reykjavík. Úti á landi hefur maður meiri tíma, það er svo stutt í allt. Ég var svo frjáls.“

 

„Langt fram eftir lék ég mér mikið við stelpur“

Eftirhermurnar náttúrulegar

Í desember ferðast Eyþór um landið með gítarinn og kemur fram á jólatónleikum. Eru þetta nokkuð innilegir tónleikar þar sem hann segir einnig sögur og gantast við áhorfendur. Kórar úr heimabyggð taka einnig undir með honum. Eyþór er orðinn landsþekktur fyrir eftirhermur sínar, til dæmis af Ladda, Kristjáni Jóhannssyni, Jakobi Frímanni og fleirum.

„Ég hef alltaf gert þetta, alveg síðan ég var krakki. Laddi var fyrstur af því að hann var átrúnaðargoðið mitt og ég hlustaði sífellt á hann. Það var hins vegar ekki fyrr en fyrir nokkrum árum að ég byrjaði að gera þetta opinberlega. Það er mikið grínast baksviðs og þegar ég var að rifja upp sögur var mér bent á að ég næði fólkinu sem ég var að tala um vel. Það var samt ekki meðvitað, ég hef aldrei sest niður og unnið í eftirhermunum. Þær eru líka misgóðar.“

Eyþór segist í dag eiga ágætis safn sem hann getur gripið í, þar af margar persónur sem Laddi skapaði.

Hvernig taka fyrirmyndirnar þessu?

„Ég veit það ekki,“ segir Eyþór hugsi. „Ég held og vona innilega að flestir taki þessu létt. Ástæðan fyrir því að ég hermi eftir fólki er að ég hef fylgst mikið með því og lít upp til þess. Það myndi brjóta í mér hjartað að vita af einhverjum sem væri sár við mig út af eftirhermu.“

Myndir þú þá hætta með þá persónu?

„Já. Mig langar svo til að fólki líki vel við mig,“ segir Eyþór og hlær dátt.

Auk þess að túra um landið kemur Eyþór fram á stórum jólatónleikum með Jóhönnu Guðrúnu um helgina í Háskólabíói. Þeir eru af allt öðrum toga, íburðarmeiri, hátíðlegri og fjörugri.

„Þetta verður mikið stuð, gospel og læti. Þarna verður mikil pissukeppni á milli okkar um hvort nær hærri nótum.“

Miða á alla jólatónleika Eyþórs Inga er hægt að nálgast á midi.is.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Mynd af hjónunum á veitingastað vekur athygli: Sorglegur sannleikur sem flest pör þekkja

Mynd af hjónunum á veitingastað vekur athygli: Sorglegur sannleikur sem flest pör þekkja
Fókus
Fyrir 2 dögum

Sniglasúpan tryggði Einari Leif Gaddakylfuna

Sniglasúpan tryggði Einari Leif Gaddakylfuna
Fókus
Fyrir 3 dögum

Segir Íslendinga dæma ferðamenn fyrir þessi mistök – „Ekki gera þetta!“

Segir Íslendinga dæma ferðamenn fyrir þessi mistök – „Ekki gera þetta!“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Valin nettustu heyrnartólin fyrir heimavinnu 2024

Valin nettustu heyrnartólin fyrir heimavinnu 2024